Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 588  —  289. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um vindorkuver.


     1.      Hvernig verður staðið að lagasetningu um vindorkuver, sem greint er frá í stjórnarsáttmála að ráðist verði í, og hvaða áhrif hefur það á væntanlegt frumvarp að sífellt ber meira á hugmyndum og ráðagerðum um byggingu vindorkuvera hér á landi?
    Sökum aukins áhuga á starfsemi vindorkuvera hér á landi hefur starfshópur sem skipaður var af ráðherra unnið að greiningu á því hvort í lögum og reglugerðum sé fjallað með nægjanlegum hætti um starfsemi vindorkuvera og framkvæmdir vegna þeirra. Þeirri vinnu er bráðlega að ljúka og mun ráðherra í kjölfarið fara yfir tillögur starfshópsins og meta þörfina á breytingum á regluverkinu.
    Framkvæmdir vegna nýtingar vindorku til raforkuframleiðslu heyra undir ýmiss konar löggjöf og er hún ekki eingöngu á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Við skipulagsgerð þarf að taka afstöðu til möguleika á vindorkunýtingu og í því sambandi að framfylgja skipulagslögum, nr. 123/2010, lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda ber einnig að líta til ýmiss konar löggjafar. Þá heyra virkjunarkostir á landi, 10 MW og stærri, undir lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Framkvæmdir vegna nýtingar vindorku eru háðar ýmsum leyfisveitingum, svo sem byggingarleyfi, sbr. lög nr. 160/2010, um mannvirki, og eftir atvikum framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulagslögum, leyfi samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, og starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

     2.      Skal líta svo á, samkvæmt raforkulögum og áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun), að vindorkuver með meira en 10 MW uppsett rafafl verði metið innan ramma umræddrar áætlunar?
    
Lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, ná til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 48/2011 er virkjunarkostur skilgreindur sem áætluð framkvæmd vegna virkjunar til orkuvinnslu á tilgreindum virkjunarstað. Í ljósi þess að vindmyllur eru staðsettar á tilteknum stað og fela í sér framkvæmd vegna virkjunar til orkuvinnslu hefur verið litið svo á að virkjunarkostur sem felst í virkjun vindorku falli undir lögin. Í því sambandi ber að nefna að iðnaðarnefnd Alþingis gerði breytingar á frumvarpi því sem varð að lögum nr. 48/2011, m.a. til að lögin tækju til vindorku. Lögin taka þó eingöngu til landsvæða og virkjunarkosta sem hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna, og ná því ekki til vindorkunýtingar á hafi. Í því sambandi er vert að benda á að ráðgert er að leggja fram á 148. löggjafarþingi frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir gerð stefnu um skipulag á þessum svæðum og strandsvæðisskipulagi þar sem sett er fram stefna og ákvæði um nýtingu og vernd á tilteknu strandsvæði, m.a. hvað varðar vindorkunýtingu.
    Virkjunarkostir í vindorku komu í fyrsta sinn til umfjöllunar í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, þ.e. Búrfellslundur og Blöndulundur, sbr. nánar tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem var lögð fram á á 145. og 146. löggjafarþingi.

     3.      Ber við mat á fýsileika vindorkuvera að leggja fram yfirlit (lífsferilsgreiningu) um vistspor vindmylla og annars búnaðar, allt frá smíðatíma búnaðarins og þar til orkuverin verða tekin niður og endurnýtt?
    Ákvæði laga nr. 160/2010, um mannvirki og byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, eiga við um vindmyllur eins og aðra gerð mannvirkja eftir því sem við á og eru vindmyllur byggingarleyfisskyldar samkvæmt lögunum. Í mannvirkjalögum er lögð áhersla á að öll mannvirkjagerð uppfylli öll skilyrði laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Samkvæmt ákvæðum kafla byggingarreglugerðar er varða efnisval og úrgang skal, eftir því sem aðstæður leyfa, velja endurunnið og endurnýtanlegt byggingarefni og úrgangi haldið í lágmarki. Einnig er mælst til þess að gerð sé lífsferilsgreining vegna nýrra mannvirkja, viðbygginga, endurgerðar mannvirkja og meiriháttar viðhalds. Ekki þótti rétt á sínum tíma þegar unnið var að reglugerðinni að gera fortakslausa kröfu um gerð lífsferilsgreininga. Þess í stað er um tilmæli að ræða sem voru sett með það í huga að opinberir aðilar yrðu meðal þeirra fyrstu sem gerðu kröfu um lífsferilsgreiningar við framkvæmdir á sínum vegum. Þannig yrði til hagnýt þekking hjá ráðgjöfum sem gera mætti kröfu til síðar við almennar framkvæmdir. Á þann hátt væri ekki aukinn kostnaður hins almenna framkvæmdaaðila. Þá eru ákvæði í 15. hluta byggingarreglugerðar, sem fjalla um mengun frá mannvirkjum og meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs, almennt til þess fallin að stuðla að vistvænum og sjálfbærum byggingariðnaði í landinu.
    Mat á fýsileika vindorkuvera fer fram við stefnumótun sveitarfélaga í tengslum við skipulagsgerð og við gerð verndar- og orkunýtingaráætlunar þegar um er að ræða virkjunarkosti sem hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, sbr. lög nr. 48/2011. Í tengslum við þá stefnumótun hefur ekki verið gerð krafa í lögum um lífsferilsgreiningu.