Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 608  —  426. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar (dvalarrými og dagdvöl).

Frá heilbrigðisráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. tölul. orðast svo: Almenn heilbrigðisþjónusta: Heilsugæsla, almenn sjúkrahúsþjónusta og þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum, í hjúkrunar- og dvalarrýmum stofnana og í dagdvöl.
     b.      Í stað orðsins ,,sjúkrahúsi“ í 9. tölul. kemur: heilbrigðisstofnun.
     c.      Á eftir 12. tölul. koma tveir nýir töluliðir., 13. og 14. tölul., svohljóðandi:
              13.      Dvalarrými: Rými á hjúkrunarheimili eða heilbrigðisstofnun þar sem þeim er hjúkrað sem þarfnast umönnunar og meðferðar, sem hægt er að veita utan sjúkrahúsa, en þó ekki í þeim mæli sem veitt er í hjúkrunarrými.
              14.      Dagdvöl: Stuðningsúrræði fyrir þá einstaklinga sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima.

2. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 16. gr. a og 16. gr. b, svohljóðandi, ásamt fyrirsögnum:

    a. (16. gr. a.)

Dvalarrými.

    Í dvalarrýmum skal vera aðstaða fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu fyrir sjúkratryggða einstaklinga sem metnir hafa verið í þörf fyrir þjónustu í dvalarrými. Enginn getur dvalið til langframa í dvalarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir dvöl skv. 15. gr. laga um málefni aldraðra.

    b. (16. gr. b.)

Dagdvöl.

    Í dagdvöl skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Um frekari þjónustu í dagdvöl vísast til 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um málefni aldraðra. Enginn getur notið þjónustu í dagdvöl nema að undangengnu mati faglegs teymis heilbrigðisstofnunar samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

II. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 13. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. 1. mgr. er heimilt að samþykkja dvöl einstaklinga sem eru yngri en 67 ára í dagdvöl enda hafi þeir verið metnir í þörf fyrir slíka dvöl.
    Enginn getur notið þjónustu í dagdvöl nema að undangengnu mati faglegs teymis heilbrigðisstofnunar.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um faglegt matsteymi og skilyrði við mat á þörf fyrir dvöl í dagdvöl.

4. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að samþykkja dvöl einstaklinga sem eru yngri en 67 ára í hjúkrunar- og dvalarrýmum hjúkrunarheimila og í hjúkrunar- og dvalarrýmum stofnana enda hafi þeir verið metnir í þörf fyrir slíka dvöl skv. 15. gr.

5. gr.

    Í stað orðanna „óskertum grunnlífeyri einstaklings“ í 1. málsl. 19. gr. laganna kemur: 18% af fullum ellilífeyri skv. 23. gr. laga um almannatryggingar.

III. KAFLI

Breyting á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.

6. gr.

    24. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þjónusta í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl.

    Sjúkratrygging tekur til þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl sem samið hefur verið um skv. IV. kafla. Skilyrði er að mat á þörf sjúkratryggðs fyrir þjónustuna hafi farið fram samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í velferðarráðuneytinu. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni þess að frumvarp þetta er lagt fram er vilji til að heimilt verði að samþykkja dvöl í dvalarrýmum eða dagdvöl fyrir þá sem yngri eru en 67 ára ef þörf krefur, vegna heilsufars þeirra. Slík heimild er nú þegar í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, varðandi dvöl í hjúkrunarrýmum.
    Ákvæði um dvalarrými og dagdvöl er nú einungis að finna í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, en ekki í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Rétt þykir að bæta í þau lög ákvæðum um dvalarrými og dagdvöl svo og í lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.
    Sjúkratryggingastofnun hefur verið falið að vinna að gerð rammasamnings um dagdvöl og því brýnt að lög heimili að fólki standi þetta úrræði til boða eftir metinni þörf, óháð aldri.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Markmiðið með frumvarpinu er að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri, og forgangsraða eftir þörf.
    Breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu fela í sér breytingar til samræmingar á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
    Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, telst sá aldraður í skilningi laganna sem náð hefur 67 ára aldri. Í 3. tölul. 13. gr. sömu laga er fjallað um dagdvöl en það er úrræði sem sjúkratryggingar greiða að verulegu leyti og er ætlað öldruðum sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Dagdvöl er mikilvægt úrræði til að styðja einstaklinga til búsetu heima sem lengst. Í 14. gr. laga um málefni aldraðra kemur fram að þó að hjúkrunarheimili séu skilgreind fyrir aldraða þá sé heimilt að bjóða yngri einstaklingum dvöl þar hafi þeir verið metnir í þörf fyrir slíkt úrræði. Samkvæmt gildandi ákvæðum eru úrræðin dagdvöl og dvalarrými einungis ætluð öldruðum. Með frumvarpinu er ætlunin að það sama gildi um dvöl í dvalarrými og í dagdvöl, þ.e. að dvöl grundvallist á faglegu heilsufarsmati, óháð aldri. Um langa hríð hafa komið upp tilvik þar sem óskað hefur verið eftir undanþágum til dvalar í dvalarrýmum og í dagdvöl þrátt fyrir að viðkomandi sé yngri en 67 ára. Lagastoð fyrir slíkum undanþágum hefur vantað.
    Með þeirri breytingu á löggjöfinni sem lögð er til mun verða heimilt að veita undanþágu frá aldursskilyrði varðandi dvalarrými og dagdvöl.
    Þá er lagt til að 24. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, verði breytt þannig að skýrt sé að sjúkratrygging nái til þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl sem samið hefur verið um skv. IV. kafla laganna. Þessi breyting er til að skjóta lagastoð undir núverandi framkvæmd varðandi dvalarrými og dagdvöl.
    Í 3. gr. frumvarpsins er einnig að finna reglugerðarheimild sem ætlunin er að setja í lög um málefni aldraðra til handa ráðherra til að kveða nánar á í reglugerð um fyrirkomulag faglegs teymis og skilyrði mats á þörf fyrir dvöl í dagdvöl. Við gerð þessa frumvarps var kannað hvort æskilegt væri að skjóta sterkari lagastoð en hinni almennu reglugerðarheimild 29. gr. laga um málefni aldraðra undir reglugerð um nánari útfærslu lagabreytingarinnar sem þessu frumvarpi er ætlað að breyta. Reglugerðarheimildin gerir ráð fyrir faglegu teymi og mati á þörf sem ráðherra útfærir sérstaklega.

4. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu fela í sér að heilbrigðisþjónusta sé veitt öllum í samræmi við þörf, óháð aldri. Ekki var talin frekari þörf á samráði þar sem um var að ræða aukin réttindi fyrir þann hóp fólks sem breytingarnar taka til. Um er að ræða breytingar sem eru til hagsbóta fyrir einstaklinga sem eru yngri en 67 ára en þó í þörf fyrir þjónustu sem veitt er í dvalarrýmum eða dagdvöl.

5. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst þá sem eru yngri en 67 ára og eru í þörf fyrir dvöl í dvalarrýmum eða í dagdvöl. Mögulega gætu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þó haft áhrif á aðgengi að þjónustunni fyrir þá sem eru eldri en 67 ára þar sem fleiri eiga nú rétt á sömu þjónustuúrræðum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það stækka þann hóp sem óskar eftir framangreindri heilbrigðisþjónustu. Um 3% hjúkrunarrýma eru nú nýtt af yngri einstaklingum en 67 ára. Þrátt fyrir það hefur það ekki sjálfkrafa haft áhrif á fjölda rýma í boði. Unnið er að því jafnt og þétt að fjölga rýmum og úrræðum sem öldruðum standa til boða. Auk þess má reikna með að viðkomandi einstaklingur njóti þá annarrar þjónustu af hendi ríkis og/eða sveitarfélaga sé rými ekki til staðar í viðunandi úrræði. Frumvarpið eitt og sér leiðir því ekki til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs. Verði frumvarpið að lögum gæti þeim fjölgað sem eiga kost á viðkomandi þjónustu og þar með lengt biðlista en það fjölgar ekki rýmum sjálfkrafa.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er almenn heilbrigðisþjónusta skv. 2. tölul. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu skilgreind sem heilsugæsla almenn sjúkrahúsþjónusta, þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og í hjúkrunarrýmum stofnana sem og. Með frumvarpinu er verið að bæta við upptalninguna og fella undir skilgreiningu á almennri heilbrigðisþjónustu þjónustu og hjúkrun í dvalarrýmum og í dagdvöl.
    Í b-lið segir að í stað orðsins ,,sjúkrahúsi“ í 9. tölul. komi orðið ,,heilbrigðisstofnun“. Breytingin felur í sér að það sé skýrt að hjúkrunarrými eru ekki einungis tengd sjúkrahúsum heldur einnig heilbrigðisstofnunum enda falla sjúkrahús undir skilgreininguna heilbrigðisstofnun.
    Í c-lið er að finna skilgreiningar á hugtökunum dvalarrými og dagdvöl sem eru í lögum um málefni aldraðra en hafa ekki verið skilgreind áður í lögum um heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu munu hugtökin nú einnig verða í lögum um heilbrigðisþjónustu.
    Í 13. tölul. er dvalarrými skilgreint sem rými á hjúkrunarheimili eða heilbrigðisstofnun þar sem hjúkrað er þeim sem þarfnast umönnunar og meðferðar sem hægt er að veita utan sjúkrahúsa en þó ekki í þeim mæli sem veitt er í hjúkrunarrými, þ.e.a.s. þeir sem metnir eru í dvalarrými þurfa á minni hjúkrunarþjónustu að halda en þeir sem metnir eru í hjúkrunarrými. Meginlagaákvæði um dvalarrými og þá þjónustu sem þar er veitt er aftur á móti að finna í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
    Í 14. tölul. er dagdvöl skilgreind sem stuðningsúrræði fyrir þá einstaklinga sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Meginlagaákvæði um dagdvöl og þá þjónustu sem þar skal veita er í lögum um málefni aldraðra.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um þjónustu við einstaklinga í dvalarrýmum og í dagdvöl og vísast þar nánar til laga um málefni aldraðra. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til neinar breytingar varðandi veitta þjónustu, hvorki í dvalarrýmum né dagdvöl. Einungis er verið að renna lagastoðum undir að rými þessi teljist til heilbrigðisþjónustu.

Um 3. gr.

    Greinin bætir við heimild í 13. gr. laga um málefni aldraðra til að samþykkja dvöl fyrir þá sem eru yngri en 67 ára í dagdvöl, að undangengnu mati faglegs teymis heilbrigðisstofnunar.
    Í greininni er einnig að finna reglugerðarheimild til handa ráðherra til að kveða nánar á í reglugerð um fyrirkomulag faglegs teymis heilbrigðisstofnunar og skilyrði mats á þörf fyrir dvöl í dagdvöl. Við gerð þessa frumvarps var kannað hvort ekki væri æskilegt að skjóta sterkari lagastoð en hinni almennu reglugerðarheimild laga um málefni aldraðra, 29. gr., undir reglugerð um nánari útfærslu lagabreytingarinnar sem þessu frumvarpi er ætlað að breyta. Reglugerðarheimildin gerir ráð fyrir faglegu teymi heilbrigðisstofnunar og mati á þörf sem skilyrði sem ráðherra útfærir sérstaklega.

Um 4. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 3. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra sem varðar heimild til að samþykkja dvöl fyrir þá sem eru yngri en 67 ára í hjúkrunarrýmum. Í breytingunni felst sams konar heimild til að samþykkja dvöl í dvalarrýmum fyrir þá sem eru yngri en 67 ára, að undangengnu mati á þörf fyrir dvöl, skv. 15. gr. laganna. Í 16. gr. laga um heilbrigðisþjónustu er á hinn bóginn vísað til matsins í lögum um málefni aldraðra enda eru ákvæði um færni- og heilsumatsnefndir í 15. gr. þeirra laga. Því þykir rétt að breyta 3. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra til samræmis við gildandi lög og vísa til 15. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Gert er ráð fyrir að í stað þess að hámark kostnaðarþátttöku fyrir dagdvöl einstaklings miðist við óskertan grunnlífeyri einstaklings verði miðað við 18% af fullum ellilífeyri skv. 23. gr. laga um almannatryggingar. Svokallaður grunnlífeyrir ellilífeyrisþega var afnuminn frá 1. janúar 2017 með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, þegar bótaflokkar ellilífeyrisþega voru sameinaðir. Fjárhæð hins nýja ellilífeyris er mun hærri en fjárhæð eldri grunnlífeyris og því þykir nauðsynlegt að breyta ákvæðinu þannig að miðað verði við ákveðið hlutfall af fullri fjárhæð hins nýja ellilífeyris sem samsvarar fyrri fjárhæð grunnlífeyris ellilífeyrisþega að teknu tilliti til þeirra hækkana sem orðið hafa á bótum almannatrygginga. Grunnlífeyrir er ekki lengur til. Grunnlífeyri og tekjutryggingu var steypt saman og úr varð ellilífeyrir frá og með 1. janúar 2017.

Um 6. gr.

    Lagt er til að orðalag 24. gr. laga um sjúkratryggingar verði rýmkað. Í stað þess að ákvæði greinarinnar tiltaki einungis að sjúkratryggingar taki til þjónustu sem veitt er í rýmum fyrir aldraða er lagt til í frumvarpinu að komi: Sjúkratrygging tekur til þjónustu sem veitt er og samið hefur verið um í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl. Hér er gert ráð fyrir að sjúkratrygging taki til allra framangreindra tegunda rýma óháð aldri þeirra sem metnir hafa verið í þörf fyrir dvöl í tilgreindum mismunandi úrræðum heilbrigðisþjónustu.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.