Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 612  —  190. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Fyrsti minni hluti hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Líf Magneudóttur og Helgu Björk Laxdal frá Reykjavíkurborg. Umsagnir bárust frá Félagi stjórnsýslufræðinga, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Seyðisfjarðarkaupstað og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Í greininni eru sveitarfélögum settar skorður við því hversu margir fulltrúar skulu vera í sveitarstjórn og þar miðað við stærð sveitarfélaga. Þannig er kveðið á um það í gildandi ákvæði að þar sem íbúar eru færri en 2.000 skuli vera 5–7 aðalmenn, 7–11 aðalmenn þar sem íbúar eru 2.000–9.999, 11–15 aðalmenn þar sem íbúar eru 10.000–49.999, 15–23 aðalmenn þar sem íbúar eru 50.000–99.999 og 23–31 aðalmenn þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri. Með frumvarpinu er lögð til einföldun á ákvæðinu þannig að fulltrúar í sveitarstjórnum verði aldrei færri en fimm og í smærri sveitarfélögum þar sem eru færri en 2.000 íbúar séu aðalmenn ekki fleiri en sjö.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að gildandi ákvæði væri ætlað að stuðla að því að hæfilegur fjöldi atkvæða væri að baki hverjum kjörnum fulltrúa og að nokkurt samræmi væri þar á landsvísu. Þá var fjölda fulltrúa ætlað að tryggja að í sveitarstjórn sætu fulltrúar allra íbúa og að hún endurspeglaði vilja þeirra. 1. minni hluti áréttar að það getur verið gott að hafa samræmi en aðstæður í sveitarfélögum geta verið mjög mismunandi þó að íbúafjöldi sé svipaður. Frumvarpið gefur sveitarfélögum þannig meira svigrúm til að ákveða fjölda sveitarstjórnarfulltrúa eftir aðstæðum á hverjum stað og tryggja þannig hag sinna íbúa sem best. Þá var nefndinni bent á að hugsanlega væri tilefni til að kanna hvort hugsanleg fækkun sveitarstjórnarfulltrúa gæti haft áhrif á aðkomu einstakra stjórnmálahreyfinga á sveitarstjórnarstigi, þ.e. hamlað nýjum og smærri framboðum að komast inn í sveitarstjórnir. 1. minni hluti áréttar að það svigrúm sem sveitarfélög fá til að breyta fjölda fulltrúa má allt eins nýta til að fjölga fulltrúum og fækka þeim, allt eftir þörf og aðstæðum. Þá voru nefndinni kynnt sjónarmið Félags stjórnsýslufræðinga sem fagnar framkomnu frumvarpi og telur það styrkja sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga og geta stuðlað að því að fulltrúar ólíkra hópa innan sama sveitarfélags komi að stjórnun þess.
    Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að þó svo að frumvarpið yrði samþykkt hefðu sveitarfélögin ekki tíma til að gera breytingar á samþykktum sínum um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí á þessu ári. 1. minni hluti áréttar að verði lögum um þetta efni breytt geta þeir flokkar sem í framboði eru lýst yfir vilja sínum um fjölda fulltrúa og kjósendur þannig vegið þennan þátt inn í ákvörðun sína í komandi kosningum. Þá er um mikilvæga breytingu að ræða sem styrkir sjálfstjórnarvald sveitarfélaga sem varið er í 78. gr. stjórnarskrárinnar.
    Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal nefnd sem mælir með samþykkt frumvarpsins áætla þann kostnað sem samþykktin hefur í för með sér fyrir ríkissjóð. Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 22. mars 2018.

Bergþór Ólason,
form.
Jón Gunnarsson, frsm. Vilhjálmur Árnason.
Karl Gauti Hjaltason.