Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 616  —  433. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Fiskræktarsjóð, nr. 72/2008 (gjald af veiðitekjum, fjöldi stjórnarmanna o.fl.).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. kemur: fjögurra.
     b.      Í stað orðanna „einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva“ í 2. málsl. kemur: og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      A-liður fellur brott.
     b.      C-liður orðast svo: fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

3. gr.

    5. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

4. gr.

    6. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

5. gr.

    1. og 3. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    10. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ljúka skal innheimtu gjalds af veiðitekjum sem Fiskistofa hefur lagt á fyrir gildistöku þessara laga.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með því eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að veiðiréttarhöfum beri að greiða gjald af veiðitekjum til Fiskræktarsjóðs og að stjórnarmönnum verði fækkað um einn, þ.e. fulltrúa Landssambands fiskeldisstöðva. Einnig er þar lagt til að fellt verði brott ákvæði um lágmark eigin fjár Fiskræktarsjóðs. Þá er þar lagt til að fellt verði brott ákvæði um viðurlög.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fiskræktarsjóður er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Fiskræktarsjóður var stofnaður árið 1970 með lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Um sjóðinn gilda nú lög nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, sem tóku gildi 1. janúar 2009.
    Sjóðurinn lýtur fimm manna stjórn sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmanna eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Ef einn framangreindra aðila tilnefnir ekki mann í stjórn sjóðsins skipar ráðherra í nefndina án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.
    Verkefni stjórnar Fiskræktarsjóðs eru m.a. að:
     a.      skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
     b.      taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
     c.      taka ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld.
    Allur kostnaður af starfsemi Fiskræktarsjóðs greiðist af fjármunum sjóðsins.
    Ráðstöfunarfé Fiskræktarsjóðs er:
     a.      innheimt gjald af veiðitekjum,
     b.      arður af eigin fé,
     c.      fjárveiting úr ríkissjóði,
     d.      annað, sbr. 4. gr. laganna.
    Einnig skulu veiðiréttarhafar greiða til Fiskræktarsjóðs 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í ám og vötnum á hverju almanaksári. Fiskistofa annast álagningu og innheimtu gjaldsins, sbr. 6. gr. laganna.
    Gjaldið var áður innheimt skv. 98. gr. eldri laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, en samkvæmt því voru tekjur sjóðsins m.a. 2% af tekjum af veiði í ám og vötnum en einnig var innheimt gjald sem nam 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings, svo og gjald sem nam 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda, sbr. d- og f-lið ákvæðisins.
    Með lögum nr. 72/2008 var áfram gert ráð fyrir að Fiskræktarsjóður hefði tekjur af umræddu 2% gjaldi af veiði í ám og vötnum en að stuðningi við fiskeldisstöðvar yrði hætt og einnig greiðslum skv. b-lið. Þá var gjaldi af tekjum af sölu raforku aflétt en samkvæmt því var gjaldtaka skv. c-, d- og f-lið felld niður. Til að bæta sjóðnum tekjutapið var sett í lögin ákvæði til bráðabirgða þess efnis að Fiskræktarsjóði yrði veitt 270 milljóna kr. eingreiðsla úr Jarðasjóði sem skyldi mynda eigið fé sjóðsins en fjárhæðin skyldi taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008. Jarðasjóður var þá á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og starfar samkvæmt lögum nr. 34/1992, um Jarðasjóð.
    Hinn 9. maí 2017 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að fjalla um tillögur sem ráðuneytinu höfðu borist frá Landssambandi veiðifélaga um breytingar á lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð.
    Með bréfi, dags. 6. september 2017, skilaði starfshópurinn tillögum sínum sem eru m.a. að álagning árgjalds á veiðifélög verði felld niður en haldið verði áfram að úthluta styrkjum með hliðstæðum hætti og verið hefur síðustu árin þar til sjóðurinn tæmist. Einnig er þar gerð tillaga um að ákvæði laganna um lágmark eigin fjár sjóðsins falli niður. Enn fremur er þar gerð tillaga um að fækkað verði fulltrúum í stjórn sjóðsins um einn, þ.e. fulltrúa Landssambands fiskeldisstöðva. Eftir yrðu fjórir í stjórninni og lagt til að atkvæði formanns vegi þyngra þegar atkvæði falla jafnt í stjórninni. Þá er þar gerð tillaga um að ákvæði laganna um viðurlög falli brott.
    Helstu rökin fyrir tillögunum eru að eitt helsta hlutverk Fiskræktarsjóðs hefur verið að styðja við uppbyggingu fiskvega til að opna búsvæði ofan hindrana í straumvötnum fyrir hrygningu, seiðauppeldi og veiði á laxfiskum. Þörf fyrir slíkt var mikil þegar lögin voru sett, en nú er nauðsynlegri uppbyggingu að mestu lokið. Einnig styrkti sjóðurinn byggingu seiðaeldisstöðva fyrir villta stofna en í dag er engin þörf á slíkum styrkveitingum. Í lok árs 2016 var höfuðstóll sjóðsins 472 m.kr. og hafði hækkað um 64,1 m.kr. á fimm árum (frá 2011 til 2016). Heildarstyrkir árs voru að meðaltali u.þ.b. 20,5 m.kr. árin 2011 til 2017).
    Einnig kemur þar fram að sjóðurinn hefur úthlutað styrkjum til ýmissa rannsókna, bæði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna á laxfiskum, veiðinýtingu og fiskrækt og æskilegt er að styrkja slíkt áfram, en það orkar tvímælis að innheimta gjöld af veiðifélögum til að standa undir slíku. Auk þess má ætla að eigið fé og vaxtatekjur af því dugi fyrir styrkjum í 30–40 ár ef heildarupphæð styrkja, ávöxtun og rekstrarkostnaður sjóðsins verður með sambærilegum hætti og verið hefur undanfarin ár.
    Starfshópurinn var sammála um að eðlilegt væri að fækka í stjórninni um fulltrúa Landssambands fiskeldisstöðva. Þegar fulltrúi landssambandsins kom inn í stjórnina var sambandið fyrst og fremst samtök eldisstöðva sem framleiddu seiði til fiskræktar. Nú er sambandið samtök fyrirtækja sem framleiða eldisfisk í miklu magni og sjóðurinn styrkir ekki slíka starfsemi. Eftir verða fjórir í stjórninni og er eðlilegt að atkvæði formanns vegi þyngra þegar atkvæði falla jafnt.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu felst að meginstefnu að álagning árgjalda á veiðifélög verði felld niður en haldið verði áfram að úthluta styrkjum með hliðstæðum hætti og verið hefur síðustu árin þar til sjóðurinn tæmist.
    Með vísan til framanritaðs er lagt til að hlutverk Fiskræktarsjóðs verði áfram óbreytt í 1. gr. laganna. Einnig er þar lagt til að gerðar verði þær breytingar á 2. gr. laganna að í stað fimm manna stjórnar verði fjögurra manna stjórn þannig að ekki verði lengur gert ráð fyrir að Landssamband fiskeldisstöðva eigi fulltrúa í stjórn. Verkefni stjórnar skv. 3. gr. laganna verði óbreytt, a-liður 4. gr. um ráðstöfunarfé Fiskræktarsjóðs falli brott, ákvæði 5. gr. um gjald af veiðitekjum falli brott, ákvæði 6. gr. um álagningu og innheimtu gjalds af veiðitekjum falli brott, í ákvæði 7. gr. laganna falli brott 1. og 3. mgr. sem fjalla um lágmarksfjárhæð eigin fjár en 2. mgr. sem fjallar um ávöxtun eigin fjár verði óbreytt. Ákvæði 8. gr. um úthlutanir úr Fiskræktarsjóði verði óbreytt og sama gildir um ákvæði 9. gr. um reglugerðarheimild og kostnað af rekstri. Þá er gert ráð fyrir að ákvæði 10. gr. um viðurlög falli brott.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki gefa tilefni til að skoðað yrði sérstaklega samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna og Landssamband veiðifélaga en verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á starfsemi stofnananna og landssambandsins og einnig á starfsemi veiðifélaga.

6. Mat á áhrifum.
    Megintilgangur frumvarpsins er að fella brott árgjald veiðifélaga til Fiskræktarsjóðs og að fækka stjórnarmönnum sjóðsins um einn, þ.e. fulltrúa Landssambands fiskeldisstöðva.
    Frumvarpið hefur óveruleg áhrif á umfang verkefna Fiskistofu. Vinna við þau verkefni sem falla niður ef frumvarpið verður að lögum fer fram á Fiskistofu sem hluti af þeirri starfsemi sem þar fer fram. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld Fiskistofu en um hefur verið að ræða um það bil viku vinnu eins starfsmanns í föstu starfi hjá stofnuninni á ári auk pappírs- og póstkostnaðar.
    Þá hefur frumvarpið ekki áhrif á störf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna, en þau verkefni sem falla niður ef frumvarpið verður að lögum eru ekki á verksviði ráðuneytisins eða Hafrannsóknastofnunar.
    Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði brott gjaldtökuákvæði vegna árgjalds veiðifélaga sem runnið hefur í Fiskræktarsjóð. Á árinu 2016 námu þessar tekjur 16,4 m.kr. og áætlun Fiskistofu fyrir árið 2018 gerir ráð fyrir að gjaldið skili 16,4 m.kr. á árinu. Þetta hefur áhrif á það sem Fiskræktarsjóður hefur til ráðstöfunar en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að útgjöld sjóðsins lækki til samræmis við lækkun tekna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því gert ráð fyrir að tekjur og gjöld lækki um 16,4 m.kr. miðað við áætlun fyrir árið 2018.
    Frumvarpið hefur áhrif á veiðifélög sem greiða árgjald í Fiskræktarsjóð og einnig þá sem fá úthlutað úr sjóðnum, konur jafnt sem karla, og eru því sjónarmið varðandi kynjaskiptingu málinu óviðkomandi. Frumvarpið hefur ekki áhrif á stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að stjórnarmönnum verði fækkað úr fimm í fjóra, þ.e. um fulltrúa Landssambands fiskeldisstöðva. Þegar fulltrúi þess kom inn í stjórnina voru samtökin fyrst og fremst samtök eldisstöðva sem framleiddu seiði til fiskræktar. Nú eru þau samtök fyrirtækja sem framleiða eldisfisk í miklu magni og sjóðurinn styrkir ekki slíka starfsemi. Eftir verða fjórir í stjórninni og er eðlilegt að atkvæði formanns vegi þyngra þegar atkvæði falla jafnt í stjórninni. Ekki þykir hins vegar rétt að fækka um fleiri stjórnarmenn. Vegna fámennis á Íslandi er óhjákvæmilegt að einstakir stjórnarmenn tengist á einhvern hátt ýmsum styrkumsóknum. Þess vegna getur það valdið raunverulegum vanda ef stjórnarmönnum er fækkað um of. Sú upphæð sem mundi sparast við að fækka úr fimm í þrjá, svo dæmi sé tekið, yrði ekki há og gróft mat er að upphæðin yrði á bilinu 500–750 þús.kr. á ári.

Um 2. gr.

    Með þessu ákvæði er ekki lengur gert ráð fyrir að tekjur Fiskræktarsjóðs séu m.a. innheimt gjald af veiðitekjum en um rök fyrir því vísast til skýringa við 3. gr.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að veiðifélögum beri að greiða gjald af veiðitekjum til Fiskræktarsjóðs. Helstu rökin fyrir því eru að eitt helsta hlutverk Fiskræktarsjóðs hefur verið að styðja við uppbyggingu fiskvega til að opna búsvæði ofan hindrana í straumvötnum fyrir hrygningu, seiðauppeldi og veiði á laxfiskum. Þörf fyrir slíkt var mikil þegar lögin voru sett, en nú er nauðsynlegri uppbyggingu að mestu lokið. Einnig styrkti sjóðurinn byggingu seiðaeldisstöðva fyrir villta stofna en í dag er engin þörf á slíkum styrkveitingum. Í lok árs 2016 var höfuðstóll sjóðsins 472 m.kr. og hafði hækkað um 64,1 m.kr. á fimm árum (frá 2011 til 2016). Heildarstyrkir árs voru að meðaltali 20,5 m.kr. árin 2011 til 2017.
    Sjóðurinn hefur einnig úthlutað styrkjum til ýmissa rannsókna, bæði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna á laxfiskum, veiðinýtingu og fiskrækt og æskilegt er að styrkja slíkt áfram, en það orkar tvímælis að innheimta gjöld af veiðifélögum til að standa undir slíku. Auk þess má ætla að eigið fé og vaxtatekjur af því dugi fyrir styrkjum í 30–40 ár ef heildarupphæð styrkja, ávöxtun og rekstrarkostnaður sjóðsins verður með sambærilegum hætti og verið hefur undanfarin ár.

Um 4. gr.

    Lagt er til að felld verði brott ákvæði um álagningu og innheimtu gjalds af veiðitekjum en ákvæði þetta leiðir af og tengist ákvæði 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir að umrætt gjald verði fellt brott. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að eldri gjöld sem þegar hafa verið lögð á veiðifélög verði innheimt.

Um 5. gr.

    Lagt er til að ákvæði 7. gr. um lágmark eigin fjár Fiskræktarsjóðs verði fellt brott en það tengist þeim breytingum sem lagðar eru til með 3. gr. frumvarpsins um að fella brott árlegt gjald af veiðitekjum til sjóðsins en úthluta áfram úr honum þar til hann tæmist. Vísast um það til 2. kafla greinargerðarinnar og einnig skýringa við 3. gr.

Um 6. gr.

    Lagt er til að viðurlagaákvæði 10. gr. laganna verði fellt brott en það leiðir af þeim breytingum sem gerðar eru með 3. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Samkvæmt ákvæðinu munu lögin ekki hafa áhrif á gjöld sem lögð hafa verið á veiðitekjur fyrir gildistöku þeirra. Um innheimtu þeirra gjalda fer eftir eldri ákvæðum laganna um það efni.