Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 639  —  444. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (strandveiðar).

Flm.: Sigurður Páll Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Sæmundsson.


1. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 6. gr. a laganna orðast svo: Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar með króka- eða aflamarki þar sem veiðiheimildum er úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Breytingunni er ætlað að gefa bátum sem stunda strandveiðar heimild til að gera hlé á veiðunum eða hverfa frá þeim til sérveiða sem eru leyfisskyldar.
    Óánægja hefur ríkt meðal strandveiðimanna um að vera óheimilt að nýta annað sérveiðileyfi en leyfi til strandveiða frá upphafi þeirra ár hvert. Aðilar sem stundað hafa grásleppuveiðar í innanverðum Breiðafirði hafa af þessum sökum ekki getað stundað strandveiðar nema að takmörkuðu leyti þar sem óheimilt er að hefja grásleppuveiðar fyrr en 20. maí ár hvert. Útgerðirnar hafa af þessum sökum misst af fyrsta mánuði strandveiða. Þá hafa þeir sem stunda makrílveiðar ekki getað hafið þær veiðar fyrr en 1. september, eða eftir að strandveiðitímabilinu lýkur 31. ágúst.
    Með breytingunni er komið til móts við útgerðir þessara báta án þess að það hafi áhrif á þann heildarafla sem úthlutað er til strandveiða.