Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 654  —  455. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna.

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



I. KAFLI

Breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: 6. gr. um ráðningarsamninga o.fl.
     b.      5.–7. tölul. verða svohljóðandi:
              6.      30. gr. um sendingu launa o.fl.
              7.      32. gr. um launauppgjör o.fl.
              8.      33.–41. gr. um umönnun og kaup sjúkra skipverja og andlát skipverja og greftrun.
     c.      8. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrir undirritun skal gefa skipverja tækifæri til að grandskoða samninginn og eftir atvikum leita sér ráðgjafar um efni hans og ganga óþvingaður að samningnum.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Skipverjar skulu fá um borð í skipi skýrar upplýsingar um skilmála ráðningar þeirra og skulu slíkar upplýsingar ásamt ráðningarsamningi og eftir atvikum kjarasamningi vera aðgengilegar innlendum sem erlendum stjórnvöldum við eftirlit.
     c.      Á eftir orðunum „samkvæmt 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: og aðgengileg skjöl samkvæmt 2. mgr.

3. gr.

    Við 3. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur nánari reglur um næturvinnu vegna menntunar og þjálfunar ungra sjómanna 16–18 ára að undangengnu samráði við samtök sjómanna og útgerðarmanna.

4. gr.

    2. og 3. mgr. 30. gr. laganna verða svohljóðandi:
    Útgerðarmaður skal tryggja að skipverji geti með bankamillifærslu eða svipuðum hætti sent öll laun sín eða hluta þeirra til fjölskyldu, nánustu aðstandenda eða löglegra bótaþega án þess að það hafi í för með sér óhóflegan kostnað fyrir skipverjann.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um sendingu launa.

5. gr.

    Við 1. mgr. 32. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Upplýsingar um gengisskráningu skulu koma fram ef greitt hefur verið í mynt eða miðað við gengi sem er annað en það sem samið var um.

6. gr.

    61. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Skipstjóri skal sjá til þess að skipverjar fái um borð í skipi hollan og næringarríkan mat og nægt drykkjarvatn.
    Skipstjóri skal hafa skjalfest eftirlit með matar- og drykkjarbirgðum, rými til geymslu og meðhöndlunar, eldhúsi og öðrum búnaði tengdum tilreiðslu eða framleiðslu matvæla.
    Skipverjar eiga rétt á mat og drykkjarvatni þeim að kostnaðarlausu á ráðningartímabilinu en ef nauðsyn ber til að matur sé dreginn af skipverjum í ferð skal greiða þeim sanngjarnar bætur af þeim sökum.
    Ráðherra setur nánari reglur um mat og drykkjarvatn, þ.m.t. magn og gæði, meðferð matvæla og eftirlit skipstjóra og frádrátt vegna rekstrarkostnaðar frís fæðis í vissum tilvikum.

II. KAFLI

Breyting á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum.

7. gr.

    Á eftir orðunum „frá 1978 með síðari breytingum“ í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna (MLC) frá 2006, með síðari breytingum frá 2014 og 2016.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. a laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
                      Allir skipverjar skulu vera svo heilir heilsu að þeir geti rækt störf sín af öryggi. Skipverji skal leggja fram vottorð um að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur, sbr. reglugerð skv. 4. mgr.
     b.      Í stað orðsins „sjómanna“ í 2. og 3. mgr. kemur: skipverja.

9. gr.

    Á eftir 7. gr. B laganna koma þrjár nýjar greinar, 7. gr. C, 7. gr. D og 7. gr. E, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (7. gr. C.)

Orlof.     

    Orlof skipverja skal vera að lágmarki 2,5 almanaksdagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári nema kveðið sé á um annað viðmið í reglugerð sem tekur mið af sérstökum þörfum farmanna. Óheimilt er að semja um niðurfellingu launaðs lágmarksorlofs.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um orlof en um rétt skipverja til orlofs fer að öðru leyti en segir í 1. mgr. eftir lögum um orlof, nr. 30/1987, og gildandi kjarasamningum.

    b. (7. gr. D.)

Heimferð.

    Skipverji sem hefur verið á sama skipi eða hjá sama útgerðarmanni samfleytt í níu mánuði á rétt á ókeypis heimferð, kostaðri af útgerðarmanni, í eftirfarandi tilvikum:
     1.      ef ráðningarsamningur fellur úr gildi á meðan skipverji er um borð,
     2.      þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu útgerðarmanns,
     3.      þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu skipverja ef gild ástæða liggur að baki,
     4.      þegar skipverji getur ekki lengur gegnt skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi eða ekki er hægt að ætlast til þess að hann geti gegnt þeim sökum sérstakra kringumstæðna.
    Skipverji verður ekki krafinn um greiðslu heimferðar fyrir fram og heimferðarkostnaður verður ekki dreginn af launum eða öðrum réttindum nema í þeim tilvikum þegar skipverji hefur brotið alvarlega gegn skyldum sínum í starfi.
    Útgerðarmaður skips, bæði íslenskra skipa og erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir, skal leggja fram tryggingu til að sjá til þess að skipverji njóti viðeigandi heimferðar í samræmi við 1. mgr. Vanræki útgerð að gera slíkar ráðstafanir gerir Samgöngustofa ráðstafanir um heimferð skipverja. Samgöngustofa gerir ekki ráðstafanir um heimferð skipverja erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir nema erlenda ríkið hafi ekki eða muni ekki gera ráðstafanir um heimferð skipverja.
    Þegar þær aðstæður eru fyrir hendi sem getur í 3. mgr., eða Samgöngustofa hefur gert ráðstafanir í tengslum við heimferð í öðrum tilvikum, getur Samgöngustofa lagt farbann á skipið þar til trygging hefur verið lögð fram eða endurgreiðsla vegna heimferðar hefur farið fram. Slíkt farbann skal tilkynnt skipstjóra, eiganda eða útgerðarmanni skipsins, og fánaríki og skráningarríki skipsins þegar við á. Eigandi eða útgerðarmaður skipsins getur kært farbann og fer um framkvæmd farbanns að öðru leyti samkvæmt lögum um eftirlit með skipum.
    Ráðherra setur nánari reglur um heimferðir, þ.m.t. um ákvörðunarstað heimferðar, flutningsmáta, innifalda kostnaðarliði og aðrar ráðstafanir, svo sem ráðstafanir Samgöngustofu um heimferð og farbann, auk skyldu útgerðarmanns til að leggja fram tryggingu og um vanrækslu slíkrar skyldu.

    c. (7. gr. E.)

Heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd.

    Ef skipverji af einhverjum ástæðum nýtur hvorki velferðarréttinda hérlendis né í því landi sem skipverji nýtur réttinda, sem eru áþekk þeim sem tryggð eru hérlendis með lögum, ber útgerðarmanni skips að tryggja skipverja slík réttindi, svo sem með kaupum á tryggingum.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um velferðarréttindi skipverja, þ.e. um heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd.

10. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. A, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skráning og ráðning.

    Fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu skipverja skulu starfa í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi frá Samgöngustofu.
    Skráningar- og ráðningarþjónusta skal vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg og skipverjum að kostnaðarlausu til að skipverjar geti fundið störf um borð í skipi.
    Samgöngustofa hefur eftirlit með að skráningar- og ráðningarþjónusta skipverja uppfylli kröfur alþjóðaskuldbindinga íslenska ríkisins, sbr. 3. mgr. 1. gr.
    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu og eftirlit með henni í reglugerð.

11. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um borð í skipum skal vera skilvirkt kerfi fyrir kvartanir vegna meintra brota gegn kröfum laga þessara og alþjóðasamþykkta, sbr. 3. mgr. 1. gr., þ.m.t. gegn réttindum skipverja. Ráðherra getur sett nánari reglur um kvartanir um borð.

12. gr.

    Í stað orðanna „og alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi“ í 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi, heimferðir og skráningu og ráðningu skipverja.

III. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, með síðari breytingum.

13. gr.

    Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur nánari reglur um vinnusvæði og vistarverur skipverja.

14. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem samið var í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, að höfðu samráði við Samgöngustofu, velferðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið, felur í sér lagabreytingar vegna samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 með síðari breytingum frá árunum 2014 og 2016. Þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til og breytingar á reglugerðum sem þurfa að eiga sér stað í kjölfarið eru forsenda þess að unnt sé að fullgilda samþykktina. Ísland var meðal þátttakenda á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar þegar framangreind samþykkt og viðaukar við hana voru samþykktir.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á 94. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (e. International Labour Organization – ILO) í Genf 6. til 23. febrúar 2006 var gengið frá samþykkt um vinnuskilyrði farmanna (e. Maritime Labour Convention – MLC). Samþykktin felur í sér uppfærðar viðmiðanir alþjóðasamþykkta og -tilmæla um vinnuskilyrði farmanna auk grundvallarreglna sem er að finna í öðrum alþjóðavinnumálasamþykktum. Samþykktin felur annars vegar í sér reglur og viðmið sem eru skuldbindandi fyrir aðildarríki og hins vegar leiðbeinandi reglur fyrir aðildarríki. Á árunum 2014 og 2016 voru smávægilegar breytingar gerðar á samþykktinni.
    Reglur samþykktar um vinnuskilyrði farmanna eru með frumvarpinu færðar í íslenskan rétt svo íslenska ríkinu sé unnt að standa við alþjóðaskuldbindingar sínar um fullgildingu samþykktarinnar. Samþykktin er færð í sett lög að því marki sem skylt er, þ.e. með lágmarksbreytingum, og gert er ráð fyrir að hluti efnisreglna hennar verði færður í reglugerð þar sem það er unnt. Þá þarf einnig að móta stefnu á vissum sviðum vegna ákvæða samþykktarinnar þó það verði ekki fært í lög sérstaklega. Ekki er stefnt að því að færa sérstakar leiðbeiningar í samþykktinni eða önnur slík atriði í lög eða reglugerðir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Samþykktin, sem tekur til farmanna, þ.e. starfsmanna á farþega- og flutningaskipum, skiptist í eftirfarandi fimm kafla:
    1. kafli. Lágmarkskröfur sem farmenn þurfa að uppfylla til að mega vinna um borð í skipum: Kaflinn inniheldur fjórar reglur, þ.e. reglu 1.1. um lágmarksaldur, reglu 1.2. um læknisvottorð, reglu 1.3. um menntun, þjálfun og hæfni og reglu 1.4. um skráningu og ráðningu. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, vegna reglu 1.1., 4. gr. a laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, vegna reglu 1.2. og ný grein, 10. gr. A, sömu laga er lögð til vegna reglu 1.4. Ekki var talin þörf á lagabreytingum vegna reglu 1.3. enda verður að telja hana uppfyllta að íslenskum rétti.
    2. kafli. Skilyrði fyrir ráðningu: Kaflinn inniheldur átta reglur, þ.e. reglu 2.1. um ráðningarsamninga farmanna, reglu 2.2. um laun, reglu 2.3. um vinnutíma og hvíldartíma, reglu 2.4. um orlofsrétt, reglu 2.5. um heimsendingu, reglu 2.6. um bætur til farmanna ef skip tapast eða ferst, reglu 2.7. um mönnun og reglu 2.8. um aukna möguleika á starfsframa og fagkunnáttu auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. og 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 vegna reglu 2.1., breytingar á 30. gr. og 1. mgr. 32. gr. sömu laga vegna reglu 2.2. og þá er lagt til að tvær nýjar greinar, 7. gr. C og 7. gr. D, bætist við lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, vegna reglna 2.4. og 2.5. Að auki eru gerðar breytingar á 2. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, vegna ákvæða kaflans. Lagabreytingar voru taldar óþarfar vegna reglu 2.3. um vinnutíma og hvíldartíma, vegna reglu 2.6. um bætur til farmanna ef skip tapast eða ferst, reglu 2.7. um mönnun og vegna reglu 2.8. um aukna möguleika á starfsframa og fagkunnáttu auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða, enda verður að telja þær nú þegar uppfylltar að íslenskum rétti og/eða þess eðlis að stefnumótunar frekar en lagasetningar getur verið þörf.
    3. kafli. Vistarverur og tómstundaaðstaða, fæði og þjónusta áhafna: Kaflinn inniheldur tvær reglur, þ.e. reglu 3.1. um vistarverur og tómstundaaðstöðu og reglu 3.2. um fæði og þjónustu áhafna auk viðmiða við reglurnar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á annars vegar 3. mgr. 3. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, vegna reglu 3.1. og hins vegar á 61. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, vegna reglu 3.2. Að auki þarf að uppfæra reglugerðir svo fullgilda megi samþykktina.
    4. kafli. Heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd: Kaflinn inniheldur fimm reglur, þ.e. reglu 4.1. um læknishjálp um borð í skipi og í landi, reglu 4.2. um ábyrgð útgerðarmanna, reglu 4.3. um heilsuvernd, öryggi og slysavarnir, reglu 4.4. um aðgang að velferðarmiðstöðvum í landi og reglu 4.5. um tryggingavernd. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. laga nr. 35/1985 þannig að 33.–41. gr. laganna gildi einnig um þá sem gegna öðrum störfum á skipum en skipsstörfum og þá er lögð til ný grein, 7. gr. E, sem bætist við lög um áhafnir íslenska farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, þar sem tryggt er að allir skipverjar sem sigla undir íslenskum fána njóti sömu réttinda. Aðrar efnislegar lagabreytingar voru taldar óþarfar vegna reglna 4. kafla enda verður að telja reglur kaflans nú þegar uppfylltar að íslenskum rétti þótt nauðsynlegt kunni að vera að útfæra þurfi einhver atriði með reglugerð svo fullgilda megi samþykktina.
    5. kafli. Skyldur um framkvæmd og framfylgd: Kaflinn inniheldur þrjár reglur, þ.e. reglu 5.1. um skyldur fánaríkis, reglu 5.2. um hafnarríkisskyldur og reglu 5.3. um skyldur í tengslum við útvegun vinnuafls. Lagabreytingar eru ekki nauðsynlegar vegna þeirra reglna sem fram koma í kaflanum, utan 11. gr. frumvarpsins, en við breytingar á reglugerðum á sviðinu þarf að gæta að reglunum og viðmiðum við þær svo unnt verði að fullgilda samþykktina. Í 10. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, er m.a. kveðið á um að stofnunin skuli hafa eftirlit með að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar. Þá er í 9. gr. sömu laga kveðið á um verkefni Samgöngustofu tengd siglingum. Ljóst er að Samgöngustofu ber að framkvæma og framfylgja þeim reglum sem 5. kafli samþykktarinnar kveður á um.
    Eins og fyrr sagði eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á sjómannalögum, nr. 35/1985, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, og lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Verði frumvarpið að lögum og nauðsynlegar reglugerðarbreytingar gerðar í kjölfarið næst það markmið samþykktarinnar að tryggja farmönnum þau vinnuskilyrði sem samþykktin mælir fyrir um. Þótt meginmarkmið samþykktarinnar sé að tryggja farmönnum tiltekin réttindi þá er samþykktin ekki síður nauðsynleg svo Ísland geti sinnt virku hafnarríkiseftirliti, þ.e. haft m.a. eftirlit með því að önnur ríki fari eftir ákvæðum samþykktarinnar. Rétt þykir að geta þess að önnur Norðurlönd, þ.e. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa öll á síðustu árum fullgilt samþykktina auk fjölda annarra ríkja í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa 84 ríki fullgilt samþykktina og ráða þau yfir 91% af skipastóli heimsins miðað við brúttótonnatölu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Að mati ráðuneytisins er efni frumvarps þessa í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, líkt og rakið er hér að framan í 2. kafla greinargerðarinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samráði við Samgöngustofu, velferðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Frumvarpið snertir fyrst og fremst farmenn sem starfa á farþega- eða flutningaskipum sem sigla undir íslenskum fána og útgerðarmenn þeirra skipa.
    Sérstakt samráð var haft við velferðarráðuneytið hvað varðar 4. kafla samþykktarinnar en sá kafli inniheldur reglur um heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd sem eru málaflokkar sem heyra undir það ráðuneyti.
    Skjölin um áform um lagasetningu og frummat á áhrifum fóru í innra samráð innan Stjórnarráðs Íslands í desember 2017 og þá var hagsmunaaðilum og almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir við skjölin í janúar 2018. Var þetta gert í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, frá 10. mars 2017. Athugasemdir bárust frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu við innra samráð tengdar frummati á kostnaðaráhrifum frumvarpsins, en engar athugasemdir bárust við skjölin í ytra samráði. Við samningu frumvarpsins var tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu við framangreint samráð eftir því sem unnt var og var endanlegt kostnaðarmat frumvarpsins ítarlegra en frummatið, enda lágu forsendur kostnaðarmats þá ljósar fyrir.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda á vefslóðinni samradsgatt.island.is 16. febrúar 2018 og voru almenningi og hagsmunaaðilum gefnar tvær vikur eða til 2. mars til að koma að athugasemdum og ábendingum. Athugasemdir frá einum aðila bárust innan frests í gegnum samráðsgáttina, skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna frá 1. mars. Þar kemur fram að ánægjulegt sé að unnið sé að fullgildingu samþykktarinnar og réttilega á það bent að hluti samþykktarinnar sé nú þegar í gildandi lögum og reglugerðum. Þá var fjallað í umsögninni um einstök ákvæði samþykktarinnar. Áður en fjallað er um athugasemdir við einstök ákvæði þykir rétt að taka fram að um er að ræða lágmarksbreytingar á lögum svo unnt verði að fullgilda samþykktina. Í kjölfar þeirra þarf að gera breytingar á reglugerðum á sviðinu auk þess sem í einhverjum tilvikum þurfa stjórnvöld að móta sér stefnu. Athugasemdirnar taka að hluta til atriða sem þarf að mæla fyrir um í reglugerð eða stefnumótun þarf að eiga sér stað um og verður ekki fjallað ítarlega efnislega um þær. Vegna athugasemdar við 3. gr. frumvarpsins um hækkun á lágmarksaldri úr 15 ára í 16 ára þá hefur verið fallið frá þeirri breytingu vegna ákvæða alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar. Eftir sem áður gilda ákvæði reglugerða um hærri lágmarksaldur, svo sem vegna vinnu farmanna. Í 3. gr. frumvarpsins er nú lögð til breyting á 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, þar sem mælt er fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um næturvinnu vegna menntunar og þjálfunar ungra sjómanna 16–18 ára að undangengnu samráði við samtök sjómanna og útgerðarmanna. Með þessu tvennu er brugðist við athugasemd við 3. gr. frumvarpsins. Hvað varðar athugasemd við 2. gr. frumvarpsins þá hefur orðunum „og ganga óþvingaður að samningnum“ verið bætt við a-lið. Telja verður þó að slík regla gildi almennt í íslenskum rétti en breyting engu að síður lögð til. Í tengslum við síðari hluta athugasemdar við 2. gr. skal á það bent að skv. 2. mgr. 6. gr. laganna setur ráðuneytið nánari reglur um form og efni samninga. Tekið er undir það sem fram kemur í athugasemd við 10. gr. og hefur orðunum „og skipverjum að kostnaðarlausu“ verið bætt við 2. mgr. 10. gr. en jafnframt á það bent að ráðherra getur mælt fyrir um þessi atriði í reglugerð og að Samgöngustofa hafi eftirlit með því að skráningar- og ráðningarþjónusta uppfylli kröfur samþykktarinnar. Hvað athugasemd við 6. gr. varðar skal bent á 4. mgr. þar sem fram kemur að ráðherra setur nánari reglur um mat og drykkjarvatn, þ.m.t. magn og gæði, meðferð matvæla og eftirlit skipstjóra. Í tengslum við útgáfu skírteina er vísað til ákvæða 4. og 5. gr., sbr. einnig II. kafla, laga um áhafnir á íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum, nr. 76/2001, þar sem er mælt fyrir um að Samgöngustofa gefi út alþjóðleg skírteini samkvæmt lögunum og um gildistíma og endurnýjun skírteina. Bætt hefur verið nýrri 11. gr. í tengslum við kvartanir um borð í skipum. Loks skal tekið fram í tengslum við athugasemd vegna reglu 4.4. í samþykktinni um aðgang að velferðarmiðstöðum í landi að á Íslandi er aðgangur að hvers konar félagslegri og einkarekinni þjónustu í öllum þeim höfnum sem taka á móti skipum sem falla undir samþykktina. Má þar nefna félagslega þjónustu sveitarfélaga, sundlaugar, íþróttaaðstöðu, bókasöfn, hótel og veitingahús. Aðgangur að þeim er öllum frjáls án tillits til kynþáttar, félagslegrar stöðu, trúarbragða o.s.frv. Ætla má að það samfélagskerfi og sá aðbúnaður borgaranna sem er við lýði á Íslandi sé nægilega vel til þess fallið að annast hlutverk velferðarmiðstöðva í skilningi samþykktarinnar.
    Eftir að umsagnarfrestur rann út bárust athugasemdir frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi en samtökin óskuðu eftir framlengdum fresti til athugasemda og var hann veittur til 8. mars. Umsögnin barst þann dag og kemur þar m.a. fram að samtökin séu þeirrar skoðunar að með frumvarpinu hefði einungis átt að leggja til breytingar á ákvæðum laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, en ekki gera samhliða breytingar á sjómannalögum nr. 35/1985. Á það er bent að þrátt fyrir að sú alþjóðasamþykkt sem hér um ræðir og alþjóðasamþykkt um vinnu við fiskveiðar séu að vissu leyti áþekkar séu þær um margt ólíkar, m.a. varðandi atriði frumvarpsins. Þá er á það bent í tengslum við síðarnefndu samþykktina að vinna við fullgildingu hennar þarf að halda áfram og nánari undirbúningur að eiga sér stað áður en breytingar verða gerðar á lögum. Þrátt fyrir framangreinda afstöðu eru gerðar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Gerðar eru athugasemdir við 2., 6. og 13. gr. frumvarpsins og á það bent að gera þurfi greinarmun á farmönnum og fiskimönnum enda gangi samþykktin sem hér um ræðir lengra en alþjóðasamþykkt um vinnu við fiskveiðar. Hvað athugasemd við 2. gr. varðar þá verður ekki talið að umrætt ákvæði sé íþyngjandi fyrir sjómenn enda um að ræða breytingar sem verða að teljast samræmast vel almennum reglum vinnuréttar. Hvað athugasemd við 6. gr. varðar þá hefur verið bætt við 4. mgr. 6. gr. að ráðherra geti mælt nánar í reglum fyrir um frádrátt vegna rekstrarkostnaðar frís fæðis í vissum tilvikum. Tekið er undir þá athugasemd að greinarmun þurfi að gera á farmönnum og fiskimönnum hvað 12. gr. varðar en á það bent að ákvæðið felur einungis í sér heimild ráðherra til að setja reglugerð um vinnusvæði og vistarverur skipverja en kveður ekki á um að þær skuli vera áþekkar í öllum atriðum fyrir þessa tvo flokka skipverja.
    Aðrar breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu eftir samráðsferli voru það smávægilegar að ekki er ástæða til að geta þeirra frekar hér. 

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja farmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 með síðari breytingum en grundvallarumboð stofnunarinnar er að stuðla að mannsæmandi vinnuskilyrðum.
    Samþykktin hefur fyrst og fremst áhrif á farmenn og vinnuskilyrði þeirra þó að vissulega hafi hún áhrif á útgerðarmenn í þeim tilvikum sem gerð er krafa um að þeir tryggi ríkari réttindi farmanna en nú þegar er gert. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru afar fáir farmenn sem falla undir gildissvið samþykktarinnar og þar með laganna þar sem mörg kaupskip íslenskra útgerða sigla undir öðrum fána en íslenskum en til þess að falla undir gildissvið samþykktarinnar þurfa farmenn að starfa á skipum sem sigla undir íslenskum fána. Eru því áhrif breytinganna lítil hérlendis hvort sem um er að ræða farmenn eða útgerðarmenn en munu hafa áhrif á þessa hópa fjölgi skipum sem sigla undir íslenskum fána.
    Samþykktin hefur umtalsverð áhrif á möguleika og skyldur Samgöngustofu til að sinna svokölluðu hafnarríkiseftirliti. Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit, Paris MOU, er samkomulag 20 aðildarríkja sem Ísland hefur verið fullgildur aðili að frá 1. júlí 2000. Tilgangur hafnarríkiseftirlitsins er að stemma stigu við siglingum skipa sem uppfylla ekki alþjóðakröfur um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti áhafna kaupskipa, atvinnuréttindi þeirra og um mengun frá skipum. Samkvæmt samkomulaginu er aðildarríkjum gert að skoða a.m.k. 25% af öllum kaupskipum sem hafa viðkomu í höfnum aðildarlandanna. Margir þættir hafa áhrif á hvaða skip eru tekin til skoðunar. M.a. er litið til þess hvort athugasemdir hafi verið gerðar við skip í fyrri hafnarríkisskoðun þar sem ákveðinn frestur hefur verið gefinn til úrbóta og er stuðst við upplýsingar úr gagnagrunni Parísarsamkomulagsins. Samgöngustofa hefur eftirlit með þeim skipum sem sigla til Íslands en sigla undir öðrum fánum en íslenskum. Þegar samþykktin um vinnuskilyrði farmanna hefur verið fullgilt af hálfu Íslands fær Samgöngustofa aðgang að kerfum Parísarsamkomulagsins sem varða þau atriði sem taka til samþykktarinnar. Í frummati á áhrifum vegna frumvarpsins kom fram að helstu áhrifaþættir væru vinna sérfræðinga ráðuneytisins og Samgöngustofu í tengslum við innleiðinguna og í kjölfarið fullgildingu samþykktarinnar. Þá þyrfti Samgöngustofa að yfirfara verklag og kerfi tengd viðurkenndum sjómannalækningum vegna samþykktarinnar. Jafnframt þyrfti Samgöngustofa að gefa út MLC-vottorð fyrir skip, uppfæra upplýsingar á vefsíðu, mögulega gefa út ný skírteini fyrir skipskokka, uppfæra verklag við hafnarríkiseftirlit o.fl. Var það mat Samgöngustofu að framangreint fæli í sér nokkurn upphafskostnað en að honum loknum ætti ekki að koma til sérstaks viðbótarkostnaðar. Í frummatinu var tekið fram að mögulega yrði leitast eftir hækkun á ramma fyrir málefnasvið í fjármálaáætlun 2019–2023. Einnig yrði leitast eftir hækkun á fjárheimild til málaflokksins í frumvarpi til fjárlaga 2019 vegna innleiðingarinnar. Nú þegar endanlegt kostnaðarmat liggur fyrir er ljóst að áætluð útgjaldaaukning er óveruleg og rúmast innan ramma núgildandi fjárlaga, ekki hefur verið gert ráð fyrir kostnaði í málaflokki samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis vegna frumvarpsins.
    Þá hefur frumvarpið einnig áhrif á fiskimenn að því marki sem breytingar eru lagðar til á sjómannalögum, nr. 35/1985, en gildissvið þeirra laga nær til allra sjómanna sem starfa á íslenskum skipum. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins er skýrt af hverju farin er sú leið að leggja til breytingar á þeim lögum sem ná til stærri hóps en einungis farmanna. Í þessu sambandi þykir rétt að geta þess að á 96. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 30. maí til 15. júní 2007 var gengið frá samþykkt um vinnu við fiskveiðar (e. Work in Fishing Convention) og var Ísland meðal þátttakenda á þinginu en samþykktin hefur ekki verið fullgilt af hálfu Íslands. Í samþykktinni eru ákvæði sem ætlað er m.a. að tryggja að starfsmenn á sviði fiskveiða njóti aukins öryggis og heilbrigðis við vinnu og læknishjálpar á sjó og að veikir eða slasaðir sjómenn á fiskiskipum fái umönnun í landi, fái nægilega hvíld þeim til heilsuverndar og öryggis, njóti verndar í krafti starfssamninga og njóti sömu almannatryggingaverndar og aðrir starfsmenn. Í ljósi efnis þeirrar samþykktar og hversu áþekk hún er alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna þótti eðlilegt að sumar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu næðu einnig til fiskimanna en ekki eingöngu farmanna þó að ekki sé stefnt að fullgildingu framangreindrar samþykktar með þessu frumvarpi.
    Ekki var talin þörf á að framkvæma sértækt mat vegna mögulegra áhrifa af frumvarpinu en ljóst þykir að ávinningur af samþykkt þess er nokkur. Með samþykkt þess er stigið skref í átt að fullgildingu alþjóðasamþykktar frá árinu 2006 sem Ísland tók þátt í að samþykkja og einnig stigið skref í þá átt að tryggja og hafa eftirlit með vinnuskilyrðum farmanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 2. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, er upptalning á þeim ákvæðum laganna sem gilda, eftir því sem við á, um menn sem ráðnir eru á skip af útgerðarmanni eða skipstjóra til annarra starfa en skipsstarfa og um menn sem ráðnir hafa verið á skip af öðrum en útgerðarmanni eða skipstjóra. Vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á lögunum í frumvarpinu vegna fyrirhugaðrar fullgildingar á alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna þarf að bæta við framangreinda upptalningu.
    Í a-lið bætist fremst í upptalninguna í 2. gr. nýr töluliður, svohljóðandi: 6. gr. um ráðningarsamninga o.fl.
    Samkvæmt b-lið koma í stað gildandi 5.–7. tölul. 2. gr. þrír nýir töluliðir, svohljóðandi: 30. gr. um sendingu launa o.fl., 32. gr. um launauppgjör o.fl. og 33.–41. gr. um umönnun og kaup sjúkra skipverja og andlát skipverja og greftrun. Þá er í c-lið lagt til að 8. tölul. falli út enda er þar um að ræða ákvæði sem vísað er til í 33.–41. gr. og endurtekin tilvísun til þeirra því óþörf. Rétt þykir að taka fram að með því að bæta 33.–41. gr. við upptalningu ákvæða í 2. gr. er verið að tryggja, eftir því sem við á, að þau ákvæði gildi ekki bara um sjómenn á íslenskum skipum heldur einnig um skipverja sem ekki teljast til sjómanna en eru í áhöfnum skipa, svo sem farþegaskipa og flutningaskipa.

Um 2. gr.

    Í reglu 2.1. í samþykktinni er kveðið á um ráðningarsamninga farmanna en tilgangur reglunnar er að tryggja sanngjarna ráðningarsamninga fyrir farmenn. Í II. kafla sjómannalaga, nr. 35/1985, eru ákvæði um ráðningarsamninga o.fl. og er í 6. til 8. gr. í kaflanum kveðið á um samningsgerðina o.fl. Vegna reglunnar eru lagðar til þrjár breytingar á 6. gr. laganna.
    Í a-lið er kveðið á um að á eftir 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. bætist nýr málsliður þar sem fram kemur að fyrir undirritun ráðningarsamnings skuli gefa skipverja tækifæri til að grandskoða hann og eftir atvikum leita sér ráðgjafar um efni hans og ganga óþvingaður að samningnum.
    Í b-lið er gert ráð fyrir að á eftir 1. mgr. 6. gr. komi ný málsgrein á þá leið að skipverjar skuli fá, um borð í skipi, skýrar upplýsingar um skilmála ráðningar þeirra og skuli slíkar upplýsingar ásamt ráðningarsamningi og eftir atvikum kjarasamningi vera aðgengilegar innlendum sem erlendum stjórnvöldum við eftirlit. Vegna þessarar viðbótar breytist númeraröðun annarra málsgreina 6. gr. sem henni nemur.
    Í c-lið er kveðið á um að á eftir orðunum „samkvæmt 1. mgr.“ í 2. mgr. 6. gr. komi: og aðgengileg skjöl samkvæmt 2. mgr. Þetta ákvæði verður síðan að 3. mgr. 6. gr. laganna vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í b-lið og umrædd tilvísun til 2. mgr. á því við um nýmæli b-liðar. Reglugerðarheimildina þarf ráðherra í kjölfarið að nýta til að mæla fyrir um önnur atriði í reglu 2.1. og viðmiðum við hana svo unnt verið að fullgilda samþykktina.

Um 3. gr.

    Í reglu 1.1. í samþykktinni er kveðið á um lágmarksaldur og er tilgangur reglunnar að tryggja að enginn undir lögaldri vinni um borð í skipi. Lágmarksaldur samkvæmt reglunni skal vera 16 ár en krafist skal hærri lágmarksaldurs við sérstakar aðstæður. Í 2. mgr. 8. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, er kveðið á um að eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 15 ára við vinnu á skipi nema um skólaskip eða æfingaskip sé að ræða. Ráðherra getur sett reglur um hærra aldurslágmark skipverja við tiltekin störf allt upp að 18 ára aldri og með reglugerð um vinnu- og hvíldartíma skipverja á farþegaskipum og flutningaskipum nr. 680/2004, með síðari breytingum, er í 4. gr. kveðið á um 16 ára lágmarksaldur. Ekki er lögð til breyting á þessari reglu vegna ákvæða alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar þar sem gert er ráð fyrir 15 ára aldurslágmarki í afmörkuðum tilvikum.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að í 3. mgr. 8. gr. í sjómannalögum, nr. 35/1985, verði nú kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um næturvinnu vegna menntunar og þjálfunar ungra sjómanna 16–18 ára að undangengnu samráði við samtök sjómanna og útgerðarmanna. Með breytingunni á að tryggja að kveðið verði á um viðmið samþykktarinnar við reglu 1.1. í reglugerð.

Um 4. gr.

    Regla 2.2. samþykktarinnar fjallar um laun og er tilgangur hennar að tryggja að farmönnum sé greitt fyrir þjónustu sína. Vegna reglunnar eru lagðar til tvær breytingar á 30. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985.
    Í a-lið er kveðið á um að útgerðarmaður skuli tryggja að skipverji geti með bankamillifærslu eða svipuðum hætti sent öll laun sín eða hluta þeirra til fjölskyldu, nánustu aðstandenda eða löglegra bótaþega án þess að það hafi í för með óhóflegan kostnað fyrir skipverja. Kemur ákvæðið í stað 2. og 3. mgr. núgildandi 30. gr. þar sem kveðið er á um að skipverji geti krafist þess að kaup hans sé greitt mánaðarlega með ávísun til nafngreinds manns hér á landi eða lagt inn á íslenska innlánsstofnun og að skipverji geti, sér að kostnaðarlausu, sent kaup sitt heim til Íslands með tilstilli íslensks ræðismanns. Þar kemur einnig fram að ríkissjóður beri þann kostnað sem af þessu leiðir og ábyrgist peningasendingar. Breytingin tekur til allra sem falla undir gildissvið laganna, henni er ætlað að færa í lög reglu samþykktarinnar en jafnframt færa gildandi lög nær því sem gildir um launagreiðslur í nútímabankakerfi.
    Í b-lið er kveðið á um að ráðherra geti sett nánari reglur um sendingu launa. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 5. gr.

    Í viðmiðum við reglu 2.2. í samþykktinni er m.a. fjallað um gengisskráningu. Vegna þessa er lagt til að við 1. mgr. 32. gr. bætist að skipverji skuli fá upplýsingar um gengisskráningu ef laun hafa verið greidd í mynt eða miðað við gengi sem er annað en það sem samið var um. Ákvæði 1. mgr. 32. gr. kveður að öðru leyti á um að mánaðarlega skal skipverja látið í té sundurliðað launauppgjör nema kjarasamningur mæli fyrir um skemmri uppgjörsfrest og er það ákvæði í samræmi við viðmiðin.

Um 6. gr.

    Í reglu 3.2. í samþykktinni er kveðið á um fæði og þjónustu áhafna. Tilgangur reglunnar er að tryggt sé að farmenn hafi aðgang að gæðamatvælum og gæðadrykkjarvatni. Vegna reglunnar er lögð til breyting á 61. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985. Um er að ræða nýja reglu í stað gildandi 61. gr. þar sem bætt hefur verið við inntak ákvæðisins án þess að nokkuð hafi verið fellt út. Hér þarf að hafa í huga að reglan tekur til allra þeirra sem falla undir gildissvið sjómannalaga, nr. 35/1985, þó að gildissvið reglna sem settar verða á grundvelli ákvæðisins geti verið þrengra.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að skipstjóri skuli sjá til þess að skipverjar fái um borð í skipi hollan og næringarríkan mat og nægt drykkjarvatn. Í gildandi ákvæði 1. mgr. 61. gr. er ekki kveðið á um drykkjarvatn. Þá er í 2. mgr. kveðið á um skyldu skipstjóra til að hafa skjalfest eftirlit með matar- og drykkjarbirgðum, rými til geymslu og meðhöndlunar, eldhúsi og öðrum búnaði tengdum tilreiðslu eða framleiðslu matvæla. Um er að ræða nýmæli í lögum þótt telja verði að um sé að ræða eðlilega starfsskyldu skipstjóra, þ.e. sem felist í yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum hans.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að skipverjar eigi rétt á mat og drykkjarvatni þeim að kostnaðarlausu á ráðningartímabilinu en ef nauðsyn ber til að matur sé dreginn af skipverjum í ferð skal greiða þeim sanngjarnar bætur af þeim sökum. Ákvæðið er í samræmi við gildandi 2. mgr. 61. gr. en áréttaður hefur verið réttur til matar og drykkjarvatns að kostnaðarlausu.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að ráðherra setji nánari reglur um mat og drykkjarvatn, þ.m.t. magn og gæði, meðferð matvæla og eftirlit skipstjóra og frádrátt vegna rekstrarkostnaðar frís fæðis í vissum tilvikum. Kemur 4. mgr. í stað 2. málsl. 1. mgr. gildandi 61. gr. þar sem ráðherra var heimilt að setja nánari reglur um næringu skipverja. Fer betur á því að hafa heimild ráðherra til að setja reglugerð aftast í ákvæðinu. Vegna ákvæða alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar, þar sem gert er ráð fyrir að útgerð geti dregið frá rekstrarkostnað vegna frís fæðis, kemur inn í ákvæðið regla sem heimilar ráðherra að setja reglur um frádrátt vegna rekstrarkostnaðar frís fæðis í vissum tilvikum.
    Við þetta má bæta að í 2. mgr. 8. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, er kveðið á um að ráðherra geti sett reglur um aldurslágmark skipverja sem getur verið allt að 18 ára við tiltekin störf. Svo samþykktin verði fullgild þarf að kveða þar á um að enginn farmaður undir 18 ára skuli ráðinn til starfa eða vinna sem matsveinn á skipi, sbr. viðmið við reglu 3.2. Þá má einnig nefna að í gildi eru lög um bryta og matreiðslumenn á farskipum og fiskiskipum, nr. 50/1961, með síðari breytingum. Í 3. mgr. reglu 3.2. er kveðið á um menntun og þjálfun matsveina. Í fyrrnefndum lögum eru heimildir ráðherra til að útfæra nánar í reglugerð tiltekin atriði. Þau lög þarfnast ekki breytinga vegna reglu 3.2. í samþykktinni en gæta þarf að því að reglur sem settar eru á grundvelli þeirra laga séu ætíð í samræmi við reglu 3.2. og viðmið við regluna.

Um 7. gr.

    Í 3. mgr. 1. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, er mælt fyrir um að tilgangur laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim sé að laga íslenskan rétt að þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og í kjölfarið er upptalning á þeim skuldbindingum sem um ræðir. Með ákvæðinu er lagt til að við upptalninguna bætist tilvísun til alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna (MLC) frá 2006, með síðari breytingum frá 2014 og 2016.

Um 8. gr.

    Regla 1.2. í samþykktinni tekur til læknisvottorða og er tilgangur hennar að tryggja að allir farmenn séu heilbrigðir svo þeir geti gegnt skyldum sínum á sjó. Lögð er til sú breyting á 4. gr. a laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, sbr. 9. gr. laga nr. 40/2017, að við bætist ný málsgrein þar sem tiltekið verði að allir skipverjar skuli vera svo heilir heilsu að þeir geti rækt störf sín af öryggi og að skipverji skuli leggja fram vottorð um að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur í samræmi við reglugerð. Þá er lagt til að orðið „skipverji“ komi í stað orðsins „sjómaður“ í greininni. Áréttað er að regla samþykktarinnar tekur til allra sem starfa á þeim skipum sem undir samþykktina falla. Í 3. mgr. 4. gr. a (sem verður 4. mgr. vegna nýrrar 1. mgr.) er kveðið á um að ráðherra mæli nánar fyrir um heilbrigðiskröfur í reglugerð en rétt er að taka fram að margar þeirra krafna sem gerðar eru í viðmiðum við regluna í samþykktinni eru þegar í reglugerð um menntun, þjálfun og atvinnuréttindi farmanna nr. 676/2015.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að við lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, bætist þrjár nýjar greinar vegna reglna 2.4. og 2.5. í samþykktinni og 4. kafla. Regla 2.4. fjallar um orlofsrétt og er tilgangur hennar að tryggja að farmenn fái nægilegt orlof. Regla 2.5. fjallar um heimsendingar og er tilgangur hennar að tryggja að farmenn geti snúið heim sér að kostnaðarlausu við nánar tilgreindar aðstæður. 4. kafli samþykktarinnar fjallar um heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd.
     Um a-lið (7. gr. C).
    Í 1. mgr. er kveðið á um að orlof skipverja skuli að lágmarki vera 2,5 almanaksdagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári nema kveðið sé á um annað viðmið í reglugerð sem tekur mið af sérstökum þörfum farmanna og óheimilt sé að semja um niðurfellingu launaðs lágmarksorlofs.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti sett nánari reglur um orlof en um rétt skipverja til orlofs fari að öðru leyti en sem getur í 1. mgr. eftir lögum um orlof, nr. 30/1987, og gildandi kjarasamningum.
     Um b-lið (7. gr. D).
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um ókeypis heimferð skipverja sem hefur verið á sama skipi eða hjá sama útgerðarmanni samfleytt í níu mánuði en um er að ræða sama tímamark og fram kemur í 1. mgr. 15. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985. Þau tilvik sem virkja rétt til ókeypis heimferðar eru tiltekin í 1.–4. tölul. 1. mgr. og þarfnast þau ekki frekari skýringa.
    Í 2. mgr. kemur fram að skipverji verður ekki krafinn um greiðslu heimferðar fyrir fram og heimferðarkostnaður verður ekki dreginn af launum eða öðrum réttindum nema í þeim tilvikum þegar skipverji hefur brotið alvarlega gegn skyldum sínum í starfi.
    Í 3. mgr. kemur fram að útgerðarmaður skips skuli leggja fram tryggingu til að sjá til þess að skipverji njóti viðeigandi heimferðar í samræmi við 1. mgr. og ef útgerð vanrækir að gera slíkar ráðstafanir geri Samgöngustofa ráðstafanir um heimferð skipverja. Ákvæðið tekur bæði til íslenskra skipa og erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir en tekið er fram að Samgöngustofa gerir ekki ráðstafanir um heimferð skipverja erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir nema erlenda ríkið hafi ekki eða muni ekki gera ráðstafanir um heimferð skipverja.
    Í 4. mgr. er tekið fram að þegar þær aðstæður eru fyrir hendi sem getur í 3. mgr., eða Samgöngustofa hefur gert ráðstafanir í tengslum við heimferð í öðrum tilvikum, getur Samgöngustofa lagt farbann á skipið þar til trygging hefur verið lögð fram eða endurgreiðsla vegna heimferðar hefur farið fram. Málsmeðferð vegna farbanns er sú sama og mælt er fyrir um í 3. mgr. 7. gr. B laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, eigandi eða útgerðarmaður getur kært farbann og fer um framkvæmd þess að öðru leyti samkvæmt lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.
    Í 5. mgr. er loks kveðið um að ráðherra setji nánari reglur um heimferðir. Ákvæðið felur ekki í sér tæmandi talningu á atriðum sem þarf að mæla fyrir um í reglugerð en ljóst er að ráðherra þarf að setja reglugerðina svo fullgilding samþykktarinnar sé möguleg, sbr. þau atriði sem fram koma í viðmiðum við reglu 2.5. auk þeirra breytinga sem gerðar voru á viðmiðunum með breytingu á samþykktinni frá 2014. Þá þarf í reglugerð til að mynda að kveða skýrt á um ráðstafanir Samgöngustofu í tengslum við heimferð skipverja erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir og um farbann.
     Um c-lið (7. gr. E).
    Ákvæðið er lagt til vegna ákvæða 4. kafla samþykktarinnar um heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að ef skipverji af einhverjum ástæðum nýtur hvorki velferðarréttinda hérlendis né í því landi sem skipverji nýtur réttinda, sem eru áþekk þeim réttindum sem tryggð eru í lögum hérlendis, ber útgerðarmanni skips að tryggja slík réttindi. Er ákvæðið sett fram til að tryggja að allir skipverjar sem starfa á skipum sem sigla undir íslenskum fána njóti sömu velferðarréttinda og til að koma í veg fyrir að einhver hópur sé án velferðarréttinda. Tiltekið er að útgerðarmaður skips getur keypt sérstakar tryggingar vegna þessa. Mælst er til þess þótt ekki sé með ákvæðinu lögð bein skylda á útgerðarmann til að kaupa tryggingar.
    Í 2. mgr. er heimild ráðherra til að setja nánari reglur um velferðarréttindi allra skipverja og ekki verður talið að málsgreinin þarfnist frekari skýringa. Rétt þykir að árétta að í 33.–41. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, eru reglur um umönnun og kaup sjúkra skipverja og reglur um andlát skipverja og greftrun. Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 2. gr. þeirra laga þannig að framangreind lagaákvæði gildi, eftir því sem við á, um menn sem ráðnir eru á skip af útgerðarmanni eða skipstjóra til annarra starfa en skipsstarfa og um menn sem ráðnir hafa verið á skip af öðrum en útgerðarmanni eða skipstjóra. Rétt er að taka fram að þau ákvæði hafa að geyma reglugerðarheimildir sem hægt er að nýta í tengslum við fullgildingu samþykktarinnar.

Um 10. gr.

    Regla 1.4. í samþykktinni tekur til skráningar og ráðningar en tilgangur hennar er að tryggja að farmenn hafi aðgang að skilvirku og lögvernduðu kerfi fyrir skráningar og ráðningar farmanna. Vegna þessarar reglu er lagt til að nýtt ákvæði, 10. gr. A, verði sett í lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu skuli starfa í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi frá Samgöngustofu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skráningar- og ráðningarþjónusta skuli vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg og skipverjum að kostnaðarlausu til að skipverjar geti fundið störf um borð í skipi. Í b-lið 4. mgr. viðmiða við reglu 1.4. kemur fram að óheimilt sé að krefjast þess að farmaður þurfi beint eða óbeint að greiða gjöld eða aðrar álögur fyrir skráningu eða ráðningu eða fyrir að veita honum vinnu, að öðru leyti en þann kostnað sem farmaður þarf að greiða fyrir lögbundið læknisvottorð í heimalandi sínu, sjóferðabók í heimalandi sínu og vegabréf eða önnur sambærileg persónuleg ferðaskjöl þó að undanskildum kostnaði við vegabréfsáritanir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um eftirlit Samgöngustofu með því að skráningar- og ráðningarþjónusta uppfylli kröfur alþjóðaskuldbindingar íslenska ríkisins sem getið er um í 3. mgr. 1. gr. og í 4. mgr. kemur fram að ráðherra sé heimilt að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu og eftirlit með henni í reglugerð. Í 7. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 3. mgr. 1. gr. að vísað verði þar til alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna (MLC) frá 2006. Ljóst er að reglugerð sett af ráðherra á grundvelli þessarar málsgreinar þarf að vera í fullu samræmi við viðmiðin í reglu 1.4. í samþykktinni svo unnt sé að fullgilda samþykktina.

Um 11. gr.

    Í reglu 5.1.5. í samþykktinni er fjallað um málsmeðferð um kvartanir um borð. Lagt er til að við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem gerð verður sú krafa að um borð í skipum skuli vera skilvirkt kerfi fyrir kvartanir vegna meintra brota gegn kröfum laganna og alþjóðasamninga sem lögin byggja á og vísað er til í 3. mgr. 1. gr. laganna. Er þ.m.t. um að ræða brot gegn réttindum skipverja. Þá getur ráðherra sett nánari reglur um kvartanir um borð.

Um 12. gr.

    Í 17. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, er yfirlit yfir það í hvaða tilvikum ráðherra er skylt að setja reglugerð. Lagðar eru til þær breytingar á ákvæðinu að bætt verði við yfirlitið þeim tilvikum sem ráðherra er gert skylt samkvæmt ákvæðum frumvarpsins að setja reglugerð um. Rétt þykir að taka fram að ákvæði 17. gr. laganna felur einungis í sér upptalningu á tilvikum þar sem ráðherra er skylt að setja reglugerð en kemur ekki í veg fyrir frekari reglusetningu á grundvelli ákvæða laganna þar sem mælt er fyrir um heimild til reglusetningar en ekki skyldu. Lögð er til framangreind breyting á 17. gr. til að gæta að innbyrðis samræmi laganna. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 13. gr.

    Í reglu 3.1. í samþykktinni er kveðið á um vistarverur og tómstundaaðstöðu farmanna. Tilgangur reglunnar er að kveða á um að farmenn hafi aðgang að mannsæmandi vistarverum og tómstundaaðstöðu um borð, m.a. til að stuðla að betri heilsu og vellíðan farmanna. Með greininni er lögð til breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, þannig að nýr málsliður bætist við 3. mgr. 3. gr. sem kveður á um að ráðherra verði gert heimilt að setja nánari reglur um vinnusvæði og vistarverur skipverja. Er um að ræða heimild sem beita skal þegar nauðsynlegt er. Ljóst er að auknar kröfur til vistarvera og tómstundaaðstöðu geta bara tekið til skipa sem smíðuð eru eftir að lögin og reglugerð sem mögulega verður sett í kjölfarið taka gildi. Telja verður að gildandi reglur, svo sem reglur um vistarverur áhafna flutningaskipa og farþegaskipa nr. 492/1979 tryggi að einhverju leyti nú þegar farmönnum mannsæmandi vistarverur og tómstundaaðstöðu um borð en þær þarfnast þó yfirferðar og uppfærslu.

Um 14. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.