Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 672  —  466. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, með síðari breytingum (frestir).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.



1. gr.

    Í stað orðsins „tveggja“ í 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: sex.

2. gr.

    Í stað orðanna „eitt ár er liðið“ í 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: þrjú ár eru liðin.

3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 1995“ í 9. gr. laganna kemur: 1. janúar 1993.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 var felld inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014 um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 (endurútgefin). Þar sem umrædd ákvörðun EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum sem kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara sem var aflétt á 146. löggjafarþingi 2016–2017.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilskipun 2014/60/ESB leysir af hólmi tilskipun 93/7/EBE frá 15. mars 1993 um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Með tilskipun 93/7/EBE var tekið upp fyrirkomulag sem gerir aðildarríkjum Evrópusambandsins kleift að tryggja að menningarminjum, sem flokkaðar eru sem þjóðarverðmæti í skilningi 36. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, falla undir sameiginlega flokka menningarminja sem um getur í viðaukanum við þá tilskipun og hafa verið fluttar brott af yfirráðasvæði þeirra í bága við ráðstafanir aðildarríkja, verði skilað aftur til yfirráðasvæðis þeirra. Beiting tilskipunarinnar hefur sýnt að takmarkanir eru á fyrirkomulagi því sem á að tryggja að menningarminjum verði skilað. Tilskipuninni er sjaldan beitt, einkum vegna þess hve takmarkað gildissvið hennar er.
    Markmiðið með lagasetningunni er að innleiða öll nýmæli úr tilskipun 2014/60/ESB í landsrétt þannig að Ísland uppfylli þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar samkvæmt EES- samningnum. Markmiðið með breytingunum sem gerðar eru með frumvarpinu er að rýmka gildissvið laganna til að auka möguleika á beitingu þeirra.
    Tilskipun 2014/60/ESB fjallar um að menningarminjum sem hafa verið fluttar frá yfirráðasvæði aðildarríkis ólöglega skuli skilað í samræmi við málsmeðferð og þær aðstæður sem kveðið er á um í tilskipuninni.
    Innleiðing tilskipunar 2014/60/ESB í landsrétt kallar á breytingar á lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, sem taka mið af ákvæðum tilskipunar 93/7/EBE frá 15. mars 1993. Aðrar leiðir en breyting á gildandi lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa komu því ekki til greina.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með tilskipun 2014/60/ESB er gildissviðið rýmkað þannig að það nái til hvers konar menningarminja sem aðildarríki flokkar eða skilgreinir, samkvæmt landslögum eða stjórnsýslureglum, sem þjóðarverðmæti með listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi í skilningi 36. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Enn fremur þurfa menningarminjar, flokkaðar eða skilgreindar sem þjóðarverðmæti, ekki lengur að tilheyra flokkum eða uppfylla viðmiðanir að því er varðar aldur og/eða fjárhagslegt gildi til þess að uppfylla skilyrði þess að þeim verði skilað á grundvelli tilskipunarinnar.
         Þá er samstarf milli aðildarríkja aukið til að stuðla að skilvirkari og samræmdari beitingu tilskipunarinnar. Þannig er þess krafist að stjórnvöld skiptist á upplýsingum um menningarminjar sem fluttar eru ólöglega í forritseiningu í IMI-upplýsingakerfinu sem er sérsniðið fyrir menningarminjar.
    Frestur til að meta hvort menningarminjar, sem finnast í öðru aðildarríki, teljast menningarminjar í skilningi tilskipunar 93/7/EBE hefur verið talinn of stuttur. Af þeim sökum lengir tilskipun 2014/60/ESB frestinn úr tveimur mánuðum í sex mánuði. Einnig er frestur til að hefja málsmeðferð vegna skila lengdur úr einu ári í þrjú ár eftir að aðildarríki það sem menningarminjar voru fluttar frá kemst að raun um staðsetningu menningarminjanna og hver sé handhafi þeirra eða vörsluaðili.
    Tilskipun 2014/60/ESB er endurútgáfa á tilskipun ráðsins 93/7/EBE sem hafði verið breytt í veigamiklum atriðum með tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 96/100/EB og 2001/38/EB. Þær höfðu áður verið innleiddar í íslenskan rétt með lögum nr. 57/2011 og var þess vegna ekki þörf á veigamiklum breytingum á gildandi lögum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur ekki í sér álitaefni er varða stjórnarskrá en felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins til uppfyllingar á skyldum Íslands samkvæmt EES-samningnum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir helst Minjastofnun Íslands sem fer með framkvæmd laga nr. 57/2011, almenning og önnur ríki. Samráð var haft við Minjastofnun Íslands allt frá fyrstu stigum innleiðingar.
    Drög að frumvarpi til laganna voru til umsagnar á samráðsgátt Stjórnarráðsins dagana 12.–28. febrúar 2018 og barst engin efnisleg umsögn.

6. Mat á áhrifum.
    Á lög um skil á menningarverðmætum til annarra landa, nr. 57/2011, hefur aldrei reynt né heldur forvera þeirra, lög um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 105/2001. Þá hefur svokallað IMI-kerfi nú þegar verið tekið til notkunar hér á landi. Þótt vonir séu bundnar við að oftar muni reyna á lögin með breytingunum þá eru litlar líkur á mikilli fjölgun mála hjá Minjastofnun.
    Af þessum ástæðum er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð umfram það sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og þriggja ára áætlun.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ljós hefur komið að fresturinn til að meta hvort menningarminjar, sem finnast í öðru aðildarríki, teljast menningarverðmæti í skilningi tilskipunar 93/7/EBE er of stuttur. Þess vegna er fresturinn lengdur úr tveimur mánuðum í sex.

Um 2. gr.

    Fresturinn til að hefja málsmeðferð vegna skila er lengdur í þrjú ár úr einu. Miðað er við að frestur til að höfða mál hefjist á þeim degi sem hlutaðeigandi stjórnvöld í því ríki er krefst skila fengu vitneskju um hvar menningarverðmætin eru niður komin og hver er núverandi eigandi eða vörslumaður þeirra hér á landi. Markmiðið með breytingunum er að greiða fyrir skilum og vinna gegn ólöglegum brottflutningi á þjóðarverðmætum.

Um 3. gr.

    Tímamörkum vegna skila á minjum sem hafa verið fluttar ólöglega hingað til lands er breytt úr 1. janúar 1995 í 1. janúar 1993 í samræmi við markmið frumvarpsins um að rýmka gildissvið laganna og í samræmi við upphaflegt ártal upprunalegu tilskipunarinnar sem var 93/7/EBE.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.