Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 687  —  312. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins og greiðslur af verðtryggðum lánum.


     1.      Hvernig gegnir Fjármálaeftirlitið eftirlitshlutverki sínu skv. 19. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þar á meðal eftirliti með því að útreikningar á greiðslum af verðtryggðum lánum samræmist lögboðnum viðmiðum?
    Um þetta eftirlit Fjármálaeftirlitsins, skv. 19. gr. laga um vexti og verðtryggingu, fer samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Á grundvelli þeirra laga getur Fjármálaeftirlitið óskað eftir öllum upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum um vexti og verðtryggingu láns- og sparifjár og gert sérstakar athuganir, þ.m.t. vettvangsathuganir, ef tilefni er til, auk þess sem stofnunin sinnir leiðbeiningarskyldu og fylgir eftir ábendingum sem stofnuninni berast.
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hefur eftirlit Fjármálaeftirlitsins fyrst og fremst verið fólgið í því að svara fyrirspurnum sem stofnuninni berast í tengslum við vexti og verðtryggingu, sem og að fylgja eftir ábendingum, í samræmi við verklagsreglur þar um sem birtar eru á vefsvæði eftirlitsins.
    Þá hefur stofnunin fylgst náið með dómum sem lúta að ágreiningi um vexti og verðtryggingu þar sem eftirlitsskyldir aðilar eiga í hlut, kannað fordæmisgildi þeirra og eftir atvikum fylgt því eftir að brugðist sé við með viðeigandi hætti.

     2.      Hvernig ber að lögum að reikna út greiðslur af verðtryggðu jafngreiðsluláni? Hvaða reikniformúlur hafa af hálfu stjórnvalda verið gefnar út í þessu efni eða lýsingar á útreikningi sem jafna mætti til þeirra?
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að stjórnvöld hafi gefið út sérstakar reikniformúlur til að reikna út greiðslur af verðtryggðum jafngreiðslulánum en lánveitendum ber samkvæmt lögum að veita fjölbreyttar upplýsingar til lántakenda og ber þar helst að nefna:
          Í reglugerðum settum með stoð í lögum um neytendalán, nr. 33/2013, og fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, er fjallað um staðlaða framsetningu upplýsinga til neytenda um lán sem þeim eru boðin og hvernig reikna skuli út árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.m.t. í þeim tilvikum sem lán eru verðtryggð.
          Rétt er að taka fram að lánveitendum ber ekki eingöngu að veita upplýsingar á stöðluðu formi, í tilviki lána til neytenda, heldur ber þeim einnig að upplýsa um helstu einkenni lánanna, þ.m.t. um endurgreiðslutilhögun.
          Á grundvelli 16. gr. fasteignalánalaganna ber lánveitendum að útskýra fyrir neytanda þá samninga um fasteignalán eða viðbótarþjónustu sem boðnir eru þannig að neytandi geti tekið afstöðu til þess hvort þeir séu sniðnir að þörfum hans og fjárhagsstöðu. Ef fasteignalán felur í sér breytilegar forsendur skal lánveitandi útskýra sérstaklega fyrir neytanda hvaða áhrif breytingar á vöxtum, verðlagi eða gengi hafa á fjárhæð reglulegra endurgreiðslna, fjárhæð sem neytandi skal greiða, heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Ef um er að ræða verðtryggt lán skal útskýra fyrir lántakanda að vextir lánsins eru raunvextir og árleg hlutfallstala kostnaðar reiknast einnig á raunvirði, þ.e. miðað við óbreytt verðlag. Jafnframt skal veita neytanda upplýsingar um sögulega þróun verðlags svo að honum verði ljóst að krónutala greiðslna samkvæmt samningnum ræðst ekki aðeins af upphaflegri fjárhæð og vöxtum heldur einnig af þróun verðvísitölunnar. Þá skal honum bent á að söguleg þróun verðlags er ekki vísbending um framtíðarþróun þess og gefur aðeins dæmi um óvissu um nafnvirði fjárhæða.
          Á grundvelli 2. mgr. 14. gr. fasteignalánalaganna hefur Neytendastofa birt opinberlega á vef sínum almennar upplýsingar og dæmi um mismunandi lánstegundir og endurgreiðsluskilmála, þ.m.t. það sem aðgreinir jafngreiðslulán og jafnafborganalán og hvernig annars vegar vaxtabreytingar og hins vegar verðbætur hafa áhrif á mánaðarlega greiðslubyrði lána auk þess sem farið er yfir hvaða áhrif verðbætur hafa á höfuðstól verðtryggðra lána.
          Þá hefur Seðlabanki Íslands gefið út reglur nr. 492/2001, um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, með síðari breytingum, sem kveða með nánari hætti á um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.