Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 690  —  480. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024.


Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



    Alþingi ályktar, sbr. lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlunar í byggðamálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG VIÐFANGSEFNI

    Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög, sem geti annast staðbundin verkefni og veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Nýjasta tækni tengi byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.
    Landið allt verði í blómlegri byggð þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með jöfnu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu. Grunnþjónusta verði veitt íbúum sem mest í nærsamfélagi. Á höfuðborgarsvæðinu verði miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu sem allir landsmenn hafi gott aðgengi að.
    Byggðamál verði samþætt við aðra málaflokka eftir því sem við á. Þá verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera.
    Helstu viðfangsefni byggðaáætlunar verði að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tæknibreytingar og þróun og aðlögun er varðar einstakar atvinnugreinar, aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga, að tryggja greiðar samgöngur og aðgengi að þjónustu og bregðast við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki. Lögð verði sérstök áhersla á svæði sem standa höllum fæti í þessu samhengi.

II. MARKMIÐ, ÁHERSLUR OG MÆLIKVARÐAR

    Markmið stjórnvalda eru að:
     a.      jafna aðgengi að þjónustu,
     b.      jafna tækifæri til atvinnu og
     c.      stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.
    Eftirfarandi áherslur leiði til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð.

A. Aðgengi að þjónustu.
     a.      Öll heimili og vinnustaðir eigi kost á tengingu við ljósleiðara eða háhraðanet árið 2020.
     b.      Stuðlað verði að því að verslun á dreifbýlum svæðum, fjarri stórum þjónustukjörnum, verði við haldið. Jafnframt verði skoðað hvernig netþjónusta geti nýst sem verslunarmáti.
     c.      Aðgengi landsmanna að grunnþjónustu verði jafnað og kostnaður við að sækja afþreyingu til höfuðborgarinnar verði lækkaður.
     d.      Net almenningssamgangna á landinu öllu verði skilgreint og reglur mótaðar um niðurgreiðslu fargjalda.
     e.      Hvatt verði til notkunar fjölbreyttra, sjálfbærra samgöngumáta, svo sem göngu og hjólreiða.
     f.      Orkukostnaður heimila verði jafnaður, starf eflt við uppsetningu á varmadælum og hugað að nýtingu lífræns úrgangs til orkuvinnslu.
     g.      Áfram verði unnið að þróun dreifnáms á framhaldsskólastigi.
     h.      Grunngerð fræðsluneta og símenntunarstöðva verði efld með það að markmiði að bæta tæknilegan útbúnað stöðvanna, aðstöðu til fjarnáms og aðgengi að námsráðgjöf og að auka getu stöðvanna til að mæta þörfum nemenda fyrir þjónustu.
     i.      Tekið verði tillit til ólíkrar stöðu einstakra aðila sem koma að framhaldsfræðslu á landsbyggðinni, m.a. hvað varðar grunngerð stöðvanna og nauðsyn dreifðrar þjónustu.
     j.      Börn og ungmenni fái aðgang að menningu og listum óháð búsetu og efnahag, svo sem með auknu framboði á vönduðum og fjölbreyttum listviðburðum.
     k.      Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra verði hvött til að skoða möguleikana á því að styrkja rekstur safna, setra og sýninga með sameiningu eða samrekstri.
     l.      Heilbrigðis- og velferðaráætlanir fái þinglega meðferð sem opinberar áætlanir. Grunnþjónusta heilbrigðis- og velferðarþjónustu verði skilgreind sem og hvernig réttur landsmanna til hennar verði tryggður óháð búsetu. Heilbrigðisáætlanir lýsi glögglega fyrirhuguðum starfsháttum og samstarfi heilbrigðisstofnana.
     m.      Mótuð verði stefna um opinbera þjónustu með það að markmiði að íbúar landsins, óháð búsetu, njóti sama aðgengis að grunnþjónustu.
     n.      Öruggir sjúkraflutningar um land allt verði tryggðir.
    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     i.      Hlutfall heimila/fyrirtækja í dreifbýli með aðgang að ljósleiðaratengingu.
     ii.      Hlutfall þeirra sem eru í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, grunnskóla og dagvöruverslun.

B. Tækifæri til atvinnu.
     a.      Fjármunir verði tryggðir til framkvæmda á tillögum í samgönguáætlun, einkum hvað varðar innanhéraðsvegi, tvíbreiðar brýr og öruggar samgöngur á grundvelli vinnu- og þjónustusóknarsvæða og stækkunar þeirra.
     b.      Flutnings- og dreifikerfi raforku mæti þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu hvað varðar flutningsgetu og öryggi við afhendingu og kostir smávirkjana verði kannaðir.
     c.      Stuðlað verði að notkun á vistvænni orku í stað jarðefnaeldsneytis.
     d.      Tryggðir verði fjármunir til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða með gjaldtöku og breyttri skiptingu á skatttekjum þannig að hlutur sveitarfélaga verði meiri.
     e.      Tryggður verði byggðalegur árangur af úthlutun byggðakvóta.
     f.      Bændum verði auðvelduð kynslóðaskipti í landbúnaði og að bregðast við kröfum um bættan aðbúnað bústofns með lánum á viðráðanlegum kjörum.
     g.      Veitt verði betra aðgengi að fjármagni til nýsköpunar.
     h.      Aðstöðumunur á millilandaflugvöllum verði jafnaður.
     i.      Opinberum aðilum verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar.
     j.      Metnir verði kostir þess að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins.
     k.      Stuðlað verði að aukinni fullvinnslu afurða í héraði.
     l.      Áfram verði unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg á Íslandi.
     m.      Ríki og sveitarfélög vinni að því að auka möguleika listamanna til búsetu um allt land og skapi skilyrði til atvinnustarfsemi á sviði lista á öllu landinu.
     n.      Unnin verði stefnumótun og skilgreining á hlutverkum menningarmiðstöðva og sambærilegum stofnunum á landsvísu líkt og gert er í nágrannalöndunum.
     o.      Gætt verði að misræmi milli þarfa atvinnulífs og framboðs háskólamenntaðra, eða svokölluðu færnimisræmi.
    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     i.      Atvinnuþátttaka og meðalatvinnutekjur á atvinnugreinasvæðum.
     ii.      Fjöldi starfa í ráðuneytum og stofnunum skilgreindur „án staðsetningar“.

C. Sjálfbær þróun byggða um land allt.
     a.      Mótuð verði höfuðborgarstefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkur fyrir byggðaþróun í landinu og stöðu hennar á landsvísu og gagnvart erlendum borgum.
     b.      Verkefninu „Brothættar byggðir“ verði haldið áfram.
     c.      Lögð verði til breyting á lögum um almennar íbúðir sem geri ríki og sveitarfélögum mögulegt að veita einstaklingum stofnstyrki til að byggja íbúðarhúsnæði á svæðum þar sem misgengi byggingarkostnaðar og söluverðs er mikið.
     d.      Skoðaðir verða kostir þess að nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum.
     e.      Þjónusta við innflytjendur verði aukin og skilyrði þeirra til aðlögunar bætt vegna mikillar fyrirsjáanlegrar fjölgunar þeirra á næstu árum.
     f.      Stutt verði við nýsköpun og tækniþróun í velferðarþjónustu um land allt.
     g.      Starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins verði efld.
     h.      Háskólar leggi áherslu á fjölbreytt framboð námsleiða í fjarnámi. Háskólar efli enn frekar samstarf sitt um sameiginlegar prófgráður svo að nemendum gefist fleiri tækifæri til að setja saman nám sitt að eigin vali.
     i.      Unnið verði nánar úr samanburðarhæfum rannsóknum á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna fyrir alla landshluta.
     j.      Tryggt verði að íþróttafélög sem hafa um lengstan veg að fara hafi mest vægi við úthlutun ferðastyrkja til íþrótta.
     k.      Íþróttaiðkun verði efld þannig að allir hafi jafna möguleika til að taka þátt í viðurkenndum mótum.
     l.      Aðferðafræði vegna sóknaráætlana verði þróuð áfram og byggð á virku samráði og samvinnu sveitarfélaga og samvinnu þeirra og ríkisins í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     m.      Sveitarfélög á hverju svæði sóknaráætlana verði hvött til samstarfs um gerð svæðisskipulags til að marka sameiginlega stefnu um málefni sem varða sameiginlega hagsmuni innan landshlutans. Sveitarfélögin eru jafnframt hvött til að skilgreina meginkjarna í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra. Í stefnumörkun fyrir eða innan landshluta verði fjallað um loftslagsbreytingar, möguleg áhrif þeirra, aðlögun og mótvægisaðgerðir, t.d. í svæðisskipulagi, þar sem meðal annars verði horft til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda tengdri atvinnugreinum í héraði og breyttrar landnotkunar, svo sem með endurheimt votlendis eða annarra vistkerfa og bindingu í jarðvegi og gróðri eða með aðgerðum til vitundarvakningar meðal íbúa og gesta.
     n.      Unnar verði upplýsingar um þróun borgarsvæða á landinu, samanburðarhæfar við upplýsingar um erlend borgarsvæði, til grundvallar fyrir stefnumótun fyrir höfuðborgarsvæðið og aðra landshluta.
     o.      Fræðilegar rannsóknir á sviði byggðamála verði efldar til grundvallar allri stefnumótun.
     p.      Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði byggðamála sé virk, svo sem á vettvangi NORA, Nordregio, norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins og ESPON.
     q.      Matvælaframleiðslu verði viðhaldið sem víðast um landið.
    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     i.      Framfærsluhlutfall.
     ii.      Lýðfræðilegir veikleikar.

III. SAMÞÆTTING VIÐ AÐRAR STEFNUR OG ÁÆTLANIR

    Alþingi ályktar að náið samráð milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs og borgarasamfélags sé mikilvægt við framkvæmd byggðastefnu. Með því móti verði tryggð samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Meðal aðgerða sem horft verði til í því sambandi eru eftirfarandi:
     a.      Regluleg umræða fari fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar um stöðu og framkvæmd byggðaáætlunar og tækifæri til samþættingar.
     b.      Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál verði efldur.
     c.      Tryggð verði fagleg aðkoma Byggðastofnunar að framkvæmd og eftirfylgni byggðaáætlunar.
     d.      Þjónustukort sýni aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu og útbúið verði mælaborð sem varpi ljósi á stöðu og framvindu byggðamála.
     e.      Samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga sé virkt.
     f.      Tryggð verði regluleg skýrslugjöf til Alþingis.
     g.      Fram fari kerfisbundin miðlun upplýsinga, rannsóknir, fræðsla og alþjóðlegur samanburður.
    Við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs.

IV. AÐGERÐAÁÆTLUN

    Alþingi ályktar að unnið skuli í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða byggðaáætlunar:

A. Aðgengi að þjónustu.
A.1. Ísland ljóstengt.
     Verkefnismarkmið: Að öll lögheimili og fyrirtæki með heilsársbúsetu eða starfsemi í dreifbýli eigi kost á ljósleiðaratengingu.
    Veittir verði byggðastyrkir til tiltekinna strjálbýlla sveitarfélaga og þeim gert hægara um vik við lagningu ljósleiðarakerfa. Byggðarlög sem búa við veikan fjárhag, mjög dreifða byggð, neikvæða byggðaþróun og lágt hlutfall háhraðanettenginga njóti forgangs. Við lok verkefnis árið 2020 eigi 99,9% lögheimila/fyrirtækja með heilsársbúsetu/starfsemi í dreifbýli kost á minnst 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Sveitarfélögin.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjarskiptasjóður.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 300 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.2. Þjónustukort.
     Verkefnismarkmið: Að fá trausta sýn á aðgengi landsmanna að þjónustu.
    Unnið verði þjónustukort sem sýni með myndrænum hætti aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Við lok verkefnis liggi fyrir gagnagrunnur og myndræn framsetning sem hægt verði að nýta til frekari stefnumörkunar og mótunar aðgerðaáætlunar í byggðamálum.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: 20 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.3. Efling rannsókna og vísindastarfsemi.
     Verkefnismarkmið: Að auka rannsóknavirkni, vísindastarfsemi og nýsköpun á landsbyggðinni.
    Efla skal grunngerð og afl þekkingar- og rannsóknasetra sem byggjast á svæðisbundinni sérstöðu samfélags, atvinnulífs og/eða náttúru. Stuðlað verði að faglegum tengslum þeirra á milli og við háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki. Með enn frekara samstarfi verði mannauður og aðstaða nýtt betur og aðgengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru landsins stóraukið. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda samstarfssamninga, fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi sem nýti starfsaðstöðu og umhverfi setranna og þátttöku í rannsóknaverkefnum.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, rannsóknastofnanir, þekkingar- og rannsóknasetur, Þjóðminjasafnið og bókasöfn.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

A.4. Þverfagleg landshlutateymi.
     Verkefnismarkmið: Að styrkja og auka heildstæða þjónustu á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála.
    Ráðist verði í tilraunaverkefni sem miði að því að koma á fót þverfaglegum landshlutateymum sem sinni samhæfingu, ráðgjöf, gæðamálum og fleiru á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála. Um gæti verið að ræða miðstöðvar sem verði hluti af heildstæðri þjónustukeðju sveitarfélaga og ríkis á umræddum sviðum. Þar gæti t.d. byggst upp kunnátta til að veita starfsfólki sveitarfélaga og foreldrum sérhæfða stað- og fjarbundna ráðgjöf sem miði m.a. að því að fyrr megi beita snemmtæku og fyrirbyggjandi inngripi. Þá verði hægt að vinna að verkefnum sem miði að því að styðja notendur í dreifðum byggðum til sjálfshjálpar þar sem ekki er auðveldur aðgangur að sérfræðingum. Þetta verði gert með þróun nýrra tæknilausna sem geri þeim mögulegt að eiga samskipti við starfsmenn félagsþjónustu á sviði barnaverndar, þjónustu við fatlað fólk og aldraða auk innflytjenda. Stefnt verði að því koma á fót a.m.k. tveimur landshlutateymum á þessum forsendum.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Ýmsir.
     Dæmi um samstarfsaðila: Stofnanir á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 60 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.5. Fjarheilbrigðisþjónusta.
     Verkefnismarkmið: Að bæta heilbrigðisþjónustu með því að nýta nýjustu tækni og fjarskipti við framkvæmd þjónustu.
    Með innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu verði leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og talmeinafræðingum. Jafnframt verði rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi og með þeim hætti verði teymisvinna auðvelduð innan heilbrigðisþjónustunnar. Árangur af verkefninu verði t.d. mældur með fjölda þeirra sem nýta sér sérfræðiþjónustu í gegnum netið.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisstofnanir um land allt, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 140 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.6. Héraðslækningar.
     Verkefnismarkmið: Að fjölga heilsugæslulæknum á landsbyggðinni með því að koma á tveggja ára námi sem býr heilsugæslulækna undir starf í dreifbýli.
    Unnið verði að frekari kortlagningu, greiningu og þróun náms sem býr heilsugæslulækna undir starf í dreifbýli. Ráðinn verði kennslustjóri og skipuð kennslunefnd. Stefnt verði að því að bjóða upp á námið eigi síðar en 2020.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins, vinnuhópur Félags íslenskra heimilislækna um gerð marklýsingar, mats- og hæfisnefnd um starfsnám til að öðlast almennt lækningaleyfi og um sérnám í læknisfræði og Háskólinn á Akureyri.
     Tímabil: 2019–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 2,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.7. Fæðingarþjónusta og mæðravernd.
     Verkefnismarkmið: Að tryggja aðgengi að þjónustu vegna meðgöngu og fæðingar.
    Aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu vegna meðgöngu og fæðingar verði skilgreint fyrir hvern landshluta auk þess sem öryggisþjónusta verði tryggð. Settar verði reglur um styrki til greiðslu ferðakostnaðar til foreldra sem bíða fæðingar barns fjarri heimabyggð.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landspítali.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sjúkrahúsið á Akureyri og aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: Velferðarráðuneyti.

A.8. Jöfnun flutningskostnaðar vegna verslunar.
     Verkefnismarkmið: Að skjóta styrkari stoðum undir verslun í dreifbýli og minna þéttbýli.
    Skipaður verði starfshópur til þess að gera tillögu að endurgreiðslu á kostnaði verslana við flutning aðfanga. Tillögurnar miði að því að verslanir sem eru í a.m.k. 150 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, 75 km akstursfjarlægð frá Akureyri og 40 km akstursfjarlægð frá byggðakjörnum með yfir 1.000 íbúa, auk Grímseyjar og Hríseyjar, eigi kost á endurgreiðslu á hluta flutningskostnaðar endursöluvara. Starfshópurinn skili tillögum eigi síðar en 1. desember 2018.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
    Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög og atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

A.9. Verslun í strjálbýli.
     Verkefnismarkmið: Að styðja verslun í strjálbýli.
    Verslunarrekendum á tilteknum stöðum í strjálbýli verði boðið upp á sérhæfða ráðgjöf til að bæta rekstur verslana sinna og skjóta frekari stoðum undir hann, m.a. með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu. Leitað verði fyrirmyndar í svokallað Merkur-verkefni í Noregi þar sem er víða boðið upp á aðra þjónustu, svo sem póstafgreiðslu, kaffihorn, sölu lottómiða, þjónustu við ferðafólk, upplýsingamiðstöð o.s.frv. Jafnframt verði stuðst við fyrirmynd í rekstri Blábankans á Þingeyri.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög og atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 55 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.10. Almenningssamgöngur um land allt.
     Verkefnismarkmið: Að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna um land allt.
    Stutt verði við leiðir sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna út frá byggðalegum sjónarmiðum. Hugað verði að nýtingu vistvænna orkugjafa. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur með fjölda þeirra sem nota almenningssamgöngur.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga og Vegagerðin.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög og ferðaþjónustufyrirtæki.
     Tímabil: 2019–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 107,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.11. Flug sem almenningssamgöngur.
     Verkefnismarkmið: Að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
    Innanlandsflug verði skilgreint sem hluti almenningssamgangnakerfisins. Starfshópur móti reglur sem geri innanlandsflug að raunhæfum valkosti fyrir íbúa með lögheimili á tilteknum svæðum. Styrkur verði veittur einstaklingum en ekki fyrirtækjum eða stofnunum, m.a. mætti hafa hina svokölluðu „skosku leið“ til hliðsjónar. Stefnt skal að því að vinnu starfshóps verði lokið fyrir árslok 2018 og niðurgreiðslur hefjist árið 2019.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Vegagerðin, landshlutasamtök sveitarfélaga, stéttarfélög og flugrekendur.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

A.12. Akstursþjónusta í dreifbýli.
     Verkefnismarkmið: Að auka aðgengi að skipulagðri akstursþjónustu í dreifbýli.
    Unnið verði að gerð tillagna um stuðning við skipulagða akstursþjónustu í dreifbýli, sem einkum mæti þörfum fatlaðs fólks og annarra sem búa við aðstöðumun gagnvart almenningssamgöngum. Horft verði til núverandi fyrirkomulags á miðlægum stuðningi við skólaakstur úr dreifbýli.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneyti og sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

A.13. Nærþjónusta við innflytjendur.
     Verkefnismarkmið: Að auðvelda aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu.
    Undirbúa skal fræðslu og þjálfun sem efli starfsfólk ríkis og sveitarfélaga til að veita sérfræðiaðstoð og stuðning í málefnum innflytjenda. Hugað verði sérstaklega að nýjum innflytjendum að því er varðar upplýsingagjöf um þjónustu og íslenskukennslu í heimabyggð. Fjölmenningarsetur fái það hlutverk á grundvelli fjárframlags að veita sérfræðiaðstoð og stuðning til sveitarfélaga. Gerð verði tilraun með þekkingarbókhald hjá sveitarfélögum með fleiri en 1.000 íbúa þar sem menntun og færni hvers og eins verði kortlögð og greind með tilliti til framtíðarstarfa í sveitarfélaginu. Byrjað verði með tilraunaverkefni hjá fimm sveitarfélögum.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Fjölmenningarsetrið og símenntunarstöðvar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og Vinnumálastofnun.
     Tímabil: 2018–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 20 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.14. Jöfnun orkukostnaðar.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli, bæði hvað varðar dreifingu á raforku og húshitunarkostnað.
    Unnið verði að því að jafna mun á orkukostnaði, t.d. hvað varðar húshitunarkostnað, sem er mun hærri á þeim stöðum sem ekki búa við möguleika á hitaveitu með jarðvarma.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkustofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

A.15. Uppbygging innviða fyrir endurnýjanlega orku á landi og í höfnum.
     Verkefnismarkmið: Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlutfall vistvænna orkugjafa.
    Haldið verði áfram uppbyggingu innviða fyrir vistvænar bifreiðar, t.d. hleðslustöðvar, og innviðir fyrir rafvæðingu hafna styrktir, þ.m.t. aðgengi að raforkutengingum í höfnum. Árangur verkefnisins verði mældur í fjölda innviða og aukinni notkun vistvænna orkugjafa.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkusjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, Orkusetur, Íslensk nýorka, Græna orkan, Hafnasamband Íslands, Hafið og Landsnet.
     Tímabil: 2019–2021 (fyrra tímabil var 2016–2018).
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

A.16. Hagnýting upplýsingatækni til háskólanáms.
     Verkefnismarkmið: Að bæta aðgengi að námi á háskólastigi.
    Aukin áhersla verði lögð á fjölbreytt námsframboð háskóla í fjarnámi, m.a. með auknu samstarfi háskóla um sameiginlegar prófgráður. Efla skal grunngerð fræðsluaðila með það að markmiði að bæta tæknilegan útbúnað þeirra, aðstöðu fyrir nemendur, námsráðgjöf og fleira. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur í fjölda háskólanema í stað- og fjarkennslu, námsframboði háskóla í fjarnámi og hækkuðu menntunarstigi.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Háskólar og fræðsluaðilar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Þekkingarsetur, háskólafélög, þekkingarnet, símenntunarstöðvar, fræðslunet, framhaldsskólar og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

A.17. Svæðisbundin flutningsjöfnun.
     Verkefnismarkmið: Að endurskoða lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011.
    Skoðaðir verða möguleikar til breytinga á styrkjum til framleiðslufyrirtækja, svo sem svigrúm til hækkunar á hlutfalli styrks vegna ástands vega, stytting á lágmarksvegalengd og það að bæta við atvinnugreinum. Stefnt verði að því að breyting á lögum verði samþykkt á Alþingi fyrir árslok 2018.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

A.18. Skilgreining opinberrar þjónustu og jöfnun aðgengis.
     Verkefnismarkmið: Að íbúar landsins, óháð búsetu, hafi jafnt aðgengi að opinberri grunnþjónustu með bættum aðstæðum og tæknilausnum.
    Skilgreindur verði réttur fólks til opinberrar grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntunar, samgangna og fjarskipta. Þegar skilgreining liggur fyrir verði unnar tillögur um tæknilega framkvæmd og jöfnun kostnaðar við að sækja einstaka þætti þjónustu á vegum ríkisins og gerðar tillögur um það í langtímaáætlun eigi síðar en árið 2021.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 3 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.19. Aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu.
     Verkefnismarkmið: Að styðja við stefnu og aðgerðaáætlun velferðarráðuneytisins í geðheilbrigðismálum.
    Komið verði á laggirnar geðheilsuteymum í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki þegar starfandi og áhersla lögð á sálfræðiþjónustu við börn og ungmenni. Sérstaklega verði hugað að því að nemar í framhaldsskólum hafi aðgang að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Einnig verði hugað vel að geðheilsu og vellíðan aldraðs fólks, m.a. í ljósi vísbendinga um vaxandi einangrun og einmanaleika meðal þeirra. Þá verði geðheilbrigðisþjónusta við aðra hópa efld, t.d. fanga, fólk með þroskahömlun og fólk með áfengis- og vímuvanda. Stefnt verði að því að geðheilsuteymi hafi tekið til starfa í öllum landshlutum í lok árs 2019.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir um land allt.
     Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisstofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og notendasamtök.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármagni: 5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.20. Aðgangur að þjónustu sérfræðilækna.
     Verkefnismarkmið: Að jafna aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu.
    Stefnt verði að því að þjónusta sérfræðilækna á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins verði í auknum mæli veitt af sérfræðingum starfandi á heilbrigðisstofnunum, með samningum við sérhæfðu sjúkrahúsin.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Heilbrigðisstofnanir ásamt sérhæfðu sjúkrahúsunum.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sjúkratryggingar Íslands, samtök sérfræðilækna.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármagni: 5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B. Tækifæri til atvinnu.
B.1. Þrífösun rafmagns.
     Verkefnismarkmið: Að dreifikerfi rafmagns mæti þörfum heimila og fyrirtækja, með sérstakri áherslu á dreifingu raforku og afhendingaröryggi raforku í dreifbýli.
    Skoðað verði að veita styrki úr Orkusjóði til að greiða hluta af flýtigjaldi sem RARIK tekur fyrir að færa framkvæmdir framar í röðina. Jafnframt verði kannað að veita beina styrki til sveitarfélaga og skoða samlegðaráhrif með lagningu ljósleiðarakerfa.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkusjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, RARIK, Orkubú Vestfjarða og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 400 millj. kr. úr byggðaáætlun.
    
B.2. Flutningskerfi raforku og aukið orkuöryggi.
     Verkefnismarkmið: Að auka orkuöryggi og efla flutningskerfi raforku.
    Áfram verði unnið að því að liðka fyrir nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi um land allt til að mæta þörfum almennings og atvinnulífs.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, Landsnet og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 60 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.3. Stuðningur við byggingu smávirkjana.
     Verkefnismarkmið: Að kanna og styðja við möguleika á aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni með smávirkjunum og efla þar með orkuöryggi á landsvísu.
    Orkustofnun og sveitarfélög kanni möguleika á staðbundnum lausnum í orkumálum með því að kortleggja mögulega smærri virkjunarkosti á landsbyggðinni (allt að 10 MW). Ráðist verði í uppfærslu á gagnagrunni Orkustofnunar um smærri vatnsaflsvirkjanir og samvinnu við Veðurstofuna um rennslislíkan. Verkefnið feli einnig í sér forhönnun virkjunarkosta og fræðsluátak. Verkefnið verði ekki bundið við vatnsaflsvirkjanir.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkustofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

B.4. Hagstæð lán fyrir landbúnað.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að nýliðun, nýsköpun og nýfjárfestingum í landbúnaði um land allt.
    Tryggt verði aðgengi að hagstæðum langtímalánum sem stuðli að nýliðun og nýfjárfestingum í landbúnaði. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur í fjölda lána og upphæð lánveitinga.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Bændasamtök Íslands.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Byggðastofnun.

B.5. Nýsköpun í matvælaiðnaði.
     Verkefnismarkmið: Að efla nýsköpun og auka sóknarfæri í matvælaframleiðslu.
    Starfsemi rannsóknar- og þróunarsjóða á sviði matvælaframleiðslu verði tekin til endurskoðunar og kannaðir möguleikar á sameiningu þeirra. Komið verði á fót öflugum matvælasjóði á árinu 2019 sem styðji við nýsköpun og þróun í matvælaframleiðslu.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Framleiðnisjóður landbúnaðarins, AVS-rannsóknasjóður, Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

B.6. Frádráttur vegna aksturs til og frá vinnu.
     Verkefnismarkmið: Að auðvelda fólki utan höfuðborgarsvæðisins að sækja vinnu frá heimili.
    Þeir íbúar landsins sem búa á styrkjasvæði ESA-kortsins og sækja vinnu um langan veg fái hluta kostnaðar við ferðir til og frá vinnu endurgreiddan í gegnum skattkerfið eftir reglum sem samdar verði af starfshópi sem falið verði það verkefni. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur með fjölda þeirra sem njóta endurgreiðslu eftir svæðum.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Ríkisskattstjóri.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

B.7. Störf án staðsetningar.
     Verkefnismarkmið: Að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024, þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.
    Ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf sem geta verið án sérstakar staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Þegar slíkt starf er auglýst skal vakin athygli á að um starf án staðsetningar sé að ræða. Verði starfsmaður ráðinn sem býr utan daglegrar vinnusóknar frá viðkomandi ráðuneyti/stofnun þá leitist vinnuveitandi við að finna viðunandi starfsaðstöðu nærri heimili. Fyrir árslok 2019 skal hvert ráðuneyti hafa skilgreint hvaða störf verði hægt að vinna utan ráðuneytis. Fyrir árslok 2021 skulu 5% auglýstra starfa vera án staðsetningar og í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera án staðsetningar. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda starfa í einstökum ráðuneytum og stofnunum sem eru unnin utan veggja þeirra borið saman við 1. janúar 2018.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Ráðuneyti og stofnanir.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, sveitarfélög og stofnanir á landsbyggðinni.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

B.8. Fjarvinnslustöðvar.
     Verkefnismarkmið: Að koma opinberum gögnum á stafrænt form og fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.
    Komið verði á laggirnar starfsstöðvum á nánar tilgreindum svæðum sem fái það verkefni að koma opinberum gögnum stjórnvalda á stafrænt form. Ríkið styðji við þær stofnanir sem fara í slík átaksverkefni, t.d. með því að endurgreiða allt að 80% af kostnaði við hvert stöðugildi. Meðal stofnana sem geti nýtt sér þetta úrræði verði Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, sýslumenn, utanríkisráðuneytið og Þjóðminjasafn Íslands. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda fjarvinnslustöðva, fjölda stofnana sem nýta þjónustuna og fjölda stöðugilda.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, önnur ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 300 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.9. Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að fjölbreyttum störfum og atvinnulífi sem víðast um landið.
    Skoðað verði þegar ný starfsemi hefst á vegum ríkisins að starfseminni verði valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda starfa og starfsstöðva sem settar verða á laggirnar utan höfuðborgarsvæðisins.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Forsætisráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Forsætisráðuneyti.

B.10. Jöfnun á aðstöðumun á millilandaflugvöllum.
     Verkefnismarkmið: Að jafna aðstöðumun til þjónustu á millilandaflugvöllum landsins.
    Skipaður verði starfshópur til þess að vinna tillögu um verðjöfnun á flugvélaeldsneyti á millilandaflugvöllum landsins. Stefnt verði að því að hópurinn skili tillögum fyrir árslok 2018.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Olíufélögin, Isavia og Flugþróunarsjóður Íslands.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

B.11. Flughlið inn í landið.
     Verkefnismarkmið: Að ferðamenn dreifist betur um landið.
    Flugþróunarsjóður styðji við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og á Egilsstöðum. Árangur verði mældur í fjölgun ferðamanna sem koma með flugi/fjölda lendinga.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Flugþróunarsjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Isavia, landshlutasamtök sveitarfélaga og markaðsstofur.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Flugþróunarsjóður.

B.12. Ratsjáin.
     Verkefnismarkmið: Að efla ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni.
    Ratsjáin verði nýtt til að efla þekkingu og hæfni stjórnenda ferðaþjónustufyrirtækja með þjálfun og kennslu sem stuðlar að heilbrigðari rekstri, betri framlegð með bættri tæknigetu og aukinni hæfni í notkun stafrænna miðla. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda fyrirtækja sem taka þátt í verkefninu, fjölda vinnustofa og fjölda greininga á nýsköpunarhæfni fyrirtækja.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Íslenski ferðaklasinn og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Markaðsstofur landshluta.
     Tímabil: 2019–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 30 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.13. Stafrænt forskot á landsbyggðinni.
     Verkefnismarkmið: Að auka getu fyrirtækja á landsbyggðinni til að nýta stafræna tækni til vaxtar.
    Námsefni um hagnýtingu stafrænnar tækni, sem þegar hefur verið þróað, verði nýtt til þess að gera sérstakt átak meðal fyrirtækja á landsbyggðinni í því skyni að auka getu þeirra til að hagnýta netið í viðskiptum. Efnt verði til vinnustofa sem fylgt verði eftir með leiðsögn. Unnið verði út frá þörfum smærri fyrirtækja sem þurfa að auka markaðssókn og efla viðskiptatengsl. Samstarf verði við markaðsstofur, atvinnuráðgjöf landshluta og símenntunarmiðstöðvar um allt land til að ná til sem flestra. Árangur verði mældur í fjölda fyrirtækja sem taka þátt í verkefninu, fjölda vinnustofa og fjölda greininga á nýsköpunarhæfni fyrirtækja.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Íslenski ferðaklasinn, atvinnuráðgjöf landshluta, markaðsstofur og símenntunarmiðstöðvar.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 35 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.14. Fjármagn til nýsköpunar.
     Verkefnismarkmið: Að auka nýsköpun í atvinnulífi í dreifðum byggðum með sérstökum flokki útlána Byggðastofnunar sem hvetur til nýsköpunar í atvinnulífi og auðveldar frumkvöðlum að koma hugmyndum sínum og verkefnum af þróunarstigi í framkvæmd.
    Fyrirtæki fái aðstoð og greiningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands þar sem m.a. verði litið til nýsköpunarskala, að heildarfjármögnun verkefnis af þróunarstigi á tekjuöflunarstig sé tryggð og að verkefnið sé framkvæmanlegt. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda nýsköpunarverkefna á hverju ári.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Byggðastofnun.

B.15. Úthlutun byggðakvóta.
     Verkefnismarkmið: Að meta árangur af byggðakvóta.
    Byggðastofnun verði falið að framkvæma mat á byggðalegum árangri af úthlutun byggðakvóta og hvort breyta eigi því fyrirkomulagi sem verið hefur til að tryggja að byggðakvóti nái sem best þeim markmiðum sem að er stefnt. Matinu verði lokið fyrir árslok 2019.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fiskistofa, sveitarfélög og atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

B.16. Nýting menningarminja.
     Verkefnismarkmið: Að nýta menningarminjar til stuðnings byggðaþróun á svæðum sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti.
    Leitast verði við að fá heildarsýn yfir minjaarfinn til að greina nýtingarmöguleika og sóknartækifærin sem í honum felast. Menningarminjar (fornleifar, mannvirki og hús) verði kortlagðar á tilteknum svæðum og þau gögn notuð sem forsenda fyrir hönnun verkefna. Minjastofnun muni aðstoða byggðarlögin við að leita fjármagns fyrir þau verkefni sem sett verða í gang í kjölfarið, svo sem með því að benda á viðeigandi sjóði, styðja umsóknir og veita faglega ráðgjöf. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda kortlagninga og verkefna.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Minjastofnun Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, sveitarfélög, markaðsstofur, ferðaþjónustuaðilar og Þjóðminjasafn Íslands.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 16,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.17. Bújarðir í eigu ríkisins.
     Verkefnismarkmið: Að móta eigendastefnu fyrir bújarðir í eigu ríkisins.
    Gerð verði úttekt á nýtingu bújarða í eigu ríkisins. Að því loknu verði mótuð eigendastefna með það að markmiði að auðvelda fólki að hefja búskap og treysta innviði og búsetu í sveitum. Stefnt er að því að þingsályktunartillaga um eigendastefnu ríkisins verði lögð fram eigi síðar en 1. nóvember 2018.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bændasamtök Íslands, Samtök ungra bænda og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

B.18. Atvinnuþátttaka og tekjumunur eftir búsetu.
     Verkefnismarkmið: Að auka möguleika kvenna til atvinnuþátttöku á landsbyggðinni.
    Ráðist verði í að gera úttekt á stöðu og tækifærum kvenna og karla á vinnumarkaði í dreifbýli. Í úttektinni verði skoðað hvernig hægt sé að auka möguleika kvenna á atvinnu sem hæfir háu menntunarstigi þeirra. Einnig verði skoðað hvernig megi draga úr mun á atvinnutekjum karla og kvenna í dreifbýli og jafnvægi í búsetu eftir kyni þannig aukið, þ.e. dregið verði úr kynjahalla þar sem hann er til staðar. Stefnt verði að því að niðurstöður úttektar liggi fyrir í lok árs 2020.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Jafnréttisstofa.
     Dæmi um samstarfsaðila: Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, Háskóli Íslands og Hagstofa Íslands.
     Tímabil: 2019–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C. Sjálfbær þróun byggða um land allt.
C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.
     Verkefnismarkmið: Að færa heimamönnum aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun.
    Sérstök áhersla verði lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf með gerð viðaukasamninga við sóknaráætlanir viðkomandi landshluta um tiltekin verkefni eftir forgangsröðun heimamanna.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og stofnanir.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 870 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.2. Brothætt byggðarlög.
     Verkefnismarkmið: Að sporna við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum.
    Haldið verði áfram með verkefnið „Brothættar byggðir“ þar sem leitað er lausna á bráðum vanda á tilteknum svæðum vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undangengin ár. Árangur af verkefninu verði mældur með íbúaþróun í viðkomandi byggðum og öðrum mælikvörðum sem Byggðastofnun skilgreinir.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Íbúar viðkomandi byggðarlaga, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, ráðuneyti og stofnanir.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 700 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.3. Stuðningur við einstaklinga – námslán.
     Verkefnismarkmið: Að nýta námslánakerfið sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum.
    Verkefnisstjórn um endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna skoði kosti þess að búa til sérstaka hvata fyrir fólk, í gegnum námslánakerfið, til að setjast að í dreifðum byggðum. Með því sé stuðlað að aukinni sérfræðiþekkingu vítt og breitt um landið, framhaldsmenntuðu fólki muni fjölga í dreifðum byggðum og fjölbreytni aukast.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Lánasjóður íslenskra námsmanna, Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

C.4. Höfuðborgarstefna.
     Verkefnismarkmið: Að mótuð verði höfuðborgarstefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar allra landsmanna, réttindi og skyldur borgarinnar sem höfuðborgar Íslands og stuðli að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.
    Skipuð verði nefnd sem falið verði að vinna drög að höfuðborgarstefnu. Drög að þingsályktunartillögu um höfuðborgarstefnu verði send til umsagnar fyrir árslok 2018 og fullmótuð tillaga lögð fyrir Alþingi vorið 2019. Í kjölfarið verði undirritaðir samningar milli ríkisins og Reykjavíkurborgar.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Reykjavíkurborg.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Byggðastofnun og ýmsir haghafar
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: 7,3 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.5. Varmadæluvæðing á köldum svæðum.
     Verkefnismarkmið: Að draga úr raforkunotkun á köldum svæðum og auka orkuöryggi.
    Dregið verði úr raforkunotkun kyntra hitaveitna og orkuöryggi aukið með varmadæluvæðingu á köldum svæðum með því að styðja við uppsetningu varmadælna. Árangur af verkefninu verði mældur í lægri orkukostnaði á landsvísu og auknu orkuöryggi.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkusjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2023.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

C.6. Húsnæðismál.
     Verkefnismarkmið: Að fjölga íbúðum á svæðum þar sem eru sóknarfæri til þess að rjúfa stöðnun í atvinnumálum en skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar uppbyggingu.
    Íbúum byggðarlaga sem búa við misgengi í byggingarkostnaði og söluverði fasteigna verði gert kleift að bregðast við húsnæðiseklu með nýbyggingum, endurbótum eða breyttri notkun húsnæðis sem fyrir er. Notast verði við sérstök landsbyggðarverkefni Íbúðalánasjóðs í samvinnu við einstök sveitarfélög þar sem horft verði til styrkja eða niðurgreiðslu vaxta til byggingar á íbúðarhúsnæði í byggðum sem standa höllum fæti. Markaðsbrestur á mismunandi svæðum verði greindur, m.a. til að nýta megi sem best húsnæðisstuðning í formi viðbótarstofnframlaga.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Íbúðalánasjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: Íbúðalánasjóður.

C.7. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.
     Verkefnismarkmið: Að raunhæfar og markvissar húsnæðisáætlanir verði í gildi hjá öllum sveitarfélögum.
    Stuðlað verði að formlegum samstarfsvettvangi sveitarfélaga um gerð húsnæðisáætlana, t.d. á vettvangi landshlutasamtaka, þar sem framkvæmd verði sameiginleg þarfagreining, m.a. í tengslum við landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag og þá þætti í aðalskipulagi sem snúa að framboði og eftirspurn eftir hentugu íbúðarhúsnæði, einkum til leigu. Árangur af verkefninu komi fram í fjölda sveitarfélaga sem hefur samþykkta húsnæðisáætlun, hvort sem er sjálfstætt eða á sameiginlegum vettvangi.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Íbúðalánasjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 20 millj. kr. úr byggðaáætlun.
    
C.8. Efling fjölmiðlunar í héraði.
     Verkefnismarkmið: Að efla staðbundna fjölmiðla.
    Við athugun á möguleikum á að styrkja fjölmiðlun taki stjórnvöld til sérstakrar athugunar stöðu svæðisbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins enda gegni þeir stóru hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál og styðji með þeim hætti við lýðræðisþátttöku og menningarstarf.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjölmiðlanefnd og Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 25 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.9. Náttúruvernd og efling byggða.
     Verkefnismarkmið: Að náttúruvernd stuðli að eflingu byggða.
    Greind verði tækifæri og ávinningur í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu náttúruverndarsvæða, svo sem í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Hugað verði að því að verulegur ávinningur getur falist í friðlýsingu svæða og rekstri þeirra, svo sem með stofnun þjóðgarða eða jarðvanga. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda fyrirtækja í náttúrutengdri ferðaþjónustu innan landshluta.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Markaðsstofur, háskólar og atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 57 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.10. Fagmennska á sviði innviða á náttúruverndarsvæðum.
     Verkefnismarkmið: Að efla fagþekkingu þeirra sem vinna að uppbyggingu innviða í náttúrunni.
    Gæði uppbyggingar innviða verði aukin, dregið úr hættu á ónauðsynlegu raski og fjármagn nýtt betur með því að auka fagþekkingu á sviði hönnunar innviða í náttúrunni þannig að þeir falli sem best að landslagi og stuðli að jákvæðri upplifun gesta. Stutt verði við verkefni sem samræmast stefnu landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfisstofnun, Landgræðsla ríkisins, Skógræktin, Þjóðminjasafn Íslands, þjóðgarðar og háskólar.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 15 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.11. Fleiri konur í sveitarstjórnir.
     Verkefnismarkmið: Að fjölga konum í sveitarstjórnum.
    Konur verði hvattar til þátttöku í stjórnun nærsamfélagsins. Unnið verði markvisst að því að bæta kynjahlutfall í sveitarstjórnum. Farið verði í fræðslu- og auglýsingaherferð með góðum fyrirvara fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2022. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda kvenna í sveitarstjórnum.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Jafnréttisstofa.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, jafnréttisnefndir sveitarfélaga, Kvenréttindafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 11 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.12. Kynning og innleiðing áfangastaðaáætlana.
     Verkefnismarkmið: Að stýra uppbyggingu og þróun ferðamannastaða.
    Gert verði átak í að kynna og innleiða áfangastaðaáætlanir, sem verði heildstætt ferli þar sem litið verði til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Landshlutarnir vinni sameiginlega stefnulýsingu sem hafi það markmið að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn beri ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggist nýta við þá vinnu. Gerð áætlananna ljúki vorið 2018 og verði þær kynntar vel í landshlutunum og gerðar aðgengilegar fyrir haghafa. Þá verði unnið markvisst að því í samvinnu við sveitarfélög að áætlanirnar séu í samræmi við aðalskipulagsáætlanir og landsáætlun um uppbyggingu innviða.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Markaðsstofur landshluta.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, sveitarfélög, haghafar á svæðunum, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: 30 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.13. Opinberar upplýsingar á sviði byggðamála.
     Verkefnismarkmið: Að stefnumótun á sviði byggðamála og framkvæmd hennar byggist á traustum gögnum.
    Efnt verði til samstarfs opinberra stofnana, sérstaklega Hagstofu Íslands og háskóla, um að byggja upp tölfræðilegan gagnagrunn á sviði byggðamála þar sem upplýsingar um þætti á borð við íbúaþróun, atvinnuþátttöku, tekjur, menntun og afkomu atvinnugreina verði aðgengilegar og samhæfðar við alþjóðlega gagnagrunna. Upplýsingar um byggðaþróun og þróun borgarsvæða verði samanburðarhæfar við slíkar upplýsingar annars staðar á Norðurlöndum.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, stofnanir og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 140 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.14. Samstarf safna – ábyrgðarsöfn.
     Verkefnismarkmið: Að efla safnastarf í landshlutum.
    Landshlutasamtökum sveitarfélaga verði falið að gera fýsileikakönnun um aukið samstarf eða sameiningu safna á sínu svæði í samstarfi og samráði við höfuðsafn og viðurkennt safn með vísan til 13. gr. safnalaga, nr. 141/2011, auk safnaráðs. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda safna sem hefja samstarf eða sameinast.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Safnaráð, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 22,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.15. List fyrir alla.
     Verkefnismarkmið: Að öllum árgöngum grunnskóla verði gert kleift að njóta listverkefna Listar fyrir alla.
    List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengismun barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla verði lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda skóla sem taka þátt í verkefninu og fjölda árganga skólabarna sem býðst þátttaka.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: List fyrir alla.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, menningarfulltrúar og grunnskólar.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 32,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.16. Vaxtarsvæði.
     Verkefnismarkmið: Að gera ríki og sveitarfélög færari um að bregðast við þenslu á vaxtarsvæðum.
    Komið verði á fót samráðsteymum ráðuneyta, viðkomandi sveitarfélaga, Byggðastofnunar og eftir atvikum fleiri aðila fyrir þau svæði sem skilgreind eru sem vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins, svo sem Suðurnes, suðurfirði Vestfjarða og Árnessýslu. Verkefni teymanna verði að draga fram áskoranir sem svæðin standa frammi fyrir og leiða saman lykilaðila varðandi stefnumótun og aðgerðir fyrir svæðið til lengri og skemmri tíma.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, sveitarfélög og Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Greinargerð.

1. Lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015.
    Alþingi samþykkti lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, í júní 2015. Markmiðið með lagasetningunni skv. 1. gr. er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga, jafnframt því að færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar.
    Með lögunum var stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál komið á fót, sbr. 2. gr. laganna. Hann er skipaður fulltrúum allra ráðuneyta og fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en ráðherra byggðamála skipar stýrihópinn til þriggja ára. Hlutverk stýrihópsins er að efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þessum málaflokki.
    Um byggðaáætlun er fjallað í 2. mgr. 3. gr. laganna en hún skal lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Þar segir enn fremur:

     Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

    Byggðaáætlun hverju sinni nær til sjö ára og skal hún unnin í umboði ráðherra af Byggðastofnun í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Við gerð byggðaáætlunar skal haft samráð við ráðuneyti, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra haghafa eftir þörfum.
    Byggðaáætlun nær til alls landsins. Hafa ber í huga að reglur Eftirlitsstofnunar EFTA, nr. 170/14/COL, kveða á um hvaða svæðum á landinu er heimilt að veita byggðaaðstoð. Höfuðborgarsvæðið fellur utan þeirra skilgreininga.
    Í athugasemdum við lagafrumvarpið sem varð að lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta kemur fram að áður en sóknaráætlanaverkefninu var ýtt úr vör voru byggðamál einvörðungu á forræði ríkisins og höfuðborgarsvæðið stóð utan byggðamála. Hvoru tveggja sé ólíkt því sem tíðkist í nágrannalöndum þar sem mikilvægt þyki að heimamenn hafi sem mesta aðkomu að byggðamálum og litið sé á höfuðborgarsvæðið sem mikilvægan hlekk byggðaþróunar og samkeppnishæfni landsins. Samband íslenskra sveitarfélaga hafi um árabil barist fyrir breytingu á þessu þannig að sveitarfélög fái meira forræði á byggðamálum og bent á að höfuðborgarsvæðið þurfi að vera hluti af byggðastefnu ríkisins.
    Byggðaáætlun er mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld á hverjum tíma til að hafa áhrif á framgang og móta stefnu í byggðamálum fyrir landið í heild og einstök svæði. Þannig hefur byggðaáætlun verið unnin og samþykkt af Alþingi sem þingsályktun allt frá árinu 1994.
    Síðasta byggðaáætlun, 2014–2017, hafði að meginmarkmiði að skapa landsmönnum jöfn tækifæri til atvinnu og þjónustu og styðja sjálfbæra þróun byggðarlaga. Settar voru fram 43 aðgerðatillögur. Þegar meta á árangur byggðaáætlunar takmarkast árangursmat af því að áætluninni fylgja ekki mælikvarðar um árangur nema að mjög takmörkuðu leyti. Þá eru upplýsingar um fjármögnun einstakra aðgerða mjög takmarkaðar. Því er helsti mælikvarði hvort einstakar aðgerðir hafi komist í framkvæmd.
    Það er mat Byggðastofnunar að það sé ásættanlegt hve mörg verkefni og aðgerðir byggðaáætlunar 2014–2017 hafi komist í framkvæmd, en að það sé áhyggjuefni að jöfnunar- og stuðningsaðgerðir sem snúa að íbúum og að nokkru leyti að fyrirtækjum hafi ekki náð fram að ganga með skilvirkum hætti.
    Við mótun þeirrar tillögu sem hér er sett fram var leitast við að taka mið af þessari reynslu.

2. Stefna og meginmarkmið byggðaáætlunar 2018–2024.
    Reykjavík er höfuðborg Íslands, miðstöð opinberrar stjórnsýslu og þjónustu, menntunar- og menningarstarfsemi, atvinnuvega og samgangna. Hún hefur þróast ásamt aðliggjandi byggðum, höfuðborgarsvæðinu, í öflugasta menningar-, efnahags- og markaðssvæði á landinu. Höfuðborgarsvæðið hefur þannig mikla þýðingu fyrir alla landsmenn og byggðaþróun í landinu. Á höfuðborgarsvæðinu eru fjölbreyttari aðstæður á öllum sviðum en í öðrum byggðum landsins og skilyrði fyrir fólk sem annars mundi flytjast af landi brott. Hagur Íslendinga er mjög háður því að höfuðborgin standi sterkt í samkeppni við borgarsvæði erlendis um fólk, stofnanir og fyrirtæki.
    Þessi samþjöppun á höfuðborgarsvæðinu hefur aukið flutning fólks og fyrirtækja úr öðrum landshlutum og bætt jarðveg fyrir nýjungar á flestum sviðum. Um leið hafa forsendur breyst víða í byggðum utan höfuðborgarsvæðisins. Sú þróun hefur haldist í hendur við tækniþróun sem hefur leitt af sér fækkandi störf utan höfuðborgarsvæðisins, svo sem í landbúnaði og fiskveiðum, fjármálastarfsemi, heilbrigðisþjónustu, þjónustu fyrirtækja og verslun.
    Íslensk byggðastefna og byggðaáætlun byggjast á þeim meginmarkmiðum að jafna aðstöðumun og efla byggðaþróun. Stjórnvöld hafa unnið að þessum markmiðum með því að beita ýmsum áætlunum öðrum en byggðaáætlun og aðgerðum á sviðum sem eru mikilvæg fyrir þróun byggðar þótt þau tengist byggðaáætlun næsta lítið, svo sem samgöngum, grunnskólum og heilbrigðisþjónustu. Byggðamál eru miklu víðtækari en byggðaáætlun og fjárveitingar til byggðamála eru að sama skapi meiri en þeir fjármunir sem varið er til byggðaáætlunar. Með lögunum frá 2015 er kveðið á um að í byggðaáætlun skuli lýsa samhæfingu byggðastefnu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera og um samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra. Við mótun byggðaáætlunar nú var því lögð mikil áhersla á samráð.
    Viðfangsefni byggðaáætlunar 2018–2024 byggjast annars vegar á áherslum úr samráði sem lýst er hér á eftir og þróun síðustu ára á flestum sviðum samfélagsins, svo sem atvinnuháttum, efnahag, þjónustu, menningu og menntun, samgöngum, mannfjöldaþróun og samsetningu íbúafjöldans.

3. Íbúafjöldi og efnahagsþróun.
    Þróun mannfjöldans hefur verið mjög á þann veg að íbúum hefur fyrst og fremst fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni þess.

2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 Breyting í %
Höfuðborgarsvæði 200.907

202.341

203.594 205.675 208.752 211.282 213.619 216.878 7,9
Suðurnes 21.359 21.088 21.242 21.206 21.560 22.026 22.509 23.993 12,3
Vesturland 15.370 15.379 15.368 15.381 15.441 15.566 15.766 15.929 3,6
Vestfirðir 7.266 7.037 6.955 7.031 6.972 6.970 6.883 6.870 -5,5
Norðurland vestra 7.490 7.493 7.299 7.271 7.245 7.137 7.128 7.156 -4,5
Norðurland eystra 28.900 29.006 29.018 29.026 29.091 29.257 29.361 29.685 2,7
Austurland 10.373 10.187 10.213 10.268 10.357 10.346 10.281 10.310 -0,6
Suðurland 25.965 25.921 25.886 25.999 26.253 26.516 26.982 27.528 6,0

    Landsmönnum fjölgaði um 53.300 eða um 21% milli áranna 2000 og 2017 en 1. janúar 2017 voru landsmenn 338.349. Meginhluti þessarar aukningar var á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúum fjölgaði um 26% og á Suðurnesjum þar sem íbúum fjölgaði um 49%. Á Suðurlandi var fjölgunin 8%, á Vesturlandi 13%, á Austurlandi 8% og á Norðurlandi eystra 6% en á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra varð fækkun. Einu svæðin þar sem fólki fjölgaði hlutfallslega miðað við heildaraukningu eru höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin. Á Vestfjörðum var fækkunin hlutfallslega mest miðað við aukinn íbúafjölda á landinu eða um 35% og næstmest á Norðurlandi vestra, um 30%.
    Efnahagsþróun hefur mikil áhrif á mannfjöldaþróun á Íslandi. Fólksfjölgun varð öll árin frá 2000 til 2017 ef undan er skilið árið 2010. Miklir flutningar voru til landsins fyrir hrun og brottflutningur var úr landi fyrstu árin eftir hrun. Fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu frá landinu en til þess öll árin frá 2000 nema árið 2005. Frá árinu 2009 hefur dregið úr brottflutningi og frá árinu 2012 hefur aðflutningur erlendra ríkisborgara verið sívaxandi og voru þeir 5.432 fleiri en brottfluttir árið 2015. Íslenskum ríkisborgurum sem fluttu af landi brott fækkaði einnig á árunum 2009 til 2013 en eftir það fjölgaði brottfluttum umfram aðflutta og voru þeir 1.520 árið 2014 og 2.530 árið 2015.
    Aldurssamsetning hefur einnig breyst. Allir fimm ára aldursflokkar karla og kvenna, yngri en 50 ára, eru hlutfallslega fámennari árið 2017 en árið 2000. Fimm ára aldursflokkar, eldri en 50 ára, eru hins vegar hlutfallslega fjölmennari en þeir voru árið 2000. Flest bendir til að þessi þróun haldi áfram – að meðalaldur landsmanna haldi áfram að hækka. Þessi þróun getur haft mikil áhrif í einstökum byggðarlögum, t.d. gert rekstur skóla og öldrunarþjónustu erfiðan.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Atvinnutekjur eru misjafnar eftir landshlutum og hafa þróast misjafnlega. Þær hafa verið talsvert yfir landsmeðaltali á höfuðborgarsvæðinu og voru hæstar þar 2008 en höfðu lækkað nokkuð 2016. Það ár voru meðaltekjurnar hæstar á Austurlandi og höfðu hækkað mikið frá 2008.
    Bæði árin voru meðaltekjurnar lægstar á Norðurlandi vestra en höfðu þó hækkað mikið frá 2008. Raunar voru meðaltekjur á Suðurnesjum svipaðar og á Norðurlandi vestra 2016 og höfðu hækkað lítið frá 2008. Meðaltekjur 2008 voru neðan við landsmeðaltal í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu en 2016 náði Austurland upp fyrir það líka.
    Talsverðar breytingar eru á hagvexti í landshlutunum frá ári til árs. Á tímabilinu frá 2008 til 2015 var hagvöxtur minnstur á Vestfjörðum og neikvæður um -6%. Mestur var hann á Suðurnesjum, Norðurlandi eystra og Suðurlandi.
    Eins á við um hagvaxtartölur eftir landshlutum, atvinnutekjur og fólksfjöldaþróun. Mikill munur getur verið innan hvers landshluta. T.d. eru tölur óhagstæðari á austurhluta Norðurlands eystra en á vesturhlutanum og óhagstæðari á vesturhluta Norðurlands vestra en á austurhlutanum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í fylgiskjali gefur einnig að líta myndræna framsetningu á meðalatvinnutekjum og hagvexti.

4. Spá um mannfjölda.
    Hagstofa Íslands hefur framreiknað mannfjölda og birtir þrjár útgáfur: Lágspá, miðspá og háspá. Mismunur á þessum þremur útgáfum er í aðalatriðum að miðað er við lítils háttar mun á frjósemi en einkum mismunandi búferlaflutninga að gefnum mismunandi efnahagslegum þáttum. Samkvæmt spá Hagstofunnar er reiknað með að íbúafjöldi geti breyst á eftirfarandi hátt:

2017 2024 2030
Lágspá Alls 338.349 356.971 367.165
Miðspá Alls 338.349 381.492 400.015
Háspá Alls 338.349 397.502 423.843

    Hagstofa Íslands hefur ekki skipt íbúafjölda niður á svæði í sínum útreikningum. Byggðastofnun hefur framreiknað mannfjölda eftir svæðum til ársins 2030 og byggt á miðspá Hagstofu Íslands, sbr. eftirfarandi töflu:

2017 2024 2030
Höfuðborgarsvæðið 216.878 250.909 269.576
Suðurnes 23.993 27.307 28.598
Vesturland 15.929 17.038 16.850
Vestfirðir 6.870 6.443 5.542
Norðurland vestra 7.156 7.172 6.701
Norðurland eystra 29.685 31.597 31.516
Austurland 10.310 10.650 10.156
Suðurland 27.528 30.376 31.077
Samtals 338.349 381.492 400.015

    Spá Byggðastofnunar tekur mið af búferlaflutningum milli landshluta á árunum 1986 til 2015 með þeirri undantekningu að árunum 2004–2009 er sleppt vegna mikils fjölda erlendra starfsmanna sem þá unnu að framkvæmdum við álver og virkjun á Austurlandi og hurfu úr landi þegar framkvæmdum lauk.
    Fjölgun yrði á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Vesturlandi og Suðurlandi. Lítils háttar fjölgun yrði á Austurlandi og á Norðurlandi eystra en fækkun á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Aldurs- og kynjaskipting svæðanna er með ólíkum hætti og því er misjafnt hvernig náttúruleg fjölgun verður. Búferlaflutningar eru óvissuþáttur en búseta mun áfram beinast að svæðum sem eru efnahagslega og félagslega sterk.
    Síðustu áratugi hefur íbúum með erlent ríkisfang fjölgað mjög og hlutfall þeirra aukist af íbúafjölda allra landshluta. Í flestum landshlutum er hlutur þeirra nálægt 10%, en þó nálægt 6% á Norðurlandi vestra og eystra. Mestur er hlutur íbúa með erlent ríkisfang á Suðurnesjum, tæp 18%, og þar hefur heildarfjöldi íbúa vaxið, og á Vestfjörðum, um 13%, en þar hefur íbúum fækkað. Þar og í öðrum landshlutum hafa margir íbúar með erlent ríkisfang búið árum saman og fest rætur. Brotthvarf þessara íbúa gæti haft afdrifarík áhrif á byggðaþróun víða um land og kannanir benda til þess að bæta þurfi þjónustu við þessa íbúa, bæði börn á skólaaldri og fjölskyldurnar. Styrkja þarf þjónustu við innflytjendur og bæta aðstæður þeirra þannig að þeir geti betur samlagast samfélaginu og þekking þeirra og færni fái notið sín til fulls og orðið samfélaginu öllu til heilla.

5. Framtíðarsýn, markmið og aðgerðir byggðaáætlunar.
    Í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er sett fram eru byggðamál skilgreind sem öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Samkvæmt þessari skilgreiningu eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti.
    Framtíðarsýn stjórnvalda er að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði landsmanna og öflug sveitarfélög, sem geta annast staðbundin verkefni, veita íbúum hagkvæma og góða þjónustu og leiða nærsamfélagið til framtíðar. Nýjasta tækni tengi byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.
    Landið allt verði í blómlegri byggð þar sem landsmenn hafi aðgang að grunnþjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum, óháð efnahag og búsetu.
    Helstu áskoranir á sviði byggðamála eru að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tæknibreytingar, þróun og aðlögun er varðar einstakar atvinnugreinar, að tryggja greiðar samgöngur og aðgengi að þjónustu og harðnandi alþjóðlega samkeppni um fólk og fyrirtæki. Sérstaka áherslu skal leggja á byggðarlög og svæði sem standa höllum fæti í þessu samhengi. Þá er það sérstök áskorun að auka heildarsýn yfir málaflokkinn, samþætta byggðamál við aðra málaflokka og tryggja ávallt skilvirka framkvæmd byggðaaðgerða.
    Sett eru fram þrenns konar markmið fyrir stefnu stjórnvalda á sviði byggðamála.
    Í fyrsta lagi að jafna aðgengi að þjónustu. Það felst m.a. í að grunnþjónusta verði veitt sem mest í nærsamfélaginu og greiðu aðgengi að miðlægri þjónustu í einstökum landshlutum og á landinu öllu.
    Í öðru lagi að jafna tækifæri til atvinnu. Það felur m.a. í sér að bæta innviði, svo sem fjarskipti, samgöngur og öryggi í raforkumálum sem grundvöll fyrir fjölbreytt atvinnutækifæri.
    Í þriðja lagi að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Sjálfbær þróun byggist á samspili efnahags-, félags- og umhverfislegra þátta. Að stuðla að sjálfbærri þróun byggða felur m.a. í sér að til séu öflug sveitarfélög með þjónustukjarna, gott aðgengi að menntun, fjölbreyttu atvinnulífi, öflugri starfsemi í menningarmálum og loks afþreyingu.
    Til að ná þessum markmiðum eru settar fram margs konar áherslur sem leiða til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum.
    Alls eru skilgreindar 52 aðgerðir í fyrirliggjandi tillögu til stefnumarkandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024. Einstök ráðuneyti bera ábyrgð á framkvæmd þeirra, en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið mun hafa yfirumsjón með framkvæmd áætlunarinnar í heild. Í því sambandi verður unnið markvisst að gagnaöflun og greiningu, skilgreiningu lykilviðfangsefna, kortlagningu leiða, samráðsferli, framkvæmd, endurmati og eftirliti. Yfirlit yfir stöðu markmiða og aðgerða verða birt ár hvert í skýrslu ráðherra til Alþingis, sbr. lög um opinber fjármál. Þá mun stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fjalla reglulega um framvindu byggðaáætlunar.
    Fjármögnun aðgerða er ýmist borin uppi af byggðaáætlun (t.d. verkefnið brothættar byggðir), samfjármagnaðar af byggðaáætlun og fjárheimildum viðkomandi málaflokks (t.d. verkefnið Ísland ljóstengt 2020) eða alfarið fjármagnaðar af viðkomandi málaflokki (t.d. verkefnið smávirkjanir). Fjármögnun byggðaáætlunar ræðst af fjárheimildum hvers árs, en tillaga að fjármögnun úr byggðaáætlun við hverja aðgerð tekur mið af fjármálaáætlun.
    Heildarkostnaður allra aðgerða liggur ekki fyrir, hann mun ráðast af fjárheimildum fjárlaga hverju sinni og nánara kostnaðarmati sem gert verður í tengslum við verkefnisáætlun fyrir hverja aðgerð. Það sama á við um fjármögnun aðgerða af byggðaáætlun.

6. Samræming áætlana.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur að því að samræma áætlanagerð á öllum meginsviðum ráðuneytisins sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélaginu, sveitarstjórnar- og byggðamál, samgöngur og fjarskipti. Þessi svið mynda eina heild þar sem starfsemi eins hefur mikil áhrif á hin. Með samþættingu er unnt að hámarka árangur af samræmingu stefna og áætlana á öllum stigum stjórnsýslunnar og samræma jákvæð áhrif. Þá verði í framkvæmd tekið mið af tengdum málefnum og horft lengra en til sérstakra verkefna einstakra málaflokka. Mótuð hefur verið sameiginleg framtíðarsýn og meginmarkmið.
    Það er mat ráðuneytisins að virk stefnumótun sé forsenda framfara og borgurum, fyrirtækjum og stofnunum nauðsynleg. Þegar lýðræðissamfélög þurfa að takast á við sameiginlegar áskoranir móta þau stefnu sína og áætlanir. Sameina þarf kraftana og brýnt er að allir hlutaðeigandi komi að lausnum og þær séu samþættar svo þær nýtist á fjölþættan hátt og myndi sameiginlega framtíðarsýn.
    Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem ætlað er að innleiða þessa breyttu aðferðafræði (389. mál) og verði frumvarpið að lögum mun vinna við framkvæmd, undirbúning og gerð byggðaáætlunar í framtíðinni taka mið af þeim breytingum. Þar er gert ráð fyrir því að stefnumörkun áætlana sé til 15 ára og aðgerðaáætlun sé til 5 ára, en endurskoðuð á þriggja ára fresti. Byggðaáætlun sú sem nú er lögð fram mun því verða endurskoðuð og endurgerð með hliðsjón af því nýja verklagi.

7. Mat á umhverfisáhrifum og samráð við mótun byggðaáætlunar.
    Í lögum nr. 105/2006 er fjallað um umhverfismat áætlana. Markmið laganna er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Það skal gert með umhverfismati tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana stjórnvalda sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfið.
    Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun er ekki framkvæmda- eða skipulagsáætlun í þrengri skilningi en henni er fyrst og fremst ætlað samhæfingarhlutverk, að hafa áhrif á aðrar stefnur og áætlanir og draga fram byggðasjónarmið við gerð slíkra áætlana. En þar sem henni er ætlað að hafa fjölþætt áhrif á stefnu og framkvæmdir í mörgum málaflokkum ríkis og sveitarfélaga þykir rétt að gera grein fyrir áætluninni með hliðsjón af ákvæðum þeirra laga og lýsa því samráðsferli sem viðhaft hefur verið við gerð áætlunarinnar.
    Með lögum nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, voru gerðar verulegar breytingar á vinnulagi við gerð byggðaáætlunar, ekki síst í átt að þeim sjónarmiðum sem lýst er í lögum um umhverfismat áætlana. Þannig er mikil áhersla lögð á virkt samráð við vinnslu byggðaáætlunar.
    Ráðherra byggðamála fól Byggðastofnun að vinna byggðaáætlun samkvæmt lögum nr. 69/2015 með bréfi dags. 9. mars 2016. Af hálfu Byggðastofnunar var lögð áhersla á opinn mótunarferil og leitað var eftir viðhorfum til þess hvernig byggðaáætlun yrði best unnin eftir nýjum lögum, sem og hvernig samspilið ætti að vera við sóknaráætlanir landshlutanna og áætlanir ráðuneyta. Byggðastofnun lagði mikla áherslu á samráð samkvæmt ákvæði um markmið laganna. Í janúar 2016, áður en eiginleg vinna við mótun nýrrar byggðaáætlunar hófst, var þingflokkum boðið til fundar í Reykjavík þar sem leitað var eftir áherslum þeirra í byggðamálum. Í apríl til júní 2016 voru haldnir fundir í öllum ráðuneytum og með samráðsvettvöngum sjö landshluta. Samráðsvettvangar landshlutanna eru skipaðir nokkrum tugum einstaklinga úr öllum geirum og svæðum landshlutans og móta sóknaráætlanir þeirra. Með þessum fundum hófst formlegt samráð sem síðan var ræktað á vefsíðu Byggðastofnunar þar sem gögn voru aðgengileg og allir gátu lagt fram tillögur, ábendingar og athugasemdir. Að auki var fundað með starfshópi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að treysta innviði og búsetu í sveitum og stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál þar sem sitja fulltrúar allra ráðuneyta.
    Til þess að fá sýn á byggðaþróun utan frá var Framtíðarsetur Íslands fengið til þess að greina sviðsmyndir fyrir búsetuþróun á landinu til ársins 2030 og voru niðurstöður kynntar á opnum fundi í Reykjavík 27. september 2016. Í október og nóvember voru aftur haldnir fundir með samráðsvettvöngum landshlutanna, stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál um þau drög að tillögum sem lágu fyrir. Í framhaldinu breyttust tillögur, nýjar voru mótaðar og aðrar felldar út. Stefnumótandi byggðaáætlun er ætlað að hafa samhæfingarhlutverk, hafa áhrif á aðrar stefnur og áætlanir og draga fram byggðasjónarmið við gerð þeirra.
    Byggðastefna og byggðaáætlun hafa snertifleti við flesta opinbera málaflokka og ráðuneyti. Áætlanir ráðuneyta og stefnuskjöl, svo sem ferðamálaáætlun og samgönguáætlun, eru mikilvæg byggðamál sem leiða að markmiðum byggðaáætlunar og brýnt samkvæmt lögunum að samhæfa byggðaáætlun við þær. Á þróunarsviði Byggðastofnunar var farið yfir 93 opinber stefnuskjöl og áætlanir með tilliti til slíkrar samhæfingar. Að auki var öllum ráðuneytum send skrá til útfyllingar fyrir fundina um mótun byggðaáætlunar. Beðið var um að skráðar yrðu þær áætlanir hvers ráðuneytis sem leiddu að markmiðum byggðaáætlunar. Í úrvinnslu beindist athyglin sérstaklega að þeim aðgerðum í áætlunum ráðuneyta sem á var lögð áhersla á samráðsfundum í landshlutunum. Samráð var haft við starfsmenn ráðuneyta sem vinna að áætlunum sem taldar eru tengjast byggðaáætlun. Tillögur til byggðaáætlunar sem sendar voru Byggðastofnun um vefsíðu stofnunarinnar tók verkefnisstjórn áætlunarinnar til umræðu á fundi 23. nóvember 2016. Sumar tillögurnar taldi verkefnisstjórnin vera innifaldar í þeim tillögum sem mótaðar höfðu verið í framhaldi af samráði við samráðsvettvanga landshlutanna, ráðuneyti og stofnanir, aðrar ætti að fella inn í áætlunina og enn aðrar voru taldar henta illa í byggðaáætlun, væru ýmist of staðbundnar, sértækar eða tæknilega flóknar og dýrar.
    Drögum að byggðaáætlun var skilað til ráðherra í janúar 2017 eða um það leyti sem byggðamál voru færð í nýtt ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórna. Haustið 2017 var skipaður verkefnishópur fulltrúa allra skrifstofa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fullvinna drög Byggðastofnunar. Sú vinna fór fram í nánu samráði við ráðuneyti og stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 voru kynnt í ríkisstjórn 2. mars 2018 og í kjölfarið send til umsagnar í öllum ráðuneytum. Að teknu tilliti til ábendinga frá ráðuneytum var tillagan sett inn á opna samráðsgátt stjórnvalda hinn 12. mars og frestur til að skila umsögnum rann út á miðnætti 21. mars. Alls bárust 25 umsagnir sem hafa verið yfirfarnar og tekið tillit til þeirra eftir því sem kostur er.
    Stefnumótandi byggðaáætlun er ætlað að hafa áhrif á mörgum sviðum eins og áður greinir. Í aðgerðatillögum áætlunarinnar, sem eru afrakstur af því mikla samráði sem fór fram við mótun hennar, er kveðið á um fjölþætt verkefni sem hafa munu umhverfisáhrif komist þau til framkvæmda, t.d. á grundvelli samgöngu- og fjarskiptaáætlana, áætlana um orkuflutninga og svo mætti áfram telja. Hér má nefna tillögur á borð við verkefnið Ísland ljóstengt, en með verkefninu verður stuðlað að lagningu ljósleiðarakerfa í byggðarlögum sem standa höllum fæti vegna dreifbýlis eða af öðrum ástæðum. Verkefni um þróun almenningssamgangna og flug sem almenningssamgöngur kunna að hafa í för með sér mannvirkjagerð, einnig uppbygging innviða fyrir endurnýjanlega orku á landi og í höfnum, áhersla á hraðari þrífösun rafmagns og bætt flutningskerfi raforku með hliðsjón af auknu afhendingaröryggi og stuðningur við byggingu smávirkjana. Einnig verkefni á borð við mótun eigendastefnu um bújarðir í ríkiseigu og húsnæðismál.
    Á öllum þessum sviðum má vænta fjölþættra umhverfisáhrifa og því verða framkvæmdir og áætlanir á þessum sviðum að taka mið af lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Í heild sinni eru markmið og aðgerðir byggðaáætlunar talin geta haft umtalsverð áhrif á fjölþætta umhverfisþætti. Engin veruleg neikvæð áhrif eru þó talin geta orðið af framkvæmd hennar, en sum markmið og aðgerðir eru þó talin geta haft bæði óveruleg og neikvæð og jákvæð áhrif. Þá verða samfélagsleg áhrif af aðgerðum byggðaáætlunar þau að íbúum fjölgar meira utan höfuðborgarsvæðisins en ella og atvinnustarfsemi styrkist. Það leiðir af aðgerðum sem ætlað er að styrkja búsetu og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni, svo sem ljósleiðaratengingar, efling rannsókna og vísindastarfsemi, stuðningur við dreifbýlisverslun, stuðningur við almenningssamgöngur, jöfnun orkukostnaðar, svæðisbundin flutningsjöfnun, frádráttur frá kostnaði vegna aksturs til og frá vinnu, störf án staðsetningar, fjarvinnslustöðvar og stuðningur við brothætt byggðarlög svo dæmi séu tekin.
    Aðgerðatillögurnar voru mótaðar í miklu samræmi við það mótunarferli sem mælt er fyrir um við mat á umhverfisáhrifum áætlana. Um leið og þær stefna að lögbundnum markmiðum byggðaáætlunar stefna þær mjög að markmiðum og tilgangi umhverfismats áætlana.

8. Áherslur eftir markmiðum.
    Hér er gerð grein fyrir samantekt úr samráðinu en það hefur eins og áður segir dregið fram margvíslegar áherslur sem leggja ber við mótun og framkvæmd byggðaáætlunar. Áherslunum er skipt niður eftir þeim markmiðum sem byggðaáætlun vinnur að.

A. Aðgengi að þjónustu.
Ljósleiðaravæðing.
    Á fundi með fulltrúum þingflokka á Alþingi og á öllum fundum með samráðsvettvöngum landshlutanna kom fram mikil áhersla á að dreifbýli landsins allt yrði ljósleiðaravætt sem fyrst. Um ljósleiðaravæðinguna var fundað með Póst- og fjarskiptastofnun og innanríkisráðuneytinu sem unnið hefur með fjarskiptasjóði og starfshópi um verkefnið „Ísland ljóstengt“. Markmið þess verkefnis er að 99,9% heimila og vinnustaða á landinu öllu eigi kost á 100 Mb/s nettengingu árið 2020. Aukið fé til verkefnisins á grundvelli byggðaáætlunar stuðlar að því að fjárhagslega veik sveitarfélög eigi aukna möguleika á samkeppnisstyrkjum frá ríkinu/fjarskiptasjóði. Það gefur færi á uppbyggingu þeirra fyrr en ella. Jafnframt stuðlar framlag byggðaáætlunar að því að aðgengi að 100 Mb/s nettengingum verði mögulega 100% á landsvísu þegar upp er staðið. Það skiptir miklu fyrir þau 100–200 heimili sem annars yrðu út undan. Mikilvægt er að tryggja þeim byggðum aðgang að háhraðanettengingum sem hafa fá tækifæri til að eflast og þróast.

Grunnþjónusta.
    Byggðastofnun hefur safnað upplýsingum um staðsetningu þjónustu ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja. Mikilvægt er að setja þessar upplýsingar fram á aðgengilegu korti á netinu þannig að auðveldlega fáist yfirsýn yfir hvar hina ýmsu þjónustu er að finna.
    Tillaga um stefnumótun um opinbera þjónustu var sett fram í byggðaáætlun 2013–2017 og hefur verið unnið að gagnaöflun sem stefnumótunin mun byggjast á. Markmið tillögunnar er að allir íbúar landsins, óháð búsetu og efnahag, njóti sama aðgengis að opinberri grunnþjónustu. Það hefur hins vegar ekki verið skilgreint hvað felst í jafnrétti til búsetu og grunnþjónustu. Horfa þarf til stöðu mála á einstökum sóknaráætlanasvæðum. Misjafnt er hvort og hvernig tekið er tillit til slíkra sjónarmiða við stefnumótun í málaflokkum einstakra ráðuneyta. Mikilvægt er að skilgreina réttinn til grunnþjónustunnar á hinum mismunandi sviðum og ákveða hvernig settum markmiðum verður náð.
    Miklar breytingar hafa orðið á heilbrigðisþjónustu síðustu ár og á fundum með samráðsvettvöngum landshlutanna kom fram mikil óánægja með skerta þjónustu sem breytingarnar hafa haft í för með sér. Víða var dæmi tekið um skerta þjónustu við barnshafandi konur sem þurfa að ferðast um langan veg til að fæða. Almennt gætti óöryggis gagnvart breytingum í heilbrigðisþjónustu og óánægju með mikinn ferða- og dvalarkostnað við að sækja grunnheilbrigðisþjónustu, sjúkraflutninga o.fl. Rætt var um óöryggi heilbrigðisstofnana sem vinnustaða og að það væri veigamikill þáttur þess að oft gengur treglega að ráða starfsfólk til heilbrigðisstofnana utan höfuðborgarsvæðisins. Læknastöður á stórum sjúkrahúsum þar hafa verið ómannaðar árum saman þrátt fyrir margs konar viðleitni sjúkrahúsanna til að bæta úr. Þá var bent á að heilbrigðisumdæmi stæðust ekki á við svæði sóknaráætlana og samstarf sveitarfélaga sem torveldaði samskipti og áhrif staðbundinna stjórnvalda.
    Í nokkrum löndum með víðfeðm dreifbýl svæði hefur áhersla verið lögð á að þróa nám í héraðslækningum í þeim tilgangi að bæta úr læknaskorti og miða nám að starfsskilyrðum á slíkum svæðum. Þar geta læknar staðið einir gagnvart ýmsum verkefnum sem þurfa skjóta úrlausn, langt er í slysa- og legudeildir sjúkrahúsa og annars konar liðsinni auk þess sem kröfur um fjölhæfni eru meiri en í þéttbýlinu. Í sumum löndum gefst læknanemum eða sérnámslæknum kostur á að breyta námstilhögun með tilliti til héraðslækninga þó ekki hafi verið byggt upp sérnám í þeirri grein. Í reglugerð nr. 467 frá 24. apríl 2015 eru héraðslækningar í fyrsta skipti skilgreindar sem undirsérgrein heimilislækninga. Voru Íslendingar fyrstir Evrópuþjóða til þess.
    Að undanförnu hefur hópur innan Félags íslenskra heimilislækna unnið að marklýsingu fyrir undirsérgreinina og kannað hvernig þessum málum er háttað annars staðar. Með sérnámi í héraðslækningum þar sem heimilislæknar eru sérstaklega þjálfaðir til starfa í dreifbýli má ætla að áhugi á að starfa á landsbyggðinni muni aukast, læknar þar verði ánægðari og öruggari í starfi og betur muni ganga að manna þar stöður lækna. Í framangreindri reglugerð er ákvæði um mats- og hæfnisnefnd sem skal meta og samþykkja marklýsingu fyrir einstakar sérnámsbrautir auk þess að meta hæfni heilbrigðisstofnana eða deilda til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun. Sérnámið á sér hins vegar hvergi skilgreindan samastað innan heilbrigðis- eða menntakerfisins og á því ekki nauðsynlegan bakhjarl til þess að tryggja framgang og fjármagn til framtíðar.
    Vinna þarf markvisst eftir heilbrigðis- og velferðaráætlunum. Unnið er að mörgum og góðum áætlunum á þeim sviðum í velferðarráðuneytinu. Í áætlunum er oft lögð áhersla á jöfnuð, að þjónustan verði góð óháð kyni, uppruna og efnahag einstaklinga. Mikilvægt er að skilgreina grunnþjónustu heilbrigðis- og velferðarþjónustu og hvernig réttur landsmanna til hennar verði tryggður óháð búsetu. Þá er mikilvægt að þessar áætlanir verði mótaðar í sátt við þá sem þær eru gerðar fyrir.
    Áhersla er lögð á að áætlanir á heilbrigðissviði fái þinglega meðferð og öryggi verði skapað um framtíðarstarf heilbrigðisstofnana og þjónustu þeirra um allt land.
    Loks er nauðsynlegt að styrkja nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu þannig að félags- og heilbrigðisþjónusta verði aðgengileg öllum hvar sem fólk býr á landinu. Hér er sérstaklega horft til nýrra viðhorfa, breyttra aðferða, skipulags og notkunar sérstakra tæknilausna við framkvæmd velferðarþjónustu.

Verslun.
    Verslun er ein af grunnstoðum byggðar á dreifbýlum svæðum þar sem íbúar eiga langt að sækja í stærri þjónustukjarna. Helstu vandamál verslana á dreifbýlum svæðum er lítill heimamarkaður sem leiðir af sér takmarkaða veltu og mikill flutningskostnaður aðfanga sem er því hærri sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu þó að sums staðar hafi velta verslana í dreifbýli aukist með fjölgun ferðamanna, mest yfir sumarmánuðina. Þá hefur samkeppni við stórmarkaði í nálægum byggðarlögum og á höfuðborgarsvæðinu aukist á undanförnum árum. Allt þetta leiðir til þess að grundvöllur fyrir verslunarrekstur á dreifbýlum svæðum er hæpinn, ábati lítill en mikil hætta á skuldsetningu eigenda og jafnvel gjaldþroti. Sem dæmi má nefna að nýverið var versluninni á Bakkafirði lokað en á undanförnum misserum hafa verslanir í Grímsey, Hrísey og á Kópaskeri verið endurreistar.

Samþjöppun þjónustu og ferðakostnaður.
    Með þeim breytingum sem orðið hafa með sameiningu stofnana eins og sjúkrastofnana, sýslumanna, lögreglu og nú síðast pósthúsa hefur aukist verulega kostnaður fólks utan stærsta þéttbýlis við að sækja grunnþjónustu. Ekki er raunhæft að jafna aðgengi að þjónustu fyllilega. Því valda bæði fjárhagslegar, landfræðilegar og tæknilegar ástæður. Hins vegar er hægt að jafna muninn að því leyti að þeir sem þurfa að sækja þjónustu um langan veg fái bættan þann kostnað sem hlýst af þeirri hagræðingu sem veldur því að lengra verður að sækja grunnþjónustu en áður. Eðlilegt er að þau ráðuneyti sem forgöngu hafa haft um skipulagsbreytingarnar móti reglur um hvernig aðstöðumunur við að sækja þjónustuna verður jafnaður. Má ætla að þar liggi fyrir upplýsingar um kostnaðarauka notenda sem veginn hafi verið á móti þeim vænta sparnaði og hagræðingu sem að var stefnt.
    Ýmiss konar þjónusta, bæði einkaaðila og opinberra, sem og afþreying er aðeins í boði í höfuðborginni. Þar er langöflugasta þéttbýlið og eðlilega hefur ríkið markvisst búið í haginn fyrir uppbyggingu þar og má nefna til dæmis tónleikahúsið Hörpu og Þjóðleikhúsið. Samgöngukerfið er líka byggt upp með Reykjavík og suðvesturhornið sem miðpunkt. Allir landsmenn verða því að leggja leið sína til Reykjavíkur hvort sem er af nauðsyn, til að sækja þangað þjónustu opinberra aðila og einkaaðila sem ekki er í boði annars staðar, og til að njóta ákveðinna menningarviðburða.
    Síðustu ár hefur í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga verið skipulagt net almenningssamgangna út frá Reykjavík sem teygir sig víða um landið. Netið nær ekki til landsins alls og fjárhagsgrunnur þess er óviss.
    Flugsamgöngur innan lands eru reknar á vegum einkaaðila án ríkisaðstoðar nema á nokkrum leiðum þar sem farþegar eru fáir. Hefur flug sem samgöngumáti átt undir högg að sækja undanfarin ár, farþegum og áfangastöðum fækkað vegna bættra vegasamgangna og hárra flugfargjalda. Sterk krafa er uppi um að innanlandsflugið verði skilgreint sem hluti almenningssamgangnakerfisins og að flugfargjöld verði niðurgreidd fyrir þá sem eiga um langan eða erfiðan veg að fara til Reykjavíkur.
    Mikilvægt er að net almenningssamgangna á landi og í lofti verði skilgreint og reglur mótaðar um niðurgreiðslu fargjalda.

Orkukostnaður.
    Á undanförnum árum hafa verið stigin skref til að jafna húshitunarkostnað landsmanna. Engu að síður er ljóst að enn er mikill munur á orkukostnaði heimila. Þannig er kostnaður heimilis í dreifbýli á svæði RARIK rúmlega 70% hærri en í Reykjavík. Það er raunar mun meiri munur ef miðað er við allra lægsta orkukostnað sem er á Seltjarnarnesi.
    Orka er ein af grunnforsendum búsetu á landsbyggðinni. Því er mikilvægt að jafna orkuverð til að bæta samkeppnisstöðu byggðarlaga þar sem orkuverð er hátt. Áfram verði stigin skref í átt að jöfnun orkuverðs til heimila og þau fela líka í sér að áfram verði unnið að meira afhendingaröryggi orku og minni raforkunotkun við kyndingu hitaveitna með aukinni notkun varmadælna og að áframhaldandi aðgerðir á því sviði verði efldar. Hugað verði að tækninýjungum í þessu sambandi, t.d. með virkjun sjávarfallaorku til húshitunar.

Fjarnám.
    Á samráðsfundum fulltrúa landshlutanna komu fram áhyggjur af framtíð þeirra fjögurra háskóla sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins, sem og af framhaldsskólunum. Þá komu fram viðhorf um að með bættri tækni mætti auka námsframboð og bæta skilyrði til fjarnáms á flestum stöðum, að efla þyrfti símenntunarstöðvar til samstarfs við framhaldsskóla og háskóla. Á undanförnum árum hefur starfsemi háskóla og aðsókn að háskólanámi stóraukist hér á landi. Með tilkomu þekkingarsetra og með auknu framboði háskólanna á fjarnámi hafa möguleikar landsmanna til að leggja stund á háskólanám óháð búsetu aukist. Þekkingarsetrin veita nemendum þjónustu sem skapar þeim skilyrði til að stunda fjarnám á háskólastigi án þess að þurfa að flytja búferlum. Þjónustan sem nemendum er veitt er einkum les- og vinnuaðstaða, kennslustofur, fjarfundabúnaður, námsráðgjafar og prófhald í fjarnámi fyrir hönd háskólanna. Þá var bent á að tímabundið kæmu þær aðstæður upp að iðnnemar gætu ekki lokið námi í heimabyggð þar sem of fáir væru í námi miðað við stuðningsreglur mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þeir þyrftu þá að flytjast brott til að ljúka námi.
    Fjarnám hefur verið hluti af námsframboði íslensku háskólanna í um tvo áratugi. Aðsókn í fjarnám hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og nú er boðið upp á fjarnám af einhverju tagi við flesta háskóla landsins og voru nemendur í fjarnámi á háskólastigi árið 2015 um 3.200 talsins (um 16% háskólanema). Hraðar framfarir á sviði tækni og kennslufræði hafa leitt til þess að nýjar aðferðir hafa þróast við miðlun kennsluefnis sem nýtast jafnt í hefðbundnu háskólanámi, sveigjanlegu námi og fjarnámi. Dæmi um þessar kennsluaðferðir eru spegluð kennsla og opin netnámskeið. Kennslu- og námsfyrirkomulag fjarnáms er mismunandi milli fræðasviða og háskólastiga.
    Samstarfsnefnd opinberra háskóla hefur staðið fyrir samstarfi háskólanna sem hafa haft að markmiði að endurskoða verkaskiptingu á milli starfseininga skólanna, samnýta námskeið og námsleiðir, aðstöðu og búnað og síðast en ekki síst að ryðja úr vegi hindrunum fyrir samstarfi á sviði kennslu, náms og rannsókna.

Menningarstofnanir.
    Í menningarstefnu stjórnvalda er lögð áhersla á þekkingu, rannsóknir og miðlun á menningararfinum til að efla vitund um sögulegt samhengi og til að styrkja sjálfsmynd landsmanna. Þá er unnið að undirbúningi tillagna um framkvæmd á þingsályktun frá 2014 um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi. Nú eru á landinu 45 viðurkennd söfn en auk þeirra er um allt land fjöldi setra og sýninga (sbr. skilgreiningu í 5. gr. safnalaga, nr. 141/2011). Til að efla markvissa varðveislu, rannsóknir og kynningu á menningararfinum er mikilvægt að þessir aðilar auki samstarf sitt á ýmsum sviðum, svo sem í sýningarhaldi, geymslumálum, kynningarmálum o.fl. Stóraukinn ferðamannastraumur eykur þörfina á því að bjóða m.a. upp á góð söfn og sýningar.
    Alþingi hefur átt sinn hlut í að koma mörgum þessum einingum á fót en í ljósi nýrra laga um opinber fjármál er einsýnt að ríkið getur ekki staðið að því að styrkja slíka starfsemi án nánari stefnu og markmiðssetningar á þessu sviði. Stefna ætti að því að sameina slíkar rekstrareiningar annaðhvort innbyrðis eða sameina þær viðurkenndu safni í landshlutanum.

B. Tækifæri til atvinnu.
Innanhéraðsvegir.
    Á samráðsfundum með fulltrúum landshlutanna var lögð mikil áhersla á samgöngur sem ráðandi forsendu fyrir atvinnu- og þjónustusókn landsmanna. Vegasamgöngur innan landshlutanna ráða mörkum atvinnusóknarsvæða, svæða þar sem íbúar geta ferðast daglega milli heimilis og vinnustaðar, og þjónustusvæða, svæða þar sem íbúar geta sótt grunnþjónustu. Í samgönguáætlun er sterkur samhljómur við áherslur fyrri byggðaáætlana og þær áherslur komu enn fram á fundum um mótun byggðaáætlunar nú í samráðsvettvangi landshlutanna. Í byggðaáætlun 2018–2024 er áhersla á niðurgreiðslu ferðakostnaðar og skilgreiningu almenningssamgangna. Ekki eru gerðar sérstakar samgöngutillögur heldur er lögð áhersla á framkvæmdir samkvæmt samgönguáætlun.

Dreifikerfi og þrífösun rafmagns.
    Þörf er á miklu átaki varðandi uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku. Þannig er flutningskerfið að stórum hluta fullnýtt og ekki hægt að koma orku á milli landshluta eða héraða á meðan ekki fæst leyfi til að ráðast í endurnýjun flutningslína. Þetta ástand veldur því að ekki er hægt að útvega raforku í stað innfluttra orkugjafa eða til að ráðast í nýframkvæmdir. Þá er afhendingaröryggi minna en ella.
    Á samráðsfundum með fulltrúum landshlutanna var lögð mikil áhersla á þrífösun rafmagns fyrir dreifbýli en um 70% dreifikerfis RARIK voru þriggja fasa árið 2016. Mikilvægt er að hægt verði að flýta þrífösun svo hún svari þörfum á allra næstu árum. Við framkvæmdir við raforkukerfið þarf að horfa til samlegðar með öðrum jarðvinnuframkvæmdum.
    Í ljósi takmarkana í flutningskerfi raforku hefur mikilvægi smávirkjana og framleiðslu rafmagns fyrir staðbundinn markað aukist. Smávirkjanir eru til þess fallnar að bæta staðbundið afhendingaröryggi og eru jafnan taldar umhverfisvænar í samanburði við stórvirkjanir. Slíkt verður þó að skoða samhliða aðgerðum í endurbótum á flutningskerfi og dreifiveitum.

Rafhleðslustöðvar.
    Aukin nýting á vistvænum orkugjöfum í bílaflota landsmanna er mikið áherslumál og leiðir að markmiði byggðaáætlunar um sjálfbærni. Þegar er af hálfu stjórnvalda verið að skipuleggja átak í uppbyggingu rafhleðslustöðva víða um land. Vegna einhæfni á vinnumarkaði og einhæfs þjónustuframboðs í fámennari og dreifbýlli byggðarlögum landsins þurfa íbúar að keyra langar vegalengdir til og frá vinnu eða vegna annarra erinda og því fylgir mjög verulegur og íþyngjandi aksturskostnaður. Á sama tíma er ólíklegt að markaðurinn leysi úr þörf á rafhleðslustöðvum fyrir bíla á næstunni í þessum sömu byggðarlögum vegna fámennis. Til að fyrirbyggja öfug byggðaáhrif er æskilegt að örva og ýta enn frekar undir rafbílavæðingu utan höfuðborgarsvæðisins og þá verði einkum horft til svæða þar sem ólíklegt má teljast að markaðurinn leysi þessi mál á næstu tveimur til þremur árum.

Aflamark.
    Aflamark Byggðastofnunar byggist á 10. gr. laga um stjórn fiskveiða og hefur verið nýtt frá fiskveiðiárinu 2013–2014 til þess að styðja við veiðar og vinnslu í smærri sjávarbyggðum þar sem atvinnulíf er einhæft og sjávarútvegur er meginundirstaða atvinnulífs og byggðar. Á fiskveiðiárinu 2016–2017 hafði Byggðastofnun ríflega 4.500 þorskígildistonn til ráðstöfunar. Stofnuninni er heimilt samkvæmt gildandi reglum að gera allt að sex ára samninga með það að markmiði að fyrirsjáanleiki í rekstri fyrirtækja á viðkomandi stöðum aukist sem leiðir til aukinnar byggðafestu. Í gildi eru ellefu samningar vegna eftirtalinna staða: Tálknafjarðar, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar, Drangsness, Hríseyjar, Grímseyjar, Raufarhafnar, Bakkafjarðar, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Aðgangur að aflaheimildum á flestum þessum stöðum er afar takmarkaður og líklegt að þar yrði fiskvinnsla ekki starfrækt án þessara heimilda. Aflamarkið er þannig mikilvæg byggðaaðgerð þar sem því verður við komið.
    Hinn almenni byggðakvóti og skipting hans er verkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í ljósi þess að vel hefur tekist til með hinn sértæka byggðakvóta, aflamark Byggðastofnunar, hafa þau sjónarmið komið fram að vænlegt sé að samhæfa úthlutun þessara aflaheimilda til þess að ná sem mestum áhrifum á byggðaþróun og byggðafestu í sjávarbyggðum. Samhæfð úthlutun aflaheimilda gæti leitt til einfaldari stjórnsýsla á þessu sviði.

Ferðaþjónusta.
    Ferðaþjónusta hefur vaxið stórlega síðustu ár og spár benda til að ferðamönnum muni fjölga mjög á næstu árum. Mikilvægt er að dreifa álagi af ferðamönnum og sóknarfærum sem þeir skapa, bæði á landið og á árstíma. Margs konar aðgerðir standa yfir á vegum opinberra stofnana og samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu til þess að bregðast við vaxandi fjölda ferðamanna. Í þessu sambandi þarf einnig að huga að samgöngumálunum, því erfiðar samgöngur eða skortur á uppbyggingu getur beinlínis komið í veg fyrir þróun ferðaþjónustu utan hringvegar.
    Á samráðsfundum með fulltrúum landshlutanna var alls staðar lögð áhersla á að tryggja þyrfti fjármuni til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða og breytta skiptingu skatttekna þannig að hlutur sveitarfélaga yrði meiri.

Flugvélaeldsneyti.
    Unnið hefur verið að því að dreifa betur farþegaflugi milli Íslands og annarra landa á millilandaflugvelli á landinu, létta álagi af Keflavíkurflugvelli og bæta aðgengi að öðrum landshlutum en suðvesturhorni landsins. Ódýrara flugvélaeldsneyti á Keflavíkurflugvelli en á hinum flugvöllunum er talin ein ástæða fyrir því að flugfélög eru tregari til þess að nýta þá flugvelli. Eðlilegt verður að telja að sama eldsneytisverð sé á þessum flugvöllum öllum og að til þess verði fundnar leiðir.

Nýsköpun í landbúnaði.
    Ýmsar reglugerðarbreytingar sem eiga rætur að rekja til viðleitni til að bæta velferð og umönnun dýra kalla á fjárfestingu bænda. Sem dæmi má taka að í nóvember 2014 tók gildi reglugerð um velferð nautgripa þar sem kveðið er á um að öll fjós þurfi að vera lausagöngufjós fyrir lok árs 2034. Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi kúabænda voru í lok árs 2013 um 640 fjós á landinu. Hlutfall básafjósa af einhverju tagi er um 60%. Talið er að byggja þurfi allt að 400 ný fjós eða endurbæta gömul fyrir þennan tíma. Bændur standa því frammi fyrir mikilli fjárfestingu á næstu árum og viðbúið er að einhver bú leggist af sem kúabú og breyting verði á búskap á þeim jörðum, önnur stækki og gripum fjölgi. Þá eru bændur víða farnir að eldast og þörf er á endurnýjun í stéttinni. Sömu sjónarmið eiga að verulegu leyti við um sauðfjárbændur. Mikil aukning hefur orðið á lánum Byggðastofnunar til landbúnaðar og allt bendir til að sú þróun haldi áfram. Gera þarf stofnuninni kleift að svara þörfinni.

Stuðningur við nýsköpun á landsbyggðinni.
    Nýsköpun í atvinnulífi utan borgarsvæða hefur átt undir högg að sækja en borgir eru víða taldar vélarrými frumkvöðlastarfs, nýsköpunar og þróunar. Þangað hefur leið fólks legið frá svæðum þar sem störfum og fólki fækkar. Frumkvöðlar á landsbyggðinni telja margir að lítinn stuðning sé þar að finna og eftirsóknarvert fyrir byggðaþróun að bæta úr með betra aðgengi að þolinmóðu lánsfjármagni. Skoða þarf hvers vegna einstaklingar og fyrirtæki af landsbyggðinni sæki í minna mæli en aðrir í þann fjárstuðning til nýsköpunar sem til boða stendur og kanna hvernig fjölga megi góðum umsóknum.
    Fiskeldi er dæmi um vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Hana þarf þó að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið.

Ferðakostnaður vegna vinnusóknar.
    Eitt af sérkennum íslensks samfélags er að fólk bregst við staðbundnu atvinnuleysi með búferlaflutningum þangað sem framboð er á störfum. Vinnusóknarsvæði, svæði þar sem fólk getur sótt vinnu daglega frá heimili, hafa stækkað með bættum samgöngum. Það er mikilvægt í þessu tilliti að gefa kost á fleiri störfum innan daglegrar seilingar og draga úr brottflutningi. Það er sérstaklega mikilvægt að gera íbúum dreifbýlis kleift að sækja vinnu af bæ. Í þjónustukönnun sem unnin var á Norðurlandi vestra og birt 2016 kom í ljós að rúm 60% vinnandi fólks í dreifbýli Austur-Húnavatnssýslu sóttu vinnu af bæ. Í öðru dreifbýli á Norðurlandi vestra var hlutfallið lægra eða milli 40 og 50%. Engin ástæða er til að ætla að ástandið sé annað í öðrum landshlutum. Ferðakostnaður vegna lengri vinnusóknar dregur þó úr gildi þessa valkosts. Almenningssamgöngur eru ekki valkostur sem ferðamáti nema í stærsta þéttbýli og í nágrenni þess. Endurgreiðsla í formi frádráttar frá skatti er leið til þess að koma til móts við óhjákvæmilegan ferðakostnað og styður búsetu í dreifbýli og smærra þéttbýli.
    Eitt af meginmarkmiðum byggðaáætlunar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu. Í byggðaáætlun 2013–2017 fólst ein aðgerð í að skilgreina rétt landsmanna til grunnþjónustu á helstu sviðum opinberrar þjónustu. Vinna við það er í gangi og mikilvægt að ljúka henni.

Dreifing starfa.
    Störf við hæfi fyrir bæði kynin eru ein meginforsenda fyrir búsetuvali. Því er mikilvægt að ríkið stuðli að fjölgun fjölbreyttra starfa sem víðast um landið. Bæði með því að dreifa störfum á vegum ríkisins sjálfs með sem sanngjörnustum hætti en einnig með því að skapa hvata fyrir einkaaðila til að velja starfsemi sinni stað sem víðast um landið.
    Störf á vegum ríkisins og stofnana þess hafa verið og eru hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu en íbúafjöldi þess svæðis gefur tilefni til. Að sama skapi eru hlutfallslega færri störf á landsbyggðinni en íbúafjöldi gefur tilefni til. Þannig var hlutur höfuðborgarsvæðisins af heildaríbúafjölda landsins 63,3% um áramót 2016–2017 en á sama tíma var hlutdeild í heildarstöðugildum hjá ríki og opinberum hlutafélögum 71,2%. Með nútímasamskiptatækni er hægt að vinna fjölmörg störf hvar sem er án nokkurra vandkvæða. Þrátt fyrir vilja og viðleitni til að breyta því hefur árangur látið á sér standa. Lagt er til að ráðuneyti og stofnanir skilgreini hvaða störf hægt er að vinna utan veggja ráðuneytis. Til að byrja með verði stefnt á að því að 10% auglýstra starfa verði skilgreind með þeim hætti og þau auglýst þannig að um störf án staðsetningar sé að ræða.

Staðarval fyrir ríkisstarfsemi.
    Á vegum ríkisins og stofnana þess er sífelld þróun sem kallar á breytingu á fyrirkomulagi þess hvernig verkefnum er sinnt. Oft gerist það með því að nýjar stofnanir eru settar á laggirnar og oftast er þeirri nýju starfsemi valinn staður í Reykjavík eða að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu.
    Þegar stofnað er til nýrrar starfsemi gefst kjörið tækifæri til að kanna hvort ekki sé hægt og beinlínis hagkvæmt að velja staðsetningu úti á landi. Lagt er til að slík könnun verði fastur hluti í því ferli sem fram fer við undirbúning að því að setja á fót nýja starfsemi eða stofnun.

Fjórða iðnbyltingin.
    Mikilvægt er að horfa til tækniþróunar og sjálfvirkni sem tekur að hluta við af hefðbundnum störfum, fjórðu iðnbyltingarinnar svokölluðu. Byggðaáætlun getur stutt við verkefni sem auka tækniþekkingu og hagnýtingu nútímatækni í ýmsum atvinnugreinum, svo sem í ferðaþjónustu, fjarheilbrigðisþjónustu o.fl. Þá eru mikil tækifæri víða um land í hagnýtingu líftækni, t.d. framleiðsla virkra lífefna úr þörungum, sjávarfangi og landbúnaði. Einnig eru önnur tækifæri tengd ríkulegum auðlindum í náttúru landsins, t.d. í tengslum við jarðvarma.

C. Sjálfbær þróun byggða um land allt.
Brothættar byggðir.
    Breyttir atvinnuhættir, aðrar kröfur um atvinnutækifæri, ekki síst vegna aukinnar menntunar, kröfur um þjónustu, bæði af hálfu opinberra aðila og einkaaðila, valda því að mörg byggðarlög eiga undir högg að sækja og á stórum svæðum hefur íbúum fækkað mikið. Á síðustu árum hefur aldurssamsetning íbúanna breyst mjög sem gerir enn erfiðara en ella að halda uppi og bjóða upp á þá þjónustu sem nútíminn krefst. Að hluta er þróunin vegna tæknibreytinga. Byggðir sem erfiðast eiga að þessu leyti eiga jafnvel í erfiðleikum með að notfæra sér opinber stoðkerfi. Með verkefninu „Brothættar byggðir“ hefur verið leitast við að styðja þær byggðir til sjálfbærni með því að leiða fram vilja og skoðanir íbúanna sjálfra og leita lausna á forsendum þeirra í samvinnu við þá sem koma að málum byggðarlagsins og láta sig framtíð þess varða. Verkefnið hefur þótt takast vel, líka að mati hlutlausra matsaðila sem skiluðu niðurstöðum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 2015. Þykir verkefnið hafa skilað þeim árangri að lagt er til að því verði haldið áfram og að hægt verði að taka inn í það ný byggðarlög sem þess óska og þurfa.

Húsnæðismál.
    Víða um land er staðan á húsnæðismarkaði sú að söluverð íbúðarhúsnæðis er miklu lægra en byggingarkostnaður jafnvel þó að skortur sé á íbúðarhúsnæði og mikil eftirspurn. Á þessum stöðum hefur lítið sem ekkert verið um nýbyggingar íbúðarhúsnæðis. Þá er víða húsnæðisekla, jafnvel á litlum þéttbýlisstöðum þar sem íbúum hefur fækkað og hún kemur í veg fyrir fólksfjölgun á þessum stöðum.
    Með lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, er komin leið til að taka á þeim vanda sem skortur á leiguhúsnæði er en eftir stendur að stuðla að byggingu íbúðarhúsnæðis á frjálsum markaði. Mikilvægt er að hvetja einstaklinga til byggingar íbúðarhúsnæðis á framangreindum svæðum og vænlegast að ríki og sveitarfélög veiti stofnstyrki til byggingar íbúðarhúsnæðis á frjálsum markaði.
    Lykilatriðið í því samhengi eru m.a. samræmdar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga þar sem sveitarfélög greina til lengri og skemmri tíma þörf á uppbyggingu húsnæðis og helstu áskoranir og tækifæri í húsnæðismálum. Íbúðalánasjóður hóf á árinu 2017 að halda utan um slíkar samræmdar áætlanir en nauðsynlegt er að styrkja lagagrundvöll fyrir slíkri vinnu sem og gagnaöflun af hálfu sjóðsins til að auðvelda sveitarfélögum áætlanagerðina.

Afskrift námslána.
    Erfitt hefur reynst að fá fólk með framhaldsmenntun til starfa á svæðum þar sem íbúum fækkar jafnvel þótt störf við hæfi standi að einhverju marki til boða. Mikilvægt er að takist að ráða í þær stöður sem krefjast langskólamenntunar. Annars verða íbúar að sækja ýmiss konar sérfræðiþjónustu um langan veg með ærnum kostnaði. Með afskrift hluta námslána skapast sterkur hvati til búsetu og starfa þar sem slíkt er í boði og afskrift gæti verið meiri hjá þeim stéttum sem mestur skortur er á.

Þjónusta við innflytjendur.
    Nýbúum hefur fjölgað hér á landi síðustu ár og fyrirsjáanleg er áframhaldandi fjölgun þeirra á næstu árum. Mikilvægt er að nýbúum sé veitt aðstoð við aðlögun að íslensku samfélagi með fræðslu um það og þá fyrst og fremst um íslenskt mál. Sveitarfélög hafa annast fræðslu fyrir innflytjendur og er mikilvægt að ríkið veiti sveitarfélögum aukinn fjárhagsstuðning í samræmi við vaxandi fjölda nýrra íbúa.

Fjarlækningar og velferðarþjónusta.
    Þróun heilbrigðiskerfisins síðustu ár hefur haft í för með sér samdrátt auk þess sem áhersla hefur í vaxandi mæli verið á málefni aldraðra. Mjög er horft til fjarskipta í samskiptum heilsugæslulækna og sérfræðilækna, fjarlækninga og þjónustu við þá sem geta búið á heimili sínu þrátt fyrir líkamlegar og andlegar takmarkanir. Sú þjónusta verður að vera nærþjónusta og með henni má bæta búsetuskilyrði margra.
    Tækniþróun skapar nýja möguleika til þess að veita þjónustuna en samt er nærtækast að hún sé falin sveitarfélögum sem þegar starfrækja velferðarþjónustu á ýmsum sviðum, mismunandi eftir aðstæðum. Í nýlegri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar, State of the Nordic Region, er bent á að rafrænar lausnir geti aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og því skili fjárfesting á því sviði sér mjög vel og dragi úr ójafnræði. Netsamtöl við lækna eru að verða algengari annars staðar á Norðurlöndunum. Í öllum þessum samanburði getur Ísland gert mun betur.

Fjölmiðlar.
    Fjölmiðlun á landsbyggðinni á undir högg að sækja. Tekjumöguleikar eru takmarkaðir vegna lítilla markaðssvæða. Eftirspurn eftir bæði fréttum og þáttum sem fjalla um staðbundna viðburði er þó til vissulega til staðar, a.m.k. meðal heimafólks og brottfluttra. Fjölmiðlar sem ná til landsins alls sinna flestir minni byggðarlögum aðeins takmarkað. Fagleg fjölmiðlun er mikilvæg til að viðhalda sjálfsmynd íbúa, kynna mismunandi byggðarlög og auka þar með á sameiginlega vitund og samstöðu. Mikilvægt er að styrkja starfsemi staðbundinna fjölmiðla bæði vegna vinnslu frétta og þáttagerðar.
    Í nýlegri skýrslu nefndar um rekstrarvanda fjölmiðla er bent á að koma megi til móts við svæðisbundna fjölmiðla með niðurgreiðslu á póstburðargjöldum.

Menntun.
    Menntunarskilyrði eru ein meginforsenda fyrir sjálfbærri byggðaþróun í því skyni að samfélög nái að endurnýja sig og fást við síbreytilegar aðstæður.
    Töluverður munur er á menntunarstigi íbúa eftir einstökum landshlutum og sérstaklega er munurinn mikill í samanburði höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Samkvæmt greiningu sem unnin var fyrir Byggðastofnun árið 2015 (gögn frá 2011 og 2012) kemur í ljós að hlutfall íbúa með grunnskólapróf eða minna sem mestu menntun er um helmingi hærra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og er munurinn öfugur þegar skoðaðar eru tölur um háskólamenntun. Hlutfall íbúa með stúdentspróf er aftur á móti svipað á milli landshluta eða um 18% og heldur stærri hluti íbúa landsbyggðarinnar hefur sótt sér ýmiss konar verk- og iðnmenntun en á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgengi að menningarstarfsemi.
    Á grundvelli aðgerðaáætlunar um menningu barna og ungmenna 2014–2017 sem byggist á menningarstefnu stjórnvalda hefur verið stofnað til verkefnisins „List fyrir alla“ sem leggur megináherslu á menningu fyrir börn og menningu með þeim. Tilgangur verkefnisins er að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Á tíu ára grunnskólagöngu er stefnt að því að nemendur öðlist sem kostur er góða yfirsýn og kynnist fjölbreyttum listformum. Leitast verður við að sem flestar listgreinar fái notið sín innan verkefnisins.
    Frá árinu 1992 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti stuðlað að því að gerðar hafa verið faglegar, samanburðarhæfar rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna. Niðurstöður þeirra hafa verið kynntar árlega undir heitinu „Ungt fólk“. Rannsóknirnar eru gerðar með reglulegu millibili meðal nemenda í 5. til 10. bekk í öllum grunnskólum landsins og einnig í öllum árgöngum framhaldsskólanna. Góður árangur hefur náðst í forvörnum frá árinu 1992 og hafa rannsóknirnar reynst öflugt vöktunartæki til að bregðast við breytingum á samfélaginu og taka á ýmsum vandamálum meðal ungs fólks. Úrvinnsla og þekking á niðurstöðum rannsókna sem þessum kemur að miklum notum í að efla og bæta lífsskilyrði ungs fólks, sérstaklega í minni samfélögum. Rannsóknirnar eru liður í vöktun og þarfagreiningu á þjónustu við börn og ungmenni og styður við stefnumótunarvinnu sveitarfélaga í málefnum ungs fólks. Þessar rannsóknir hafa sýnt sig að vera nauðsynlegar til að fylgjast með áhrifum samfélagsins á lífsgæði barna og ungmenna.

Ferðakostnaður vegna íþrótta.
    Einn af stærstu þáttum í rekstri hvers íþróttafélags er ferðakostnaður. Kostnaðurinn er hins vegar eins og gefur að skilja ákaflega mismunandi eftir staðsetningu íþróttafélaga á landinu. Í mörgum tilfellum er um að ræða fjölda ferða liða og einstaklinga til suðvesturhornsins á hverju keppnistímabili þar sem liðin eru flest. Dæmi eru um, ef horft er til einstakra deilda í íþróttafélögum, að samanlögð vegalengd allra flokka til að sækja keppni nemi tugum þúsunda kílómetra á einu keppnistímabili. Oft lendir ferðakostnaður vegna keppnisferða á foreldrum og forráðamönnum iðkenda og því getur íþróttaiðkun ungs fólks staðið og fallið með efnahag foreldra. Íþróttaástundun er mikilvæg í hverju byggðarlagi enda talin ein af bestu forvarnaaðgerðunum fyrir ungt fólk. Mikilvægt er því að styðja við möguleika ungs fólks til að stunda íþróttir og taka þátt í heilbrigðri keppni við jafnoka sína.
    Á fjárlögum ársins 2016 voru veittar 100 millj. kr. til ferðasjóðs Íþróttasambands Íslands. Markmið sjóðsins er að koma til móts við íþróttafélög vegna kostnaðar þeirra af ferðalögum innan lands, sérstaklega þeirra sem eiga um langan veg að fara til að taka þátt í viðurkenndum mótum.

Sóknaráætlanir landshluta.
    Sóknaráætlanir landshluta eru nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu og tilraunaverkefni sem unnið er í nánu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Forsögu sóknaráætlana landshluta má rekja til ársins 2011 þegar byrjað var að þróa hugmyndafræðina innan Stjórnarráðsins. Vorið 2012 var stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál skipaður (þá undir heitinu stýrinet Stjórnarráðsins um sóknaráætlanir) og um haustið hófu allir átta landshlutarnir vinnu við gerð fyrstu sóknaráætlana og skipuðu samráðsvettvanga sem tóku þátt í þeirri vinnu. Landshlutarnir eru höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland og Suðurland.
    Sóknaráætlanir landshluta eru þróunaráætlanir sem fela í sér stöðumat, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Forgangsröðun verkefna í hverjum landshluta byggist á sóknaráætlun hans. Þannig er fjármunum sem varið er til verkefna á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála ráðstafað af heimamönnum samkvæmt áherslum sem mótaðar hafa verið af breiðum hópi þeirra. Sóknaráætlunum er ætlað að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni hvers landshluta, sem og landsins alls. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna.
    Aðferðafræði sóknaráætlana byggist á miklu samráði og samvinnu. Samvinna ríkis og sveitarfélaga fer fyrst og fremst fram í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál og landshlutasamtök sveitarfélaga. Samvinna ráðuneyta fer fram í gegnum stýrihópinn og samvinna sveitarfélaga og helstu haghafa í landshlutum fer fram í gegnum landshlutasamtök sveitarfélaga og samráðsvettvang þeirra um sóknaráætlanir.
    Samkvæmt samningum um sóknaráætlanir landshluta renna framlög ríkisins annars vegar til uppbyggingarsjóða og hins vegar til áhersluverkefna. Hver landshluti ákveður skiptinguna en þó skal að lágmarki setja 55% framlags ríkisins til uppbyggingarsjóða. Uppbyggingarsjóðir eru samkeppnissjóðir sem hafa það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun hvers landshluta. Úthlutunarnefnd fer fyrir hverjum sjóði, skipuð heimamönnum. Áhersluverkefni eru samningsbundin verkefni sem hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og áherslna samráðsvettvangs. Áhersluverkefnin eru samþykkt af stjórn landshlutasamtakanna og þurfa að hljóta staðfestingu stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál.
    Framlag ríkisins til samninganna kemur frá tveimur ráðuneytum, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Við skiptingu þeirra milli landshluta er notað reiknilíkan þar sem tekið er tillit til íbúafjölda, atvinnusóknarsvæða, atvinnuleysis, íbúaþróunar, útsvars og fjarlægðar frá Reykjavík. Samningurinn við höfuðborgarsvæðið er frábrugðinn samningunum við aðra landshluta en þar er ekki sérstakur uppbyggingarsjóður og fjármagnið sem rennur til höfuðborgarsvæðisins er því talsvert lægra. Með sóknaráætlunarverkefninu var höfuðborgarsvæðið í fyrsta sinn markvisst tekið með í byggðaþróunarverkefni og leiddi það meðal annars af sér að ný byggðaáætlun nær nú í fyrsta skipti til landsins alls.
    Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fer með eftirlit og umsýslu með samningum um sóknaráætlanir landshluta. Hópurinn er skipaður sérfræðingum úr öllum ráðuneytum og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Áheyrnarfulltrúar eru frá landshlutasamtökum sveitarfélaga og Byggðastofnun. Hlutverk stýrihópsins er að auka og efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í málaflokknum. Samkvæmt erindisbréfi vinnur stýrihópurinn út frá þeirri skilgreiningu að „byggðamál eru öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta.“
    Í greinargerð stýrihópsins um framvindu samninga og ráðstöfun fjármuna árið 2015 kemur m.a. fram að á fyrsta starfsári uppbyggingarsjóðanna, árið 2015, bárust sjóðunum sjö samtals 1.120 umsóknir. Heildarupphæð umsókna var rúmlega 1,6 milljarðar kr. Alls voru 606 verkefni styrkt, að upphæð 457 millj. kr. Samkvæmt úthlutunarreglum er mótframlag styrkþega að lágmarki sama upphæð og veittur styrkur. Þannig má áætla að um 1 milljarður hafi runnið til verkefna uppbyggingarsjóða á árinu. Áhersluverkefni á landinu öllu voru 39 talsins og heildarframlag úr sóknaráætlunum til þeirra voru tæpar 222 millj. kr., að ótöldu vinnuframlagi heimamanna.
    Einn þáttur í starfi stýrihópsins snýr að því að samhæfa stefnur ráðuneyta er snerta byggðamál og vera ríkisstjórn til ráðgjafar í byggðamálum. Nýju lögin um byggðaáætlun og sóknaráætlanir kveða á um að í sóknaráætlunum landshluta skuli mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taki mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar. Núverandi sóknaráætlanir taka aðeins til afmarkaðra málaflokka en stefnt er að því að tengja fleiri málaflokka og viðfangsefni við sóknaráætlanir þannig að þær geti orðið farvegur fyrir samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd byggðaáætlunar.
    Leiðarljós sóknaráætlana hefur frá upphafi verið að efla og styrkja landshlutana og færa heimamönnum aukin völd og aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna, enda þekkja þeir gleggst til aðstæðna. Landshlutasamtök sveitarfélaga eru almennt orðin öflugri og betur í stakk búin til að takast á við aukin verkefni.

Svæðisskipulag fyrir svæði sóknaráætlana.
    Í tengslum við gerð byggðaáætlunar vann Framtíðarsetur Íslands árið 2016 sviðsmyndagreiningar fyrir búsetuþróun á landinu til 2030. Að mati setursins, sem byggist á spám sérfræðinga, má gera ráð fyrir stóraukinni aðsókn ferðamanna til landsins næsta áratug og að flytja þurfi inn tugþúsundir starfsmanna til að anna þessari aukningu. Íslendingum gæti fjölgað á þessu tímabili um 120.000 manns, þar af á höfuðborgarsvæðinu um 85.000 manns. Þörf er á markvissum vinnubrögðum til þess að fást við þessa stórfelldu breytingu, að dreifa álagi um landið og tryggja öryggi landsmanna og ferðamanna. Ástand innanhéraðsvega sem liggja að vinsælum ferðamannastöðum er víða slæmt auk þess sem þessir vegir eru mikilvægir í daglegu lífi fólks í dreifbýli. Gert er ráð fyrir endurbótum á innanhéraðsvegum í samgönguáætlun og á vegum Stjórnstöðvar ferðamála og Ferðamálastofu er unnið að áætlun um stjórn og uppbyggingu ferðamannastaða fyrir árin 2017 og 2018. Mikilvægt er að samræming sé á milli viðhorfa sveitarstjórna, samgönguáætlunar og áætlunar um stjórn og uppbyggingu ferðamannastaða. Það sama gildir gagnvart meginæðum umferðar og raflína. Takmarkanir á flutningskerfi rafmagns hindra atvinnuuppbyggingu víða um land. Tryggja þarf næga raforku fyrir almenning og fyrirtæki í byggðum landsins, örugga raforkuflutninga og þrífösun rafmagns.
    Almenningssamgöngur á landi hafa tekið miklum breytingum síðustu ár. Breytingarnar hafa mælst vel fyrir meðal almennings. Þörf er á að þróa þær þannig að þær nái betur út frá aðalleiðum og tengist innanlandsflugi.
    Eftirsóknarvert er að sveitarfélög setji markmið og aðgerðir sóknaráætlana fram í svæðisskipulagi, þannig að þær tengist landnotkun, umferðarkerfi, almenningssamgöngum, orkuflutningum, ferðamannastöðum og þéttbýli og dreifbýli á hverju svæði sóknaráætlana.
    Sveitarfélög eru hvött til að taka mið af landsskipulagsstefnu 2015–2026 við gerð svæðisskipulags.

Höfuðborgarstefna.
    Byggðastefna eins og hún hefur birst í byggðáætlunum hefur fram að þessu ekki náð til höfuðborgarsvæðisins. Með lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, varð m.a. sú breyting að byggðaáætlun á að ná til landsins alls, þar með til höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Reykjavík er höfuðborg landsins og mikilvægasta markaðs- og efnahagssvæði með nágrannabyggðunum sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun byggða um land allt.
    Höfuðborgarsvæðið er í samkeppni við borgarsvæði erlendis frekar en aðra íslenska landshluta um fólk og fyrirtæki og samkeppnishæfni landshlutans er þannig mikilvæg fyrir aðra hluta landsins. Staða og hlutverk höfuðborgarinnar fyrir aðrar byggðir landsins þarf að vera skýr í byggðastefnu stjórnvalda og mótast af ábyrgð og skilningi eins og stefna þeirra fyrir aðra landshluta. Mótun slíkrar höfuðborgarstefnu krefst undirbúnings, samráðs og samstöðu og brýnt er að breið þátttaka verði í því verki. Við mótun höfuðborgarstefnu verður m.a. tekið mið af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og eftir atvikum landsskipulagsstefnu.
    Samkeppnisstaða og samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins eru mikilvægir þættir fyrir svæðið sjálft og aðra landshluta. Upplýsingar um þróun þess í samanburði við önnur norræn og evrópsk borgarsvæði eru mikilvæg forsenda fyrir stefnumótun svæðisins sjálfs, fyrir höfuðborgarstefnu og fyrir þróun slíkrar stefnumótunar. Til þess þarf upplýsingar um þróun höfuðborgarsvæðisins sem eru sambærilegar við þær sem unnar eru fyrir erlend borgarsvæði.

Upplýsingar um borgarsvæði.
    Þróun borgarsvæða byggist á breytilegum forsendum sem þarf að fylgjast með. Sem dæmi hafa stórborgir ýtt frá sér hefðbundinni starfsemi vöruhafna til þess að nýta hafnarsvæðin á vænlegri hátt fyrir þróun borganna, seilst er eftir þekkingarstarfsemi og sérhæfðri starfsemi sem byggist á sérstæðu umhverfi og svipmóti hafnarsvæðanna. Tengslanet borga og starfsemi borga eru mikilvægur þróunarþáttur en síbreytilegur. Víðtækar rannsóknir eru stundaðar á þessu sviði, upplýsingasöfnun og úrvinnsla, svo sem á vegum norrænu byggðarannsóknastofnunarinnar Nordregio og evrópska rannsóknasamstarfsins ESPON. Mikilvægt er að stofnunum ríkis og höfuðborgar verði fært að bera saman þróun og þróunaráherslur erlendra borgarsvæða og höfuðborgarsvæðisins og nýta norrænt og evrópskt samstarf þar sem þekkingu er að finna.

Byggðarannsóknir og byggðastefna.
    Mikilvægt er að efla samstarf opinberra stofnana og háskóla um gagnasöfnun um byggðaþróun. Hagstofa Íslands og ýmsir aðrir opinberir aðilar safna svæðisbundnum upplýsingum um einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög. Byggðastofnun fylgist lögum samkvæmt með byggðaþróun og helstu áhrifaþáttum hennar með úrvinnslu opinberra gagna og eigin gagnasöfnun. Ísland er virkur þátttakandi í Nordregio, norræni rannsóknastofnun á sviði byggða- og skipulagsmála. Hlutverk stofnunarinnar er að vera hlekkur á milli rannsókna og stefnumótunar, auka þekkingu og hæfni á sviðum sem eru mikilvæg fyrir sjálfbæra byggðaþróun og skipulag. Jafnframt tekur Byggðastofnun fyrir hönd íslenska ríkisins þátt í evrópsku ESPON-áætluninni um þverfaglegar byggðarannsóknir.
    Leggja þarf meiri vinnu í rannsóknir á búferlaflutningum enda mikilvægt að afla vitneskju um ástæður þess hvar fólk velur sér búsetu. Þessi vitneskja gæti líka svarað spurningunni um það hvað byggðir geta gert til þess að ungt fólk snúi heim aftur. Lýsingu á aðstæðum sem taldar eru áhrifamiklar fyrir búferlaflutninga og efnahagsþróun má sjá í fylgiriti byggðaáætlunar, Stöðugreining 2017. Efling byggðarannsókna er mikilvæg fyrir stefnumótun sem byggist á raunsönnum upplýsingum m.a. til þess að afla haldbetri þekkingar á áhrifavöldum búsetuþróunar.


Fylgiskjal.


Meðalatvinnutekjur og hagvöxtur eftir landshlutum.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.