Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 695  —  485. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um Ferðamálastofu.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



I. KAFLI

Stjórnsýsla.

1. gr.

    Ferðamálastofa er ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra.
    Stofnunin fer með stjórnsýslu ferðamála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir.
    Ráðherra skipar ferðamálastjóra til fimm ára í senn og veitir hann Ferðamálastofu forstöðu. Ferðamálastjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.

2. gr.

    Ferðamálastofa skal með starfsemi sinni fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi að teknu tilliti til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags ásamt því að vinna að samræmingu, greiningum og rannsóknum í ferðaþjónustu með hliðsjón af stefnu stjórnvalda.

3. gr.

    Verkefni Ferðamálastofu eru einkum:
     1.      Útgáfa leyfa.
     2.      Eftirlit með leyfisskyldri starfsemi, þar á meðal öryggisáætlunum.
     3.      Framkvæmd ferðamálastefnu, áætlanagerð og stuðningur við svæðisbundna þróun.
     4.      Öflun, miðlun og úrvinnsla upplýsinga, þar á meðal tölfræðilegra gagna og annarra upplýsinga um viðfangsefni stofnunarinnar.
     5.      Greining á þörf fyrir rannsóknir sem m.a. nýtast við stefnumótun stjórnvalda, í samvinnu við atvinnugreinina og rannsóknarstofnanir á sviði ferðaþjónustu.
     6.      Öryggismál, gæðamál og neytendavernd í ferðaþjónustu.
     7.      Varsla og umsýsla Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
     8.      Umsjón með starfsemi ferðamálaráðs.
     9.      Umsjón og eftirlit með tryggingaútreikningi og tryggingarskyldu seljenda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og reglum um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa.
    Ferðamálastofu er heimilt með þjónustusamningi að fela öðrum að annast ákveðin verkefni sem undir stofnunina heyra og vera aðili að samstarfsverkefnum.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni Ferðamálastofu.

4. gr.

    Ráðherra skipar ferðamálaráð. Í ferðamálaráði skulu eiga sæti níu fulltrúar og leggur Ferðamálastofa ráðinu til starfsmann.
    Ráðherra ferðamála skal skipa formann og varaformann án tilnefningar. Þá skulu eiga sæti í ráðinu fulltrúi ráðherra sem fer með fjármál og tekjuöflun ríkisins, fulltrúi ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar og skipulags og fulltrúi ráðherra sem fer með málefni samgangna og byggða- og sveitarstjórnarmála. Aðra fulltrúa skipar ráðherra eftir tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar sem tilnefna tvo fulltrúa og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tilnefnir einn fulltrúa. Einnig skal ferðamálastjóri eiga sæti í ráðinu.
    Skipunartími ferðamálaráðs er fjögur ár en skipunartími formanns, varaformanns og ráðherraskipaðra fulltrúa skal þó takmarkaður við embættistíma viðkomandi ráðherra.
    Ferðamálaráð skal funda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári.
    Ferðamálaráði er heimilt að starfrækja fagráð og leggja þeim til verkefni.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um starfsemi ferðamálaráðs, þ.m.t. um stofnun og starf fagráða.

5. gr.

    Ferðamálaráð er ráðherra til ráðgjafar um langtímastefnumótun og áætlanagerð í ferðamálum. Ferðamálaráð skal hafa yfirsýn yfir fjölþætt eðli ferðaþjónustunnar og vinna að samræmingu milli greinarinnar og stjórnvalda svo ná megi skilgreindum markmiðum langtímastefnumótunar um framtíðarþróun ferðaþjónustunnar.

II. KAFLI

Orðskýringar.

6. gr.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Seljandi er í lögum þessum einstaklingur eða lögaðili, jafnt í eigu hins opinbera sem í einkaeigu, sem kemur fram í atvinnuskyni og gerir samninga við ferðamenn, svo og hver sá sem í atvinnuskyni kemur fram í umboði og fyrir hönd seljanda hvort sem seljandi kemur fram sem skipuleggjandi, smásali eða seljandi sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun eða sem ferðaþjónustuveitandi.
     2.      Skipuleggjandi er í lögum þessum seljandi sem setur saman og selur eða býður til sölu pakkaferðir, annaðhvort milliliðalaust eða fyrir tilstilli annars seljanda eða ásamt öðrum seljanda, eða sá seljandi sem framsendir gögn um ferðamanninn til annars seljanda. Skipuleggjandi getur jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðasali dagsferða gerir.
     3.      Smásali er í lögum þessum seljandi, annar en skipuleggjandinn, sem selur eða býður til sölu pakkaferðir sem skipuleggjandi setur saman.
     4.      Ferðasali dagsferða er í lögum þessum aðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram og selur í atvinnuskyni til almennings skipulagðar styttri ferðir sem vara skemur en 24 klst. Sé næturgisting innifalin í ferð telst vera um pakkaferð að ræða, sbr. lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, og söluaðili telst þá falla undir 1. tölul.
     5.      Pakkaferð samkvæmt lögum þessum er samhljóða skilgreiningu í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
     6.      Samtengd ferðatilhögun samkvæmt lögum þessum er samhljóða skilgreiningu í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
     7.      Skipulögð ferð samkvæmt lögum þessum er þjónusta eða afþreying sem seljendur eða ferðasalar dagsferða setja saman, bjóða fram og selja til almennings í atvinnuskyni hvort sem það er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar.
     8.      Leyfisskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er öll starfsemi og þjónusta seljenda og ferðasala dagsferða.
     9.      Öryggisáætlun er skrifleg áætlun sem samanstendur af áhættumati, verklagsreglum, atvikaskýrslu og viðbragðsáætlun.

III. KAFLI

Leyfisskylda.

7. gr.

    Hver sá sem hyggst starfa sem seljandi eða ferðasali dagsferða skal hafa til þess leyfi Ferðamálastofu. Útgefið leyfi er ótímabundið.
    Leyfishafi sem fellur undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun er tryggingarskyldur í samræmi við VII. kafla þeirra laga.
    Leyfishafi skal í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á vef sínum nota myndrænt númerað auðkenni sem Ferðamálastofa útvegar. Ferðamálastofu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði þessu í sérstökum tilfellum að fenginni umsókn leyfishafa.
    Starfsemi leyfishafa skal rekin á fastri starfsstöð sem opin er almenningi. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði ef þjónustan er einungis starfrækt á rafrænan hátt og skal leyfishafi þá uppfylla skilyrði 6. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, um það sem koma skal fram á vef hans.
    Leyfishafa er heimilt að reka útibú á grundvelli leyfisins og skal forsvarsmaður útibús fullnægja sömu skilyrðum laga þessara og leyfishafi.
    Ferðamálastofa skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti, svo sem á vef sínum. Jafnframt skal auglýsa brottfallin leyfi á vefnum.

8. gr.

    Sækja skal um leyfi til reksturs samkvæmt lögum þessum til Ferðamálastofu a.m.k. tveimur mánuðum áður en fyrirhuguð starfsemi skal hefjast.
    Skilyrði leyfis er að umsækjandi eða forsvarsmaður hans, ef um lögaðila er að ræða, uppfylli eftirfarandi skilyrði:
     a.      hafi búsetu innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum,
     b.      sé lögráða, hafi forræði á búi sínu og hafi ekki á síðustu fjórum árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt lögum þessum, almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða staðgreiðslu opinberra gjalda,
     c.      hafi skráð starfsemi sína hjá ríkisskattstjóra,
     d.      hafi í gildi öryggisáætlun skv. 10. gr. og staðfesti að hann hafi kynnt sér gildandi lög og reglugerðir á sviði ferðamála sem um starfsemina gilda,
     e.      leggi fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ferðamálastofu er heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu sem nauðsynleg eru til að taka afstöðu til umsóknar.
    Falli leyfishafi undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem skipuleggjandi, seljandi sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun eða smásali skal leyfishafi leggja fram staðfestingu á tryggingu sem í gildi er áður en starfsleyfi er veitt.
    Í umsókn um leyfi skal koma fram heiti leyfishafa og skal getið um öll hjáheiti sem aðili hyggst nota í starfsemi sinni. Óheimilt er að reka starfsemina undir öðrum heitum en þeim sem fram koma í leyfinu.
    Heimilt er að bæta hjáheitum við þegar fengið leyfi með sérstakri umsókn leyfishafa til Ferðamálastofu sem þá skal gefa út nýtt leyfisbréf, án gjalds.
    Erlendur seljandi eða ferðasali dagsferða sem hyggst opna starfsstöð á Íslandi skal sækja um leyfi, framvísa skírteini um ábyrgðartryggingu sem í gildi er og hafa öryggisáætlun eins og nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
    Leyfishafa er heimilt að óska niðurfellingar leyfis hjá Ferðamálastofu. Óheimilt er þó að segja upp tryggingu samkvæmt lögum þessum eða lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun fyrr en að fenginni staðfestingu Ferðamálastofu á niðurfellingu.

9. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um umsóknir um leyfi, framkvæmd leyfisveitinga og eftirlit með leyfishöfum, þar á meðal um flokkun leyfa.

IV. KAFLI

Öryggisáætlanir og rannsóknir.

10. gr.

    Hver sá sem hyggst bjóða upp á eða selja skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis ber ábyrgð á því að útbúa skriflega öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar, óháð því hvort viðkomandi selur ferðina beint til ferðamanns eða með milligöngu annars aðila. Öryggisáætlun skal ávallt vera til skrifleg á íslensku og ensku. Óheimilt er að bjóða til sölu, kynna eða miðla á nokkurn hátt slíkum ferðum ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir.
    Áhættumat felur í sér mat á hugsanlegri áhættu tiltekinnar ferðar og skulu þátttakendur upplýstir á greinargóðan hátt um helstu áhættuþætti. Við skipulagningu ferðar skal áhættumat lagt til grundvallar við val á starfsmönnum, svo sem leiðsögumönnum, við tímasetningu ferðar, mat á ytri aðstæðum, tækjakosti o.s.frv.
    Verklagsreglur skulu taka mið af áhættumati ferðar. Í þeim skulu m.a. koma fram upplýsingar um þekkingu, reynslu og kunnáttu starfsmanna sem annast ferðina og hvernig skuli bregðast við ef vá ber að höndum, þ.m.t. um hvernig fjarskiptum skuli háttað.
    Viðbragðsáætlun skal taka mið af áhættumati og skal hún fela í sér lýsingu á viðbrögðum sem grípa skal til þegar hætta steðjar að eða slys verður.
    Atvikaskýrsla felur í sér upplýsingar um atvik, þá sem lentu í viðkomandi atviki og hvernig brugðist var við tilteknu atviki.
    Sá sem býður upp á skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis ber ábyrgð á að uppfæra öryggisáætlun sína reglulega og jafnskjótt og tilefni er til.
    Ferðamálastofa hefur eftirlit með því að öryggisáætlanir séu til staðar og séu uppfærðar eins og þörf er á. Ferðamálastofu er heimilt að kalla eftir öryggisáætlun. Ef öryggisáætlun reynist bersýnilega ófullnægjandi eða ekki hefur verið útbúin öryggisáætlun skal Ferðamálastofa veita aðila kost á að bæta úr innan hæfilegs frests sem skal að lágmarki vera 14 dagar. Ef aðili bætir ekki úr innan frestsins er Ferðamálastofu heimilt að leggja á dagsektir skv. 19. gr. þar til úr er bætt.
    Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um form og innihald öryggisáætlunar og um framkvæmd við yfirferð og eftirfylgni með öryggisáætlunum.

11. gr.

    Ferðamálastofa skal safna gögnum sem nýtast við ákvarðanatöku og markmiðasetningu í ferðaþjónustu og birta þau. Stofnunin skal jafnframt stuðla að rannsóknum og greina þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðamála og vinna rannsóknaráætlun í samstarfi við rannsóknarstofnanir, háskóla og atvinnugreinina þar sem skilgreind er rannsóknarþörf og forgangsröðun verkefna.
    Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um söfnun og vinnslu upplýsinga og rannsóknir.

V. KAFLI

Eftirlit og niðurfelling leyfis.

12. gr.

    Ferðamálastofa getur krafið þá sem lög þessi taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við eftirlit með leyfisskyldum aðilum. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
    Ferðamálastofa getur óskað upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum í því skyni að rækja eftirlitshlutverk sitt, þar á meðal frá skattyfirvöldum.

13. gr.

    Leyfi samkvæmt lögum þessum skal fella úr gildi vegna ógjaldfærni leyfishafa eða forsvarsmanns leyfishafa eða ef hann er sviptur fjárræði. Einnig fellur leyfið úr gildi ef trygging sem seljanda er skylt að afla samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun fellur úr gildi eða fullnægir ekki ákvæðum laganna.
    Ferðamálastofa getur fellt úr gildi leyfi samkvæmt lögum þessum ef leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa uppfyllir ekki lengur skilyrði 2. mgr. 8. gr., ef öryggisáætlun skv. 10. gr. er ófullnægjandi eða hann brýtur á annan hátt gegn ákvæðum þessara laga.
    Ferðamálastofu er heimilt að fella leyfi niður ef seljandi uppfyllir ekki skilyrði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun um skil ársreikninga og annarra gagna sem eru nauðsynleg við mat á fjárhæð tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar eða ef seljandi sinnir ekki ákvörðun Ferðamálastofu um hækkun tryggingafjárhæðar innan mánaðar frá því að ákvörðun um hækkun er tilkynnt, sbr. ákvæði þar um í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

14. gr.

    Áður en leyfi er fellt úr gildi skv. 2. og 3. mgr. 13. gr. skal Ferðamálastofa senda leyfishafa viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar og skal leyfishafa gefinn frestur í a.m.k. 14 daga til að bæta úr annmörkum.
    Ef til niðurfellingar skv. 2. og 3. mgr. 13. gr. kemur skal Ferðamálastofa tilkynna leyfishafa skriflega um niðurfellinguna og frá hvaða tíma leyfi telst niður fallið.
    Leyfisbréfi skal skila til Ferðamálastofu án tafar frá því að tilkynning skv. 2. mgr. berst.
    Ferðamálastofa skal auglýsa með tryggilegum hætti brottfall leyfis bæði í Lögbirtingablaði og á vef sínum. Jafnframt getur Ferðamálastofa auglýst brottfall leyfis á annan hátt eins og heppilegt þykir hverju sinni.
    Niðurfelling leyfis skv. 2. og 3. mgr. 13. gr. jafngildir rekstrarstöðvun í skilningi laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og er þá heimilt að ganga að tryggingum viðkomandi rekstraraðila.

VI. KAFLI

Viðurlög og ýmis ákvæði.

15. gr.

    Öll þjónusta leyfishafa sem veitt er á rafrænan hátt skal vera í samræmi við lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

16. gr.

    Stjórnvaldsákvarðanir Ferðamálastofu eru kæranlegar til ráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

17. gr.

    Ferðamálastofa innheimtir þjónustugjöld fyrir útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum. Gjaldskrá skal staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað sem almennt hlýst af útgáfu leyfa.

18. gr.

    Hver sá sem rekur leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða ef starfsemi samkvæmt útgefnu leyfi er ekki samræmi við leyfið skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Ef leyfisskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er rekin án leyfis ber lögreglustjóra, að beiðni Ferðamálastofu, að stöðva starfsemina án fyrirvara eða aðvörunar, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun vefs, enda hafi ekki verið gefið út leyfi vegna leyfisskyldrar starfsemi, leyfi hafi verið fellt niður, það afturkallað eða leyfishafi sviptur því, eða leyfisskyld starfsemi farið út fyrir mörk útgefins leyfis.

19. gr.

    Ef ekki er farið að fyrirmælum Ferðamálastofu samkvæmt lögum þessum getur stofnunin ákveðið að sá eða þeir sem fyrirmælin beinast að greiði dagsektir þar til farið hefur verið að þeim. Ferðamálastofu er jafnframt heimilt að leggja dagsektir á aðila sem uppfyllir ekki kröfur laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem varða tryggingarskyldu og á þá sem stunda leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis, sbr. 18. gr.
    Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til ráðherra innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim sem hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn.
    Dagsektir eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti en kæra til ráðherra frestar aðför uns endanleg niðurstaða liggur fyrir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför.

VII. KAFLI

Gildistaka.

20. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. júlí 2018 og falla þá úr gildi lög um skipan ferðamála, nr. 73/2005, með síðari breytingum. Ákvæði 4. og 5. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2020.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Ferðaskipuleggjandaleyfi og skráningar bókunarþjónustu samkvæmt lögum nr. 73/2005 sem í gildi eru við gildistöku laga þessara skulu halda gildi sínu til 1. október 2018. Gefur Ferðamálastofa þá út ný leyfi viðkomandi aðilum til handa, eftir því í hvaða leyfisflokk viðkomandi starfsemi fellur. Ekki skal taka gjald fyrir nýtt leyfi til þessara aðila.

II.

    Ferðaskrifstofuleyfi samkvæmt lögum nr. 73/2005 sem í gildi eru við gildistöku laga þessara skulu halda gildi sínu. Því til staðfestingar skal Ferðamálastofa gefa út ný leyfi viðkomandi aðilum til handa í samræmi við lög þessi og lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

III.

    Þeir ferðaþjónustuaðilar sem skylt er að hafa öryggisáætlun skv. 10. gr. laga þessara skulu hafa sett slíkar áætlanir og tekið þær í notkun eigi síðar en 1. janúar 2019.

IV.

    Fram til 1. janúar 2020 skal ferðamálaráð starfa í samræmi við ákvæði 5. og 6. gr. laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Um er að ræða frumvarp til heildarlaga um Ferðamálastofu. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að núgildandi lög um skipan ferðamála, nr. 73/2005, falli brott.
    Lengi hefur verið stefnt að endurskoðun á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, enda hefur löggjöfin verið nánast óbreytt á meðan ferðaþjónustan sjálf hefur eflst gríðarlega og er nú orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Sumarið 2017 var frumvarp til breytinga á lögunum kynnt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til umsagnar. Var í frumvarpinu gert ráð fyrir auknum kröfum til ferðaþjónustuaðila hvað varðar öryggisatriði og öryggisáætlanir ásamt því að ráðgerðar voru ýmsar breytingar sem varða starfsemi og hlutverk Ferðamálastofu, þar á meðal að veita stofnuninni heimild til að leggja á dagsektir. Ekki varð af framlagningu frumvarpsins á liðnu þingi.
    Ákveðið var að leggja til veigameiri breytingar á lögunum en upphaflega stóð til samhliða því að tilskipun um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 2015/2302/ESB, verður innleidd með sérstökum lögum sem koma munu í stað núgildandi laga um alferðir, nr. 80/1994.
    Nokkur ákvæði í núgildandi lögum um skipan ferðamála munu flytjast yfir í lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, svo sem ákvæði sem varða tryggingar vegna pakkaferða.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu ferðamála frá október 2017 kom fram að endurskoða þyrfti lög um skipan ferðamála og marka skýrari stefnu í málaflokknum. Einnig kom þar fram að nauðsynlegt væri að auka samhæfingu ferðamála við aðra þætti svo sem náttúruvernd, samgöngumál, löggæslu og heilsugæslu ásamt því að endurskoða skipulag verkefna innan stjórnsýslu ferðamála.
    Því er nú lagt fram sérstakt frumvarp um Ferðamálastofu sem slíka og verkefni hennar. Í undirbúningsvinnunni hefur verið stefnt að því að afmarka og skýra vel hlutverk Ferðamálastofu sem leyfisveitanda í ferðaþjónustu, samhæfingaraðila rannsókna í ferðaþjónustu ásamt því að stofnunin fylgist með og stuðli að þróun greinarinnar þvert á hin ýmsu svið, bæði innan stjórnsýslunnar og meðal ferðaþjónustuaðila.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þróun og vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið mjög mikill á undanförnum árum, fjöldi ferðamanna aukist gríðarlega og farið úr tæplega milljón árið 2014 í rúmlega tvær milljónir ferðamanna sem fóru um Keflavíkurflugvöll og inn í landið árið 2017.
    Breytingar í ferðaþjónustu á undanförnum árum og aukið mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir þjóðarbúið leiðir til þess að stjórnvöldum ber að yfirfara og endurskoða eftir þörfum stjórnsýslu málaflokksins sem skipulögð var við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi. Frumvarp þetta er liður í yfirferð stjórnvalda yfir stjórnsýslu ferðaþjónustunnar og hefur þann tilgang helstan að skýra hlutverk og stjórnsýslu Ferðamálastofu og verkefni ásamt því að auka hæfni ferðaþjónustuaðila og auka öryggi ferðamanna og stuðla þannig að jákvæðri upplifun þeirra. Mikilvægt er að gæta að orðspori Íslands sem áfangastaðar þar sem orðspor og upplifun skipar sífellt stærri sess í vali á áfangastöðum á sama tíma og hefðbundin markaðssetning hefur minni áhrif. Vægi internetsins og samfélagsmiðla er sífellt að aukast og taka þarf mið af þeirri þróun.
    Fjölmörg verkefni hafa þegar verið unnin undanfarin ár til að bregðast við örum vexti atvinnugreinarinnar. Ferðaþjónustan er í eðli sínu víðfeðm og snertir mörg svið mannlegra athafna. Þannig koma öll ráðuneyti stjórnarráðsins að henni með einum eða öðrum hætti. Sveitarfélögin eru mikilvægur hlekkur enda eru margir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón sveitarfélaga. Auk þess fara sveitarfélög með skipulagsvald en skipulagsmál eru gríðarlega mikilvægur þáttur í allri skipan mála fyrir ferðaþjónustuna. Þá er einsýnt að til þess að atvinnugreinin haldi áfram að þróast með jákvæðum hætti fyrir samfélagið er þörf á góðri samvinnu milli greinarinnar og hins opinbera. Samstarf allra aðila er því nauðsynlegt til þess að takast á við þær áskoranir og þau verkefni sem vextinum fylgja. Helstu áskoranir sem í ferðaþjónustunni snúa að uppbyggingu innviða, alþjóðlega samanburðarhæfum mælingum og áreiðanlegum gögnum, þolmörkum, bæði umhverfislegum og félagslegum, áhættustjórnun og auknu öryggi og forvörnum.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að þróun framtíðarsýnar fyrir málaflokkinn. Í október 2015 var kynnt aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu undir heitinu Vegvísir í ferðaþjónustu sem unnin var í samvinnu stjórnvalda og Samtaka ferðaþjónustunnar. Horft var sérstaklega til forgangsverkefna næstu fimm ára sem skapað geti grundvöll fyrir frekari þróun atvinnugreinarinnar. Forgangsverkefnin eru samhæfð stýring ferðamála, að stuðla að jákvæðri upplifun ferðamanna, að til verði áreiðanleg gögn um ferðaþjónustuna, aukin náttúruvernd, aukin hæfni og gæði í ferðatengdri þjónustu, aukin arðsemi og betri dreifing ferðamanna um landið.
    Í kjölfar útgáfu Vegvísis í ferðaþjónustu var gert samkomulag milli ríkisstjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar um að setja á fót Stjórnstöð ferðamála. Hlutverk Stjórnstöðvar ferðamála er að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir til að ná skilgreindum markmiðum í samvinnu við stjórnsýsluna, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila. Samkvæmt samkomulaginu er Stjórnstöðinni ætlað að starfa í fimm ár frá stofnun eða til loka ársins 2020. Stjórnstöð ferðamála fer ekki með stjórnsýslu í málaflokknum, fer ekki með opinbert vald og ber ekki ábyrgð á einstaka stjórnsýsluverkefnum heldur er ætlað að samhæfa vinnu þeirra fjölmörgu aðila innan stjórnsýslunnar sem koma að ferðamálum með einum eða öðrum hætti.
    Hinn 1. mars 2017 var sett á fót með ákvörðun ráðherra sérstök skrifstofa ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með stofnun skrifstofunnar, sem áður var hluti af skrifstofu viðskipta, nýsköpunar og ferðaþjónustu, var vægi ferðamála aukið innan ráðuneytisins sem hefur skapað nýjar forsendur til að vinna að samþættingu ferðamála þvert á stjórnsýsluna á vettvangi stjórnvalda. Skrifstofunni er ætlað að vinna að stefnumótun, samræmdu lagaumhverfi, fjármögnun og bættu starfsumhverfi greinarinnar. Það er gert með því að skapa ferðaþjónustunni hagkvæma og skilvirka umgjörð og treysta grundvöll hennar með skýrum leikreglum og stefnumótun.
    Gildandi ferðamálaáætlun var samþykkt á Alþingi árið 2011 og gildir til ársins 2020. Með hliðsjón af þeirri þróun sem að framan hefur verið lýst og því að verkefni Stjórnstöðvar ferðamála ganga vel er ljóst að stjórnvöld þurfa að vinna nýja ferðamálaáætlun. Sú vinna er hafin í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með aðkomu ýmissa haghafa og mun áætlunin endurspegla viðhorf og framtíðarsýn fyrir þennan mikilvæga málaflokk.
    Fjölmargar áskoranir eru fram undan í ferðamálum sem taka þarf mið af við gerð áætlunarinnar. Þar ber hæst aðgerðir til að stuðla að sjálfbærni ferðaþjónustunnar í efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Tvö verkefni sem unnið er að um þessar mundir munu nýtast sérlega vel við slíka vinnu. Annars vegar skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þolmörk ferðamennsku sem lögð verður fyrir Alþingi á vorþingi og unnin er út frá fyrirliggjandi þolmarkarannsóknum hér á landi. Hins vegar verkefni sem unnið er að á vegum Stjórnstöðvar ferðamála um greiningu sjálfbærniviðmiða fyrir fjölda ferðamanna á Íslandi með tilliti til innviða og samfélags. Ef vel tekst til geta viðmiðin nýst við að meta jafnvægi lykilþátta í undirstöðu og innviðum ferðaþjónustu hér á landi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér nýja löggjöf um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og hluta leyfisveitinga í ferðaþjónustu. Því er ætlað að standa sjálfstætt en til hliðar við frumvarp um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem mun einnig verða lagt fram á yfirstandandi þingi.
    Helstu breytingar frá gildandi lögum snúa að stjórnsýslu málaflokksins, breytingum á hlutverki og markmiðum Ferðamálastofu, skyldu ferðaþjónustuaðila til að setja sér öryggisáætlun, dagsektarheimild til handa Ferðamálastofu og flutningi ákvæða yfir í lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

3.1. Verkefni Ferðamálastofu og ferðamálaráðs.
    Í frumvarpinu er hlutverk Ferðamálastofu afmarkað frekar en það er í samræmi við niðurstöður Ríkisendurskoðunar í skýrslu um stjórnsýslu ferðamála. Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um stjórnsýslu ferðamála og sérstakt ákvæði afmarkar stjórnsýslulega stöðu Ferðamálastofu sem stjórnsýslustofnunar sem starfar í umboði ráðherra. Sérstakt ákvæði fjallar jafnframt um megintilgang stofnunarinnar sem er að fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustunnar sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi. Í þeirri þróun er nauðsynlegt að taka tillit til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags ásamt því að efla greiningar, samræmingu og rannsóknir í ferðaþjónustunni. Þá eru verkefni Ferðamálastofu betur skilgreind í níu liðum þar sem sérstaklega er afmarkað hlutverk stofnunarinnar hvað varðar yfirsýn, túlkun og greiningu á þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðaþjónustu. Ný verkefni Ferðamálastofu tengjast enn fremur öryggisáætlunum og umsjón með starfi nýs ferðamálaráðs.
    Þá er hlutverki ferðamálaráðs breytt verulega, það eflt og ásýnd þess breytt. Fulltrúar í ferðamálaráði verða níu talsins. Í ráðinu munu sitja fulltrúar þeirra lykilráðuneyta sem tengjast ferðaþjónustunni og skulu fulltrúarnir hafa tengsl við málefnasvið viðkomandi ráðuneytis. Aðrir fulltrúar verða frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum ferðaþjónustunnar. Hlutverk ráðsins verður enn fremur skilgreint á nýjan hátt þótt það verði enn ráðgefandi fyrir ferðamálaráðherra. Í frumvarpinu kemur fram að nýtt ferðamálaráð skuli vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanagerð og langtímastefnumótun í ferðamálum ásamt því að hafa og veita ákveðna yfirsýn yfir ferðaþjónustuna, framtíðarþróun og samspil greinarinnar og stjórnvalda. Þá mun ráðið geta starfrækt fagráð svo sem á sviði markaðsmála ferðaþjónustunnar, samgöngumála og umhverfismála svo dæmi séu tekin. Er þá gert ráð fyrir að í slíkum ráðum sitji aðilar frá t.d. Vegagerðinni, Isavia, Íslandsstofu og markaðsstofum landshlutanna.

3.2. Skilgreiningar.
    Einnig eru gerðar breytingar á hugtökum vegna leyfisveitinga en þær koma til vegna innleiðingar á tilskipun um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 2015/2302/ESB.
    Seljandi í skilningi laga þessara er kynnt sem nýtt hugtak í samræmi við nefnda tilskipun. Hugtakið ferðaskrifstofa fellur inn í hugtakið skipuleggjandi sem notað verður yfir þá ferðaþjónustuaðila sem selja, setja saman eða bjóða til sölu pakkaferðir. Um pakkaferð er að ræða þegar sett er saman a.m.k. tvenns konar ferðatengd þjónusta vegna sömu ferðar, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Um nánari afmörkun og umfjöllun um hugtökin pakkaferð og seljanda pakkaferðar vísast til frumvarps um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Undir seljandahugtakið falla einnig aðilar sem aðeins hafa milligöngu um sölu á samtengdri ferðatilhögun.
    Nýtt hugtak er smásali en það er skilgreint sem seljandi, annar er skipuleggjandinn, sem selur eða býður til sölu pakkaferð sem skipuleggjandi setur saman.
    Annað nýtt hugtak er kynnt vegna ferðaþjónustuaðila sem selja, setja saman eða bjóða dagsferðir, þ.e. ferðir sem ná yfir minna en 24 klst. en það er hugtakið ferðasali dagsferða. Enn fremur er hugtakið bókunarþjónusta fellt niður en þeir aðilar sem selja ferðir og taka fyrir það greiðslu, hvort sem þeir sjálfir veita þjónustuna eða hafa selt ferð fyrir annan aðila, teljast nú í flestum tilfellum falla undir hugtakið smásali.
     Upplýsingamiðstöðvar eru einnig felldar út sem hugtak í lagalegum skilningi og því verður ekki þörf á skráningu til að reka upplýsingamiðstöð og veita ferðamönnum upplýsingar víða um land.
    Ný leyfi í ferðaþjónustu verða þannig annars vegar leyfi sem þeim aðilum sem falla undir tilskipun og lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun ber að afla sér. Hins vegar er um að ræða leyfi til ferðasala dagsferða sem eru þá seljendur ferða sem ekki uppfylla skilyrði í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og í samnefndri tilskipun.

3.3. Krafa um öryggisáætlanir.
    Árið 2014 skilaði stýrihópur Ferðamálastofu skýrslu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu. Í skýrslunni var m.a. lagt til að lögfestar yrðu sérstakar öryggiskröfur sem gilda ættu um ferðaþjónustufyrirtæki sem skipuleggja og bjóða til sölu skipulagðar ferðir innan lands. Í skýrslunni kemur fram að haghafar hafi bent á mikilvægi þess að öryggismál ferðaþjónustuaðila séu í lagi og að þeir sem starfi í greininni hafi viðeigandi þekkingu og þjálfun. Ef skorti á gæði og öryggi í ferðaþjónustu er hætta á að íslensk ferðaþjónusta standist ekki samanburð í samkeppni við önnur lönd.
    Í frumvarpinu er því lagt til að lögfest verði sú skylda ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á skipulagðar ferðir að útbúa öryggisáætlun í samræmi við tillögur sem fram koma í skýrslunni. Áður hefur verið lagt til að slík skylda verði lögfest. Á 140. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp sem m.a. var ætlað að innleiða öryggisáætlanir og einfalda stjórnsýslu (623. mál, þskj. 984) en það náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt á 141. löggjafarþingi (128. mál, þskj. 128) en náði heldur ekki fram að ganga. Í kjölfar framlagningar þessara frumvarpa gaf Ferðamálastofa út leiðbeinandi öryggisreglur sem unnar voru í samráði við Samtök ferðaþjónustunnar og ferðaþjónustuaðilar gátu tileinkað sér. Horft verður til þeirra reglna þegar öryggisreglur verða nánar útfærðar í reglugerð.
    Öryggisáætlun skal vera með ákveðnum hætti og innihalda m.a. viðbragðsáætlun og er lagt til að ráðherra setji nánari fyrirmæli í reglugerð um hvað koma skuli fram í öryggisáætlun. Markmiðið er að auka öryggi ferðamanna sem hingað koma í skipulagðar ferðir eða kaupa slíka ferðaþjónustu innan lands. Þannig er gert ráð fyrir að ferðaþjónustuaðili þurfi að útbúa öryggisáætlun fyrir sérhverja tegund ferðar þar sem lagt er mat á helstu áhættuþætti ferðarinnar, viðbrögð við hugsanlegri vá og áætlun um hvernig skuli brugðist við ef eitthvað fer úrskeiðis. Ferðamálastofa getur á hverjum tíma kallað eftir öryggisáætlun til skoðunar og yfirferðar. Það er hins vegar alfarið á ábyrgð ferðaþjónustuaðila að öryggisáætlun sé fullnægjandi efnislega og að hún sé uppfærð reglulega en Ferðamálastofu er ætlað að hafa eftirlit með því að ferðaþjónustuaðilar geri slíkar áætlanir og uppfæri reglulega. Ákvæðum frumvarpsins þessa efnis er ætlað að stuðla að aukinni neytendavernd og öryggi ferðamanna ásamt aukinni fagmennsku í starfsemi ferðaþjónustuaðila. Vel gerðar, skilvirkar og aðgengilegar öryggisáætlanir auka traust viðskiptavina ferðaþjónustufyrirtækja sem aftur eykur líkur á jákvæðri upplifun ferðamanna af viðkomandi ferð. Ætla má að það verði metnaðarmál hjá ábyrgum aðilum að uppfæra öryggisáætlanir reglulega.

3.4. Þvingunarúrræði Ferðamálastofu.
    Í skýrslu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu er einnig lagt til að Ferðamálastofa fái auknar valdheimildir til að bregðast við brotum gegn lögum um skipan ferðamála. Í lögunum hefur Ferðamálastofa ekki heimildir til að beita íþyngjandi úrræðum á stjórnsýslustigi, líkt og dagsektum eða stjórnvaldssektum. Dagsektir eru í eðli sínu þvingunarúrræði sem ætlað er að þvinga þá aðila sem dagsektum er beint gegn til að breyta háttsemi sinni þannig að hún verði eftirleiðis í samræmi við lög. Stjórnvaldssektir eru refsikennd viðurlög sem stjórnvöld geta lagt á aðila sem brjóta gegn lögum og hafa þann tilgang að valda óþægindum og hafa varnaðaráhrif. Úrræði Ferðamálastofu vegna brota gegn lögum um skipan ferðamála eru nú í 26. gr. laganna. Þar kemur fram að hver sá sem reki leyfisskylda eða skráningarskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða skráningar skuli sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Þá er heimilt í tilefni brota gegn leyfis- og skráningarskyldu að stöðva viðkomandi starfsemi án tafar. Við beitingu þessara úrræða þarf Ferðamálastofa að leita liðsinnis lögreglu og hefur verið bent á að kæra til lögreglu vegna brota á lögunum sé afar seinvirkt ferli.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að Ferðamálastofu verði veittar heimildir til að beita aðila, sem ekki fara að ákvörðunum sem teknar hafa verið á grundvelli laganna, eða stunda leyfisskylda starfsemi án viðeigandi leyfis, dagsektum þar til farið verði að henni eða starfsemi skráð á fullnægjandi hátt. Ferðamálastofa mun eftir sem áður geta afturkallað leyfi aðila á grundvelli 13. og 14. gr. laganna. Með dagsektum verður Ferðamálastofu þannig kleift að þvinga aðila til að fara að ákvæðum laganna, t.d. varðandi leyfisskyldu, gerð öryggisáætlana o.fl. Ekki er hins vegar lagt til að svo stöddu að Ferðamálastofa fái heimild til að beita stjórnvaldssektum.

3.5. Aðrar breytingar.
    Aðrar breytingar sem lögin fela í sér er flutningur ákvæða V. kafla núgildandi laga um tryggingarskyldu vegna alferða yfir í lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og nokkrar breytingar eru gerðar til skýringa á skilyrðum leyfisveitinga.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki er ástæða til að ætla að efni frumvarpsins brjóti gegn stjórnarskrá Íslands, nr. 33/1944. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að ferðaþjónustuaðilum verði gert skylt að setja sér öryggisáætlun sem taki mið af þeim ferðum sem þeir bjóða upp á. Í 75. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa en þó megi setja þessu frelsi skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Skylda til að setja sér öryggisáætlun felur í sér aukið öryggi fyrir viðskiptavini ferðaþjónustuaðila og aukna neytendavernd sem er í samræmi við markmið stjórnvalda um að auka hæfni og gæði í ferðaþjónustu. Ekki ástæða til að ætla að ákvæðið sé um of íþyngjandi og telja verður að það byggist á málefnalegum sjónarmiðum.

5. Samráð.
    Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnarráðsins 8. mars og samhliða birt á vefsíðu Stjórnarráðsins. Samráð var auk þess haft við Ferðamálastofu og starfshóp ráðuneytisins vegna innleiðingar á tilskipun 2015/2302/ESB um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Athugasemdir bárust ráðuneytinu frá Samtökum ferðaþjónustunnar og var tekið tillit til þeirra, svo sem varðandi nánari skýringar á hugtökum í frumvarpinu og greinarmun á ábyrgðartryggingum og tryggingum á grundvelli laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

6. Mat á áhrifum.
    Ákvæði frumvarpsins sem snúa að stjórnsýslu Ferðamálastofu, breytingu á verkefnum stofnunarinnar og nýjum verkefnum, munu hafa í för með sér aukinn kostnað af starfsemi stofnunarinnar sem reikna má með að krefjist sem samsvarar þremur stöðugildum. Kostnaðaraukningin verður fjármögnuð með flutningi fjármagns milli liða innan málefnasviðs 14 í fjármálaáætlun 2019–2023.
    Skylda ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á skipulagðar ferðir til að setja sér öryggisáætlun og uppfæra hana reglulega er nýmæli sem ætla má að hafi óverulegan kostnað í för með sér fyrir flesta ferðaþjónustuaðila. Ætla má að margir þeirra aðila sem nú bjóða upp á skipulagðar ferðir hafi þegar í gildi hjá sér öryggisáætlun sem taki á flestum þeirra atriða sem öryggisáætlun samkvæmt frumvarpinu á að gera. Það kann þó að vera nauðsynlegt fyrir einhverja aðila að uppfæra slíkar áætlanir auk þess sem uppfæra þarf þær reglulega. Tilgangur ákvæðisins er að auka öryggi, fagmennsku og neytendavernd í ferðaþjónustu sem ætla má að hafi jákvæð áhrif á samkeppni í greininni.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin afmarkar stjórnskipulega stöðu Ferðamálastofu. Stofnunin telst sérstök ríkisstofnun, lægra sett stjórnvald, með skilgreint hlutverk sem lýtur fyrirmælum ráðherra. Ákvarðanir Ferðamálastofu eru almennt kæranlegar til ráðherra.
    Í 2. mgr. kemur fram að ráðherra skipi ferðamálastjóra. Það leiðir af lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að forstöðumenn ríkisstofnana eru embættismenn sé annað ekki ákveðið í lögum. Af stöðu forstöðumanns sem yfirmanns leiðir að honum ber þá að skipuleggja stofnunina, ráða starfsmenn og standa skil á fjárreiðum hennar og verkstjórn gagnvart fagráðherra, fjármálaráðherra og ríkisendurskoðun, eftir því sem við á. Ákvæði um hlutverk og ábyrgð forstöðumanna eru í almennum lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og í lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál.

Um 2. gr.

    Ákvæðið er tilgangsákvæði og er nokkuð ólíkt ákvæði 1. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Lögð er til breyting þar sem fram kemur tilgangur laganna og stofnunarinnar til samræmis við þá þróun sem orðið hefur í ferðaþjónustu á Íslandi á undanförnum árum. Ferðaþjónustan er nú ein af höfuðatvinnugreinum landsins og mikil þróun hefur orðið í greininni frá því að lögin voru sett. Rétt þótti því að endurskoða tilgang og markmið laganna í samræmi við stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Er nú kveðið á um að helstu markmið séu að stuðla að sjálfbærni greinarinnar, auknum gæðum, auknu öryggi og neytendavernd og að ferðaþjónustan dafni í sátt og samlyndi við íslenskt samfélag og íslenska náttúru. Mikilvægt er að við þróun greinarinnar verði sérstaklega gætt að þolmörkum náttúru og samfélags. Við þá vinnu mun áðurnefnd skýrsla ráðherra um þolmörk ferðamennsku og verkefni Stjórnstöðvar ferðamála um greiningu sjálfbærniviðmiða fyrir fjölda ferðamanna hér á landi vera mikilvæg verkfæri.
    Þá er gert ráð fyrir að Ferðamálastofa hafi mikla aðkomu að þróun ferðaþjónustunnar og stöðu hennar. Ferðaþjónustan kemur inn á öll svið samfélagsins og heyrir undir valdsvið ólíkra ráðuneyta og stofnana. Ferðamálastofa skal meðal annars leitast við að leiða saman og samræma mismunandi sjónarmið sem af þessu fjölþætta eðli leiðir með hliðsjón af stefnu stjórnvalda.

Um 3. gr.

    Í greininni eru hlutverk Ferðamálastofu og verkefni talin upp í níu töluliðum. Verkefnin eru nokkuð breytt frá því sem áður var og hlutverk stofnunarinnar nú betur skilgreind og fjölbreyttari en áður.
    Ferðamálastofa skal áfram sinna hlutverki sínu við útgáfu leyfa í ferðaþjónustu og eftirliti með leyfishöfum.
    Þá skal stofnunin vinna að framkvæmd ferðamálastefnu stjórnvalda ásamt því að aðstoða við áætlanagerð og svæðisbundna þróun.
    Með miðlun upplýsinga um viðfangsefni stofnunarinnar er tiltekið sérstaklega það hlutverk sem stofnunin hefur haft og sinnt og nær til ýmiss konar upplýsingagjafar svo sem hvað varðar Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og almenna upplýsingagjöf til ferðamanna, ferðaþjónustuaðila og borgaranna.
    Ferðamálastofa hefur unnið ötullega að vinnslu og öflun tölfræðilegra upplýsinga um ferðamenn og ferðaþjónustuna. Áfram er gert ráð fyrir þessu hlutverki og þar á meðal framkvæmd landamærakannana og fleiri athugana.
    Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að Ferðamálastofa gegni lykilhlutverki í greiningu á þörfum fyrir rannsóknir í greininni og túlkun þeirra rannsókna sem til eru. Enn fremur skuli stofnunin hafa yfirsýn yfir rannsóknir sem unnar eru um ferðamál og móta afstöðu til þess hvaða rannsókna er þörf, þá meðal annars að teknu tilliti til stefnumótunar stjórnvalda um greinina. Gert er ráð fyrir að Ferðamálastofa hafi samvinnu við háskólasamfélagið og atvinnugreinina hvað þetta varðar. Lengi hefur verið ljóst að skortur er á rannsóknum á íslenskri ferðaþjónustu og þróun hennar, svo sem í tengslum við þolmörk landsins og náttúrunnar, dreifingu ferðamanna og ferðahegðun. Skýrsla ráðherra um þolmörk ferðamennsku og sú vinna sem hingað til hefur verið unnin á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála undir yfirheitinu Áreiðanleg gögn munu nýtast vel við greiningu á því hvaða rannsóknir stjórnvöld þurfa að láta fara fram að staðaldri og hversu oft framkvæma þarf rannsóknirnar.
    Nýtt hlutverk Ferðamálastofu felst einnig í aukinni áherslu á öryggismál ferðaþjónustuaðila með kröfu um öryggisáætlanir. Enn fremur skal stofnun hafa hlutverki að gegna í tengslum við viðbragðsáætlun ferðaþjónustunnar í samráði við stjórnstöð almannavarna en gert er ráð fyrir því að ferðamálastjóri beri ábyrgð á viðbragðsáætlun ferðaþjónustunnar.
    Þá er sérstaklega kveðið á um hlutverk stofnunarinnar hvað varðar umsýslu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og starf ferðamálaráðs og hlutverk hennar vegna umsjónar og eftirlits með tryggingaútreikningi og tryggingarskyldu aðila sem bjóða upp á pakkaferðir eða samtengda ferðatilhögun, sbr. lög þar um.
    Heimild er fyrir ráðherra til að setja reglugerð þar sem kveðið yrði nánar á um hlutverk Ferðamálastofu.

Um 4. gr.

    Ákvæðið felur í sér töluverða breytingu á skipan ferðamálaráðs. Í lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, kemur fram að í ferðamálaráði sitji tíu fulltrúar og meirihluti þeirra eru fulltrúar greinarinnar. Með frumvarpi þessu verður ásýnd ferðamálaráðs breytt þannig að stjórnsýslan hafi aukið vægi og hlutverk ráðsins mun samhliða endurspegla markmið um samræmingu stjórnvalda og greinarinnar.
    Ráðið mun verða skipað fulltrúum fjármála- og efnahagsráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem hafa það hlutverk að gæta þess að sú samhæfing sem næst með setu þeirra í ráðinu skili sér áfram í hlutaðeigandi ráðuneyti. Einnig sitja í ráðinu tveir fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar og fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Enn fremur mun ráðherra ferðamála skipa formann og varaformann án tilnefningar og þá á Ferðamálastjóri sæti í ráðinu. Skipunartími formanns, varaformanns og fulltrúa ráðherranna er takmarkaður við embættistíma ráðherrans, en aðrir eru skipaðir til fjögurra ára í senn.
    Ekki er gert ráð fyrir að nýtt ferðamálaráð skv. ákvæðinu taki til starfa fyrr en 1. janúar 2020. Stjórnstöð ferðamála, sem hefur með höndum ákveðið samræmingarhlutverk milli stjórnvalda og greinarinnar, er ætlaður líftími út árið 2020 en gera má ráð fyrir að verkefnum á hennar vegum verði flestum lokið eða þau komin í lokavinnslu á þessum tímapunkti. Skipan ferðamálaráðs eins og lagt er upp með í frumvarpinu endurspeglar að nokkru leyti skipan stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála, þar sem áðurnefndir fjórir ráðherrar sem mest hafa að segja af málefnum tengdum ferðaþjónustunni eiga sæti ásamt fjórum fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sá vettvangur hefur reynst vel til að samhæfa og samþætta aðgerðir stjórnvalda og stofnana út frá hinum fjölþættu þörfum ferðaþjónustunnar.

Um 5. gr.

    Verkefni og hlutverki ferðamálaráðs er töluvert breytt í frumvarpi þessu en samkvæmt lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála, er hlutverk ráðsins að vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum og gera tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar. Enn fremur segir þar að ferðamálaráð skuli veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað sem ráðherra felur því eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar. Jafnframt verður ferðamálaráð ráðherra til ráðgjafar við áætlanagerð og langtímastefnumótun í samráði við ráðuneyti ferðamála og Ferðamálastofu. Þá er gert ráð fyrir því að nýtt ferðamálaráð hafi yfirsýn yfir ferðaþjónustuna í heild enda er greinin afar fjölþætt í eðli sínu og nauðsynlegt að hafa vettvang þar sem aðilar af hinum ýmsu sviðum sem varða ferðaþjónustu koma saman.
    Heimild er fyrir ráðið að skipa fagráð og leggja þeim til ákveðin verkefni. Fyrirséð er að fagráð verði sett upp til þess að ræða markaðsmál, samgöngumál og fleiri mikilvæga þætti.
    Í 20. gr. og ákvæðum til bráðabirgða í frumvarpi þessu kemur fram að ákvæðin um ferðamálaráð skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2020 og að núverandi skipan ferðamálaráðs haldist fram til þess tíma.

Um 6. gr.

    Miklar breytingar hafa verið gerðar frá 7. gr. laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005. Með tilkomu tilskipunarinnar um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun reyndist nauðsynlegt að fara í allsherjarendurskoðun á hugtakanotkun í lögum um skipan ferðamála. Í tilskipuninni er notað hugtakið seljandi eða trader sem yfirhugtak og síðan hugtökin organizer og retailer yfir þá sem selja þjónustu, miðla henni og veita. Farin var sú leið í samráði ráðuneytisins við Ferðamálastofu og Neytendastofu að nota hugtökin skipuleggjandi sem organizer og smásali yfir hugtakið retailer. Leiðir þetta til nýrra skilgreininga fyrir þessi hugtök og skipuleggjandahugtakið nær nú yfir hugtakið ferðaskrifstofa samkvæmt lögunum um skipan ferðamála, nr. 73/2005.
    Í 1. tölul. er talað um hugtakið seljandi en í frumvarpi þessu er seljandi yfirhugtak yfir aðila sem miðla pakkaferðum eða selja þær. Geta þetta verið einstaklingar eða lögaðilar, jafnt í eigu hins opinbera sem og í einkaeigu, sem koma fram í atvinnuskyni og gera samninga við ferðamenn, svo og hver sá sem í atvinnuskyni kemur fram í umboði og fyrir hönd seljanda hvort sem seljandi kemur fram sem skipuleggjandi, smásali eða seljandi sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun eða sem ferðaþjónustuveitandi. Undir hugtakið geta þannig fallið skipuleggjendur, seljendur sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun og smásalar, þar á meðal þeir aðilar sem nú veita bókunarþjónustu í samræmi við lög nr. 73/2005, um skipan ferðamála.
    Aðilar sem falla undir skilgreiningu ferðasala dagsferða, þ.e. setja saman eða bjóða upp á ferð sem telst ekki pakkaferð og er þannig styttri en 24 klst. falla ekki undir þessa skilgreiningu á seljanda.
    Í 2. tölul. er fjallað um hugtakið skipuleggjandi. Í lögum um skipan ferðamála merkir ferðaskipuleggjandi aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram og selur í atvinnuskyni eftirfarandi ferðatengda þjónustu fyrir almenning:
     a.      skipulagningu ferða hópa og einstaklinga, innan lands og erlendis,
     b.      skipulagningu funda, sýninga og ráðstefna og hvers kyns þjónustu sem tengist því, innan lands sem utan,
     c.      hvers konar umboðs- og endursölu farmiða með skipum, bifreiðum, flugvélum eða járnbrautum,
     d.      dagsferðir sem fela í sér ýmiss konar afþreyingu og frístundaiðju, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, fljótasiglingar og ævintýraferðir með sérútbúnum ökutækjum,
     e.      ferðir og veitingar sem hluta af veittri þjónustu.
    Í frumvarpi þessu er notast við hugtakið skipuleggjandi yfir ferðaskrifstofu og að hluta til þá aðila sem falla undir hugtakið ferðaskipuleggjandi í lögum um skipan ferðamála. Aðalmunurinn liggur í því hvort viðkomandi seljandi teljist selja pakkaferð eða ekki og er þá aðallega miðað við það að seld sé þjónustu sem felur í sér tvo eða fleiri ferðaþætti og að ferðin taki meira en 24 klst.
    Nýja hugtakið skipuleggjandi nær þannig til þeirra aðila sem setja saman og selja eða bjóða til sölu pakkaferðir, annaðhvort milliliðalaust eða fyrir tilstilli annars seljanda eða ásamt öðrum seljanda, eða þess seljanda sem sendir gögn um ferðamanninn áfram til annars seljanda.
    Gera má ráð fyrir því að þeir aðilar sem í dag hafa fengið útgefið svokallað ferðaskrifstofuleyfi muni halda því en að Ferðamálastofa muni veita þeim breytt leyfi í samræmi við frumvarp þetta.
    Þeir sem í dag hafa ferðaskipuleggjandaleyfi munu þurfa að sækja um nýtt leyfi hjá Ferðamálastofu. Meta þarf starfsemi seljanda út frá því hvort hún telst falla undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun eða ekki. Sé um að ræða starfsemi sem fellur undir þau lög mun seljandi fá útgefið leyfi í samræmi við nýju lögin en teljist starfsemin ekki falla þar undir fær viðkomandi útgefið leyfi sem ferðasali dagsferða sbr. frumvarp þetta. Þó er gert ráð fyrir því að í skipuleggjandaleyfinu felist sjálfkrafa heimild til að stunda starfsemi ferðasala dagsferða.
    Í 3. tölul. er skilgreint nýtt hugtak, smásali, sem er eins og áður hefur komið fram hugtak sem notað er yfir retailer í tilskipun um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Smásali er seljandi, annar en skipuleggjandinn, sem selur eða býður til sölu pakkaferð sem sett er saman af skipuleggjanda. Undir þessa skilgreiningu munu flestar bókunarþjónustur samkvæmt núgildandi lögum falla. Selji viðkomandi aðili ferðir sem taka skemmri tíma en 24 klst. fellur hann í flokk ferðasala dagsferða.
    Í 4. tölul. er hugtakið ferðasali dagsferða skilgreint, en það er aðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram og selur í atvinnuskyni skipulagðar styttri ferðir sem ná yfir minna en 24 klst. Hugtakið nær yfir hluta þeirra aðila sem töldust samkvæmt lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, vera ferðaskipuleggjendur. Viðmiðið er hvort seld eða skipulögð er ferð sem nær yfir 24 klst. eða meira. Tiltekið er að sé næturgisting innifalin í ferð telst vera um pakkaferð að ræða, sbr. lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, og söluaðili telst þá falla undir hugtakið skipuleggjandi.
    Hugtökin pakkaferð og samtengd ferðatilhögun eru skilgreind í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
     Skipulögð ferð er í frumvarpi þessu skilgreind sem þjónusta eða afþreying sem seljandi, þ.e. skipuleggjandi, smásali eða ferðasali dagsferða, setur saman, býður fram og selur til almennings í atvinnuskyni, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar. Er þannig í tilfelli seljanda um að ræða skipulagða ferð sem inniheldur tvo eða fleiri ferðaþætti en í tilfelli ferðasala dagsferða er um að ræða aðeins einn ferðaþátt eða tvo eða fleiri ferðaþætti en þá þannig að ferðin taki ekki lengri tíma en 24 klst.
     Leyfisskyld starfsemi er skilgreind í 8. tölul. en þar segir að starfsemi seljanda og ferðasala dagsferða sé leyfisskyld. Í lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, var starfsemi ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa leyfisskyld starfsemi. Skráningarskyld starfsemi var þar samkvæmt lögunum starfsemi bókunarþjónustu og upplýsingamiðstöðva. Vegna breyttra skilgreininga á hugtakinu ferðaskipuleggjandi og bókunarþjónusta, en hugtakið er í raun fellt niður, munu bókunarþjónustur í flestum tilfellum teljast leyfisskyld starfsemi sem fellur undir hugtakið smásali.
     Öryggisáætlun er skilgreind í 9. tölul. og nánar um hana fjallað í skýringum við 10. gr.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er að mestu óbreytt að öðru leyti en því að hugtökum hefur verið breytt til samræmis við breytta hugtakanotkun. Samsvarar ákvæði þetta 8. gr. laga nr. 73/2005. Þá er auðkenni Ferðamálastofu breytt en það verður númer auk myndræns auðkennis. Enn fremur er afnumin undanþáguheimild sem íslensk ferðafélög hafa notið. Talið er að ekki séu lengur til staðar röksemdir fyrir því að undanþiggja starfsemi ferðafélaga löggjöf þessari.
    Hugtakið föst starfsstöð kemur fyrir í greininni og er þar átt við hugtakið eins og það er skilgreint í reglugerð um fasta starfsstöð, nr. 1165/2016, og hefur verið túlkað í framkvæmd.

Um 8. gr.

    Ákvæðið samsvarar 9. gr. laga nr. 73/2005 og er nánast óbreytt að öðru leyti en því að fellt hefur verið úr gildi aldurslágmark vegna leyfisumsóknar, bætt við kröfu þess efnis að umsækjandi hafi skráð starfsemi sína hjá ríkisskattstjóra og bætt við kröfu um öryggisáætlanir, sbr. 10. gr., ásamt því að vísa til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun hvað varðar tryggingarskyldu vegna pakkaferða.
    Þá er rétt að tiltaka að í ákvæðinu er annars vegar talað um ábyrgðartryggingu sem allir leyfisskyldir ferðaþjónustuaðilar þurfa að hafa og hins vegar talað um sérstaka tryggingu vegna pakkaferða sbr. lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Aðeins þeir aðilar sem falla undir lögin þurfa að afla sér tryggingar vegna pakkaferða. Í dag gætir misskilnings hjá mörgum umsækjendum á þessum tvenns konar tryggingum. Annars vegar er um að ræða tryggingu sem ætlað er að bæta tjón á mönnum og munum farþega í ferð ef tjón verður rakið til sakar ferðaþjónustuaðilans eða starfsmanns í hans þágu og hins vegar tryggingu vegna pakkaferðar og samtengdrar ferðatilhögunar vegna rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots seljanda ferðarinnar.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu felst heimild ráðherra til að setja reglugerð um leyfisumsóknir, framkvæmd leyfisveitinga og eftirlit með leyfishöfum.

Um 10. gr.

    Lagt er til að seljendum og ferðasölum dagsferða sem bjóða upp á skipulagðar ferðir innan lands verði gert skylt að setja sér öryggisáætlanir. Ákvæðið nær jafnt til innlendra sem erlendra ferðaþjónustuaðila en er bundið við þá sem veita þjónustuna, þ.e. skipuleggjendur og ferðasala dagsferða, en ekki er gerð krafa um að smásalar eða seljandi sem hefur aðeins milligöngu þurfi að hafa slíkar áætlanir, enda framkvæma þeir ekki hina skipulögðu ferð. Tilgangur ákvæðisins er að auka öryggi ferðamanna en með auknum fjölda ferðamanna eykst hættan á slysum. Skylda til að gera öryggisáætlun hefur í för með sér að ferðaþjónustuaðilar hafa fyrir fram lagt mat á þá áhættu sem felst í ferðinni sem boðið er upp á, hvaða verklagsreglum skuli fylgja komi upp atvik sem bregðast þarf við o.fl. Mikilvægt er að ferðaþjónustuaðilar geti brugðist rétt við erfiðum aðstæðum sem kunna að koma upp í ferðum sem þeir bjóða upp á því nokkur tími getur liðið þar til viðbragðsaðilar geta komið til aðstoðar. Gerð öryggisáætlunar og mat á áhættu af ferð eykur þannig sjálfstæði ferðaþjónustuaðila og möguleika þeirra til að bregðast við óvæntum aðstæðum.
    Öryggisáætlun skal samanstanda af fjórum mismunandi þáttum; áhættumati, verklagsreglum, atvikaskýrslu og viðbragðsáætlun. Í 2.–5. mgr. ákvæðisins kemur fram hvað skuli felast í áhættumati, hvernig verklagsreglur skuli vera, hvað taka skuli fram í viðbragðsáætlun og atvikaskýrslum. Öryggisáætlun tekur þannig að mestu leyti mið af áhættumati og er það því tegund ferðar og búnaður sem notaður er í ferðinni sem ræður mestu um það hvernig öryggisáætlun er og hversu ítarleg hún þurfi að vera. Sem dæmi er ljóst að jöklaferðir og fjallaferðir kalla á mun ítarlegri og umfangsmeiri öryggisáætlun en einfaldari ferðir á fjölsótta ferðamannastaði. Þannig munu ferðaþjónustuaðilar þurfa að gera öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar og geta því þurft að hafa fleiri en eina öryggisáætlun í gildi á hverjum tíma eftir því hvernig og hversu margar ferðir þeir bjóða upp á. Ákvæðið tekur nokkuð mið af fyrri frumvörpum sem lögð voru fram um öryggisáætlanir á 140. og 141. löggjafarþingi en er ítarlegra.
    Lagt er til að ráðherra setji nánari reglur um lágmarksinnihald öryggisáætlana.
    Ferðamálastofa skal hafa eftirlit með því að öryggisáætlanir séu til staðar og séu uppfærðar en gert er ráð fyrir að eftirlitið verði aðallega framkvæmt þannig að Ferðamálastofa kalli eftir öryggisáætlun frá viðkomandi ferðaþjónustuaðila til skoðunar. Fyrirkomulag við eftirlit með öryggisáætlunum byggist á reglum um áhættumat á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Ekki verður þannig skylt að skila öryggisáætlunum inn til Ferðamálastofu heldur verður heimilt að kalla eftir þeim á hverjum tíma og ákveðin úrræði til staðar ef áætlun er bersýnilega ófullnægjandi eða er ekki til staðar.
    Öryggisáætlanir skulu vera til á íslensku og ensku og óheimilt verður að bjóða upp á ferðir ef ekki hefur verið gerð öryggisáætlun. Gerð öryggisáætlunar er skylda fyrir alla í ferðaþjónustu, innlenda og erlenda aðila, sem bjóða upp á skipulagðar ferðir innan lands og innan íslensks yfirráðasvæðis. Aðilar bera sjálfir ábyrgð á innihaldi öryggisáætlana og að þær séu í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er nýtt og skilgreinir frekar hlutverk Ferðamálastofu hvað varðar rannsóknir á sviði ferðamála. Ferðamálastofa skal safna áreiðanlegum og alþjóðlega samanburðarhæfum gögnum til grundvallar ákvarðanatöku og markmiðasetningu í ferðaþjónustu. Uppfæra þarf gögnin reglulega og birta þau miðlægt. Hingað til hefur stofnunin aðallega sinnt gagnaúrvinnslu og tölfræði en með frumvarpinu er það hlutverk hennar lögfest ásamt því að lögð er áhersla á að auka yfirsýn stofnunarinnar yfir hvað hefur verið rannsakað hingað til og hver þörf er á rannsóknum á næstu árum. Sérstaklega skal Ferðamálastofa taka tillit til rannsókna sem samræmast stefnumótun stjórnvalda í greininni.
    Ferðamálastofa skal vinna rannsóknaráætlun í samstarfi við rannsóknarstofnanir, háskóla og greinina.

Um 12. gr.

    Ákvæðið er nýtt og skilgreinir heimildir Ferðamálastofu til að afla gagna og upplýsinga frá þeim aðilum sem sækja um og hafa leyfi sem og þeim aðilum sem eru leyfisskyldir að mati stofnunarinnar. Þá er að finna í ákvæðinu heimild til þess að afla upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, svo sem ríkisskattstjóra.

Um 13. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 21. gr. laga nr. 73/2005 að teknu tilliti til breytinga á hugtökum og þess að við bætist heimild til niðurfellingar ef öryggisáætlun er bersýnilega ófullnægjandi.

Um 14. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 22. gr. laga nr. 73/2005 að teknu tilliti til breytinga á hugtökum.

Um 15. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 24. gr. laga nr. 73/2005.

Um 16. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 25. gr. laga nr. 73/2005 en orðalagsbreyting hefur verið gerð. Í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar eru allar ákvarðanir Ferðamálastofu kæranlegar til ráðherra nema skýrt sé kveðið á um annað í lögum og er þá um undantekningu að ræða. Því hefur upptalning í dæmaskyni verið felld brott.

Um 17. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 27. gr. laga nr. 73/2005.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 26. gr. laga nr. 73/2005 að teknu tilliti til niðurfellingar á skráningarskyldu.

Um 19. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að Ferðamálastofa hafi heimild til að leggja á einstaklinga og lögaðila dagsektir ef ekki er farið að lagaskilyrðum eða ákvörðunum Ferðamálastofu. Í gildandi lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, eru þvingunarúrræði umfram það að svipta aðila leyfi takmörkuð. Ferðamálastofa hefur ekki haft heimildir til að leggja dagsektir á aðila sem hún telur reka starfsemi sem fellur undir ákvæði laganna og sé þannig leyfisskyld. Í slíkum tilfellum þarf Ferðamálastofa að leita til lögreglu sem getur verið tímafrekt ferli og á meðan á slíku ferli stendur getur viðkomandi aðili athafnað sig að mestu óáreittur af hálfu yfirvalda. Oft getur verið hagkvæmt fyrir Ferðamálastofu að geta beitt þvingunarúrræðum öðrum en að fella niður leyfi viðkomandi til að fá aðila til að uppfylla skyldur sínar enda er tilgangurinn að starfsemi aðila sé í samræmi við lögin og dagsektir eru skilvirkt úrræði til að mæta þeim tilgangi. Þetta getur til dæmis átt við þegar aðilar uppfylla ekki lengur skilyrði skráningar skv. 8. gr. frumvarps þessa, svo sem um skráningu hjá ríkisskattstjóra, uppfæra ekki öryggisáætlanir sínar eða hafa ekki ábyrgðartryggingar. Of viðurhlutamikið getur verið að hefja strax ferli til að fella niður leyfi aðila og kalla til lögreglu til að loka starfseminni heldur reyna fyrst að beita dagsektum til að fá aðila til að uppfylla skyldur sínar. Þá verður einnig að telja þá framkvæmd betur í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og líklegri til árangurs en núgildandi fyrirkomulag.

Um 20. gr.

    Gildistakan helst í hendur við gildistöku laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun þar sem nauðsynlegar breytingar á hugtakanotkun eru gerðar í þessu frumvarpi og verður það að standa til hliðar við frumvarp um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Á sama tíma er gert ráð fyrir niðurfellingu laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005, að undanskildum ákvæðum 5. og 6. gr. þeirra sem halda gildi sínu til 1. janúar 2020 þegar ákvæði 4. og 5. gr. frumvarps þessa koma til framkvæmda.