Ferill 491. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 701  —  491. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um kolefnisjöfnun vegna eldsneytisnotkunar opinberra aðila.


Flm.: Vilhjálmur Árnason.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að beita sér fyrir innleiðingu reglna sem geri ráð fyrir að öllum opinberum aðilum verði gert að kolefnisjafna eldsneytisnotkun sína. Ráðherra skipi í þessu skyni starfshóp sem geri tillögur að nánari útfærslu slíkra reglna, þar sem fram komi m.a. hvernig eldsneytisnotkun hvers opinbers aðila skuli mæld og hvenær aðili teljist hafa fullnægt skilyrðum um kolefnisjöfnun notkunarinnar. Hópurinn taki m.a. mið af samningi forsætisráðuneytisins og Kolviðar um kolefnisjöfnun bílaflota ríkisins frá 2008. Hópurinn skili skýrslu með tillögum sínum fyrir árslok 2018.

Greinargerð.

    Árið 2008 gerði forsætisráðuneytið samning við Kolvið um kolefnisjöfnun bílaflota ríkisins. Í samningnum kom fram að hnattræn hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa væri talin ein mesta umhverfisógn samtímans. Koldíoxíð væri mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin og tvær leiðir færar til að sporna við losun hennar; annars vegar að draga úr losuninni með notkun vistvænni orkugjafa og hins vegar að binda kolefni í jörðu með skógrækt og landgræðslu. Samningur þessi var endurnýjaður fyrir árið 2009 og nam kostnaður ríkissjóðs af verkefninu tæpum 15 millj. kr. árlega þau tvö ár sem samningurinn var í gildi. Þannig var u.þ.b. 7 milljón lítra eldsneytisnotkun ríkisins kolefnisjöfnuð á tveimur árum. Sökum samdráttar í opinberum rekstri í kjölfar efnahagshrunsins var samningurinn ekki endurnýjaður frekar og hefur eldsneytisnotkun ríkisins ekki verið kolefnisjöfnuð síðan 2009.
    Tillaga þessi er í samræmi við stefnu ríkisins í loftslagsmálum, þar sem þörfin á kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu verður mönnum æ ljósari svo að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar, m.a. samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Um síðustu áramót var kolefnisgjald hækkað um 50% með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og er það vel. Samhliða þrýstingi á að draga úr losun er mikilvægt að auka bindingu kolefnis og eru samningar og skuldbindingar um kolefnisjöfnun vegna eldsneytisnotkunar tilvalin leið til hvors tveggja. Eins má ekki gleyma að skógrækt þjónar ekki aðeins tilgangi þegar kemur að kolefnisbindingu því jákvæðar afleiðingar hennar eru fjölmargar. Má þar nefna uppbyggingu auðlindar til viðarframleiðslu, eflingu byggðar og sköpun starfa í dreifbýli, sköpun skjóls sem getur aukið umferðaröryggi og bætt aðstöðu til útivistar, endurheimt vistkerfa og aukna líffræðilega fjölbreytni.
    Sem fyrr segir var eldsneytisnotkun vegna bílaflota hins opinbera kolefnisjöfnuð með samningi við Kolvið árin 2008 og 2009. Kolviður starfar samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, og er stofnaður árið 2006 af Landvernd og Skógræktarfélagi Íslands með stuðningi ríkisstjórnar Íslands. Skv. 3. gr. laganna ber félaginu að senda Ríkisendurskoðun ársreikning sinn ásamt skýrslu um nýtingu fjár ár hvert. KPMG eru ytri endurskoðendur Kolviðar og Íslensk skógarúttekt á Mógilsá sér um mælingar á kolefnisbindingu í skógum á vegum Kolviðar. Skógrækt á vegum Kolviðar fer í grunninn þannig fram að félagið leigir land af landeigendum og þinglýsir kvöð á landið um að skógurinn standi þar uns hann hefur bundið áformað magn kolefnis, sem tekur um 60 ár. Kolviður er með leigusamning við Landgræðsluna í Gunnarsholti um land á Geitasandi og við Skógræktarfélag Íslands um land að Úlfljótsvatni. Þá hefur félagið hafið undirbúning að leigusamningi um 200 ha land í Skálholti norðan þjóðvegarins.
    Flutningsmanni þessarar tillögu þykir tími til kominn að hið opinbera hefji aftur kolefnisjöfnun vegna eldsneytisnotkunar og telja ráðlegt að hver og einn opinber aðili beri ábyrgð á kolefnisjöfnun eldsneytisnotkunar sinnar, ólíkt því sem var 2008–2009. Flutningsmaður telur mikilvægt að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi fyrir atvinnulífið og einkaaðila sem margir hverjir hafa þegar stigið þetta skref í samræmi við skuldbindingar í tengslum við Parísarsamkomulagið.