Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 710  —  205. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Alex B. Stefánssyni um framboð á félagslegu húsnæði.


     1.      Telur ráðherra að hann hafi heimild til að krefja sveitarfélög úrbóta vegna mikils munar á framboði á félagslegu húsnæði á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu? Ef svo er, á hvaða grunni er sú heimild byggð?
    Skylda sveitarfélaga til þess að tryggja framboð á félagslegu húsnæði verður leidd annars vegar af lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og hins vegar af lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.
    Í 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir: „Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.“
    Í 5. gr. laga um húsnæðismál segir: „Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu.“
    Heimildir ráðherra til eftirlits með framkvæmd húsnæðismála felast í almennum eftirlitsheimildum ráðherra með þeim málefnasviðum sem undir hann heyra, sbr. 13. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Þær eftirlitsheimildir eru þó takmarkaðar í ljósi þess að sveitarfélögin eru sjálfstæð stjórnvöld, en til þess að ráðherra hafi heimild til að gefa þeim fyrirmæli um framkvæmd lögbundinna verkefna þeirra þarf almennt að liggja fyrir bein lagaheimild. Heimild ráðherra til eftirlits með lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga byggist á 3. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem kemur fram að ráðuneytið hafi eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögbundna þjónustu. Er því eftirlitið fyrst og fremst bundið við þau tilvik þegar sveitarfélög veita ekki lögbundna þjónustu en af orðalaginu má draga í efa að honum væri heimilt að leggja efnislegt mat á það hvað teldist vera nægjanlegt framboð félagslegs húsnæðis í tilteknu sveitarfélagi.
    Rétt er einnig að árétta að samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, hefur ráðherra sveitarstjórnarmála eftirlit með að sveitarfélög gegni skyldum sínum, sbr. 109. gr. laganna. Þannig getur ráðuneytið, t.d. á grundvelli 112. gr. laganna, tekið stjórnsýslu sveitarfélags til formlegrar umfjöllunar að eigin frumkvæði, og eftir atvikum beitt heimildum sínum samkvæmt sama ákvæði telji það tilefni til.

     2.      Ef hægt er að sýna fram á með sannanlegum hætti að tiltekið sveitarfélag fari gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með skorti á framboði á félagslegu húsnæði, telur ráðherra sig geta krafið sveitarfélagið úrbóta?
    Ráðuneytið vísar til svars við 1. tölulið fyrirspurnar þessarar. Það breytir ekki þeim eftirlitsheimildum og úrræðum sem ráðherra hefur lögum samkvæmt þó að niðurstaða um að sveitarfélag vanræki skyldur sínar væri byggð á jafnræðisreglunni.