Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 714  —  351. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um afstöðu Íslands til kjarnorkuvopna.


     1.      Hvers vegna er Ísland ekki aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem var samþykktur á sérstakri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 7. júlí 2017?
    Afstaða Íslands til kjarnavopna er skýr. Hún er sú að stefna skuli að kjarnavopnalausri veröld og að kjarnavopnum sé eytt með markvissum og gagnkvæmum hætti. Í þessu tilliti hefur Ísland stutt margvíslegar ályktanir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í áranna rás sem lúta að þessu markmiði.
    Ísland studdi hins vegar ekki þá ályktun og þær viðræður sem leiddu til samningsins um bann við kjarnavopnum. Ástæðan var m.a. sú að fyrir fram var ljóst að kjarnavopnaveldin myndu ekki taka þátt í þessu ferli og fyrirséð að ekki næðist árangur nema þau sætu við samningaborðið. Því telja íslensk stjórnvöld það raunhæfustu leiðina og líklegasta til árangurs að styðjast við þá samninga og ferli sem fyrir liggja, ekki síst samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT-samninginn), sem kjarnavopnaveldin eru aðilar að.
    Í þeim efnum má minna á að margvíslegur árangur hefur náðst í fækkun kjarnavopna. Þannig hefur kjarnavopnum undir stjórn Atlantshafsbandalagsins fækkað um rúmlega 90 prósent frá því að kalda stríðið stóð sem hæst. Hér er því ekki deilt um markmiðið sjálft, heldur leiðir að settu marki.

     2.      Hvers vegna tók Ísland ekki þátt í atkvæðagreiðslum um samninginn, ýmist til hjásetu eða neitunar, ef afstaða ríkisstjórnar Íslands var á þá leið að gangast ekki undir samninginn?
    Sem fyrr greinir tók Ísland ekki þátt í viðræðunum um viðkomandi samning og studdi ekki þá ályktun sem viðræðurnar og síðar samningur byggðist á. Þar af leiðandi tók Ísland ekki þátt í atkvæðagreiðslunni um sjálfan samninginn og átti hið sama við um önnur ríki sem studdu ekki hina upprunalegu ályktun.

     3.      Eru einhverjar greinar samningsins sem ráðherra telur ganga gegn skuldbindingum Íslands við NATO eða aðrar alþjóðaskuldbindingar Íslands? Ef svo er, á hvaða hátt?
    Í grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins frá árinu 2010 segir að stefnt skuli að heimi án kjarnavopna. Hins vegar, á meðan kjarnavopn fyrirfinnast, tilgreinir grunnstefnan kjarnavopn sem hluta af fælingar- og varnarstefnu bandalagsins. Samningurinn um bann við kjarnavopnum gengur því í berhögg við skuldbindingar Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu, enda styðja engin aðildarríki bandalagsins samninginn; raunar hefur ekkert Norðurlandanna fullgilt samninginn, þ.m.t. Finnland og Svíþjóð sem standa utan Atlantshafsbandalagsins.

     4.      Telur ráðherra að í aðild Íslands að NATO felist samþykki fyrir tilvist, þróun og viðhaldi kjarnorkuvopna?
    Sem fyrr greinir kveður grunnstefna Atlantshafsbandalagsins á um að stefna beri að heimi án kjarnavopna en um leið viðurkenna aðildarríkin fælingarmátt slíkra vopna á meðan þau fyrirfinnast. Það verður að teljast eðlileg afstaða varnarbandalags, og eðlileg þróun og viðhald á kjarnavopnum fylgir slíkri stefnu. Í slíkri stefnu felst hins vegar ekki velþóknun á kjarnavopnum og hið endanlega markmið er skýrt: Að fækka kjarnavopnum og skapa þau skilyrði að þeim verði hægt að eyða. Slíkt verður hins vegar ekki gert nema með gagnkvæmum samningum kjarnavopnaveldanna og samningur um bann við kjarnavopnum skapar ekki slík skilyrði þar sem ekkert þeirra, hvorki opinber né óopinber, hyggjast samþykkja samninginn.

     5.      Hefur kjarnorkuvopnaeign annarra ríkja einhver áhrif á varnarmálastefnu Íslands? Ef svo er, hver?
    Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er tilgreint að Ísland og íslensk landhelgi skuli friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðaskuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Er þar áréttuð áratuga gömul stefna stjórnvalda um að hér á landi skuli ekki vera kjarnavopn. Þjóðaröryggisstefnan leggur jafnframt áherslu á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og að tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin og á þær skuldbindingar sem af því leiðir.

     6.      Eru núna, eða hafa einhvern tíma verið, kjarnorkuvopn á Íslandi eða innan lögsögu Íslands, ýmist með eða án heimildar íslenska ríkisins? Ef svo er, á hvaða tímabilum var það, hvers konar vopn (tegund og kraftur, eftir því sem það er vitað), á vegum hverra og á grunni hvaða heimildar?
    Engin kjarnavopn fyrirfinnast á Íslandi og hafa íslensk stjórnvöld ekki haft vitneskju um eða heimilað staðsetningu slíkra vopna á Íslandi eða í íslenskri landhelgi. Efnahagslögsaga utan tólf sjómílna telst alþjóðlegt hafsvæði og flutningur kjarnavopna er ekki bannaður samkvæmt alþjóðalögum. Því er mikilvægt að gera greinarmun á landhelgi og efnahagslögsögu líkt og þjóðaröryggisstefnan fyrir Ísland gerir.