Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 746  —  516. mál.




Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um rannsóknir og mengunarvarnir vegna torfæruaksturs í Jósefsdal.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hvaða starfsemi tengd torfæruakstri og öðrum bifreiðaíþróttum hefur verið heimiluð í Jósefsdal í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins?
     2.      Hvaða skilyrði hafa verið sett fyrir starfseminni um mengunarvarnir og umgengni um svæðið?
     3.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á mengun vegna gúmmíkurls og annarra mengandi efna frá torfærubifreiðum og öðrum farartækjum ásamt mengun vegna umferðar mannfólks með tilliti til nálægðar við vatnsverndarsvæði?
     4.      Er til áhættumat vegna umræddrar starfsemi í Jósefsdal og viðbragðsáætlanir sem eru endurskoðaðar með reglubundnum hætti í ljósi áhættumats? Hverjir eru helstu þættir slíkra áætlana, þar á meðal um verkaskiptingu og skiptingu ábyrgðar aðila sem koma að slíkum áætlunum?
     5.      Hvernig er háttað eftirliti með starfsleyfisskyldri starfsemi í Jósefsdal, m.a. á sviði mengunarvarna?
     6.      Telur ráðherra samrýmast vatnsverndarsjónarmiðum að torfærubrautum sé valinn staður í Jósefsdal í ljósi nálægðar hans við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og mörk grunnvatnsstrauma sem sjá íbúum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga fyrir lunganum af neysluvatni sínu? Hver er rökstuðningurinn fyrir áliti ráðherra í þessu efni?


Skriflegt svar óskast.