Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 751  —  290. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um endurmenntun ökumanna farþega- og vöruflutningabifreiða.


     1.      Hvernig hefur endurmenntun ökumanna sem stjórna ökutækjum í C1-, C-, D1- og D-flokki til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni verið háttað eftir gildistöku laga nr. 13/2015, um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987?
    Námskrá Samgöngustofu fyrir endurmenntun bílstjóra með réttindi til að stjórna vörubifreiðum, litlum vörubifreiðum, hópbifreiðum og litlum hópbifreiðum í atvinnuskyni var staðfest af ráðherra 25. júní 2015 og auglýst í Stjórnartíðindum 10. júlí 2015. Þessar bifreiðar falla í alþjóðlega flokka bifreiða C, C1, D, D1. Námskráin skilgreinir 35 stunda endurmenntun í 5 tilgreindum lotum sem efnislega eru í samræmi við ákvæði tilskipunar 2003/59/EB um grunnþjálfun og reglubundna þjálfun ökumanna tiltekinna ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga. Efnislega skiptist endurmenntunin í þrjá hluta:
    1.    Kjarni – 21 stund: Kenndur er vistakstur, öryggi í akstri, lög og reglur og bíltækni með hliðsjón af umferðaröryggi.
    2.    Valkjarni – 7/14 stundir: Kennt er námsefni um farþegaflutninga og vöruflutninga.
    3.    Val – 7/0 stundir: Hér er um að ræða sérhæft námskeið um starf bílstjóra. Efnislega fellur það að námskrá Samgöngustofu og hefur verið notað til að kenna nemendum sem stunda nám til aukinna ökuréttinda frá janúar 2005.
    Bílstjóri sem ekur bifreið í framangreindum flokkum í atvinnuskyni skal sækja 35 stunda endurmenntun á fimm ára fresti. Lögin kveða á um að allir bílstjórar sem öðluðust þessi réttindi fyrir 10. september 2013 skuli hafa lokið sinni fyrstu endurmenntun fyrir 10. september 2018 og eftir það skuli allir hafa sótt endurmenntunarnámskeið við endurnýjun skírteina, þ.e. á fimm ára fresti.
    Fyrstu námskeiðshaldarar voru viðurkenndir af Samgöngustofu 22. apríl 2016. Þeir eru núna 15 með aðsetur um allt land. Aðallega annast fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar, ásamt ökuskólum, þessi endurmenntunarnámskeið.

     2.      Hafa endurmenntunarnámskeið fyrir framangreinda ökumenn verið haldin annars staðar en í Reykjavík og þá hvar?
    Já. Námskeið hafa verið haldin á eftirtöldum stöðum: Akranesi, Akureyri, Borgarnesi, Dalvík, Egilsstöðum, Fjarðabyggð, Flúðum, Húsavík, Hvolsvelli, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri, Kópaskeri, Laugum í Reykjadal, Ólafsvík, Reyðarfirði, Reykjanesbæ, Reykjum, Sauðárkróki, Selfossi, Vík í Mýrdal, Vopnafirði og Þórshöfn.

     3.      Hefur verið boðið upp á endurmenntunarnámskeið í fjarnámi?
    Já. Námskeiðin hafa verið kennd í fjarnámi.

     4.      Hver eru námskeiðsgjöld fyrir endurmenntunarnámskeiðin?
    Gjaldskrá fyrir endurmenntunarnámskeiðin eru frjáls og fer því eftir gjaldskrá þess sem heldur námskeiðin. Samkvæmt gjaldskrám námskeiðshaldara sem fyrir liggja er verð fyrir námskeiðin á bilinu 13.000–20.900 kr.