Ferill 221. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 760  —  221. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis og viðbrögð við þeim.


    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. lögum um þingsköp Alþingis má beina til forseta Alþingis fyrirspurnum á þingskjali og óska skriflegs svars um stjórnsýslu á vegum þingsins. Í fyrirspurninni er óskað upplýsinga forseta Alþingis um meðferð ábendinga í rannsóknarskýrslum Alþingis og viðbrögð við þeim. Um er að ræða skýrslu rannsóknarnefndar um fall íslensku bankanna, sbr. lög um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, nr. 142/2008, og skýrslur rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna um fall sparisjóðanna og um Íbúðalánasjóð, en til þeirra var stofnað á grundvelli laga um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.
    Þær skýrslur sem fyrirspurnin tekur til varða ekki stjórnsýslu á vegum Alþingis eða stjórnsýslu sem þinginu hefur verið sérstaklega falin samkvæmt lögum. Svör forseta við fyrirspurninni taka því óhjákvæmilega mið af þessu.

     1.      Hefur forseti Alþingis eða skrifstofa þingsins tekið saman yfirlit yfir þær ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis sem beint er til Alþingis?

    Nei.
    
     2.      Hverjar eru þær ábendingar?
    Skrifstofa Alþingis hefur ekki tekið saman yfirlit yfir þær ábendingar sem koma fram í rannsóknarskýrslum til Alþingis.
    
     3.      Hvernig hefur verið brugðist við þeim?
    Alþingi hefur sem slíkt á grundvelli þeirra laga sem gilt hafa um störf rannsóknarnefndanna fjallað um og brugðist við ábendingum í skýrslum nefndanna. Þingið hefur þannig sjálfstætt beint tilmælum til stjórnvalda þegar við hefur átt eins og nánar er lýst í svari við 4. lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvernig hefur verið tryggt að þeim ábendingum sem brugðist hefur verið við hafi verið og verði fylgt eftir?
    Með þeim fyrirvara sem áður greinir skal bent á að í samræmi við lög um rannsókn á falli bankanna fjallaði nefnd níu þingmanna um ábendingar og tillögur rannsóknarnefndarinnar í ítarlegri skýrslu sinni ásamt tillögu til þingsályktunar um afgreiðslu skýrslunnar. Var ályktunin samþykkt 28. september 2010 (nr. 29/138). Í samræmi við 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis hefur forsætisráðherra gert grein fyrir því í skýrslum sínum um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis hvernig brugðist hefur verið við ábendingum og tillögum rannsóknarnefndar Alþingis, sjá til að mynda skýrslu forsætisráðherra á 144. löggjafarþingi á þskj. 432. Skýrslur forsætisráðherra hafa samkvæmt þingskaparákvæðinu gengið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar. Mismunandi er hvort nefndin hefur samið álit um skýrslu ráðherra, sjá þó t.d. álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 144. löggjafarþingi, þskj. 1303, þar sem vikið er að eftirfylgni ályktunar nr. 29/138, um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrslur rannsóknarnefnda um fall sparisjóðanna og um Íbúðalánasjóð fóru á hinn bóginn til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við 13. gr. laga um rannsóknarnefndir. Hefur nefndin tekið skýrslurnar til umfjöllunar og gert Alþingi grein fyrir áliti sínu á niðurstöðum þeirra, sbr. álit nefndarinnar á 145 löggjafarþingi, þskj. 1609, og álit nefndarinar á 143. löggjafarþingi, þskj. 820.

     5.      Hver hefur verið tilnefndur ábyrgðaraðili?
    Um svar við þessum lið verður að benda á að forseti Alþingis hefur það hlutverk, sbr. 52. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. laga um þingsköp Alþingis, að stjórna störfum Alþingis og sjá til þess að þar fari allt fram í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga. Samkvæmt þessu fellur það ekki undir stjórnsýslu þingsins að tilnefna ábyrgðaraðila. Af meginreglunni um sjálfstæði Alþingis leiðir að þingið sjálft ákveður hvernig og með hvaða hætti það vill fylgja eftir framkvæmd ályktana sinna eða rannsókn sem fram hafa farið á þess vegum. Slíkt hefur þingið gert eins og greinir í svari við 4. lið fyrirspurnarinnar með því að gera forsætisráðherra skylt að leggja fyrir Alþingi í október á hverju ári skýrslu um framkvæmd ályktana sem þingið hefur samþykkt, sbr. 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis.

     6.      Hvernig hyggst forseti fylgja eftir ábendingum þar sem ekki hefur verið tilnefndur ábyrgðaraðili?
     7.      Hefur verið tekin ákvörðun um að bregðast ekki við ákveðnum ábendingum?

    Um svar við þessum liðum sjá svar við 4. og 5. tölul. fyrirspurnarinnar.