Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 765  —  382. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um lyf við inflúensu fyrir börn á skólaskyldualdri.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra að það kunni að vera þjóðhagslega hagkvæmt að gefa börnum á skólaskyldualdri lyf við inflúensu, líkt og tíðkast á Englandi þar sem börn fá lyfið í formi nefúða?

    Í eftirfarandi svari er gert ráð fyrir að spurning þingmannsins lúti að því hvort ráðherra telji þjóðhagslega hagkvæmt að hefja almennar bólusetningar hjá börnum á skólaskyldualdri gegn árlegri inflúensu hér á landi og þá með notkun bóluefnis í formi nefúða.
    Velferðarráðuneytið óskaði eftir afstöðu sóttvarnalæknis í tilefni af fyrirspurn þessari. Að áliti sóttvarnalæknis er að svo stöddu ekki tímabært að hefja bólusetningar hjá öllum börnum á skólaaldri, hvorki með nefúða né sprautu, þar sem óvissa ríkir um ávinning bólusetningarinnar á þessum aldri.
    Í reglugerð nr. 221/2001, um bólusetningar, er fjallað um bólusetningar og framkvæmd þeirra hér á landi. Í reglugerðinni kemur fram að öllum sem eru í sérstökum áhættuhópi og sóttvarnalæknir tilgreinir skuli gefinn kostur á bólusetningu gegn árstíðabundinni inflúensu og er bóluefnið þeim að kostnaðarlausu. Sóttvarnalæknir hefur lagt áherslu á að einstaklingar eldri en 60 ára, öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum, heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópunum og þungaðar konur njóti forgangs við inflúensubólusetningar þar sem þau eru talin í mestri hættu á smiti. Kostnaðarvirknigreining á bólusetningu barna á skólaskyldualdri gegn inflúensu hefur ekki verið gerð. Með hliðsjón af því er ómögulegt að segja til um hvort það kunni að vera þjóðhagslega hagkvæmt að gefa börnum á skólaskyldualdri lyf við inflúensu. Ráðherra telur fyrirkomulag bólusetningar við inflúensu vera gott og tekur undir með sóttvarnalækni að ekki sé að svo stöddu tímabært að hefja bólusetningar hjá þessum hópi.