Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 780  —  380. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um biðlista og stöðugildi sálfræðinga.


     1.      Hversu langur biðlisti er eftir viðtali við sálfræðing hjá eftirfarandi stofnunum:
              a.      Heilbrigðisstofnun Austurlands,
              b.      Heilbrigðisstofnun Norðurlands,
              c.      Heilbrigðisstofnun Suðurlands,
              d.      Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,
              e.      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,
              f.      Heilbrigðisstofnun Vesturlands,
              g.      heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu?

    Í markmiðasetningu um þjónustu fyrrgreindra stofnana er miðað við biðtíma, þar sem það er talið veita betri upplýsingar um þjónustu við hvern og einn þjónustuþega en biðlistar. Mestu skiptir að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda bíði í sem skemmstan tíma óháð því hversu margir aðrir bíða eftir þjónustunni.
     a.      Heilbrigðisstofnun Austurlands: Sálfræðingar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands sinna eingöngu börnum yngri en 18 ára og mæðrum sem taldar eru þurfa þjónustu sálfræðings í reglubundnu eftirliti í mæðravernd og ungbarnavernd. Beiðnum er raðað í forgangsröð. Biðtími er nú rúmir þrír mánuðir. Sálfræðingar Heilbrigðisstofnunar Austurlands starfa einnig með geðteymi stofnunarinnar en þar er fullorðnum veitt þjónusta.
     b.      Heilbrigðisstofnun Norðurlands: Biðtími eftir þjónustu er breytilegur milli starfsstöðva, víðast innan við mánuður en á Akureyri allt að fimm mánuðir. Þar er lögð áhersla á mæðra- og ungbarnavernd og er biðtíminn tvær til fjórar vikur. Utan Akureyrar hefur ekki verið boðið upp á sértæka þjónustu fyrir börn.
     c.      Heilbrigðisstofnun Suðurlands: Þjónusta sálfræðinga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands nær til barna á aldrinum 0–18 ára og fjölskyldna þeirra. Meðalbiðtími eftir viðtali hefur styst á undanförnum árum en var um níu mánuðir árið 2017. Öllum bráðatilfellum er þó sinnt eins fljótt og kostur er eða að jafnaði innan 4–10 daga, allt eftir bráðleika.
     d.      Heilbrigðisstofnun Suðurnesja: Biðtími eftir þjónustu sálfræðings við börn í forgangshópi er milli þrír og fjórir mánuðir, en fimm til sex mánuðir fyrir önnur börn. Bið í teymi fyrir mæður barna á aldrinum 0–3 ára er einnig fimm til sex mánuðir. Bið eftir fyrsta tíma hjá geðheilsuteymi fyrir fullorðna er um níu mánuðir.
     e.      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: Biðtími eftir viðtali hjá sálfræðingi er um þrjár vikur en þjónustan er eingöngu fyrir þá sem eru með tilvísun frá lækni. Börn og unglingar eru í forgangi.
     f.      Heilbrigðisstofnun Vesturlands: Bið eftir einstaklingsviðtali hjá barnasálfræðingi er um tveir mánuðir. Reynt er að bregðast við alvarlegri málum fyrr. Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands er ekki boðið upp á einstaklingsviðtöl hjá sálfræðingi fyrir fullorðna. Boðið er upp á hópmeðferð í hugrænni atferlismeðferð. Bið inn í hópana getur verið einn til þrír mánuðir eftir svæðum.
     g.      Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins: Gert er ráð fyrir að með heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu sé átt við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Viðmið um biðtíma hjá sálfræðingi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er að haft sé samband við forráðamann barns innan 10 virkra daga eftir að tilvísun berst, til að fá upplýsingar og gefa viðtalstíma eða símtal ef við á innan þriggja mánaða. Það sama á við um ráðgjafarviðtöl fyrir foreldra. Þessu viðmiði hefur verið náð á 14 af 15 heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og á við um þjónustu fyrir börn og unglinga ásamt þjónustu í mæðravernd og ungbarnavernd. Tilvísanir sem metnar eru aðkallandi eru settar í forgang eins og mögulegt er. Einungis ein heilsugæslustöð, með sálfræðing í 70% starfi, býður upp á sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna einstaklinga, 18 ára og eldri. Biðtími er u.þ.b. ein vika. Vegna fjölda tilvísana til fullorðinssálfræðingsins er lögð áhersla á hópmeðferð og þannig leitast við að stytta biðtíma. Þeir einir fá einstaklingsviðtöl sem eiga við alvarlegan vanda að stríða, t.d. þeir sem eru metnir í aukinni sjálfsvígshættu eða eru í alvarlegu ástandi. Hugræn atferlismeðferð er í boði á helmingi heilsugæslustöðvanna. Um er að ræða sex vikna hópmeðferð fyrir fullorðna sem glíma við kvíða og/eða þunglyndi. Þar getur biðtími verið allt að hálft ár. Enn vantar sálfræðinga fyrir fullorðna á 14 stöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

     2.      Hversu mörg stöðugildi sálfræðinga eru við hverja þessara stofnana og hversu mörg telur ráðherra að þau þurfi að vera til að tryggja viðunandi þjónustu?
     a.      Við Heilbrigðisstofnun Austurlands eru tvö stöðugildi sálfræðinga.
     b.      Við Heilbrigðisstofnun Norðurlands eru sálfræðingar starfandi í 3,7 stöðugildum. Ráðgert er að auglýsa tvær heilar stöður nú á vormánuðum.
     c.      Við Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru þrjú stöðugildi sálfræðinga.
     d.      Við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru 6,7 stöðugildi sálfræðinga.
     e.      Við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er eitt stöðugildi sálfræðings.
     f.      Við Heilbrigðisstofnun Vesturlands eru 1,85 stöðugildi sálfræðings.
     g.      Gert er ráð fyrir því að með heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu sé átt við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru 13,5 stöðugildi sálfræðinga á 15 heilsugæslustöðvum. Fjölgað verður um alls sex stöður sálfræðinga árið 2018 í samræmi við geðheilbrigðisáætlun.
    Í þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 2016 er kveðið á um „að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 50% heilsugæslustöðva í árslok 2017 og á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019“.
    Vel hefur gengið að byggja upp sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni um allt land. Miðað hefur verið við að ein staða sálfræðings sé fyrir hverja 9.000 íbúa. Vegna mikillar eftirspurnar eftir þjónustu hafa börn yngri en 18 ára verið sett í forgang. Mikilvægt er að heilsugæslan geti einnig mætt þörfum fullorðinna fyrir þjónustu sálfræðinga og er að því unnið um allt land.