Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 783  —  325. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um starfsmenn Alþingis og stofnana þess.


    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. þingskapa Alþingis getur alþingismaður beint til forseta Alþingis fyrirspurn á þingskjali og óska skriflegs svars um „stjórnsýslu á vegum þingsins“. Í fyrirspurninni, er hér liggur fyrir, er jafnframt óskað upplýsinga forseta Alþingis um starfsmenn embættis umboðsmanns Alþingis og embættis ríkisendurskoðanda. Þar sem embættin falla ekki undir eiginlega stjórnsýslu þingsins í skilningi þingskapa Alþingis kannaði forseti afstöðu umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðanda til málsins. Það var afstaða þeirra að eðlilegt væri að svör forseta tækju jafnframt til starfsmanna þeirra. Svör ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis við fyrirspurninni eru því birt sem fylgiskjöl með þessu svari.

     1.      Hvaða starfsmönnum Alþingis og stofnana þess lagði ríkið til bifreið árið 2017? Hvert var heildarverðmæti bifreiðanna?
    Starfsmenn Alþingis hafa ekki afnot af bifreiðum á vegum Alþingis.

     2.      Hver voru meðalheildarlaun starfsmanna Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar árið 2017? Hver voru hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar árið 2017?
    Meðalheildarlaun starfsmanna skrifstofu Alþingis voru 9.055.103 kr. fyrir árið 2017. Hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns fyrir árið 2017 voru: 22.214.115 kr.

     3.      Fengu einhverjir starfsmenn Alþingis og stofnana þess endurgreiddan aksturskostnað árið 2017 og hver var heildaraksturskostnaður annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar?
    Heildarkostnaður skrifstofu Alþingis við akstur starfsmanna var 681.912 kr. fyrir árið 2017. Hæsta greiðslan til einstaks starfsmanns var 462.000 kr. fyrir árið 2017.

     4.      Fengu einhverjir starfsmenn Alþingis og stofnana þess endurgreiddan ferðakostnað í formi dagpeninga innan lands eða utan árið 2017 og hver var þá heildarferðakostnaður Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna ferðakostnaðar innan lands annars vegar og erlendis hins vegar?
    Ekki voru greiddir dagpeningar á ferðum innan lands en 21 starfsmaður Alþingis fékk greidda dagpeninga árið 2017 á ferðum erlendis, alls 7.007.248 kr. Hæsta greiðsla dagpeninga til einstaka starfsmanns Alþingis var 1.108.681 kr. Heildarferðakostnaður starfsmanna Alþingis 2017 var 14.759.926 kr.

     5.      Var símakostnaður greiddur fyrir einhverja starfsmenn Alþingis og stofnana þess árið 2017 og þá fyrir hve marga starfsmenn Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var heildarkostnaður annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar vegna símakostnaðar? Hver var hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar?
    Greiddur var símakostnaður í lok árs 2017 fyrir alls 77 starfsmenn. Heildarsímakostnaður ársins 2017 var 5.251.637 kr. Hæsta einstaka greiðsla til starfsmanns skrifstofu Alþingis var 224.950 kr. á árinu 2017.

     6.      Fengu starfsmenn Alþingis og stofnana þess greidda fatapeninga árið 2017? Hver var þá heildarkostnaður Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna fatapeninga?
    Alþingi greiddi fatapeninga samtals 72.000 kr. á árinu 2017. Útlagður kostnaður fyrir vinnuföt var 2.110.268 kr. fyrir árið 2017.


Fylgiskjal I.

Svör
umboðsmanns Alþingis við fyrirspurnum á þskj. 433
.


     1.      Hvaða starfsmönnum Alþingis og stofnana þess lagði ríkið til bifreið árið 2017? Hvert var heildarverðmæti bifreiðanna?
    Starfsmenn umboðsmanns Alþingis hafa ekki afnot af bifreiðum á vegum embættisins til einkaafnota.

     2.      Hver voru meðalheildarlaun starfsmanna Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar árið 2017? Hver voru hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar árið 2017?
    Meðalheildarlaun starfsmanna umboðsmanns Alþingis voru 10.598.765 kr. fyrir árið 2017. Hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns fyrir árið 2017 voru 23.459.631 kr.

     3.      Fengu einhverjir starfsmenn Alþingis og stofnana þess endurgreiddan aksturskostnað árið 2017 og hver var heildaraksturskostnaður annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar?
    Heildarkostnaður embættis umboðsmanns Alþingis fyrir akstur starfsmanna var 366.960 kr. fyrir árið 2017. Hæsta greiðsla akstursgjalds til einstaks starfsmanns á árinu 2017 var 330.000 kr.

     4.      Fengu einhverjir starfsmenn Alþingis og stofnana þess endurgreiddan ferðakostnað í formi dagpeninga innan lands eða utan árið 2017 og hver var þá heildarferðakostnaður Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna ferðakostnaðar innan lands annars vegar og erlendis hins vegar?
    Einn starfsmaður umboðsmanns Alþingis fékk greidda dagpeninga á ferðum innan lands á árinu 2017 og nam greiðslan 11.200 kr. Á árinu 2017 fengu níu starfsmenn umboðsmanns Alþingis greidda dagpeninga á ferðum erlendis, samtals 1.596.503 kr. Hæsta greiðsla dagpeninga til einstaks starfsmanns embættisins nam 415.751 kr. Heildarferðakostnaður starfsmanna umboðsmanns Alþingis innan lands á árinu 2017 var 41.255 kr. Heildarferðakostnaður starfsmanna embættisins erlendis á árinu 2017 var 2.559.693 kr.

     5.      Var símakostnaður greiddur fyrir einhverja starfsmenn Alþingis og stofnana þess árið 2017 og þá fyrir hve marga starfsmenn Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var heildarkostnaður annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar vegna símakostnaðar? Hver var hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar?
    Símakostnaður var greiddur fyrir einn starfsmann embættis umboðsmanns Alþingis á árinu 2017. Heildarsímakostnaður og hæsta greiðsla var því sama fjárhæð eða 136.024 kr.

     6.      Fengu starfsmenn Alþingis og stofnana þess greidda fatapeninga árið 2017? Hver var þá heildarkostnaður Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna fatapeninga?
    Embætti umboðsmanns Alþingis greiddi enga fatapeninga á árinu 2017.


Fylgiskjal II.


Svör
umboðsmanns Alþingis við fyrirspurnum á þskj. 433.


     1.      Hvaða starfsmönnum Alþingis og stofnana þess lagði ríkið til bifreið árið 2017? Hvert var heildarverðmæti bifreiðanna?
    Ríkisendurskoðun hefur ekki lagt neinum starfsmanni bifreið til afnota. Hins vegar á stofnunin bifreið sem er öllum til afnota í endurskoðunarverkefnum hjá stofnunum og fyrirtækjum. Bifreiðin er geymd á bifreiðastæði stofnunarinnar að loknum vinnudegi.

     2.      Hver voru meðalheildarlaun starfsmanna Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar árið 2017? Hver voru hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar árið 2017?
    Meðalheildarlaun starfsmanna Ríkisendurskoðunar á árinu 2017 voru án launatengdra gjalda 11.096.914 kr. miðað við 45,66 ársverk. Heildarlaun ríkisendurskoðanda á árinu 2017 voru 20.887.647 kr.

     3.      Fengu einhverjir starfsmenn Alþingis og stofnana þess endurgreiddan aksturskostnað árið 2017 og hver var heildaraksturskostnaður annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar?
    Ríkisendurskoðun endurgreiddi sjö starfsmönnum útlagðan aksturskostnað samkvæmt akstursdagbók á árinu 2017, samtals 976.800 kr. Hæsta greiðsla til einstaklings nam 595.540 kr.

     4.      Fengu einhverjir starfsmenn Alþingis og stofnana þess endurgreiddan ferðakostnað í formi dagpeninga innan lands eða utan árið 2017 og hver var þá heildarferðakostnaður Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna ferðakostnaðar innan lands annars vegar og erlendis hins vegar?
    Endurgreiðsla ferðakostnaðar starfmanna Ríkisendurskoðunar innan lands er öll samkvæmt reikningum og engir dagpeningar greiddir. Ferðakostnaður innan lands nam 214.236 kr. Heildarferðakostnaður níu starfsmanna Ríkisendurskoðunar vegna ferðalaga á vegum stofnunar til útlanda nam á árinu 2017 2.430.055 kr. Þar af námu dagpeningar 1.515.554 kr. Hæsta greiðsla til starfsmanns nam 504.823 kr. þar af dagpeningar 291.658 kr.

     5.      Var símakostnaður greiddur fyrir einhverja starfsmenn Alþingis og stofnana þess árið 2017 og þá fyrir hve marga starfsmenn Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var heildarkostnaður annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar vegna símakostnaðar? Hver var hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns annars vegar Alþingis og hins vegar hverrar stofnunar?
    Ríkisendurskoðun leggur til GSM-síma til sjö manna yfirstjórnar stofnunarinnar og fasta greiðslu vegna notkunar á ári eða kr. 50.000 á mann nema ríkisendurskoðanda. Stofnunin greiðir allan GSM-símakostnað ríkisendurskoðanda og nam hann 43.999 kr. árið 2017.

     6.      Fengu starfsmenn Alþingis og stofnana þess greidda fatapeninga árið 2017? Hver var þá heildarkostnaður Alþingis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna fatapeninga?
    Enginn starfsmaður Ríkisendurskoðunar hefur nokkru sinni fengið greidda fatapeninga.