Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 792  —  14. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ólaf Ólafsson frá MPM-námi Háskólans í Reykjavík, Þórð Víking Friðgeirsson frá rannsóknasetrinu CORDA við Háskólann í Reykjavík og Ingþór Karl Eiríksson frá Fjársýslu ríkisins. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá MPM-félaginu, rannsóknasetrinu CORDA, Verkefnastjórnunarfélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Allir gestir og umsagnaraðilar hvetja til þess að þingsályktunartillagan verði samþykkt. Þótt margt hafi verið gert á síðustu árum til að bæta umgjörð opinberra fjármála og framkvæmda má telja ljóst að hægt er að bæta þá umgjörð enn frekar. Nefndin telur skynsamlegt að leita til fræðasamfélagsins og nýta þekkingu þeirra aðila sem rannsakað hafa þessi mál sérstaklega. Nefndin telur mikilvægt að mótuð verði skýr stefna um þau málefni sem tillagan varðar og taka til opinberra fjárfestinga frá upphafi, hugmyndastigi, og allt til enda, þ.e. út ætlaðan líftíma hverrar fjárfestingar. Eðlilegt er að fjármála- og efnahagsráðherra hafi forystu um slíka stefnumótun og breytingar á lögum og reglum sem um þessi mál gilda, svo sem lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001.
    Nefndin telur rétt að benda sérstaklega á þann þátt ályktunarinnar sem fjallar um formlegan samstarfsvettvang stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir. Til þess að raunverulegar umbætur festi rætur til lengri tíma þarf vandaðan undirbúning, gagnaöflun og rannsóknir. Mörg ár tekur að breyta viðhorfum og verkmenningu og innleiða nýja ferla og hugsun. Nefndin vill einnig benda á að bætt vinnubrögð við verklegar framkvæmdir og ráðstöfun opinbers fjár eru til þess fallin að skila samfélagslegum ávinningi og árangur á þessu sviði getur smitað út frá sér.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað dagsetningarinnar „1. mars 2018“ í 3. mgr. tillögugreinar komi: 1. nóvember 2018.

    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Alþingi, 17. apríl 2018.


Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Helgi Hrafn Gunnarsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Oddný G. Harðardóttir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þorsteinn Víglundsson.