Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 796  —  116. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um úttekt á stofnun vestnorrænna eftirskóla.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Ólaf Grétar Kristjánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er ríkisstjórn Íslands hvött til þess að gera úttekt í samstarfi við landsstjórnir Færeyja og Grænlands á því hvernig hægt sé á hagkvæman hátt að stofna vestnorræna eftirskóla á Grænlandi, í Færeyjum og á Íslandi. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2016 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22. ágúst 2016 í Qaqortoq á Grænlandi.
    Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að Vestnorræna ráðið telur mikilvægt að stofnaðir séu skólar sem stuðli að því að ungmenni alist upp með vitund um vestnorrænu löndin og íbúa þeirra og jafnframt að ungmenni á Vestur-Norðurlöndum kynnist og fræðist um menningu og tungumál nágrannalandanna. Bent er á danska eftirskóla (d. efterskoler) sem fyrirmynd, en þeir eru þekktir á Grænlandi og í Færeyjum. Nemendur í tveimur eftirskólum á Grænlandi eru á aldrinum fjórtán til sautján ára. Ungmennin upplifa þar nýja hluti, búa sig undir menntaskólanám eða annað nám og kynnast því að vera að heiman og læra að bjarga sér sjálf. Sama á við um Færeyjar, en ekki er óalgengt að ungmenni þaðan fari í eftirskóla í Danmörku að loknum grunnskóla eða til að taka síðasta ár grunnskólans þar.
    Á fundi nefndarinnar kom fram það sjónarmið af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis að á Íslandi væri engin hefð fyrir eftirskólum og að í stefnu stjórnvalda um framþróun menntakerfisins væri frekar stefnt að því að einfalda skólakerfið en að bæta við nýrri gerð skóla. Því sjónarmiði hafa stjórnvöld einnig komið á framfæri við Vestnorræna ráðið og því ekki talið tímabært að leggja í úttekt þá sem tillöguflytjendur boða. Nefndin vill þó hvetja til þess að stjórnvöld skoði málið með opnum hug eða kanni möguleika á að efla með öðrum hætti möguleika ungmenna á Vestur-Norðurlöndum til þess að kynnast og fræðast um menningu og tungumál nágrannalandanna.
    Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera úttekt á möguleikum á að stofna vestnorræna eftirskóla eða efla með öðrum hætti möguleika ungmenna á Vestur-Norðurlöndum til þess að kynnast og fræðast um menningu og tungumál nágrannalandanna.


    Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lýsir sig samþykka áliti þessu.

Alþingi, 16. apríl 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Álfheiður Eymarsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.