Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 829  —  387. mál.
Áheyrnarfulltrúi.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (skuldajöfnun, greiðslujöfnunarsamningar og ógildir löggerningar).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Leif Arnkel Skarphéðinsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en kaflinn fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Nokkrar breytingar hafa orðið á kaflanum frá setningu laganna og með lögum nr. 130/2004 var meginhluti tilskipunar 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, innleiddur í íslenskan rétt.
    Í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 552/2013 (Commerzbank AG gegn Kaupþing banka hf.) og 120/2014 (De Nederlandsche Bank NV gegn LBI hf.) og niðurstöðu EFTA-dómstólsins í máli nr. E-28/13 (LBI hf. gegn Merrill Lynch) er talið nauðsynlegt að skýra nánar atriði sem reynt hefur á við innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Efnisreglur frumvarpsins gilda aðeins um fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi og starfsemi í öðru EES-ríki.
    Í tilskipun 2001/24/EB er kveðið á um að við slitameðferð fjármálafyrirtækis skuli fara eftir lögum heimaríkis þess. Af þessu leiðir að ef fjármálafyrirtæki rekur útibú í öðrum löndum eða á í viðskiptum við fyrirtæki og einstaklinga utan heimaríkisins fer einungis fram ein slitameðferð en ekki margar. Þessi meginregla sætir þó undantekningum vegna eðlis fjármálastarfsemi. Við slit fjármálafyrirtækja hér á landi hefur reynt á samspil meginreglna og undanþága og að hvaða marki reglur íslenskra laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, samrýmast ákvæðum 23., 25. og 30. gr. tilskipunarinnar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að skýra nánar þær undantekningar sem gilda frá þeirri meginreglu að lög heimaríkis fjármálafyrirtækis gildi um slit þess og útibúa þess. Annars vegar er lagt til að skýrt komi fram að undir ógildingarreglur skv. 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar falli einnig riftunarreglur XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Sönnunarbyrði um að um löggerning eigi að gilda önnur lög en lög heimaríkis hvílir á herðum þess sem hefur hag af því. Mat á því hvort sú sönnun hafi tekist fer eftir reglum heimaríkisins um sönnun og sönnunarbyrði. Hins vegar er um að ræða reglur sem taka til skuldajöfnunar við slit fjármálafyrirtækis og greiðslujöfnunarsamninga en með þeim er brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA um innleiðingu undantekningarreglna 23. og 25. gr. tilskipunarinnar, m.a. við skuldajöfnun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. apríl 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Hildur Sverrisdóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.