Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 830  —  109. mál.
Undirskrift.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012 (birting alþjóðlegra reglna á sviði siglinga).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson og Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur frá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti og Bryndísi Helgadóttur frá dómsmálaráðuneyti. Nefndin óskaði eftir umsögnum frá helstu hagsmunaaðilum en engar umsagnir eða athugasemdir bárust.
    Með frumvarpinu er lagt til að Samgöngustofa birti á vef sínum viðauka og kóða við alþjóðasamninga á sviði siglinga sem Ísland er aðili að, ásamt dreifibréfum og leiðbeiningarreglum. Sambærilegt ákvæði var að finna í lögum nr. 6/1996, um Siglingastofnun Íslands, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2004, en það ákvæði féll brott úr lögum við stofnun Samgöngustofu. Þar virðist hafa verið um mistök að ræða. Fram kom að áætlað umfang texta kóða og viðauka sem um ræðir sé um það bil 6.400 blaðsíður og við það bætist svo texti annarra gerninga, t.d. ályktana og dreifibréfa. Kostnaður við birtingu í C-deild Stjórnartíðinda er 5.000 kr. á blaðsíðu, samkvæmt gjaldskrá frá 22. janúar 2016. Fram kom að birtingu framangreindra gerninga er mjög ábótavant hér á landi og hafa fæstir verið birtir í Stjórnartíðindum eða þýddir. Frumvarpinu er ætlað að auðvelda aðgengi að alþjóðlegum reglum á sviði siglinga fyrir þá sem starfa á sviðinu.
    Ljóst er að birtingu af því tagi sem lögð er til í frumvarpinu er ætlað að koma í stað birtingar í Stjórnartíðindum og mun því gilda sem sérlög um birtingarháttu fyrirmæla sem felast í viðaukum, kóðum og öðrum gerningum við alþjóðasamninga á sviði siglinga. Fram kom á fundum nefndarinnar að seinvirkt og kostnaðarsamt er að þýða alla þessa viðauka auk þess sem efni þeirra varðar afmarkaðan hóp einstaklinga sem ætlast má til að skilji hið erlenda mál vegna menntunnar og annarrar sérhæfingar auk þess sem viðaukarnir varða flestir kaupskip en þau eru fá hérlendis.
    Fram kom einnig á fundum nefndarinnar að aðkallandi væri að bregðast við og birta umrædda viðauka þar sem stutt væri í úttekt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar á innleiðingu alþjóðasamninga á sviði siglinga hér á landi en flestir þeir gerninga sem um ræðir eru óbirtir.
    Nefndin áréttar mikilvægi lagasamræmis hvað varðar birtingu laga og bindandi reglna og telur sérákvæði í lögum um þessi mál ekki til eftirbreytni. Þá leggur nefndin áherslu á að þingmálið er íslenska og er meginregla að allur texti Stjórnartíðinda sé á íslensku. Frávikum frá þeirri meginreglu beri að beita af varfærni og árétta þurfi mikilvægi þess að lög og reglur séu skýr og aðgengileg.
    Nefndin leggur áherslu á að um mjög afmarkað svið er að ræða og færa megi rök fyrir því að þeir gerningar sem um ræðir varði afmarkaðan hóp manna sem má með sanngirni ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, nr. 15/2005. Það ákvæði heimilar birtingu erlends texta í Stjórnartíðindum. Nokkuð hefur verið um að vilji hafi verið til að aflétta þeirri kvöð að birta alþjóðasamninga og Evrópugerðir í C-deild Stjórnartíðinda vegna þess kostnaðar sem því fylgir. Nefndir þingsins fá reglulega slíkar breytingartillögur eða ábendingar til umfjöllunar, sbr. til að mynda nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um vátryggingasamstæður sem urðu að lögum nr. 60/2017 (þingskjal 915 í 400. máli á 146. löggjafarþingi).
    Nefndin telur brýnt að ráða bót á birtingu þeirra gerninga sem um ræðir og telur fullnægjandi rök fyrir því að birting sé heimil á erlendu máli enda virðist efni þeirra einungis nýtast sérfræðingum sem eru vanir að nýta enskan texta þessara gerninga og íslensk útgáfa þeirra er ekki til. Hvað varðar birtingu þeirra á vef Samgöngustofu en ekki í Stjórnartíðindum telur nefndin slíkt ekki til eftirbreytni en leggur þó ekki til breytingu á ákvæðinu í ljósi þeirra hagsmuna sem undir eru í málinu.
    Nefndin áréttar þó mikilvægi þess að tekin verði til endurskoðunar lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað til að tryggja samræmi og skýra stefnu í birtingarmálum. Nefndin varar enn fremur við því að sérákvæði sem þessi séu sett víða í lög þar sem það grefur undan skýrleika laga og lagasamræmi. Eðlilegt væri að endurskoða heildrænt birtingu viðamikilla gerninga, Evrópugerða og samninga og leita leiða til að koma í veg fyrir þann mikla kostnað sem henni fylgir en tryggja um leið samræmi og aðgengi að gildandi lögum og reglum. Beinir nefndin því til dómsmálaráðuneytis og forsætisráðuneytis að hafa forgöngu um slíka endurskoðun og tryggja aðkomu annarra ráðuneyta þar að.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 24. apríl 2018.

Jón Gunnarsson,
1. varaform.
Líneik Anna Sævarsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Fjölnir Sæmundsson. Helga Vala Helgadóttir. Hanna Katrín Friðriksson.
Jón Þór Þorvaldsson. Karl Gauti Hjaltason. Vilhjálmur Árnason.