Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 848  —  27. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).

(Eftir 2. umræðu, 25. apríl.)


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „lifað sem eðlilegustu lífi“ í c-lið 1. mgr. kemur: búið við sem mest lífsgæði.
     b.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skal í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Skal ákvarðanataka byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða er þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þegar börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      9. tölul. orðast svo: Vímuvarnir og aðstoð við einstaklinga með fíknivanda.
     b.      10. tölul. fellur brott.

3. gr.

    II. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Stjórnskipulag, orðast svo:

    a. (3. gr.)

Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til. Ráðherra getur ákveðið að eigin frumkvæði að taka til umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags samkvæmt lögum þessum. Réttur aðila máls til að kæra ákvörðun hefur ekki áhrif á þessa heimild. Telji ráðuneytið rétt að gera athugasemd getur það:
     1.      gefið út leiðbeiningar um túlkun laga þessara og stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu sviði,
     2.      gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins eða annars er eftirlit beinist að,
     3.      gert sveitarfélagi að koma með tillögur til úrbóta og/eða gert tillögur til sveitarfélags um úrbætur á þjónustu þar sem þess er þörf og stuðlað að samræmingu hennar.
    Ráðherra skal á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd félagsþjónustu sem byggist m.a. á skýrslum sveitarfélaga um það efni.

    b. (4. gr.)

Sveitarstjórn.

    Hver sveitarstjórn ber ábyrgð á félagsþjónustu innan marka síns sveitarfélags, eftir atvikum í samvinnu við sveitarstjórnir annarra sveitarfélaga.

    c. (5. gr.)

Skipulag.

    Sveitarstjórn kýs fulltrúa í félagsmálanefnd, þrjá hið fæsta en þó a.m.k. fimm ef félagsmálanefnd eru falin verkefni barnaverndarnefndar. Um félagsmálanefnd gilda að öðru leyti ákvæði sveitarstjórnarlaga um fastanefndir.
    Sveitarstjórn getur ákveðið, á grundvelli heimilda í sveitarstjórnarlögum, að víkja frá því skipulagi félagsþjónustu sem 1. mgr. gerir ráð fyrir. Samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skal þá greina frá því hvernig háttað skuli fullnaðarafgreiðslu mála, meðferð einstaklingserinda, endurupptöku mála og öðrum slíkum atriðum. Þegar um er að ræða samstarf sveitarfélaga um félagsþjónustu skal ákvæðum 3.–5. mgr. jafnframt fylgt.
    Ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 94. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela byggðasamlagi að veita félagsþjónustu fer um aðild að stjórn byggðasamlags eða þjónusturáði samkvæmt samstarfssamningi. Í stað staðfestingar ráðuneytis sveitarstjórnarmála á samningi skal fá staðfestingu ráðuneytis félagsþjónustu sem skal svo kynnt hinu fyrrnefnda.
    Ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 96. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela öðru sveitarfélagi að veita félagsþjónustu fyrir sína hönd má hún jafnframt kjósa áheyrnarfulltrúa í félagsmálanefnd þess sveitarfélags sem þjónustuna veitir. Áheyrnarfulltrúi hefur seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsmálanefndar þegar málefni samstarfsverkefnisins eru þar til umræðu.
    Fulltrúar í sveitarstjórn þeirra sveitarfélaga sem hafa falið öðru sveitarfélagi að annast fyrir sig félagsþjónustu samkvæmt lögum þessum eiga sama rétt á aðgangi að gögnum og upplýsingum um það verkefni hjá því sveitarfélagi sem veitir félagsþjónustu og þeir hefðu ella haft skv. 28. gr. sveitarstjórnarlaga.

    d. (6. gr.)

Kærur og málskot.

    Aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögum þessum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.
    Umsækjandi, hlutaðeigandi sveitarfélag eða samtök þeirra geta borið niðurstöðu úrskurðarnefndar eða ráðherra undir dómstóla eftir almennum reglum.
    Sveitarstjórn getur ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt er að kæra stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr., skuli máli fyrst skotið til félagsmálanefndar eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélaga. Nýti sveitarstjórn þessa heimild skal málsaðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga.

    e. (7. gr.)

Samvinna sveitarfélaga.

    Sveitarfélögum er heimilt að hafa samvinnu um verkefni samkvæmt lögum þessum sem og önnur verkefni sem félagsþjónustunni er ætlað að sinna. Er sveitarfélögum heimilt að mynda sérstök þjónustusvæði um verkefnin, enda sé gætt ákvæða 5. gr. og sveitarstjórnarlaga.

    f. (8. gr.)

Samráð við notendur.

    Samráð skal haft við notendur félagsþjónustunnar með það að markmiði að þeir séu virkir þátttakendur í undirbúningi ákvörðunar um þjónustu og hvernig henni verður háttað. Þá skal hafa samráð við notendur við almenna stefnumörkun innan sveitarfélagsins. Sveitarfélög skulu a.m.k. árlega funda með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustunnar og skulu starfrækja sérstök notendaráð sem tryggi aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags í málefnum er varða meðlimi þeirra. Tryggja skal þátttakendum stuðning og þjálfun til virkrar þátttöku í notendasamráði.

    g. (9. gr.)

Samningar við einkaaðila.

    Sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa saman að þjónustusvæði er heimilt að gera samninga við félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða aðra einkaaðila á þjónustusvæði sínu um að annast þjónustu samkvæmt lögum þessum. Mat á þjónustuþörf og ákvörðun um þjónustu skal þó alltaf vera á hendi sveitarfélags eða byggðasamlags. Óheimilt er að semja um veitingu þjónustu við aðra aðila en þá sem hafa fengið starfsleyfi skv. 10. gr.

    h. (10. gr.)

Starfsleyfi.

    Félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og aðrir einkaaðilar sem ætla að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum skulu afla starfsleyfis ráðuneytisins. Ráðuneytið skal afla umsagnar notendaráðs í því sveitarfélagi þar sem starfsemin er áður en leyfið er veitt.
    Leyfisveitandi skal afturkalla starfsleyfi sem veitt hefur verið skv. 1. mgr. ef rekstraraðilinn hefur ekki sinnt kröfum um úrbætur innan tiltekinna tímamarka eða rekstrinum er verulega ábótavant að mati leyfisveitanda. Þá getur leyfisveitandi afturkallað starfsleyfi ef þjónustuveitandi vanrækir skyldur sínar gagnvart notendum þjónustunnar.
    Ráðherra skal setja nánari reglur í reglugerð um skilyrði fyrir starfsleyfi skv. 1. mgr. í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og að fenginni umsögn hagsmunasamtaka.

4. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög skulu hafa á að skipa félagsráðgjöfum til að starfa að verkefnum samkvæmt lögum þessum. Þar sem þörf krefur skal ráða þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa. Starfsfólki skal gefast kostur á að viðhalda og bæta við þekkingu sína.
    Óheimilt er að ráða í störf sem unnin eru í þágu þjónustu samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum, hvar sem hún er veitt, þá sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum sem veita fötluðu fólki þjónustu.
    Stjórnendur hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki og einkaaðilum sem fara með þjónustu samkvæmt lögum þessum eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn umsækjandi um starf á þeirra vegum hefur hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. og XXIII. kafla almennra hegningarlaga eða öðrum ákvæðum sömu laga, að fengnu samþykki hans.

5. gr.

    VII. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Stuðningsþjónusta, orðast svo:

    a. (25. gr.)

Markmið.

    Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera hon um kleift að búa sem lengst í heimahúsi.

    b. (26. gr.)

Skyldur sveitarfélaga.

    Sveitarfélagi er skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Samvinna skal þó alltaf höfð við viðkomandi stofnun, sbr. 62. gr.
    Ráðherra skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu samkvæmt þessum kafla, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarstjórn skal setja nánari reglur um stuðningsþjónustu á grundvelli leiðbeininga ráðherra.
    Heimilt er sveitarstjórn að taka gjald fyrir stuðningsþjónustu samkvæmt gjaldskrá.
    Ákvörðun um stuðningsþjónustu skv. 1. mgr. felur í sér að aðstoð sé að jafnaði veitt í tiltekinn fjölda klukkustunda í viku hverri á grundvelli mats á stuðningsþörfum, sbr. 27. gr., og þess almenna viðmiðs að aðstoð geti numið allt að 15 stundum á viku. Um aukna þjónustuþörf fer samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

    c. (27. gr.)

Mat á stuðningsþörfum.

    Áður en aðstoð er veitt skal sá aðili sem fer með stuðningsþjónustu meta þörf í hverju einstöku tilviki. Læknisvottorð skal liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður er að ræða.
    Sé stuðningsþörf vegna fötlunar meiri en svo að henni verði mætt með þjónustu eða aðstoð samkvæmt þessum kafla skal stuðningur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir koma til viðbótar og þjónustan samþætt í þágu notanda.

    d. (28. gr.)

Notendasamningar.

    Markmið notendasamninga er að auka val einstaklinga og barnafjölskyldna um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings, að undangengnu faglegu mati. Notendasamningur felur í sér að notandi stjórnar því hver veitir aðstoðina, hvenær hún er veitt og hvernig, þannig að best henti hverjum og einum. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, eða þannig að notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.
    Einstaklingar og barnafjölskyldur sem metnar hafa verið í þörf fyrir stuðningsþjónustu geta sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað er um framkvæmd stuðningsþjónustu. Hlutaðeigandi sveitarfélag gerir slíka samninga við notendur á grundvelli reglna sem það setur.

    e. (29. gr.)

Akstursþjónusta.

    Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
    Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það nýtur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Ráðherra setur nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem m.a. skal kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

6. gr.

    32. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Félagsþjónustunni er heimilt að fela teymi fagfólks samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir að annast mat á umönnunarþörf fatlaðra og langveikra barna vegna umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

7. gr.

    33. gr. og IX. kafli laganna, Þjónusta við unglinga, falla brott.

8. gr.

    2. mgr. 38. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.

9. gr.

    Við 40. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarfélagi er ekki skylt að veita þjónustu samkvæmt þessari grein á sjúkrahúsi eða öldrunarstofnun.

10. gr.

    Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um þjónustu við fatlað fólk, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist samráðshópur um málefni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar. Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um þjónustu við fatlað fólk skulu viðkomandi sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu hópsins.

11. gr.

    43. gr. og 3. mgr. 44. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    47. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Húsnæði á vegum sveitarfélaga.

    Sveitarstjórn skal setja sér reglur um meðferð umsókna um húsnæði á vegum sveitarfélagsins. Jafnframt tekur sveitarstjórn afstöðu til þess hvaða aðili í stjórnkerfi sveitarfélagsins tekur ákvörðun um úthlutun. Um uppsögn leigusamnings um húsnæði sem hefur verið úthlutað á grundvelli laga þessara gilda sömu reglur og um úthlutun þess.
    Um kröfur til húsnæðis á vegum sveitarfélags skv. 1. mgr. fer eftir fyrirmælum í skipulagslögum og lögum um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim lögum. Jafnframt skal farið eftir því sem segir um sértæk húsnæðisúrræði í húsnæðisáætlun og stefnumörkun stjórnvalda um ráðstöfun stofnframlaga.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Félagsmálanefndir skulu aðstoða þá sem eiga við fíknivanda að stríða við að leita sér viðeigandi meðferðar og aðstoðar.
     b.      Í stað orðsins „áfengissjúkra“ í 2. málsl. kemur: þeirra sem eiga við fíknivanda að stríða.

14. gr.

    Í stað orðanna „áfengissjúkir og misnotendur vímugjafa“ í 51. gr. laganna kemur: einstaklingar með fíknivanda.

15. gr.

    Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Vímuvarnir og aðstoð við einstaklinga með fíknivanda.

16. gr.

     XIV. kafli laganna, Atvinnuleysisskráning og vinnumiðlun, fellur brott.

17. gr.

    Á eftir orðunum „Opinberir aðilar“ í 1. mgr. 62. gr. laganna kemur: þ.m.t. stofnanir ríkisins.

18. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. júní 2018.

19. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999:
                  a.      Í stað orðanna „þjónustuhóps aldraðra“ í 5. tölul. 2. gr., 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 16. gr. laganna kemur: öldungaráðs; og í stað orðsins „hans“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: þess.
                  b.      Í stað orðanna „þjónustuhópur aldraðra“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr., í fyrirsögn á undan 6. gr. og í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: öldungaráð.
                  c.      Í stað orðanna „þjónustuhóp aldraðra“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: öldungaráð.
                  d.      Í stað orðsins „þjónustuhópnum“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: öldungaráðinu.
                  e.      Í stað orðsins „nefndarmanna“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: öldungaráðsmanna.
                  f.      Í stað orðsins „Þjónustuhópurinn“ í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: Öldungaráðið.
     2.      Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995: Á eftir orðinu „skólaaksturs“ í b-lið 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: og akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.