Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 988  —  447. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um atkvæðakassa.


     1.      Hversu margir atkvæðakassar voru notaðir í kosningum til Alþingis árið 2017, skipt eftir kjördæmum?
    Samkvæmt upplýsingum frá yfirkjörstjórnum var eftirfarandi fjöldi atkvæðakassa notaðir í kosningum til Alþingis 2017.
    Í Reykjavíkurkjördæmi suður 86 atkvæðakassar.
    Í Reykjavíkurkjördæmi norður 85 atkvæðakassar.
    Í Norðvesturkjördæmi 56 atkvæðakassar.
    Í Norðausturkjördæmi 57 atkvæðakassar.
    Í Suðurkjördæmi 62 atkvæðakassar.
    Í Suðvesturkjördæmi 110 atkvæðakassar.

     2.      Hversu margir atkvæðakassar hafa brotnað, dottið í sundur eða opnast á annan óæskilegan hátt við afhendingu, flutning eða notkun í einhverjum kosningum frá árinu 2013 og hvernig var hvert atvik skráð í gerðabók?
    Ráðuneytið óskaði eftir því við yfirkjörstjórnir í öllum 74 sveitarfélögum landsins að þær upplýstu hvort einhverjir og þá hversu margir atkvæðakassar hefðu brotnað, dottið í sundur eða opnast á annan óæskilegan hátt við afhendingu, flutning eða notkun í einhverjum kosningum frá árinu 2013 og hvernig hvert atvik hafi verið skráð í gerðabók. Svör bárust frá öllum kjörstjórnunum. Jafnframt var óskað upplýsinga frá yfirkjörstjórnum í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðukjördæmi og Suðvesturkjördæmi. Svör bárust frá öllum yfirkjörstjórnunum.
    Rétt er að taka fram að frá árinu 2013 hafa farið fram fernar kosningar. Árið 2014 var kosið til sveitarstjórna, árið 2016 voru forsetakosningar og kosið var til Alþingis bæði árin 2016 og 2017.
    Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórnum allra sveitarfélaga landsins hafa atkvæðakassar ekki orðið fyrir neinu hnjaski, þar á meðal opnast við afhendingu, í flutningi eða í notkun, í kosningum til sveitarstjórna.
    Í svari yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis kemur fram að í einu tilviki við flutning atkvæðakassa í kosningum til Alþingis árið 2016, frá Mosfellsbæ á talningarstað í Kaplakrika í Hafnarfiðri, hafi atkvæðakassi fallið á annan atkvæðakassa inni í sendibifreið sem flutti atkvæðakassana og hafi lok kassans gengið til þannig að ummerki hafi verið á innsiglum kassans. Innsiglin losnuðu ekki og eftir að umboðsmenn höfðu skoðað kassann gerðu þeir ekki frekari athugasemdir um að atkvæðin væru tekin til talningar. Var þessa getið í gerðarbók.
    Í svari yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, kemur fram að í Alþingiskosningunum árið 2016 hafi það tilvik komið upp eftir að atkvæðakassi hafi verið opnaður og tæmdur að lok kassans brotnaði en fór þó ekki af kassanum. Bókað var á hefðbundin hátt um atvikið í gerðarbók.
    Í svari frá Reykjavíkurborg kemur fram að við kosningar til Alþingis árið 2017 hafi hverfiskjörstjórn í Árbæjarskóla talið að botn í þremur atkvæðakössum hafi verið laus. Hafi lagfæring farið þannig fram að aukanaglar hafi verið settir í botn kassanna fyrir upphaf kjörfundar, eða kl. 08:45 samkvæmt bókun hverfiskjörstjórnar. Umboðsmenn Pírata hafi gert athugasemd við að fyrrgreindir kassar væru notaðir, en hvorki hverfis- né yfirkjörstjórn hafi talið ástæðu til að bregðast við þeim athugasemdum, enda hafi það verið mat kjörstjórnanna að atkvæðakassarnir hafi verið í góðu lagi við upphaf kjörfundar. Var þetta bókað svo í gerðabók. Þá hafi auk framangreinds tilviks atkvæðakassar orðið fyrir minni háttar hnjaski í þremur tilvikum í kosningum á árunum 2013–2017. Um hafi verið að ræða örlítið hnjask, en engin innsigli hafi rofnað, botn dottið úr kassa eða nokkuð slíkt. Því hafi ekki verið bókað um þau tilvik í gerðabók.
    Jafnframt kemur fram í svari Reykjavíkurborgar að í forsetakosningunum árið 2016 hafi lykill að kjörkassa brotnað í læsingu við flutning úr kjördeild. Hafi kassinn verið sendur í talningu ólæstur en límdur aftur og marginnsiglaður. Var atvikið bókað í gerðabók.
    Þá er rétt að geta þess að engin yfirkjörstjórn, hvorki í alþingis- né sveitarstjórnarkosningum, kannast við að botn hafi dottið úr atkvæðakassa með þeim afleiðingum að atkvæði hafi fallið úr kassanum.
    Að öðru leyti en gerð er grein fyrir hér að framan hafa atkvæðakassar ekki orðið fyrir hnjaski í kosningum frá árinu 2013.