Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 993  —  408. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um eftirlit með vátryggingaskilmálum.


     1.      Telur ráðherra að með fyrirvaranum „eftir því sem kostur er“ í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, felist nægjanleg neytendavernd miðað við þær kröfur sem ráðherra gerir til slíkrar verndar?
    Lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, féllu úr gildi 1. október 2016 þegar ný lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, tóku gildi. Svar ráðuneytisins tekur mið af þessu.
    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu vegna fyrirspurnarinnar.
    1. mgr. 65. gr. laga nr. 56/2010 var svohljóðandi:
    „Fjármálaeftirlitið skal, eftir því sem kostur er, fylgjast með vátryggingaskilmálum sem í boði eru hér á landi og gæta þess að þeir séu í samræmi við lög sem hér gilda og góða viðskiptahætti. Telji Fjármálaeftirlitið að svo sé ekki skal það gera kröfu um að slíkum ákvæðum verði breytt eða þau verði afnumin. Skylt er að senda Fjármálaeftirlitinu skilmála lögboðinna vátrygginga, svo og breytingar á þeim áður en þeir eru boðnir á vátryggingamarkaði.“
    1. mgr. 10. gr. laga nr. 100/2016 er svohljóðandi:
    „Fjármálaeftirlitið skal, eftir því sem kostur er, fylgjast með vátryggingaskilmálum sem í boði eru hér á landi og gæta þess að þeir séu í samræmi við lög og heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Telji Fjármálaeftirlitið að svo sé ekki skal það gera kröfu um að slíkum ákvæðum verði breytt eða þau verði afnumin.“
    Samkvæmt gildandi lögum er vátryggingafélögum ekki lengur skylt að senda Fjármálaeftirlitinu skilmála lögboðinna vátrygginga áður en þeir eru boðnir á vátryggingamarkaði. Fjármálaeftirlitið getur þó tekið vátryggingaskilmála til skoðunar telji það tilefni til þess, t.d. vegna ábendinga eða kvartana viðskiptavina, og farið fram á úrbætur telji það þörf á því.
    Ráðuneytið telur orðalagið „eftir því sem kostur er“ í ákvæðinu ekki skerða þá neytendavernd sem 10. gr. laga nr. 100/2016 er ætlað að tryggja þar sem Fjármálaeftirlitið getur tekið til skoðunar alla vátryggingaskilmála sem eru boðnir hér á landi. Vakin er athygli á að hvorki lögin né Evróputilskipunin sem lögin byggjast á gera þá kröfu að Fjármálaeftirlitið fari yfir og samþykki alla vátryggingaskilmála sem eru boðnir hér á landi. Ekki er vitað um að neitt aðildarríki EES hafi reglur í löggjöf sem kveða á um eftirlit fyrir fram ( ex ante) með vátryggingaskilmálum heldur er jafnan gert ráð fyrir eftirliti eftir á ( ex post) með vátryggingaskilmálum. Eftirlit fyrir fram yrði mjög íþyngjandi fyrir starfsemi Fjármálaeftirlitsins og krefðist bæði aukins fjármagns og starfsfólks vegna fjölda þeirra vátryggingaskilmála sem í boði eru hérlendis og reglulegra breytinga og uppfærslna á þeim.
    Orðalagið „eftir því sem kostur er“ kemur því ekki í veg fyrir skilvirka neytendavernd þar sem allar ábendingar og athugasemdir sem Fjármálaeftirlitinu berast eru teknar til efnislegrar meðferðar og athugasemdir eru gerðar ef tilefni er til.

     2.      Telur ráðherra fyrrgreindan fyrirvara í samræmi við þau sjónarmið að styrkja beri stöðu neytenda gagnvart flóknum vátryggingaskilmálum sem ætla má að neytendum geti reynst tímafrekt og jafnvel flókið að skilja?
    Ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga og vátryggingaskilmála eru í lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Samkvæmt 5. gr., um skaðatryggingar, og 66. gr., um persónutryggingar, skulu vátryggingaskilmálar sem boðnir eru hér á landi vera á íslensku eða öðru tungumáli sem vátryggingartaki samþykkir og gerir honum kleift, áður en gengið er frá vátryggingarsamningi, að tileinka sér þau ákvæði skilmálanna sem skipta máli um efni þeirra, vátryggingavernd og þau kjör sem í boði eru.
    Fyrirhugað er að taka upp í EES-samninginn tilskipun 2016/97/EB, um miðlun og sölu vátrygginga, þar sem gerðar eru verulegar breytingar á upplýsingaskyldu vátryggingafélaga og annarra sem selja vátryggingar áður en vátryggingasamningur er gerður. Tilskipunin felur í sér aukna neytendavernd, auknar kröfur um upplýsingaskyldu og að sérstakt upplýsingaskjal verði gert fyrir hverja vátryggingu sem boðin er til sölu. Ráðherra hefur skipað nefnd til að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt og er samning lagafrumvarps hafin í ráðuneytinu. Neytendavernd mun eflast enn frekar þegar ákvæði tilskipunarinnar taka gildi.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að fella fyrirvarann niður til að styrkja neytendavernd þannig að í lögum sé gerð sú eðlilega krafa til Fjármálaeftirlitsins að stofnunin hafi eftirlit með vátryggingaskilmálum og gæti þess að þeir séu í samræmi við lög og góða viðskiptahætti? Ef svo er, hyggst ráðherra leggja fram slíka breytingu á lögunum?
    Ráðuneytið telur að framangreint orðalag komi ekki í veg fyrir skilvirka neytendavernd á þessu sviði. Þá verður ekki séð að breyting á ákvæðinu myndi breyta nálgun Fjármálaeftirlitsins á eftirliti með vátryggingaskilmálum frá núverandi fyrirkomulagi, þ.e. því að taka til efnismeðferðar athugasemdir og kvartanir varðandi vátryggingaskilmála auk úttekta á vátryggingaskilmálum þegar þess er þörf.
    Breyting á löggjöf gæti falið í sér að Fjármálaeftirlitið myndi yfirfara og samþykkja alla vátryggingaskilmála sem boðnir eru hérlendis en slíkt myndi krefjast aukins fjármagns og fleira starfsfólks.
    Þá er ítrekað að umræddur fyrirvari takmarkar að engu leyti heimildir Fjármálaeftirlitsins til að gera athugasemdir og kröfur um úrbætur telji stofnunin vátryggingaskilmála brjóta í bága við lög eða heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

     4.      Styður ráðherra slíka breytingu á lögunum verði tillaga um hana lögð fram? Ef ekki, hver er ástæðan? Svarið óskast rökstutt.
    Ráðuneytið telur slíka breytingu ónauðsynlega og vísar til svara við 1.–3. tölul. fyrirspurnarinnar í því samhengi.

     5.      Er ráðherra sammála fyrirspyrjanda um að eðlilegt sé að Fjármálaeftirlitið birti á heimasíðu sinni allar ábendingar, fyrirvara og athugasemdir sem eftirlitið gerir við tillögur að vátryggingaskilmálum vátryggingafélaganna eða kröfur um breytingar á þeim? Ef svo er ekki, er óskað eftir að ráðherra geri grein fyrir afstöðu sinni.
    Allar ábendingar sem berast Fjármálaeftirlitinu eru metnar sérstaklega og skoðað hvort tilefni sé til frekari athugunar. Telji eftirlitið ástæðu til að taka mál til frekari athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits. Slík athugun byggist á þeim eftirlitsúrræðum og heimildum sem lög kveða á um.
    Samkvæmt 9. gr. a laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum er byggjast á lögunum nema slík birting verði talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu, varði ekki hagsmuni hans sem slíks eða valdi hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir. Þessi heimild er útfærð nánar í gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins en þar kemur fram að Fjármálaeftirlitið birtir að eigin frumkvæði niðurstöður í málum og athugunum er varða þá aðila sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Að jafnaði eru birtar ákvarðanir um álagningu stjórnvaldssekta, sáttir, niðurstöður um hæfi virkra eigenda, niðurstöður vettvangsathugana og annarra mála sem varða fjármálamarkaðinn. Niðurstöður í málum og athugunum eru birtar í heild, að hluta eða í formi útdrátta. Enn fremur er stefnt að því að birta upplýsingar um það ef hlutaðeigandi verður ekki við úrbótakröfum Fjármálaeftirlitsins innan veittra tímamarka.
    Leiði athugun Fjármálaeftirlitsins í ljós að vátryggingaskilmálar vátryggingafélags séu ekki í samræmi við lög gerir stofnunin athugasemd við það og krefst úrbóta. Að jafnaði birtir Fjármálaeftirlitið gagnsæistilkynningu um slíka niðurstöðu enda liggi fyrir að birtingin er í samræmi við skilyrði 9. gr. a laga nr. 87/1998.

     6.      Hvernig skilgreinir Fjármálaeftirlitið „eðlilegan rekstrarkostnað“ vátryggingafélaga eins og því ber að gera skv. 2. mgr. 65. gr. fyrrgreindra laga?
    Hliðstætt ákvæði og var í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 56/2010 er ekki í lögum nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, og er því ekki tilefni til að svara þessum lið.

     7.      Hvernig leggur Fjármálaeftirlitið mat á hvað teljast góðir viðskiptahættir vátryggingafélaga, sbr. 2. mgr. 6. gr. fyrrgreindra laga?
    Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, kemur fram að Fjármálaeftirlitið skuli gæta þess að vátryggingaskilmálar séu í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.
    Fjármálaeftirlitið hefur gefið út reglur nr. 673/2017, um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga. Kveðið er á um mat á eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum í 3. gr. reglnanna, þar sem segir:
    „Mat Fjármálaeftirlitsins á því hvort viðskiptahættir vátryggingafélags séu eðlilegir og heilbrigðir skal grundvallast á því hvort þeir samræmist:
              1.      Ákvæðum laga, reglugerða og reglna sem gilda um starfsemina, markmiðum og tilgangi þeirra,
              2.      leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins,
              3.      viðmiðunarreglum evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði, sbr. lög nr. 24/2017,
              4.      tilkynningum og ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, þ.á m. þeim sem birtar eru í gagnsæistilkynningum og dreifibréfum,
              5.      samþykktum, innri reglum, stefnum og viðmiðum vátryggingafélags,
              6.      siðareglum og öðrum viðurkenndum viðmiðum sem eiga við um starfsemina,
              7.      viðteknum venjum á vátryggingamarkaði,
              8.      hlutverki og eðli starfseminnar, og
              9.      öðrum atriðum, en skv. 1.–8. tölul., þegar málsatvik gefa tilefni til.
    Þá skal litið til þess hvort viðskiptahættir séu til þess fallnir að efla traust og trúverðugleika vátryggingafélags.“


     8.      Telur ráðherra það í samræmi við góða viðskiptahætti að vátryggingafélögin hafi ekki gjaldskrá sýnilega í afgreiðslusölum sem aðgengilegir eru almenningi eða á netinu? Telur ráðherra að félögunum sé ekki skylt að sýna verðlagningu á þjónustu sinni og vörum með skýrum hætti eins og t.d. verslunum og olíufélögum?
    Þegar kemur að verðlagningu vátryggingaafurða er ekki um staðlaða verðlagningu að ræða, heldur byggjast iðgjöld á áhættusniði viðskiptavinar, tjónasögu og fleiri þáttum. Af þeim sökum er ekki unnt að hafa eiginlega gjaldskrá.
    Í þessu samhengi vísast til 10. og 65. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, þar sem fram koma upplýsingar um hvað skuli koma fram í vátryggingarskírteini og ákvæði um sérstaka upplýsingaskyldu. Meðal þess sem upplýsa skal vátryggingartaka um er iðgjald vegna vátryggingarinnar og gjalddaga þess.
    Þegar kemur að öðrum þáttum í þjónustu vátryggingafélaga, svo sem leigu á barnabílstólum eða árekstra- og utanvegaþjónustu, er gjaldskrá að jafnaði aðgengileg á heimasíðum vátryggingafélaganna.