Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 999  —  519. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um útreikning á verðtryggingu.


     1.      Hvaða aðferð við útreikning á greiðslum af verðtryggðum lánasamningum er beitt í fjármálastofnunum í ríkiseigu eins og Íbúðalánasjóði, Íslandsbanka og Landsbanka Íslands?
    Í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, kemur fram að Seðlabanki Íslands setji nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í framhaldi af gildistöku laganna setti Seðlabankinn reglur nr. 492/2001, um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, og segir þar um verðtryggingu lánsfjár: „Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Grunnvísitala skal vera vísitala sú, sem í gildi er þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars.“
    Óskað var eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði, Íslandsbanka og Landsbanka Íslands við vinnslu á svari við þessum tölulið. Í svörum frá Íslandsbanka og Landsbanka Íslands kom fram að greiðslur af verðtryggðum lánssamningum eru reiknaðar út í samræmi við reglur sem Seðlabankinn setur og er lýst hér að ofan, þ.e. höfuðstóll láns er verðbættur áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Í svari Íbúðalánasjóðs kom fram að verðbætur eru reiknaðar af greiðslu láns en ekki höfuðstóli þess.

     2.      Hyggst ráðherra hafa forgöngu um að birtar verði opinberlega þær reikniaðferðir og formúlur sem lög heimila við útreikning á greiðslum af verðtryggðum lánum?
    Aðferðir við útreikning á greiðslum af verðtryggðum lánum koma fram í reglum Seðlabankans nr. 492/2001 og eru opinberar upplýsingar. Ítarlegri upplýsingar um hvernig reglur bankans hafa þróast í áranna rás koma fram í svari Seðlabanka Íslands til umboðsmanns Alþingis, dagsettu 30. ágúst 2011. 1 Í umræddu svari til umboðsmanns Alþingis eru sett fram sýnidæmi um hvernig greiðslur af verðtryggðu láni eru reiknaðar. Þar segir enn fremur: „Hvort sem farin er sú leið við framkvæmd verðtryggingar að verðbæta höfuðstól eða greiðslur verður efnisleg niðurstaða sú sama. Það er þess vegna jafngilt að segja að greiðslur af láni séu verðtryggðar og að segja að höfuðstóll láns sem afborganir og vextir reiknist af sé verðtryggður.“
1    Sjá www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8964