Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1000  —  308. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um starfsmenn opinberra hlutafélaga.


    Alls eru níu opinber hlutafélög (ohf.) að meiri hluta í eigu ríkissjóðs. Af þeim eru sjö á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þ.e. Harpa – tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., Isavia ohf., Íslandspóstur ohf., Neyðarlínan ohf., Nýr Landspítali ohf., Orkubú Vestfjarða ohf. og Rarik ohf. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með eignarhluti í fyrirtækjunum í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og er svarið takmarkað við þau. Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá félögunum og er svar við fyrirspurninni byggt á upplýsingum frá þeim. Upplýsingarnar eru birtar með þeirri nákvæmni sem var í svörum frá fyrirtækjunum sjálfum.

     1.      Hvaða starfsmönnum opinberra hlutafélaga (ohf.) hefur ríkið lagt til bifreið til sinna afnota? Hvert er heildarverðmæti bifreiðanna?
    Spurt er hvort ríkið, þ.e. ríkissjóður, hafi lagt starfsmönnum til bifreiðar. Um það hefur ekki verið að ræða en í sumum tilvikum hafa fyrirtækin gert það og er við það miðað í svarinu.
     a.      Harpa: Fyrirtækið hefur ekki lagt starfsmönnum til bifreiðar.
     b.      Isavia: Fyrirtækið hefur lagt 13 starfsmönnum til bifreiðar til þeirra afnota. Þar af eru 4 starfsmenn sem hafa full afnot af bifreiðum og árið 2017 var skattmat af þeim afnotum samtals 4.455.518 kr. Heildarverðmæti þessara bifreiða nam 16.029.150 kr. Þá voru 9 starfsmenn með takmörkuð afnot af bifreiðum og árið 2017 var skattmat af þeim afnotum samtals 2.019.710 kr. Þær bifreiðar eru ekki í eigu Isavia.
     c.      Íslandspóstur: Íslandspóstur ohf. hefur lagt forstjóra og fimm framkvæmdastjórum til bifreiðar á grundvelli ráðningarsamninga. Uppfært verð þeirra sem grundvöllur hlunnindamats nemur 15.700.000 kr.
     d.      Neyðarlínan: Framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur aðgang að bifreið að andvirði 5.900.000 kr. til ferða í tengslum við starf sitt.
     e.      Nýr Landspítali: Fyrirtækið hefur ekki lagt starfsmönnum til bifreiðar.
     f.      Orkubú Vestfjarða: Fyrirtækið hefur ekki lagt starfsmönnum til bifreiðar.
     g.      Rarik: Fyrirtækið leggur starfsmönnum eingöngu til bifreiðar við verkefni á vegum fyrirtækisins en ekki til einkanota.

     2.      Hver voru meðalheildarlaun starfsmanna opinberra hlutafélaga árið 2017? Hver voru hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns í hverju opinberu hlutafélagi árið 2017?

Fyrirtæki Meðalheildarlaun Hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns
Harpa 9.803.064 14.810.028
Isavia 6.627.059 *28.784.628
Íslandspóstur 5.100.000 19.000.000
Neyðarlínan 8.670.000 16.870.000
Nýr Landspítali 15.705.288
Orkubú Vestfjarða 9.896.000 19.967.000
Rarik 10.158.850 20.292.303
* Hér eru aukavaktir undanskildar.

     3.      Fengu einhverjir starfsmenn opinberra hlutafélaga endurgreiddan aksturskostnað árið 2017 og hver var heildarkostnaður hvers opinbers hlutafélags vegna aksturskostnaðar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns í hverju opinberu hlutafélagi árið 2017?
     a.      Harpa: Starfsmenn fengu ekki endurgreiddan aksturskostnað árið 2017.
     b.      Isavia: 92 starfsmenn fengu endurgreiddan aksturskostnað samkvæmt akstursdagbók árið 2017. Heildarkostnaður nam 22.751.667 kr. og hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns nam 1.358.060 kr.
     c.      Íslandspóstur: Starfsmenn sem nota eigin bíla við póstdreifingu fengu endurgreiddan aksturskostnað samkvæmt akstursdagbók sem nam 39.400.000 kr. árið 2017. Hæsta greiðsla til einstaklings nam 664.000 kr.
     d.      Neyðarlínan: 26 starfsmenn fengu endurgreiddan aksturskostnað samkvæmt akstursdagbók. Samtals var greiddur aksturskostnaður að fjárhæð 3.940.000 kr. Hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns var að fjárhæð 670.000 kr.
     e.      Nýr Landspítali: Ferðakostnaður er greiddur í samræmi við reglur um greiðslu ferðakostnaðar á vegum ríkisins. Heildaraksturskostnaður vegna starfsmanna og annars aksturs, svo sem leigubíla og bílaleigubíla, var árið 2017 3.511.998 kr. Hæsta greiðsla til starfsmanns var 49.790 kr. einn einstakan mánuð.
     f.      Orkubú Vestfjarða: Endurgreiddur aksturskostnaður/bifreiðastyrkur nam samtals 35.900.000 kr. til 32 starfsmanna. Hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns nam 2.350.000 kr.
     g.      Rarik: Endurgreiddur aksturskostnaður var allur samkvæmt akstursskýrslum og nam samtals 45.749.769 kr. Hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns var 2.005.850 kr.

     4.      Fengu einhverjir starfsmenn opinberra hlutafélaga endurgreiddan ferðakostnað í formi dagpeninga innan lands og utan árið 2017 og hver var heildarkostnaður hvers opinbers hlutafélags vegna ferðakostnaðar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns í hverju opinberu hlutafélagi vegna ferðakostnaðar innan lands annars vegar og erlendis hins vegar árið 2017?
     a.      Harpa: Fyrirtækið greiddi samtals 561.963 kr. vegna ferðakostnaðar innan lands árið 2017. Hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns nam 96.173 kr.
     b.      Isavia: Samtals fengu 283 starfsmenn Isavia greidda dagpeninga vegna ferðalaga erlendis og 111 starfsmenn greidda dagpeninga vegna ferðalaga innan lands. Hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns árið 2017 vegna ferðalaga erlendis (þar er sérverkefni á Grænlandi undanskilið) nam 1.396.478 kr. og hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns vegna ferðalaga innan lands nam 2.249.300 kr.
     c.      Íslandspóstur: Starfsmenn sem þurfa að ferðast vegna vinnu sinnar fyrir Íslandspóst fá endurgreiddan ferðakostnað í samræmi við viðmiðanir RSK um dagpeninga. Heildarkostnaður vegna ferðakostnaðar nam 41.800.000 kr. á árinu 2017, þar af námu dagpeningar 12.600.000 kr., 7.800.000 kr. voru vegna ferðalaga utan lands og 4.800.000 kr. vegna ferðalaga innan lands. Hæsta greiðsla til einstaklings vegna ferðalaga utan lands nam 1.200.000 kr. og hæsta greiðsla til einstaklings vegna ferðalaga innan lands nam 368.000 kr.
     d.      Neyðarlínan: Alls fengu 10 starfsmenn greidda dagpeninga að fjárhæð samtals 5.570.000 kr. Hæsta greiðsla til starfsmanns vegna dagpeninga innan lands nam 1.140.000 kr. Hæsta greiðsla vegna dagpeninga erlendis nam 300.000 kr.
     e.      Nýr Landspítali: Ferðakostnaður er greiddur í samræmi við reglur um greiðslu ferðakostnaðar á vegum ríkisins. Heildardagpeningakostnaður árið 2017 var 668.861 kr. Hæsta greiðsla erlendis var 68.409 kr. Hæsta greiðsla innan lands var 25.944 kr.
     f.      Orkubú Vestfjarða: Ferðakostnaður innan lands var 3.696.000 kr. Endurgreiddur ferðakostnaður innan lands í formi dagpeninga nam 25.254.000 kr. en hæsta greiðsla til einstaklings 1.937.000 kr. Ferðakostnaður erlendis nam 625.000 kr. Endurgreiddur ferðakostnaður erlendis í formi dagpeninga nam 866.000 kr. Hæsta greiðsla til einstaklings nam 166.500 kr.
     g.      Rarik: Dagpeningagreiðslur árið 2017 voru 87.998.480 kr. Hæsta greiðsla dagpeninga innan lands til einstaklings var 1.639.800 kr. og hæsta greiðsla dagpeninga erlendis var 444.071 kr.

     5.      Var símakostnaður greiddur fyrir einhverja starfsmenn opinberra hlutafélaga árið 2017 og þá fyrir hve marga starfsmenn hvers opinbers hlutafélags? Hver var heildarkostnaður hvers opinbers hlutafélags vegna greidds símakostnaðar starfsmanna og hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns í hverju opinberu hlutafélagi árið 2017?
     a.      Harpa: Fyrirtækið greiddi símakostnað 42 starfsmanna árið 2017. Heildarkostnaður var 1.944.532 kr. Hæsta greiðsla til einstaklings nam 97.788 kr.
     b.      Isavia: Samtals greiddi fyrirtækið farsímakostnað vegna 365 farsímanúmera. Heildarkostnaður árið 2017 nam 16.064.976 kr. og hæsta greiðsla vegna einstaks farsímanúmers var 181.053 kr.
     c.      Íslandspóstur: Starfsmenn sem þurfa að nota farsíma vegna vinnu sinnar hafa afnot af farsíma og fyrirtækið greiðir þann kostnað eins og annan símakostnað sem tilheyrir félaginu. Í nokkrum tilfellum er greiddur símakostnaður vegna heimasíma starfsmanna og nam heildarkostnaður vegna þessa 2.000.000 kr. árið 2017. Hæsta greiðsla til einstaklings vegna þessa nam 54.000 kr. árið 2017.
     d.      Neyðarlínan: Farsímakostnaður var greiddur fyrir 14 starfsmenn að fjárhæð 1.120.000 kr. Hæsti símakostnaðurinn nam 160.000 kr. hjá einum starfsmanni.
     e.      Nýr Landspítali: Engar sérstakar greiðslur eru til starfsmanna vegna símakostnaðar fyrirtækisins.
     f.      Orkubú Vestfjarða: Símakostnaður var greiddur fyrir 65 starfsmenn að heildarfjárhæð 2.367.000 kr. Hæsta greiðsla til einstaklings nam 112.000 kr.
     g.      Rarik: Fyrirtækið greiðir afnotagjöld af GSM-símum fyrir alla starfsmenn og auk þess notkun og heimatengingu fyrir tölvu fyrir þá starfsmenn sem þess þurfa starfsins vegna. Heildarkostnaður greidds símakostnaðar vegna starfsmanna árið 2017 var 13.170.599 kr. og hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns var 408.351 kr.

     6.      Fengu einhverjir starfsmenn opinberra hlutafélaga greidda fatapeninga árið 2017? Hver var þá heildarkostnaður hvers opinbers hlutafélags vegna fatapeninga?
     a.      Harpa: Fyrirtækið greiðir ekki fatapeninga.
     b.      Isavia: 120 starfsmenn fengu greidda fatapeninga árið 2017. Heildarkostnaður árið 2017 nam 6.622.181 kr.
     c.      Íslandspóstur: Fyrirtækið greiðir ekki fatapeninga. Kostnaður félagsins vegna vinnufatnaðar sem ætlast er til að starfsmenn í framlínu klæðist nam 22.000.000 kr. árið 2017.
     d.      Neyðarlínan: Fyrirtækið greiðir ekki fatapeninga.
     e.      Nýr Landspítali: Fyrirtækið greiðir ekki fatapeninga.
     f.      Orkubú Vestfjarða: Fyrirtækið greiðir ekki fatapeninga.
     g.      Rarik: Fyrirtækið greiðir ekki fatapeninga.