Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1011  —  204. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Alex B. Stefánssyni um dómsmál hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.


     1.      Hversu mörg dómsmál hefur Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) höfðað á síðustu þremur árum, sundurliðað eftir árum?

Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2015 320 dómsmál
2016 395 dómsmál
2017 451 dómsmál
Fyrir Héraðsdómi Reykjaness 2016 1 dómsmál
2017 1 dómsmál
Fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 2016 1 dómsmál
Fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 2016 3 dómsmál
Alls 1.172 dómsmál

Fyrir Hæstarétti Íslands 2015 4 dómsmál
2016 5 dómsmál
2017 6 dómsmál
Alls 15 dómsmál

     2.      Hversu mörgum dómsmálum hefur LÍN tapað á fyrrgreindu tímabili, hversu mörg mál hafa unnist og hversu mörgum málum hefur lokið með dómsátt, innan hvers dómstigs?
    Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur tapað 12 dómsmálum á umræddu tímabili fyrir héraðsdómi og fimm dómsmálum á umræddu tímabili í Hæstarétti Íslands.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur unnið 868 dómsmál fyrir héraðsdómi (dómar, útivistardómar og áritaðar stefnur vegna útivistar stefndu) og sex dómsmál í Hæstarétti Íslands á umræddu tímabili.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur gert dómsátt í 168 dómsmálum fyrir héraðsdómi en enga í Hæstarétti Íslands á umræddu tímabili.
    Til viðbótar voru 103 dómsmál felld niður eftir þingfestingu á umræddu tímabili þar sem lántaki greiddi lán sín á þann hátt að þau komust í skil eða hann samdi um vanskilaskuldabréf eftir þingfestingu.
    Þá var 21 dómsmáli Lánasjóðs íslenskra námsmanna ólokið um áramótin 2017–2018 fyrir héraðsdómi og fjórum dómsmálum í Hæstarétti Íslands.

     3.      Hver er samanlagður dæmdur málskostnaður á LÍN síðustu þrjú ár?
    Samanlagður dæmdur, úrskurðaður og umsaminn málskostnaður sem féll á Lánasjóð íslenskra námsmanna á árabilinu 2015–2017 bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti Íslands er 43.444.087 að meðtöldum virðisaukaskatti.
    Þessi samantekt byggist á upplýsingum úr málaskrá Héraðsdóms Reykjavíkur, málaskrá Hæstaréttar Íslands og á upplýsingum frá Gjaldskilum og TCM sem annast innheimtu fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna.

     4.      Hver er heildarlögfræðikostnaður LÍN vegna málshöfðana síðustu þrjú ár?
    Heildarlögfræðikostnaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna er um 151,9 millj. kr. vegna áranna 2015, 2016 og 2017. Lögfræðikostnaður vegna málshöfðana lánasjóðsins er ekki sundurliðaður sérstaklega. Inni í heildarlögfræðikostnaði er kostnaður samkvæmt samningum lánasjóðsins við löginnheimtuaðila. Löginnheimtuaðilar og lögmenn sjá um málarekstur og hagsmunagæslu fyrir lánasjóðinn og viðhalda kröfusafni sjóðsins m.a. með því að varna fyrningu þess. Löginnheimta getur m.a. falið í sér sendingu innheimtubréfa, samskipti við greiðendur og ábyrgðarmenn og lögmenn þeirra, gjaldfellingu vanskilakrafna með tilkynningu til viðkomandi, auk innheimtu með atbeina dómstóla og aðför og öðrum fullnustugerðum hjá greiðanda og ábyrgðarmönnum. Að auki er innifalinn í þessum tölum kostnaður vegna mála þar sem lánasjóðurinn hefur þurft að taka til varna eftir að hafa verið stefnt, sem og kostnaður vegna aðstoðar við málatilbúnað fyrir málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
    Almennt er það svo að Lánasjóður íslenskra námsmanna greiðir ekki þóknun til löginnheimtuaðila en beri innheimta ekki árangur er lánasjóðurinn krafinn um útlagðan kostnað. Kostnaður fellur þar að auki á lánasjóðinn vegna afturköllunar dómsmála, kröfuvaktar, kröfulýsinga í þrota- og dánarbú og vegna umbeðinnar vinnu vegna framhaldssölu og mætinga hjá dómstólum og sýslumannsembættum í ákveðnum tilvikum, auk tímagjalds vegna vinnu við hagsmunagæslu á kröfum sjóðsins við málarekstur sem ekki greiðist af gagnaðila.
    Þessi samantekt byggist á upplýsingum úr málaskrá Héraðsdóms Reykjavíkur, málaskrá Hæstaréttar, á upplýsingum frá Gjaldskilum og TCM sem annast innheimtu fyrir LÍN og á upplýsingum úr bókhaldi Lánasjóðsins.