Ferill 508. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1013  —  508. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um opinber störf utan höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hversu mörg störf eru á vegum velferðarráðuneytisins og stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins? Óskað er eftir sundurliðun eftir stofnunum og landshlutum.
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda stöðugilda á árinu 2017 á heilbrigðisstofnunum sem reknar eru á vegum ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins. Upplýsingarnar eru sóttar í launakerfi ríkisins.

Heilbrigðismál Stöðugildi á ári Heilbrigðisumdæmi
Sjúkrahúsið á Akureyri 496 Norðurland
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 259 Vesturland
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 165 Vestfirðir
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 373 Norðurland
Heilbrigðisstofnun Austurlands 244 Austurland
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 314 Suðurland
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 189 Suðurnes
Samtals 2.040
    
     2.      Telur ráðherra að unnt sé að láta vinna fleiri störf á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins?
    Í stefnuskjali heilbrigðisráðherra sem birtist í fjármálaáætlun 2019–2023 er gert ráð fyrir að auka aðgang sjúklinga að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana og auka möguleika á að veita fjölbreyttari þjónustu í nærumhverfi sjúklinga. Þjónustan byggist m.a. á því að þjónusta sérfræðilækna á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins verði í auknum mæli veitt af sérfræðingum starfandi á heilbrigðisstofnunum með samningum við sérhæfðu sjúkrahúsin.
    Í þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára frá árinu 2016 felst m.a. að koma á fót geðheilsuteymum í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki þegar til staðar fyrir árslok 2019. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir auknum fjárframlögum til að standa við markmið áætlunarinnar.
    Hjá ráðuneytinu renna sérstök fjárframlög til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu. Með innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu er leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Mikil tækifæri felast í því að nýta nýja tækni og samskiptabúnað í heilbrigðisþjónustunni. Þekking og reynsla heilbrigðisstarfsmanna nýtist betur og mætir betur þjónustuþörfum einstaklinga á landsbyggðinni.

     3.      Hyggst ráðherra færa störf út á land á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess, sbr. markmið byggðaáætlunar og áform ríkisstjórnarinnar í samstarfssáttmála um að stefna skuli að því að auglýsa störf án staðsetningar?
    Með því að efla fjarheilbrigðisþjónustu og þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni með samningum við sérhæfðu sjúkrahúsin er störfum á landsbyggðinni fjölgað án staðsetningar.