Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1018  —  613. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum (framlenging bráðabirgðaákvæðis).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða V í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði þetta gildir til 31. maí 2023.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram af umhverfis- og samgöngunefnd með stuðningi áheyrnarfulltrúa í nefndinni.
    Með frumvarpinu er gildistími ákvæðis til bráðabirgða V í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, framlengdur til næstu fimm ára en að óbreyttu hefði ákvæðið fallið úr gildi 31. maí 2018. Ákvæðið kveður á um að ráðherra, í þeim tilgangi að styðja við framkvæmd lýðræðis í sveitarfélögum, geti, að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar, heimilað að íbúakosning á grundvelli X. kafla sveitarstjórnarlaga fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Heimildinni var bætt við sveitarstjórnarlög með lögum nr. 28/2013 en markmið laganna var m.a. að efla rafrænt lýðræði og lýðræðisþátttöku íbúa.
    Nefndinni barst erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem greint er frá því að sveitarfélagið Árborg hafi 14. maí 2018 óskað eftir því við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að fá að halda rafræna íbúakosningu um breytingu á aðal- og deiliskipulagi miðbæjar Selfoss eftir undirskriftasöfnun íbúa í sveitarfélaginu. Nauðsynlegt sé að bregðast við og framlengja umrætt lagaákvæði til a.m.k. næstu fimm ára svo að unnt sé að nýta það til frekari þróunar rafræns samráðs og lýðræðis bæði við stjórnun og ákvarðanatöku í sveitarfélögum og á landsvísu. Tekur nefndin undir þau sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga og leggur til að ákvæði laganna verði framlengt um fimm ár.