Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1052  —  236. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgengi að stafrænum smiðjum.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Sigursveinsson og Ingunni Jónsdóttur frá Háskólafélagi Suðurlands, Olgu Lísu Garðarsdóttur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, Sigríði Pálsdóttur frá Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Kristján Leósson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Björgu Pétursdóttur, Björk Óskarsdóttur og Huldu Önnu Arnljótsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Svein Þorgrímsson og Sigríði Valgeirsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Háskólafélagi Suðurlands, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, Fljótsdalshéraði, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá umboðsmanni barna.
    Með tillögunni er lagt til að fela mennta- og menningarmálaráðherra að vinna áætlun í samstarfi við tilgreinda aðila um uppbyggingu á stafrænum smiðjum með það að markmiði að allir framhaldsskólanemendur hafi aðgang að slíkum smiðjum. Gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar hafa almennt verið jákvæðir í garð tillögunnar. Samhljómur var um jákvæð áhrif stafrænna smiðja til þess að efla menntun, þekkingu og samfélagið í heild.
    Nú þegar hafa verið starfræktar nokkrar stafrænar smiðjur víðs vegar um landið. Þær sem nú eru starfandi eru á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Hornafirði, og í Reykjavík, Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum. Nokkrar þessara smiðja hafa verið fjármagnaðar að hluta af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Eins og fram kom í umsögn miðstöðvarinnar eru blikur á lofti um fjárhagslega getu hennar til að halda úti starfsemi á nokkrum af þeim stöðum þar sem stafrænar smiðjur er að finna. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að með samþykkt þessarar tillögu verði í áætlun tilgreint hvernig verði staðið að stuðningi við þær smiðjur sem nú þegar eru starfandi eða eru í burðarliðnum. Nefndin beinir því til ráðherra að vinna að því að tryggja rekstrargrundvöll þessara smiðja og leggur nefndin sérstaka áherslu á að slíkt verði gert í samvinnu við heimamenn. Nefndin leggur því til breytingar á orðalagi tillögunnar þannig að vinnsla áætlunar nái bæði til uppbyggingar og reksturs smiðjanna.
    Stafrænar smiðjur í núverandi mynd hafa einna helst verið hluti af starfsemi framhaldsskóla. Nefndin bendir á að hugmyndafræði stafrænna smiðja byggist á því að þær séu opnar og aðgengilegar öllum sem óska þess og að þær séu vettvangur til þess að deila hugmyndum og fræðum. Nefndin beinir því til hlutaðeigandi aðila að vinna áætlun sem hafi það að markmiði að allir geti fengið aðgang að stafrænum smiðjum. Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að grunnskólanemendur fái aðgang að smiðjunum til jafns við framhaldsskólanemendur og að jafnræði nemenda verði tryggt, óháð búsetu. Nefndin tekur einnig fram að tryggja verði aðgengi almennings að smiðjunum. Nefndin leggur því til breytingar á tillögu þessari þannig að markmið hennar verði fyrst og fremst að tryggja aðgengi framhaldsskólanemenda en einnig aðgengi grunnskólanemenda og almennings að stafrænum smiðjum.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt hvort tryggja þyrfti öllum framhaldsskólanemum aðgang að stafrænni smiðju með ákvörðun um hámarksvegalengd frá framhaldsskólum til smiðjanna. Nefndin telur ekki nauðsynlegt að mæla fyrir um hámarksvegalengd. Hins vegar þykir nefndinni brýnt að allir framhaldsskólanemar hafi jafnan aðgang að stafrænum smiðjum og æskilegt að ekki verði um of langan veg að fara. Nefndin hvetur ráðherra til að huga að þessum þáttum við gerð áætlunar á grundvelli tillögu þessarar.
    Fyrir liggur að stafrænar smiðjur eru ekki reknar af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þá kom fram við umfjöllun málsins í nefndinni að þessar smiðjur hafa hingað til ekki verið á fjárlögum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, hafi forgangsraðað fjármagni sínu í smiðjurnar en hafi þó ekki lengur burði til þess að styðja við fleiri smiðjur. Nefndin telur að fjármögnun slíkra smiðja verði að byggjast á einhvers konar framlögum frá ríkinu en jafnframt að tengja verði fjármögnunina við samfélögin á hverjum stað. Í ljósi þess leggur nefndin til að í áætlun verði kveðið almennt á um fjármögnun sem geti verið í samstarfi við aðila í nærsamfélaginu.
    Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að stafrænar smiðjur byggðust að miklu leyti á samvinnu margra ólíkra aðila, svo sem framhaldsskóla, sveitarfélaga, byggðastofnana, atvinnurekenda í heimabyggð o.fl. Nefndin telur mikilvægt að tryggja að áætlun á grundvelli tillögu þessarar verði unnin í samstarfi við einstaklinga og félagasamtök í nærsamfélaginu, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða samfélagslegt verkefni þar sem útvega verður þátttakendur á hverjum stað til að sjá um að smiðjurnar beri sig til frambúðar. Slíkir þátttakendur gætu verið einstaklingar, félagasamtök og aðrir hlutaðeigandi, svo sem atvinnurekendur í heimabyggð. Þá telur nefndin heppilegra að um verði að ræða almennt samstarf við menntavísindasvið háskólanna fremur en að samstarfið takmarkist við ákveðna háskóla. Nefndin leggur til breytingar í þá veru.
    Við umfjöllun nefndarinnar var rætt um aðalnámskrár framhalds- og grunnskóla þar sem birt er stefna stjórnvalda um námsframboð og námskröfur. Fram kom að í báðum aðalnámskrám er fjallað um lykilhæfni, þar á meðal skapandi hugsun og hagnýtingu þekkingar. Það er síðan í höndum skólanna að ákveða hvaða leiðir þeir fara til að framkvæma stefnu stjórnvalda. Fram komu ábendingar um að með tillögu þessari væri gert ráð fyrir því að samhliða áætlunargerð yrði mótuð kennslustefna fyrir grunn- og framhaldsskóla þar sem m.a. yrði hugað að öllum undirstöðuatriðum námsins, hæfniviðmiðum við námslok og að hugsanlegri endurskoðun aðalnámskrár framhaldsskóla. Í því samhengi áréttar nefndin að stefna stjórnvalda í þessum málum hefur þegar verið birt í aðalnámskrám og því getur verið óheppilegt að móta aðra kennslustefnu samhliða hinni. Nefndin leggur því til að við áætlunargerðina verði hafðar til hliðsjónar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla.
    Fyrir nefndinni kom fram að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði verið leiðandi í verkefnum af þessu tagi. Nefndin leggur því til að ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra verði falið að leiða verkefnið í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra í ljósi þess að um er að ræða áætlunargerð á sviði nýsköpunar þar sem jafnframt verði hafðar til hliðsjónar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla.

    Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra að vinna áætlun um uppbyggingu og rekstur stafrænna smiðja með það að markmiði að framhaldsskólanemendur fyrst og fremst hafi aðgang að slíkum smiðjum en að smiðjurnar verði einnig opnar bæði grunnskólanemendum og almenningi. Áætlunin verði unnin í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, menntavísindasvið háskólanna, einstaklinga og félagasamtök í nærsamfélaginu og aðra hlutaðeigandi. Við áætlunargerðina verði aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla hafðar til hliðsjónar. Áætlunin verði skýr um framvindu verkefnis, verklok og um fjármögnun sem geti verið í samstarfi við aðila í nærsamfélaginu.

    Steinunn Þóra Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 29. maí 2018.

Páll Magnússon,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, frsm. Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson.