Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1062  —  466. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, með síðari breytingum (frestir).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd     .


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengi á sinn fund Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Kristínu Huld Sigurðardóttur og Þór Hjaltalín frá Minjastofnun Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða öll nýmæli úr tilskipun 2014/60/ESB sem leysir af hólmi tilskipun 93/7/EBE frá 15. mars 1993 um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Markmiðið með breytingunum er að rýmka gildissvið laganna til að auka möguleika á beitingu þeirra. Tilskipun 2014/60/ESB er endurútgáfa á tilskipun ráðsins 93/7/EBE sem hafði verið breytt í veigamiklum atriðum með tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 96/100/EB og 2001/38/EB. Þær höfðu áður verið innleiddar í íslenskan rétt með lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, og var þess vegna ekki þörf á veigamiklum breytingum á gildandi lögum.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að gæta þyrfti samræmis milli laga um skil menningarverðmæta til annarra landa og laga um menningarminjar, nr. 80/2012, annars vegar varðandi skilgreiningar á þjóðarverðmæti og hins vegar um tímamörk til að krefjast skila á menningarminjum sem fluttar hafa verið ólöglega frá Íslandi til annars aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 50. gr. þeirra laga. Fram kom að hafin er endurskoðun á lögum um menningarminjar og beinir nefndin því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að taka til skoðunar hvort samræma þurfi skilgreiningar milli laga um skil menningarverðmæta til annarra landa og laga um menningarminjar. Nefndin leggur þó til breytingar á 50. gr. laga um menningarminjar til að gæta að samræmis milli laganna um tímamörk.
    Í greinargerð sem fylgir frumvarpi þessu kemur fram að með breytingunum eru litlar líkur á mikilli fjölgun mála hjá Minjastofnun Íslands. Við meðferð málsins fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að tryggja Minjastofnun Íslands fjármagn til þess að sinna því hlutverki sem því er falið með lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa en ekkert fjármagn hafi í raun fylgt með tilfærslu verkefna frá safnaráði til Minjastofnunar með umræddum lögum. Stofnunin hafi því ekki getað sinnt verkefninu sem skyldi. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, kemur fram að gera má ráð fyrir að verkefni vegna menningarminja sem fluttar hafa verið ólöglega til landsins verði fátíð og muni rúmast innan fjárheimilda. Nefndin áréttar mikilvægi þess að stofnanir haldi sig innan fjárheimilda en bendir á að tryggja verði stofnunum nægilegt fjármagn til að sinna lögboðnu hlutverki. Nefndin beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að endurskoða í samráði við Minjastofnun Íslands hvernig tryggja megi að stofnunin geti annast framkvæmd og fræðslu samkvæmt lögunum.
    Nefndin gerir tillögu um að svokallað innleiðingarákvæði bætist við frumvarpið þannig að gerðar verði breytingar á 15. gr. laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa og vísað verði til hinnar nýju tilskipunar sem leysir þá eldri af hólmi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Við 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014 leysir af hólmi tilskipun 93/7/EBE um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis, sem vísað er til í tölulið 2, XXVIII. kafla, II. viðauka og tölulið 3, X. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 frá 3. júní 2016.
     2.      Við bætist ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Breytingar á öðrum lögum.

                 Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 80/2012, um menningarminjar, með síðari breytingum:
                  a.      Á eftir orðunum „tilskipun ráðsins“ í 1. mgr. 50. gr. laganna kemur: 2014/60/ESB sem leysti af hólmi tilskipun.
                  b.      Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 1995“ í 2. mgr. 50. gr. laganna kemur: 1. janúar 1993.

Alþingi, 31. maí 2018.

Páll Magnússon,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson.