Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1090  —  238. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2006, með síðari breytingum (stefnandi faðernismáls).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Félagi um foreldrajafnrétti, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofa Íslands og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að maður sem telur sig vera faðir barns geti óhindrað höfðað faðernismál því til staðfestingar nema þegar um er að ræða barn tveggja kvenna sem getið er með tæknifrjóvgun. Er frumvarpinu þannig ætlað að tryggja enn betur rétt barns til að þekkja foreldra sína skv. 1. gr. barnalaga, sbr. einnig 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var árið 2013. Í 8. gr. samningsins er kveðið á um að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með talið ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum. Í samningnum segir enn fremur að tryggja skuli að börn verði ekki aðskilin frá foreldrum sínum nema ef velferð þeirra verði ekki tryggð með öðru móti og að það barn sem ekki elst upp hjá báðum foreldrum sínum eigi rétt á að umgangast þá báða reglulega nema það sé andstætt hagsmunum þess.
    Fyrir nefndinni kom fram að barn sem ekki þekkir líffræðilega foreldra sína tapi að einhverju leyti þeim rétti sem aðildarríkjum ber að tryggja skv. 8. gr. samningsins. Með frumvarpinu er bót unnin þar á og lögð til breyting á lögum til samræmis við réttindi barna og skuldbindingar Íslands. Breytingin tryggir einnig að ekki sé vafa undirorpið hvort ákvæði barnalaga um höfðun faðernismála brjóti gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
    Nefndinni var bent á að í frumvarpinu væri ekki gert ráð fyrir rétti barnsins til að láta í ljós skoðanir sínar á málum sem það varðar, sbr. 12. gr. samningsins. Þar væri heldur ekki tekið tillit til þeirrar meginreglu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að skoðanir barns fengju aukið vægi eftir því sem það eltist og þroskaðist og að stálpuð börn ættu ríkan rétt á að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar væru um aðstæður þeirra og hagi. Þannig væri hvorki í frumvarpinu né greinargerð með því fjallað um mikilvægi þess að börn fengju að tjá sig við meðferð slíkra mála sem vörðuðu mikilvæga hagsmuni þeirra.
    Þá var nefndinni bent á að fyrirliggjandi frumvarp gengi nokkuð lengra en sambærileg löggjöf nágrannalanda, en í sænskri og danskri löggjöf er kveðið á um að til að maður geti höfðað vefengingarmál til að hnekkja faðerni barns þarf að leiða líkur að því að annar karlmaður en eiginmaður móður sé faðir barns.
    Meiri hlutinn áréttar að það er meginregla íslensks barnaréttar að ákvarðanir um hagi barna séu teknar með tilliti til þess sem er barninu fyrir bestu og að barn eigi rétt á að tjá sig í samræmi við aldur og þroska. Þessar meginreglur sem settar eru fram í barnasáttmálanum eiga ávallt við í málum sem varða börn og eru lögfestar hér á landi. Það er því ljóst að þær eiga einnig við í faðernismálum og dómstólarnir mundu vísa tilhæfulausum málum frá dómi. Þessar meginreglur tryggja einnig að samræmi verður við framkvæmd annars staðar á Norðurlöndunum enda hafa þau einnig fullgilt barnasáttmálann.
    Nefndin ræddi nokkuð um stöðu barna sem getin eru með gjafasæði. Skýrt er kveðið á um það í 4. mgr. 6. gr. barnalaga að maður sem gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun á annarri konu en eiginkonu sinni eða sambúðarkonu verður ekki dæmdur faðir barns sem getið er með sæði hans. Í frumvarpinu er að finna vísun til þess að faðernismál verði ekki höfðað ef barn á tvær mæður eftir tæknifrjóvgun, sbr. 2. mgr. 6. gr., en ekki vísað til annarra aðstæðna þar sem gjafasæði hefur verið notað. Meiri hlutinn áréttar að 4. mgr. 6. gr. gildir eftir sem áður og að maður getur ekki höfðað faðernismál hafi hann gefið sæði sitt til tæknifrjóvgunar konu sem hann er ekki í sambúð með eða giftur. Margir umsagnaraðilar bentu á að þarna virtist vera réttaróvissa til staðar og mismunun eftir fjölskyldugerð. Nauðsynlegt er að fjölskyldur þurfi ekki að búa við þá óvissu og óöryggi sem fylgir því að geta ávallt átt von á því að sæðisgjafinn geri tilkall til barnsins. Meiri hlutinn áréttar að slík réttaróvissa getur aldrei verið í samræmi við hagsmuni viðkomandi barna og að brýnt er að lögin séu skýr um þetta efni. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þessu til áréttingar og til að taka af allan vafa um þetta atriði.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „hafi foreldri ekki verið ákvarðað skv. 2. mgr. 6. gr.“ í 1. gr. komi: hafi barn ekki verið getið með gjafasæði skv. 4. mgr. 6. gr.

    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður álit meiri hlutans.

Alþingi, 1. júní 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Guðjón S. Brjánsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Anna Kolbrún Árnadóttir. Karl Gauti Hjaltason.