Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1096  —  433. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Fiskræktarsjóð, nr. 72/2008
(gjald af veiðitekjum, fjöldi stjórnarmanna o.fl.).


Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Sigríði Norðmann frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Einar K. Guðfinnsson og Kristján Davíðsson frá Landssambandi fiskeldisstöðva og Árna Snæbjörnsson og Jón Helga Björnsson frá Landssambandi veiðifélaga.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Fiskræktarsjóð. Umræddur sjóður er skipaður fimm mönnum og hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiða úr þeim.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum í þá veru að stjórn sjóðsins verði skipuð fjórum mönnum í stað fimm og að nokkur ákvæði laganna falli brott, þ.e. hluti 4. gr. um ráðstöfunarfé sjóðsins, ákvæði 5. gr. um gjald af veiðitekjum, ákvæði 6. gr. um álagningu og innheimtu gjalds af veiðitekjum, ákvæði 7. gr. sem fjalla um lágmarksfjárhæð eigin fjár og 10. gr. um viðurlög. Verði frumvarpið að lögum þurfa veiðiréttareigendur ekki lengur að greiða í sjóðinn en áfram verður úthlutað styrkjum með hliðstæðum hætti og verið hefur undanfarin ár þar til sjóðurinn tæmist.
    Við umfjöllun um málið kom fram sú athugasemd að eðlilegra væri að haga framtíðarfyrirkomulagi sjóðsins með öðrum hætti en kveðið er á um í frumvarpinu. Fram kom það sjónarmið að óeðlilegt væri að fækka fulltrúum í stjórn og halda jafnframt áfram að greiða út úr sjóðnum líkt og gert hefði verið. Auk þess var bent á að framlag hefði komið í sjóðinn úr Jarðasjóði með ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 72/2008. Nefndin bendir á að í framlaginu úr Jarðasjóði, eingreiðslu, hafi falist bætur fyrir það að greiðslur frá seljendum raforku lögðust af.
    Nefndin bendir á að með lögum sem samþykkt voru 9. maí sl. (lög nr. 47/2018) voru gerðar breytingar á lögum um Fiskræktarsjóð og því leggur nefndin til að 2. gr. frumvarpsins falli brott.
    Ásmundur Friðriksson og Smári McCarthy voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. gr. falli brott.

Alþingi, 30. maí 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Inga Sæland. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.
Sigurður Páll Jónsson.