Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1097  —  293. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur, Iðunni Garðarsdóttur, Maríu Sæmundsdóttur og Þórunni Oddnýju Steinsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Líney Rut Halldórsdóttur, Davíð Ólafsson og Birgi Sverrisson frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, Rúnu Hauksdóttur Hvannberg og Sindra Kristjánsson frá Lyfjastofnun, Magnús Jóhannsson og Jón Pétur Einarsson frá embætti landlæknis og Helgu Sif Friðjónsdóttur frá Frú Ragnheiði. Umsagnir bárust frá héraðssaksóknara, lyfjaráði Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, Lyfjastofnun, Persónuvernd, tollstjóra, umboðsmanni barna og Ungmennafélagi Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir að tiltekin efni og lyf séu notuð til að bæta líkamlega frammistöðu og tryggja að meðferð og notkun slíkra efna og lyfja valdi ekki heilsutjóni ásamt því að koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu þeirra. Frumvarpinu er meðal annars ætlað að hafa áhrif á þá sem standa að ólöglegum innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku, framleiðslu og vörslu framangreindra lyfja.
    Nefndinni bárust sjö umsagnir sem allar voru jákvæðar í garð frumvarpsins. Á fundi nefndarinnar fór fram töluverð umræða um líkamsræktarstöðvar og þann vanda að notendur nálgist framangreind efni og lyf innan þeirra. Fulltrúar íþróttahreyfingarinnar bentu á að þeir teldu stærsta vandann ekki vera innan skipulagðrar íþróttastarfsemi enda væri eftirlitið þar öflugt. Hins vegar væri ekkert eftirlit með sölu slíkra efna og lyfja innan veggja líkamsræktarstöðva og þar væri vandinn því enn stærri. Meiri hlutinn tekur undir þessar áhyggjur og beinir því til ráðuneytisins að skoða mál er viðkoma líkamsræktarstöðvum sérstaklega, þ.m.t. leyfisveitingar stöðva og hvort unnt sé að svipta þær leyfi komist upp um sölu frammistöðubætandi efna og lyfja innan veggja þeirra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2018.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðjón S. Brjánsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé.