Ferill 601. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1168  —  601. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um NPA-samninga.


     1.      Til hve langs tíma eru NPA-samningar gerðir að jafnaði?
    NPA-samningar hafa verið gerðir frá ári til árs.

     2.      Hvernig er verðlagsuppfærslu þessara samninga háttað?
    Í ákvæði IV til bráðabirgða í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, er sérstaklega fjallað um samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Þar segir að sveitarfélögum sé heimilt að verðmeta einstaka þjónustuþætti í gjaldskrá. Sveitarfélög skulu gera notendasamninga um notendastýrða persónulega aðstoð við hvern notanda, eða aðila sem kemur fram fyrir hönd hans, þar sem fram kemur hvaða þjónustu hlutaðeigandi þarf á að halda í daglegu lífi sem og verðmat þjónustunnar. Sveitarfélögum er heimilt að ráðstafa fjármunum sem svara til kostnaðar vegna þjónustu hvers notanda, sem veitt er á grundvelli notendasamnings um notendastýrða persónulega aðstoð, til notandans með þeim hætti sem kveðið er á um í notendasamningnum.
    Verklag varðandi framlag ríkisins til sveitarfélaga vegna NPA-samninga hefur því verið með þeim hætti að sveitarfélögin hafa gert samkomulag við notendur um fjölda vinnustunda og kostnað við hverja vinnustund sem þeir hafa til ráðstöfunar. Notandinn sjálfur eða sérstakur umsýsluaðili sem hann hefur valið hafa síðan getað ráðstafað þeim vinnustundafjölda sem um hefur verið samið. Í upphafi samstarfsverkefnisins um NPA gaf verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð út almenn viðmið um kostnað við hverja vinnustund. Í framkvæmd mátu samt sveitarfélögin kostnað við hverja vinnustund og verðlagsuppfærslu með mismunandi hætti. Ríkið hefur þó alltaf greitt 25% af heildarupphæð hvers samning í samræmi við þær umsóknir sem borist hafa frá sveitarfélögunum.

     3.      Er tryggt að launabreytingar á vinnumarkaði skili sér í verðlagsuppfærslu samninganna frá gildistöku hækkana?
     4.      Er sambærilegt fyrirkomulag verðlagsuppfærslu hjá þeim sveitarfélögum sem eru með gildandi NPA-samninga?

    Ráðuneytið sendi fyrirspurn þingmannsins til fjögurra sveitarfélaga sem eru með NPA-samninga; Mosfellsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar. Svör þeirra koma hér á eftir:

Mosfellsbær:
    Stuðst hefur verið við áætlaða hækkun vísitölu launa við ákvörðun tímagjalds undanfarin þrjú ár (2016–2018). Sú áætlun hefur staðist vel, þróun tímagjaldsins og launavísitölunnar er nokkurn veginn samstíga þessi ár (um 26–27%). Kjarasamningar eru gerðir á ýmsum tímum árs og því ekki unnt að fylgja þeim strangt eftir, nauðsynlegt er að ákvarða tímagjaldið í fjárhagsáætlun fyrir hvert ár svo að uppfyllt séu sem best ákvæði sveitarstjórnarlaga um að útgjöld séu fyrirséð.
    Fyrstu ár NPA-samninganna þótti rétt að styðjast við viðmið verkefnisstjórnar um NPA (tímagjald 2.800 kr.) í ljósi þess að það viðmið var í raun tilraunakennt og ekki byggt á reynslutölum og með hliðsjón af því að um tilraunaverkefni var að ræða.

Hafnarfjarðarbær:
    Greiddar eru 3.650 kr. á tímann. Greiðslur voru hækkaðar um 3% milli áranna 2017 og 2018. Svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar er nei, það er ekki tryggt, 3% hækkunin er hugsuð til að mæta launahækkunum.

Akureyrarbær:
    Hækkun tímagjalds hefur ekki verið bundin vísitölu. Ákvörðun um hækkun hefur verið tekin árlega við endurnýjun samninga, yfirleitt í desember fyrir komandi ár. Hækkunin hefur tekið mið af áætlaðri hækkun launa starfsmanna sveitarfélagsins í sambærilegum störfum hverju sinni. Verið er að skoða hvort tilefni sé til að hækka tímagjaldið frá því sem ákveðið var um áramót vegna seinni hluta ársins 2018.
    Viðmiðunartímagjald er ákvörðun hvers sveitarfélags fyrir sig og hefur ekki verið samræmt með formlegum hætti. Tímagjald á Akureyri virðist þannig hafa hækkað minna en á öðrum þjónustusvæðum.
    Hér er yfirlit yfir hækkun tímagjaldsins á Akureyri frá árinu 2013 og hækkun samkvæmt launavísitölu til samanburðar:

2013 2014 2015 2016 2017 2018
Hækkun frá fyrra ári 4% 4% 2,50% 4,90% 3,50%
Tímagjald 2.800 2.898 3.014 3.090 3.241 3.355
Launavísitala 439,2 468,5 498,1 545,0 592,4 635,6
Hækkun launavísitölu frá fyrra ári 7% 6% 9% 9% 7%
Hækkun skv. launavísitölu til samanb. 2.987 3.176 3.474 3.777 4.052

Reykjavíkurborg:
    Upphaflega var verðlagsuppfærsla NPA-samninga í samræmi við breytingar á útgefinni jafnaðarstund verkefnisstjórnar velferðarráðuneytisins. Frá árinu 2014 hefur einingarverð NPA-samninga verið tengt kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Þar fylgir einingarverð sömu breytingum og skilgreindur launaflokkur í þeim kjarasamningi og breytingar taka gildi á sama tíma og launatöflur breytast í kjarasamningnum.

    Með vísan til framangreinds hafa verðlagsuppfærslur þeirra sveitarfélaga sem leitað var til með upplýsingar verið með þeim hætti að Mosfellsbær hefur áætlað hækkun vísitölu launa við ákvörðun tímagjalds undanfarin þrjú ár (2016–2018), Hafnarfjarðarbær hefur greitt 3.650 kr. á tímann og hækkaði greiðslur milli áranna 2017 og 2018 um 3%, Akureyrarbær hækkaði ekki tímagreiðslur á milli áranna 2013 og 2018 í samræmi við launavísitölu (sjá töflu) og Reykjavíkurborg hefur skilgreint einingarverð fyrir hverja vinnustund frá 2014 sem hefur verið tengt gildandi kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.