Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1169  —  554. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.


     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
    Í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks og þingsályktun nr. 16/146, um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, er stöðugt leitast við að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði þess. Aðstæður á hverjum stað hafa þó áhrif á þau úrræði sem tiltæk eru í hverju tilviki.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Húsnæði.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er til húsa að Skúlagötu 4 í Reykjavík. Líkt og margar opinberar byggingar var húsnæði ráðuneytisins byggt áður en gerð var almenn krafa um aðgengi fatlaðs fólks. Skrifstofur ráðuneytisins eru á 2., 5. og 6. hæð. Aðgengi fyrir fatlaða er erfitt bæði inn í húsið og innan þess vegna staðsetningar og gerðar tveggja lyfta sem eru í húsinu og þá mætti dyrabúnaður aðalinngangs vera hentugri. Þrátt fyrir að aðgengið sé flokkað sem erfitt komast einstaklingar í hjólastól inn í húsið og með lyftu upp á fimmtu hæð en þar er sjálfvirkur opnunarbúnaður eins og á aðalinngangi. Blindraletur vantar í lyftur. Haustið 2019 er gert ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun flytji af Skúlagötu 4 í nýtt húsnæði, í framhaldinu verður farið í breytingar á húsnæðinu fyrir önnur ráðuneyti sem ætlunin er að verði í húsnæðinu í framtíðinni. Hönnunarvinna er ekki farin af stað en gert er ráð fyrir því að aðgengi fyrir fatlaða verði bætt bæði hvað inngang og lyftur varðar.

Upplýsingar og gögn.
    Vefur Stjórnarráðsins, stjornarradid.is, sem er sameiginlegur vefur allra ráðuneyta, upp­fyllir aðgengisstefnu um opinbera vefi sem samþykkt var í ríkisstjórn í maí árið 2012. Í aðgengisstefnunni felst að aðgengi er tryggt, m.a. fyrir blinda, sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki. Vefur Stjórnarráðsins er þannig búinn að notendur geta séð eða heyrt efni og aðskilið forgrunn frá bakgrunni. Einstaklingum er kleift, með einföldum hætti, að hlusta á texta að hluta eða í heild með því að merkja það textabrot sem hlusta skal á. Stillingar á síðunni veita jafnframt þann möguleika að breyta leturgerð, leturstærð og lit á texta, auk þess sem hægt er að fá upplýsingar á táknmáli. Þessi stillingaratriði og útfærsla á vefsíðunni er í samræmi við framangreinda aðgengisstefnu um opinbera vefi og lið A.4 í II. hluta áðurnefndrar þingsályktunar nr. 16/146 þar sem markmiðið er að fatlað fólk geti nálgast upplýsingar um rétt sinn og þjónustu við sig.
    Í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að stjórnvaldi beri að veita aðila máls að stjórnsýslumáli leiðbeiningar, m.a. vegna aðgangs að upplýsingum og gögnum í viðkomandi máli. Þá er í 2. mgr. 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, kveðið á um að starfsmanni sé skylt að veita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar þeim sem til hans leitar. Slík framkvæmd innan stjórnsýslunnar stuðlar enn fremur að fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að upplýsingum og gögnum í samræmi við markmið stefnu og framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 og í samræmi við aðrar jafnræðisreglur.

Fiskistofa.
Húsnæði.
    Fiskistofa er með starfsstöðvar á sex stöðum á landinu. Hún er til húsa að Borgum við Norðurslóð á Akureyri og Dalshrauni 1 í Hafnarfirði. Þar að auki eru fjórar minni starfsstöðvar Í Vestmannaeyjum og á Ísafirði eru tveir starfsmenn í hvorri starfsstöð, eftirlitsmaður og skrifstofumaður. Í Stykkishólmi og á Hornafirði eru fjórir starfsmenn í hvorri starfsstöð, allt veiðieftirlitsmenn. Óhindrað aðgengi er frá sérmerktum bílastæðum og inn í stofnunina á Akureyri og í Hafnarfirði. Sjálfvirkir hurðaopnarar eru í húsnæði en á báðum stöðum þarf að taka á móti fötluðum og fylgja um stofnunina sjálfa.

Upplýsingar og gögn.
    Vefur Fiskistofu uppfyllir kröfur aðgengisstefnu sem samþykkt var í ríkisstjórn í maí 2012. Umsjón með vefnum er í Eplica-kerfi frá Hugsmiðjunni sem er kerfi sem tekur markvisst á aðgengismálunum og er það yfirfarið reglulega að aðgengismál séu í lagi.

Matvælastofnun.
Húsnæði.
    Matvælastofnun er með höfuðstöðvar að Austurvegi 64 á Selfossi. Svör um húsnæði miðast við það. Óhindrað aðgengi er frá sérmerktum bílastæðum og inn í stofnunina. Sjálfvirkir hurðaopnarar eru í húsnæði en á báðum stöðum þarf að taka á móti fötluðum og fylgja um stofnunina sjálfa.

Upplýsingar og gögn.
    Núverandi vefur Matvælastofnunar var hannaður 2011–2012 og settur í loftið sumarið 2012. Hönnunin átti sér stað fyrir útgáfu aðgengisstefnunnar. Núverandi vefur uppfyllir ekki aðgengiskröfur nema að hluta. Til stendur að taka nýjan vef í notkun fyrri hluta ársins 2019 þar sem stofnuninni gefst kostur á að uppfylla aðgengisstefnuna að fullu. Efni á vef Matvælastofnunar er einnig miðlað út á við í gegnum tvær Facebook-síður stofnunarinnar og tölvupóstlista.

Hafrannsóknastofnun.
Húsnæði.
    Hafrannsóknastofnun er til húsa að Skúlagötu 4 og á svar ráðuneytisins við um húsnæði stofnunarinnar.

Upplýsingar og gögn.
    Ekki bárust upplýsingar um þennan lið frá Hafrannsóknastofnun.

     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?
    Í fyrrnefndri þingsályktun nr. 16/146, um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, birtist almenn stefna í málaflokkum sem ráðuneytinu og stofnunum þess ber að virða og hafa hliðsjón af við alla ákvörðunartöku er varðað getur aðgengismál fatlaðs fólks. Mikið hefur áunnist á undanförnum árum í að bæta aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu ríkisins og áfram verður unnið, í samræmi við skýra stefnu stjórnvalda um að gera betur, innan ráðuneytis og stofnana að því að aðgengi að byggingum, gögnum og upplýsingum verði ávallt sem best. Sem fyrr greinir er vinna hafin við að bæta aðgengi að Skúlagötu 4 þar sem ráðuneytið hefur aðsetur.