Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1184  —  394. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Petru Baumruk og Rósu Guðrúnu Erlingsdóttur frá velferðarráðuneyti, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá BSRB, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Daníel E. Arnarsson frá Samtökunum '78, Magnús Má Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Nichole Leigh Mosty og Angelique Kelley frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Gunnar Narfa Gunnarsson og Guðríði Láru Þrastardóttur frá Rauða krossinum á Íslandi, Árna Múla Jónasson og Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Erlu S. Árnadóttur frá kærunefnd jafnréttismála, Valgerði Stefánsdóttur frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur frá Félagi heyrnarlausra, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Ölmu Ýri Ingólfsdóttur og Þórdísi Viborg frá Öryrkjabandalagi Íslands, Rannveigu Traustadóttur frá rannsóknasetri í fötlunarfræðum, Telmu Halldórsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jónu Jakobsdóttur, Sólveigu B. Gunnarsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Fannar Kolbeinsson og Hugrúnu Hjaltadóttur frá Jafnréttisstofu, Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá Landssambandi eldri borgara og Helgu Ingólfsdóttur frá VR, Einar Þór Jónsson frá HIV-Íslandi, Hrannar Jónsson og Svein Rúnar Hauksson frá Geðhjálp og Logn Magnúsdóttur og Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur frá Trans Íslandi. Nefndinni bárust erindi um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Félagi heyrnarlausra, Jafnréttisstofu, Jónu Jakobsdóttur, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Samtökunum '78 og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Málið var áður lagt fram á 146. löggjafarþingi (435. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt efnislega óbreytt að mestu. Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um jafna meðferð á vinnumarkaði taki gildi. Skv. 1.–2. gr. frumvarpsins taka lögin til jafnrar meðferðar einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu og hafa að markmiði að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þessum þáttum.
    Meginefni frumvarpsins lýtur að banni við mismunun í starfi og við ráðningu og í tengslum við laun og önnur kjör, að ráðstöfunum sem atvinnurekendur skulu gera vegna einstaklinga sem búa við fötlun eða skerta starfsgetu, að því að meðalhófs sé gætt þegar málefnaleg rök eru fyrir mismunandi meðferð einstaklinga vegna aldurs, að sérstakri vernd starfsmanna sem kvarta undan mismunun í starfi og að málsmeðferðarreglum um sönnunarbyrði. Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og Jafnréttisstofa annast framkvæmd þeirra. Brot gegn ákvæðum laganna eru kæranleg til kærunefndar jafnréttismála.
    Með frumvarpinu er leitast við að lögfesta helstu efnisþætti tilskipunar ráðsins 2000/78/EB, um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi, þrátt fyrir að slík lögfesting sé ekki skylda samkvæmt EES-samningnum líkt og getið er um í umsögn Alþýðusambands Íslands til nefndarinnar um málið. Í þeim erindum sem nefndinni hafa borist, og í máli gesta sem komu á fund nefndarinnar til að fjalla um frumvarpið, komu fram gagnlegar ábendingar og athugasemdir við ýmsa þætti frumvarpsins en almennt var framlagningu þess fagnað og áhersla lögð á að það yrði að lögum.

Samræmi við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og samráð við hagsmunasamtök.
    Öryrkjabandalag Íslands og fleiri aðilar, svo sem Landssamtökin Þroskahjálp, gagnrýndu að ekki hefði ríkara tillit verið tekið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við gerð frumvarpsins og að ekki hefði farið fram nánara samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Nefndin telur þetta réttmæta ábendingu enda hafi íslensk stjórnvöld fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kveðið er á um samráð við undirbúning löggjafar. Nefndin hvetur til þess að ríkulegt samráð verði haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks þegar unnið er með löggjöf sem varðar hagsmuni þess.

Skilgreiningar og hugtakanotkun.
    Í 3. gr. frumvarpsins er að finna orðskýringar ýmissa hugtaka sem skipta máli fyrir lögin, þar á meðal skýringu á hugtakinu fötlun. Orðskýring þess hugtaks er óbreytt frá því að frumvarpið var lagt fram á 146. löggjafarþingi. Í umsögnum sem nefndinni bárust sem og við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram gagnrýni á að notast væri við úrelta skilgreiningu á fötlun sem m.a. væri úr takti við nýjustu dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og nýsamþykkt lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Nefndin tekur undir þessa gagnrýni og leggur til breytta skilgreiningu til samræmis við lög nr. 38/2018.
    Í sömu grein er að finna skilgreiningu á hugtakinu lífsskoðun þar sem segir að það merki skoðun sem byggist á veraldlegum viðhorfum til lífsins. Í umsögn Siðmenntar um sambærilegt frumvarp frá 146. þingi (435. mál) er fjallað um að lífsskoðun geti hvort heldur sem er verið veraldleg eða trúarleg. Nefndin tekur undir ábendingu Siðmenntar um að lífsskoðanir geti verið hvort heldur sem er trúarlegar eða veraldlegar og lítur á skilgreiningu hugtaksins í frumvarpinu sem skilgreiningu á veraldlegri lífsskoðun enda sé það í samræmi við þann tilgang hennar í frumvarpinu að greina þess háttar lífsskoðun frá trúarlegum skoðunum.
    Í 10. gr. frumvarpsins, sem hefur fyrirsögnina Ráðstafanir atvinnurekenda vegna fatlaðra einstaklinga eða einstaklinga með skerta starfsgetu, segir að atvinnurekandi skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að gera fötluðum einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann. Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands er bent á að fyrirsögnin sé þýðing á því sem í tilskipuninni kallast reasonable accommodation og að nærtækara væri að notast við þýðinguna viðeigandi aðlögun, sbr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nefndin telur mikilvægt að tengja greinina betur við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og leggur til að fyrirsögn 10. gr. verði Viðeigandi aðlögun.

Aðkoma Jafnréttisstofu og dagsektir.
    Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins fer Jafnréttisstofa með framkvæmd laganna og er þess getið að ákvæði 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, nr. 10/2008, skuli gilda eftir því sem við getur átt. Í nefndinni hefur verið rætt um mikilvægi þess að Jafnréttisstofa hafi heimild til að leggja á dagsektir verði fyrirtæki eða stofnanir uppvísar að alvarlegum brotum gegn lögunum og láti ekki af háttsemi sem brýtur í bága við lögin þrátt fyrir tilmæli um það. Í umsögn Jafnréttisstofu um málið er bent á að nauðsynlegt sé að skýrt verði kveðið á um slíka heimild í lögunum þar sem um íþyngjandi ákvörðun stjórnvalds sé að ræða. Leggur nefndin því til að í 5. gr. verði sérstaklega tekið fram að vísunin til 4. gr. laga nr. 10/2008 nái til þeirra ákvæða greinarinnar sem lúta að heimild stofnunarinnar til að leggja á dagsektir. Í umsögn Jafnréttisstofu er enn fremur bent á að skv. 4. gr. laga nr. 10/2008 beri fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum að veita Jafnréttisstofu hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi stofunnar, og þar er jafnframt spurt hvort heimildir hennar samkvæmt greininni nái til ákvæðis 7. gr. frumvarpsins, sem hér er til umfjöllunar, um að atvinnurekendur, stéttarfélög og samtök þeirra skuli vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði í samræmi við markmið laganna. Í 5. gr. frumvarpsins er sem fyrr segir kveðið á um að 4. gr. laga nr. 10/2008 gildi eftir því sem við getur átt og telur nefndin ekki tilefni til að 7. gr. frumvarpsins verði undanþegin heimildum Jafnréttisstofu samkvæmt þeirri grein.
    Í kafla um mat á áhrifum frumvarpsins í greinargerð þess segir að með útgjaldaramma Jafnréttisstofu hafi verið gert ráð fyrir kostnaði sem leiðir af lögfestingu frumvarpsins. Nefndin leggur áherslu á að útgjöld til stofnunarinnar sæti ítarlegri skoðun þegar reynsla verður komin á framkvæmd laganna.

Kæruheimild 6. gr.
    Í 6. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa þeim sem telja á sér brotið samkvæmt lögunum til að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála, sem starfar á grundvelli laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og skulu 5.–7. gr. þeirra laga eiga við um meðferð slíkra mála eftir því sem við getur átt. Nefndinni hafa borist nokkrar ábendingar um þetta fyrirkomulag. Hefur verið bent á að fyrirsjáanleg fjölgun mála fyrir kærunefndinni við gildistöku laganna kalli á eflingu hennar. Nefndin telur rétt að huga að þessu atriði.
    Auk þessa hefur verið bent á að ný mál fyrir kærunefndinni á grundvelli þessa frumvarps verði að líkindum eðlisólík þeim málum sem hún fæst jafnan við. Það kalli á breyttar áherslur varðandi kröfur um þekkingu þeirra sem kærunefndina skipa en samkvæmt núgildandi lögum skulu allir þrír fulltrúar kærunefndarinnar vera lögfræðingar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Nefndin leggur áherslu á að kærunefndin nýti þá heimild sem henni er veitt í 1. mgr. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla til að kalla sér til ráðgjafar sérfróða aðila eftir gildistöku þessa frumvarps sem og frumvarps til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (393. mál). Þegar reynsla verður komin á framkvæmd laganna leggur nefndin til að kannað verði hvort tilefni sé til að fjölga nefndarmönnum eða gera breytingar á skipan nefndarinnar að öðru leyti. Hefur nefndinni til að mynda verið bent á ólíkt fyrirkomulag í öðrum úrskurðarnefndum á stjórnsýslustigi, svo sem áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, þar sem aðeins einn nefndarmaður er fastskipaður og skipað er sérstaklega í nefndina í hverju máli um sig. Þannig gefist kostur á að skipa þá sem búa yfir þeirri þekkingu og menntun sem best hentar úrlausnarefninu hverju sinni.
    Þá hefur nefndinni verið bent á að kærunefndin verði að geta fjallað um mál sem varða fjölþætta mismunun, en verði þetta frumvarp og frumvarpið í 394. máli að lögum mun kærunefndin taka við erindum sem varða brot á þremur lagabálkum. Gera verður ráð fyrir að tilvik geti komið upp þar sem mál varðar brot á ákvæðum tvennra laga, ef ekki allra þrennra. Verður því að tryggja að kærunefndin hafi heimild til að styðjast við fleiri en ein lög í sama málinu. Þegar slíkt er uppi á teningnum er sérstaklega mikilvægt að nefndin nýti sér heimildina til að kalla sér til ráðgjafar sérfróða aðila með þekkingu á fjölþættri mismunun. Þá leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að úrskurðir kærunefndar verði áfram ópersónugreinanlegir líkt og verið hefur.

Gildistaka.
    Auk framanritaðs leggur nefndin til að gildistaka laganna miðist við 1. september 2018 í stað 1. júlí 2018.

    Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      8. tölul. 3. gr. orðist svo: Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.
     2.      Við efnismgr. 5. gr. bætist: þar með talið ákvæði 5.–11. mgr. um dagsektir.
     3.      Fyrirsögn 10. gr. orðist svo: Viðeigandi aðlögun.
     4.      Í stað orðanna „auk þess sem þær“ í 1. mgr. 11. gr. komi: og.
     5.      Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2018“ í 19. gr. komi: 1. september 2018.

    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Jón Steindór Valdimarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 8. júní 2018.

Páll Magnússon,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir, frsm. Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Andri Thorsson. Jón Steindór Valdimarsson.
Teitur Björn Einarsson. Willum Þór Þórsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.