Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1207  —  565. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum (sýndarfé og stafræn veski).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið að nýju eftir 2. umræðu og fékk sent minnisblað frá dómsmálaráðuneyti þar sem fram kemur afstaða þess til breytingartillögu á þingskjali 1156, þar sem lagðar eru til breytingar á 2. gr. frumvarpsins sem varðar orðskýringar, sem og á gildistöku frumvarpsins. Í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 8. júní 2018, er vísað til sjónarmiða í öðru minnisblaði sem ráðuneytið sendi nefndinni á fyrri stigum og er dags. 30. maí 2018. Þar var brugðist við athugasemdum í umsögn Rafmyntaráðs um málið sem eru efnislega samhljóma fyrrgreindri breytingartillögu. Í minnisblaðinu segir að skoða þurfi skilgreiningar frumvarpsins í samræmi við 1. gr. þess, sem feli í sér að eingöngu þjónustuveitendur sýndarfjár falli undir gildissvið laganna. Því sé engin hætta á því að aðrir en þeir sem hafi þessi tengsl við sýndarfé falli undir gildissvið laganna. Þá er vísað til þess að í skilgreiningum frumvarpsins sé minnst á stafrænt fé og að í hugtakinu fé felist tilvísun til peningalegra verðmæta.
    Í minnisblaðinu frá 8. júní segir að ráðuneytið telji óheppilegt að víkja frá þeim skilgreiningum sem horft var til við gerð frumvarpsins og að bendir á að í athugasemdum um 2. gr. í greinargerð frumvarpsins er að finna upptalningu í dæmaskyni á starfsemi sem fellur utan gildissviðs frumvarpsins. Í minnisblaðinu segir að eftirfarandi þurfi að hafa í huga við afmörkun á gildissviði:
          Tilvísun í fé í skilgreiningu á sýndarfé leiðir til þess að þjónustusamningar, vottunarkerfi og önnur sambærileg stafræn auðkenni falla utan skilgreiningarinnar.
          Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla falla undir gildissvið frumvarpsins. Vildarpunktar eða annars konar viðskiptavild sem almennt er hluti af tryggðarkerfi fyrirtækja fellur utan gildissviðs frumvarpsins.
          Þjónustuveitendur sem bjóða upp á vörsluþjónustu á auðkennum sýndarfjár (e. private key), sem notuð eru til að halda utan um, geyma og flytja sýndarfé falla undir gildissvið frumvarpsins. Þjónustuveitendur sem bjóða upp á vörslu á annars konar auðkennum falla þar með utan gildissviðs frumvarpsins. Sama á við um aðila sem leggja fram hug- eða vélbúnað ef þeir bjóða ekki jafnframt upp á vörslur á auðkennum sýndarfjár.
    
    Meiri hluti nefndarinnar tekur undir sjónarmið ráðuneytisins og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
         Þorsteinn Sæmundsson skrifar undir álitið með fyrirvara um að stafrænt veski sé ekki skilgreint í lögunum.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 8. júní 2018.


Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson, frsm. Þorsteinn Víglundsson.
Birgir Ármannsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Þorsteinn Sæmundsson, með fyrirvara. Ásgerður K. Gylfadóttir.