Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1294, 148. löggjafarþing 485. mál: Ferðamálastofa.
Lög nr. 96 26. júní 2018.

Lög um Ferðamálastofu.


I. KAFLI
Stjórnsýsla.

1. gr.

     Ferðamálastofa er ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra.
     Stofnunin fer með stjórnsýslu ferðamála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir.
     Ráðherra skipar ferðamálastjóra til fimm ára í senn og veitir hann Ferðamálastofu forstöðu. Ferðamálastjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.

2. gr.

     Ferðamálastofa skal með starfsemi sinni fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi að teknu tilliti til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags ásamt því að vinna að samræmingu, greiningum og rannsóknum í ferðaþjónustu með hliðsjón af stefnu stjórnvalda.

3. gr.

     Verkefni Ferðamálastofu eru einkum:
  1. Útgáfa leyfa.
  2. Eftirlit með leyfisskyldri starfsemi, þar á meðal öryggisáætlunum.
  3. Framkvæmd ferðamálastefnu, áætlanagerð og stuðningur við svæðisbundna þróun.
  4. Öflun, miðlun og úrvinnsla upplýsinga, þar á meðal tölfræðilegra gagna og annarra upplýsinga um viðfangsefni stofnunarinnar.
  5. Greining á þörf fyrir rannsóknir sem m.a. nýtast við stefnumótun stjórnvalda, í samvinnu við atvinnugreinina og rannsóknastofnanir á sviði ferðaþjónustu.
  6. Öryggismál, gæðamál og neytendavernd í ferðaþjónustu.
  7. Varsla og umsýsla Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
  8. Umsjón með starfsemi ferðamálaráðs.
  9. Umsjón og eftirlit með tryggingaútreikningi og tryggingarskyldu seljenda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og reglum um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa.

     Ferðamálastofu er heimilt með þjónustusamningi að fela öðrum að annast ákveðin verkefni sem undir stofnunina heyra og vera aðili að samstarfsverkefnum.
     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni Ferðamálastofu.

4. gr.

     Ráðherra skipar ferðamálaráð. Í ferðamálaráði skulu eiga sæti níu fulltrúar og leggur Ferðamálastofa ráðinu til starfsmann.
     Ráðherra ferðamála skal skipa formann og varaformann án tilnefningar. Þá skulu eiga sæti í ráðinu fulltrúi ráðherra sem fer með fjármál og tekjuöflun ríkisins, fulltrúi ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar og skipulags og fulltrúi ráðherra sem fer með málefni samgangna og byggða- og sveitarstjórnarmála. Aðra fulltrúa skipar ráðherra eftir tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar sem tilnefna tvo fulltrúa og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tilnefnir tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera fulltrúi markaðsstofa landshlutanna.
     Skipunartími ferðamálaráðs er fjögur ár en skipunartími formanns, varaformanns og ráðherraskipaðra fulltrúa skal þó takmarkaður við embættistíma viðkomandi ráðherra.
     Ferðamálaráð skal funda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári.
     Ferðamálaráði er heimilt að starfrækja fagráð og leggja þeim til verkefni.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um starfsemi ferðamálaráðs, þ.m.t. um stofnun og starf fagráða.
     Ferðamálastjóri og fulltrúi ráðuneytisins sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.

5. gr.

     Ferðamálaráð er ráðherra til ráðgjafar um langtímastefnumótun og áætlanagerð í ferðamálum. Ferðamálaráð skal hafa yfirsýn yfir fjölþætt eðli ferðaþjónustunnar og vinna að samræmingu milli greinarinnar og stjórnvalda svo ná megi skilgreindum markmiðum langtímastefnumótunar um framtíðarþróun ferðaþjónustunnar.

II. KAFLI
Orðskýringar.

6. gr.

     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Ferðasali dagsferða er aðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram eða selur í atvinnuskyni til almennings skipulagðar ferðir sem falla ekki undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
  2. Ferðaskrifstofa er aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, sem setur saman, býður fram, selur pakkaferðir eða hefur milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar í atvinnuskyni, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, innan lands eða erlendis.
  3.      Hugtakið ferðaskrifstofa tekur til seljenda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, þ.e. til skipuleggjenda, smásala og seljenda sem hafa milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar eins og þessir aðilar eru skilgreindir í þeim lögum.
         Ferðaskrifstofa getur jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðasali dagsferða gerir, hvort sem hún er veitt í formi pakkaferða eða ekki.
  4. Skipulögð ferð er þjónusta eða afþreying sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða setur saman, býður fram eða selur almenningi í atvinnuskyni, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar.
  5. Leyfisskyld starfsemi er öll starfsemi og þjónusta ferðasala dagsferða og ferðaskrifstofa sem fellur undir skilgreiningu laga þessara, hvort sem starfsemin er innt af hendi af einstaklingi, fyrirtæki eða félagi.
  6. Öryggisáætlun er skrifleg áætlun sem samanstendur af áhættumati, verklagsreglum, atvikaskýrslu og viðbragðsáætlun.
  7. Upplýsingamiðstöð er aðili sem stundar hlutlausa upplýsingagjöf til almennings.


III. KAFLI
Leyfisskylda.

7. gr.

     Hver sá sem hyggst starfa sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða skal hafa til þess leyfi Ferðamálastofu. Útgefið leyfi er ótímabundið.
     Leyfishafi sem fellur undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun er tryggingarskyldur í samræmi við VII. kafla þeirra laga.
     Leyfishafi skal í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á vef sínum nota myndrænt númerað auðkenni sem Ferðamálastofa útvegar. Ferðamálastofu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði þessu í sérstökum tilfellum að fenginni umsókn leyfishafa.
     Starfsemi leyfishafa skal rekin á fastri starfsstöð sem opin er almenningi. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði ef þjónustan er einungis starfrækt á rafrænan hátt og skal leyfishafi þá uppfylla skilyrði 6. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, um það sem koma skal fram á vef hans.
     Leyfishafa er heimilt að reka útibú á grundvelli leyfisins og skal forsvarsmaður útibús fullnægja sömu skilyrðum laga þessara og leyfishafi.
     Ferðamálastofa skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti, svo sem á vef sínum. Jafnframt skal auglýsa brottfallin leyfi á vefnum.
     Ferðamálastofa ákveður hvaða íslensk ferðafélög eru undanþegin ákvæðum laga þessara að því er lýtur að ferðum innan lands.

8. gr.

     Sækja skal um leyfi til reksturs leyfisskyldrar starfsemi samkvæmt lögum þessum til Ferðamálastofu a.m.k. tveimur mánuðum áður en fyrirhuguð starfsemi skal hefjast.
     Skilyrði leyfis er að umsækjandi eða forsvarsmaður hans, ef um lögaðila er að ræða, uppfylli eftirfarandi skilyrði:
  1. hafi búsetu innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum,
  2. sé lögráða, hafi forræði á búi sínu og hafi ekki á síðustu fjórum árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt lögum þessum, almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða staðgreiðslu opinberra gjalda,
  3. hafi skráð starfsemi sína hjá ríkisskattstjóra,
  4. leggi fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu.

     Ferðamálastofu er heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu sem nauðsynleg eru til að taka afstöðu til umsóknar.
     Falli leyfishafi undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem skipuleggjandi, seljandi sem hefur milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar eða smásali skal leyfishafi leggja fram staðfestingu á tryggingu sem í gildi er áður en starfsleyfi er veitt.
     Í umsókn um leyfi skal koma fram heiti leyfishafa og skal getið um öll hjáheiti sem aðili hyggst nota í starfsemi sinni. Óheimilt er að reka starfsemina undir öðrum heitum en þeim sem fram koma í leyfinu.
     Heimilt er að bæta hjáheitum við þegar fengið leyfi með sérstakri umsókn leyfishafa til Ferðamálastofu sem þá skal gefa út nýtt leyfisbréf, án gjalds.
     Erlend ferðaskrifstofa eða erlendur ferðasali dagsferða sem hyggst opna starfsstöð á Íslandi skal sækja um leyfi.
     Leyfishafa er heimilt að óska niðurfellingar leyfis hjá Ferðamálastofu. Óheimilt er þó að segja upp tryggingu samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun fyrr en að fenginni staðfestingu Ferðamálastofu á niðurfellingu.

9. gr.

     Hver sá sem hyggst starfrækja upplýsingamiðstöð skal senda skriflega tilkynningu þess efnis til Ferðamálastofu. Ferðamálastofa skal halda skrá yfir upplýsingamiðstöðvar og birta hana á aðgengilegan hátt, svo sem á vef sínum.
     Upplýsingamiðstöðvar hafa heimild til að nota myndrænt auðkenni Ferðamálastofu.
     Upplýsingamiðstöðvar sem njóta opinbers fjárstuðnings skulu halda þeim þætti starfseminnar fjárhagslega aðskildum frá öðrum þáttum starfseminnar. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um bókhald og fjárhagslegan aðskilnað þjónustu sem nýtur opinbers fjárstuðnings og annars reksturs.
     Í tilkynningu til Ferðamálastofu um starfrækslu upplýsingamiðstöðvar skal koma fram eftirfarandi eftir því sem við á:
  1. Nafn starfseminnar, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  2. Nafn og kennitala forráðamanns.
  3. Rekstrarfyrirkomulag.
  4. Ítarleg lýsing á starfsemi.
  5. Hvort og þá hvaða opinberra styrkja starfsemin nýtur.
  6. Opnunartími starfsstöðvar.

     Ferðamálastofu er heimilt að fella upplýsingamiðstöð af skrá ef starfsemi hefur verið hætt eða starfsemi er útvíkkuð þannig að hún falli undir skilgreiningu á ferðasala dagsferða eða ferðaskrifstofu. Ferðamálastofa úrskurðar ef ágreiningur rís um til hvaða flokks starfsemi heyrir.

10. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um umsóknir um leyfi, framkvæmd leyfisveitinga og eftirlit með leyfishöfum, þar á meðal um flokkun leyfa.

IV. KAFLI
Öryggisáætlanir og rannsóknir.

11. gr.

     Hver sá sem hyggst framkvæma skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis ber ábyrgð á því að útbúa skriflega öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar, óháð því hvort viðkomandi selur ferðina beint til ferðamanns eða með milligöngu annars aðila. Öryggisáætlun skal ávallt vera til skrifleg á íslensku og ensku. Óheimilt er að bjóða til sölu, kynna eða miðla á nokkurn hátt slíkum ferðum ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir. Öryggisáætlun felur í sér áhættumat, verklagsreglur, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu.
     Áhættumat felur í sér mat á hugsanlegri áhættu tiltekinnar ferðar og skulu þátttakendur upplýstir á greinargóðan hátt um helstu áhættuþætti. Við skipulagningu ferðar skal áhættumat lagt til grundvallar við val á starfsmönnum, svo sem leiðsögumönnum, við tímasetningu ferðar, mat á ytri aðstæðum, val á tækjakosti o.s.frv.
     Verklagsreglur skulu taka mið af áhættumati ferðar. Í þeim skulu m.a. koma fram upplýsingar um þekkingu, reynslu og kunnáttu starfsmanna sem annast ferðina og hvernig skuli bregðast við ef vá ber að höndum, þ.m.t. um hvernig fjarskiptum skuli háttað.
     Viðbragðsáætlun skal taka mið af áhættumati og skal hún fela í sér lýsingu á viðbrögðum sem grípa skal til þegar hætta steðjar að eða slys verður.
     Atvikaskýrsla felur í sér upplýsingar um atvik, þá sem lentu í viðkomandi atviki og hvernig brugðist var við tilteknu atviki.
     Sá sem býður upp á skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis ber ábyrgð á að uppfæra öryggisáætlun sína reglulega og jafnskjótt og tilefni er til.
     Ferðamálastofa hefur eftirlit með því að öryggisáætlanir séu til staðar og séu uppfærðar eins og þörf er á. Ferðamálastofu er heimilt að kalla eftir öryggisáætlun. Ef öryggisáætlun reynist bersýnilega ófullnægjandi eða ekki hefur verið útbúin öryggisáætlun skal Ferðamálastofa veita aðila kost á að bæta úr innan hæfilegs frests sem skal að lágmarki vera 14 dagar. Ef aðili bætir ekki úr innan frestsins er Ferðamálastofu heimilt að leggja á dagsektir skv. 20. gr. þar til úr er bætt.
     Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um form og innihald öryggisáætlunar og um framkvæmd við yfirferð og eftirfylgni með öryggisáætlunum.

12. gr.

     Ferðamálastofa skal safna gögnum sem nýtast við ákvarðanatöku og markmiðasetningu í ferðaþjónustu og birta þau. Stofnunin skal jafnframt stuðla að rannsóknum og greina þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðamála og vinna rannsóknaráætlun í samstarfi við rannsóknastofnanir, háskóla og atvinnugreinina þar sem skilgreind er rannsóknarþörf og forgangsröðun verkefna.
     Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um söfnun og vinnslu upplýsinga og rannsóknir.

V. KAFLI
Eftirlit og niðurfelling leyfis.

13. gr.

     Ferðamálastofa getur krafið þá sem lög þessi taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við eftirlit með leyfisskyldum aðilum. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
     Ferðamálastofa getur óskað upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum í því skyni að rækja eftirlitshlutverk sitt, þar á meðal frá skattyfirvöldum.

14. gr.

     Leyfi samkvæmt lögum þessum skal fella úr gildi komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots leyfishafa eða forsvarsmanns leyfishafa eða ef hann er sviptur fjárræði. Einnig fellur leyfið úr gildi ef trygging sem seljanda er skylt að afla samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun fellur úr gildi eða fullnægir ekki ákvæðum laganna.
     Ferðamálastofa getur fellt úr gildi leyfi samkvæmt lögum þessum ef leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa uppfyllir ekki lengur skilyrði 2. mgr. 8. gr., ef öryggisáætlun skv. 11. gr. er ófullnægjandi eða hann brýtur á annan hátt gegn ákvæðum þessara laga.
     Ferðamálastofu er heimilt að fella leyfi niður ef seljandi uppfyllir ekki skilyrði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun um skil ársreikninga og annarra gagna sem eru nauðsynleg við mat á fjárhæð tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar eða ef seljandi sinnir ekki ákvörðun Ferðamálastofu um hækkun tryggingarfjárhæðar innan mánaðar frá því að ákvörðun um hækkun er tilkynnt, sbr. ákvæði þar um í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

15. gr.

     Áður en leyfi er fellt úr gildi skv. 2. og 3. mgr. 14. gr. skal Ferðamálastofa senda leyfishafa viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar og skal leyfishafa gefinn frestur í a.m.k. 14 daga til að bæta úr annmörkum.
     Ef til niðurfellingar skv. 2. og 3. mgr. 14. gr. kemur skal Ferðamálastofa tilkynna leyfishafa skriflega um niðurfellinguna og frá hvaða tíma leyfi telst niður fallið.
     Ferðamálastofa skal auglýsa með tryggilegum hætti brottfall leyfis bæði í Lögbirtingablaði og á vef sínum. Jafnframt getur Ferðamálastofa auglýst brottfall leyfis á annan hátt eins og heppilegt þykir hverju sinni.
     Niðurfelling leyfis skv. 2. og 3. mgr. 14. gr. jafngildir rekstrarstöðvun í skilningi laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og er þá heimilt að ganga að tryggingum viðkomandi rekstraraðila.

VI. KAFLI
Viðurlög og ýmis ákvæði.

16. gr.

     Öll þjónusta leyfishafa sem veitt er á rafrænan hátt skal vera í samræmi við lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

17. gr.

     Stjórnvaldsákvarðanir Ferðamálastofu eru kæranlegar til ráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

18. gr.

     Ferðamálastofa innheimtir þjónustugjöld fyrir útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum. Gjaldskrá skal staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
     Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað sem almennt hlýst af útgáfu leyfa.

19. gr.

     Hver sá sem rekur leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða ef starfsemi samkvæmt útgefnu leyfi er ekki í samræmi við leyfið skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     Ef leyfisskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er rekin án leyfis ber lögreglustjóra, að beiðni Ferðamálastofu, að stöðva starfsemina án fyrirvara eða aðvörunar, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun vefs, enda hafi ekki verið gefið út leyfi vegna leyfisskyldrar starfsemi, leyfi hafi verið fellt niður, það afturkallað eða leyfishafi sviptur því, eða leyfisskyld starfsemi farið út fyrir mörk útgefins leyfis.

20. gr.

     Ef ekki er farið að fyrirmælum Ferðamálastofu samkvæmt lögum þessum getur stofnunin ákveðið að sá eða þeir sem fyrirmælin beinast að greiði dagsektir þar til farið hefur verið að þeim. Ferðamálastofu er jafnframt heimilt að leggja dagsektir á aðila sem uppfyllir ekki kröfur laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem varða tryggingarskyldu og á þá sem stunda leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis, sbr. 19. gr.
     Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
     Ákvörðun um dagsektir má skjóta til ráðherra innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim sem hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn.
     Dagsektir eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti en kæra til ráðherra frestar aðför uns endanleg niðurstaða liggur fyrir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför.

VII. KAFLI
Gildistaka.

21. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. janúar 2019 og falla þá úr gildi lög um skipan ferðamála, nr. 73/2005, með síðari breytingum. Ákvæði 4. og 5. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2020.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Ferðaskipuleggjandaleyfi og skráningar bókunarþjónustu samkvæmt lögum nr. 73/2005 sem í gildi eru við gildistöku laga þessara skulu halda gildi sínu til 1. mars 2019. Fyrir þann tíma skulu þeir aðilar sem hyggjast starfa áfram sækja um nýtt leyfi hjá Ferðamálastofu sem metur hvort starfsemi þeirra telst, eftir setningu laganna, falla undir hugtakið ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða. Ekki skal taka gjald fyrir nýtt leyfi til þessara aðila.

II.
     Þeir ferðaþjónustuaðilar sem skylt er að hafa öryggisáætlun skv. 11. gr. laga þessara skulu hafa sett slíkar áætlanir og tekið þær í notkun eigi síðar en 1. janúar 2019.

III.
     Fram til 1. janúar 2020 skal ferðamálaráð starfa í samræmi við ákvæði 5. og 6. gr. laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2018.