Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1299  —  575. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um vefjagigt.


     1.      Hver er fjöldi þeirra sem hafa verið greindir með vefjagigt og hvert er hlutfall kvenna í þeim hópi? Svar óskast sundurliðað eftir aldri einstaklinga.
    Algengi vefjagigtar er mismunandi eftir stöðum í heiminum. Talið er að vefjagigt hrjái 2–13% fólks á hverjum tíma. Í yfirlitsgrein frá 2006 (skoðun á 30 rannsóknargreinum) er algengið á bilinu 0,66–4,4%. Vefjagigt er algengari hjá konum en körlum, eða 3–4 konur á móti einum karli.
    Ekki eru til heildstæðar upplýsingar um fjölda einstaklinga sem greindir hafa verið með vefjagigt á Íslandi. Ekki er til miðlæg skrá um gigtarsjúkdóma sem gæti gefið slíka tölu. Í faraldursfræðilegri rannsókn sem gerð var á Landspítalanum 1998 og náði til Suðurnesja og Suðurlands reyndist algengi vefjagigtar vera 5,6% á meðal 18 ára einstaklinga og eldri. Samkvæmt þessari rannsókn má því áætla að fjöldi fullorðinna einstaklinga á Íslandi með vefjagigt sé um 13.700 manns (þ.e. 5,6% af 245.000 manns). Þetta áætlaða algengi vefjagigtar á Íslandi er talsvert hærra en búast hefði mátt við samkvæmt erlendum rannsóknum þar sem algengi vefjagigtar er oftast á bilinu 1–4% fullorðinna en það jafngildir um 2.500– 10.000 manns með vefjagigt á Íslandi.
    Vefjagigt er mun algengari á meðal kvenna en karla. Þannig voru konur 93% þeirra einstaklinga sem var vísað til Þrautar – miðstöðvar fyrir vefjagigt, en 7% voru karlar. Vefjagigt er yfirleitt langvinnur sjúkdómur sem ekki læknast og því fjölgar í hópi vefjagigtarsjúklinga með hækkandi aldri. Eftirfarandi tafla sýnir aldursdreifingu 469 einstaklinga sem var vísað til Þrautar – miðstöðvar fyrir vefjagigt:

Aldur Konur (n = 435) Karlar (n = 30) Allir
<30 16% 6,7% 15,5%
31–40 25,2% 30% 25,6%
41–50 29,7% 30% 29,7%
51–60 24,5% 26,7% 24,5%
60+ 4,5% 6,7% 4,7%
Samtals 93% 7%


     2.      Hvaða þjónusta og úrræði eru fyrir hendi fyrir þá sem hafa einkenni um vefjagigt og hvert er aðgengi þeirra að slíkum úrræðum? Er bið eftir þjónustunni og ef svo er, hve löng er biðin?
    Flestir einstaklingar með vefjagigt fá sjúkdómsgreininguna hjá heilsugæslulækni sínum en í mörgum tilfellum er leitað eftir frekari staðfestingu í gegnum tilvísun til gigtarsérfræðings. Langtímaeftirlit hefur lengst af verið sameiginlega í höndum heilsugæslunnar og gigtarsérfræðinga en hefur á undanförnum árum að mestu flust yfir til heilsugæslunnar.
    Einstaklingar með vægan sjúkdóm fá flestir þjónustu í gegnum heilsugæsluna en þeir sem hafa verri vefjagigt þurfa margir á fjölþættri endurhæfingu að halda með aðkomu fagteymis heilbrigðisstarfsmanna. Slík teymismeðferð er veitt á nokkrum meðferðarstofnunum hérlendis, einkum hjá Þraut, á Reykjalundi, hjá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands og á Kristnesspítala.
    Bið eftir viðtali í heilsugæslunni er almennt stutt, dagar eða vikur, en bið eftir tíma hjá gigtarlækni getur verið löng. Hreyfistjórar í heilsugæslunni gegna mikilvægu hlutverki í meðferð vefjagigtar og bið eftir meðferð hjá þeim er yfirleitt 1–3 vikur. Sjúkraþjálfarar á stofum gegna að sama skapi mikilvægu hlutverki í meðferðinni. Vefjagigtarsjúklingar, eins og aðrir með þráláta verki, glíma oft einnig við sálræn vandamál. Heilsugæslan hefur það hlutverk að fást við vandamál þar sem blandast saman líkamlegir, sálrænir og félagslegir þættir.
    Eftirfarandi upplýsingar um biðtíma og fjölda þeirra sem fengu endurhæfingu á árinu 2017 fengust með tölvupóstssamskiptum við yfirlækna stofnananna og byggjast tölur á ágiskun yfirlækna viðkomandi sviða:

Fjöldi á ári Meðalbiðtími
Þraut 110 30 mán.
Gigtarsvið Reykjalundar1 95 10 mán.
Verkjasvið Reykjalundar1 72 10 mán.
HNLFÍ2 72 3–6 mán.
Kristnesspítali3 35 8 mán.
1. Tölur byggjast á ágiskun yfirlækna viðkomandi sviða. Hjá mörgum þessara sjúklinga er vefjagigt aukagreining við lykilsjúkdóm, svo sem bakverki, liðagigt og rauða úlfa.
2. Á árinu 2017 voru að auki 128 einstaklingar með sjúkdómsgreiningar sem eru skyldar vefjagigt.
3. Fjöldatölur byggjast á ágiskun yfirlæknis endurhæfingardeildar Kristnesspítala.

     3.      Hver er árangur af meðferð við vefjagigt hér á landi?
    Engar ritrýndar niðurstöður hafa verið birtar um árangur af meðferð á vefjagigt á Íslandi. Þraut – miðstöð um vefjagigt hefur tekið saman upplýsingar um árangur endurhæfingar fyrir fjögurra ára tímabil, árin 2011–2015. Niðurstöðurnar voru annars vegar birtar í skýrslu Þrautar til Sjúkratrygginga Íslands árið 2014 og hins vegar í nýlokinni meistararitgerð Sigríðar Björnsdóttur í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöðurnar sýna þýðingarmikinn, marktækan bata eftir endurhæfingu hvað varðar heildarstöðu sjúklinganna, færni og lífsgæði. Niðurstöðurnar sýna einnig að verkir, þreyta, andleg líðan og streitueinkenni batna marktækt eftir endurhæfingu.
    Þegar metið er hvort bætt heilsa vefjagigtarsjúklinga geti haft afgerandi áhrif á færni þeirra og vinnuhorfur hefur tíðkast að skipta vefjagigtarhópnum upp í þrjú alvarleikastig eftir svokölluðu vefjagigtarskori:
     1.      væg vefjagigt (fyrsta stig, skor undir 40 stigum),
     2.      meðalslæm vefjagigt (annað stig, skor 40–60 stig),
     3.      slæm vefjagigt (þriðja stig, skor yfir 60 stigum).
    Skýr fylgni hefur verið milli vinnufærni og þess að vera með vefjagigt á þriðja stigi. Bandarísk rannsókn (Schaefer C, 2011) sem náði til 203 vefjagigtarsjúklinga sýndi eftirfarandi niðurstöður:


Vefjagigt
Væg (n = 21) Meðalslæm (n = 49) Slæm (n = 133)
Í launaðri vinnu 72% 61% 29%
Atvinnulaus 4,8% 2% 10%
Heimavinnandi 19% 10% 12%
Örorka 0 14% 36%
Eftirlaun 5% 6% 6%

     4.      Liggur fyrir mat á lífsgæðum einstaklinga með vefjagigt? Ef svo er, hvað sýnir slíkt mat?
    Slíkt mat liggur ekki fyrir á Íslandi. Erlendar rannsóknir hafa endurtekið sýnt að lífsgæði einstaklinga með vefjagigt eru oft mjög slök, eða talsvert fyrir neðan það sem almennt gerist í samfélaginu. Viðvarandi, daglegir stoðkerfisverkir, stirðleiki, hamlandi orkuleysi og slakur svefn leiða oft til skertrar færni, andlegrar vanlíðunar og verri lífsgæða.
    Samkvæmt mati hjá Þraut skora vefjagigtarsjúklingar að meðaltali 71 stig á QOLS-lífsgæðakvarða (e. Quality of Life Scale), sem samsvarar „slökum lífsgæðum“, en heilbrigðir einstaklingar skora um 90 stig, sem samsvarar „meðallífsgæðum“.

     5.      Hver er fjöldi þeirra sem greindir eru með vefjagigt og eru metnir óvinnufærir eða með örorku? Hve hátt er hlutfall kvenna í þeim hópi? Svar óskast sundurliðað eftir aldri einstaklinga.
    Í desember 2017 voru samkvæmt tölum Tryggingastofnunar ríkisins skráðir 1.738 einstaklingar með vefjagigt sem orsakaþátt í 75% örorku og á sama tíma voru 268 einstaklingar á endurhæfingarlífeyri með vefjagigt. Konur á 75% örorku sem höfðu vefjagigtargreiningu voru 91,7% tilvika. Vefjagigtargreining var talin meðvirkandi þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem voru á örorku. Örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast oft af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma.
    Neðangreind tafla frá Tryggingastofnun ríkisins sýnir hversu margir einstaklingar með vefjagigtargreiningu fengu greiðslur frá stofnuninni í desember 2017 vegna hærra eða lægra stigs örorku eða vegna endurhæfingarlífeyris:

Kyn og aldursbil 75% örorkumat Endurhæfingarlífeyrir Örorkustyrkur Samtals
KARLAR
25–29 ára 5 3 8
30–34 ára 8 3 11
35–39 ára 9 3 1 13
40–44 ára 15 1 16
45–49 ára 14 1 1 16
50–54 ára 17 1 18
55–59 ára 27 2 3 32
60–64 ára 40 1 1 42
65–66 ára 10 10
Karlar samtals 145 14 7 166
KONUR
18–19 ára 2 2
20–24 ára 9 16 25
25–29 ára 53 31 2 86
30–34 ára 98 38 6 142
35–39 ára 145 32 5 182
40–44 ára 165 36 11 212
45–49 ára 217 42 8 267
50–54 ára 262 22 16 300
55–59 ára 300 24 10 334
60–64 ára 254 9 6 269
65–66 ára 90 2 6 98
Konur samtals 1.593 254 70 1.917
Samtals 1.738 268 77 2.083


     6.      Hvaða kostnaður hlaust af vefjagigt í heilbrigðiskerfinu árið 2017?
    Ekki hafa verið teknar saman upplýsingar um heildarkostnað vegna vefjagigtar í heilbrigðiskerfinu á Íslandi en ætla má að hann sé umtalsverður. Fyrir liggja þó upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands um að greiddar voru 53,8 millj. kr. á árinu 2017 vegna samnings við Þraut ehf.

     7.      Liggur fyrir heilsuhagfræðilegt mat á kostnaði vegna vefjagigtar hér á landi? Ef svo er, hvað sýnir slíkt mat?
    Ekki er vitað til þess að gerð hafi verið heilsuhagfræðileg úttekt á kostnaði vegna vefjagigtar hér á landi. Evrópskar rannsóknir hafa sýnt að a.m.k. 80–90% af útgjöldunum eru óbeinn kostnaður vegna veikindafjarvista, vinnutaps og örorku, en 10–20% af útgjöldum eru vegna heilbrigðisþjónustu.
    Alls voru 1.738 vefjagigtareinstaklingar með 75% örorku í desember 2017 og meðalaldur þeirra var 49,9 ár. Tekið skal fram að velflestir þessara einstaklinga eru auk vefjagigtar með aðrar sjúkdómsgreiningar á örorkumati, einkum aðra stoðkerfissjúkdóma eða geðsjúkdóma. Þannig má rekja óvinnufærni og örorku þeirra til fleiri orsaka en vefjagigtar.
    Áætlaður kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins á mánuði vegna 268 einstaklinga sem voru með vefjagigtargreiningu og á endurhæfingarlífeyri í desember 2017, sbr. töflu hér að ofan, var u.þ.b. 80 millj. kr. miðað við að endurhæfingarlífeyrir var 300.000 kr. á mánuði í maí 2018. Þetta jafngildir um 964 millj. kr. á ári ef miðað er við óbreyttan fjölda vefjagigtarsjúklinga aðra mánuði ársins.