Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1307  —  282. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ráðherrabíla og bílstjóra.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða lög og reglur kveða á um afnot ráðherra af ráðherrabílum í starfi annars vegar og utan starfs hins vegar?
     2.      Hefur verið gert hlunnindamat vegna notkunar ráðherra á ráðherrabílum? Ef svo er, hvert er hlunnindamatið og á hvaða forsendum er það byggt?
     3.      Heldur ráðherra akstursdagbók þar sem skráð eru erindi og akstursvegalengd?
     4.      Er akstursdagbók yfirfarin og það metið hvenær ráðherra notar bifreiðina í embættiserindum og hvenær í einkaerindum? Hver fer yfir og leggur mat á það?
     5.      Hver er mánaðarlegur kostnaður við rekstur hverrar ráðherrabifreiðar frá og með árinu 2009? Sundurliðun óskast á rekstri bifreiðar og kostnaði vegna bílstjóra.


    1. Í 8. gr. reglugerðar nr. 1281/2014, um bifreiðamál ríkisins, segir að leggja skuli ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna og til aksturs frá heimili að vinnustað. Bifreiðin skal vera í eigu og rekstri ríkisins og vera útbúin öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði. Slíkri bifreið skal að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðarstjóra sem sinnir jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra. Tilgangur þessarar starfsemi er að veita ráðherrum aukið öryggi og þjónustu er þeir sinna embættisskyldum sínum.
    Gildandi reglugerð um bifreiðamál ríkisins er frá 2014 og kom í stað eldri reglugerðar frá árinu 1991. Þá var hlutverki bifreiðastjóra breytt og fengu þeir aukið hlutverk við að gegna öryggisgæslu ráðherra, meðal annars með því að virkja öryggisbúnað ef þörf krefði og veita hlutaðeigandi ráðherra liðsinni ef upp kæmu aðstæður sem kynnu að ógna öryggi farþega og bifreiðastjóra. Þá var og sérstaklega mælt fyrir um að ráðherrabifreiðin skyldi nýtt til aksturs til og frá heimili ráðherra.
    Þess skal getið að undanfarið hefur verið unnið að því að endurskipuleggja umsýslu og rekstur bifreiða Stjórnarráðsins og ráðningarsamband ráðherrabílstjóra. Innleiðing nýs fyrirkomulags stendur yfir. Það miðar að hagkvæmari rekstri allra ráðherrabifreiða, skýrari umgjörð um notkun þeirra og efldu hlutverki bifreiðastjóra. Eftirleiðis verður umsjón með bifreiðum, rekstur þeirra og endurnýjun hjá miðlægri þjónustueiningu Stjórnarráðsins. Endurnýjun bifreiða verður í samræmi við vistvæna innkaupastefnu ráðherrabifreiða sem ríkisstjórnin samþykkti í febrúar sl. Þá miðar hið nýja fyrirkomulag að því að efla starfsumhverfi bifreiðastjóra og gera þeim betur kleift að gegna mikilvægu öryggishlutverki gagnvart ráðherra.

    2. Samkvæmt eldri reglugerð frá 1991 um bifreiðamál ríkisins kom fram að ráðherra gæti notað ráðherrabifreið til takmarkaðra einkanota. Þá taldist akstur til og frá heimili sem einkanot. Í gildandi reglugerð er ekki fjallað sérstaklega um rétt til takmarkaðra einkanota og jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherrum sé ekið til og frá heimili, meðal annars vegna öryggissjónarmiða. Fyrir vikið er hlunnindamat ekki reiknað.

    3. og 4. Þar sem bifreiðin er einungis notuð til að aka ráðherra er ekki ástæða til að halda sérstaka akstursdagbók.

    5. Í eftirfarndi töflu er tilgreindur kostnaður í krónum við rekstur ráðherrabifreiðar árin 2009–20017. Á árunum 2011–2013 var rekstur ráðherrabifreiðanna miðlægur, ýmist í höndum Rekstrarfélags Stjórnarráðsins eða þáverandi innanríkisráðuneytis, upplýsingar um mánaðarlegan kostnað eru fengnar frá viðkomandi rekstraraðila. Kostnaður við bílstjórana varð aldrei miðlægur eins og rekstur bílanna heldur var haldið utan um hann hjá viðeigandi ráðuneyti öll árin.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fram á seinni hluta árs 2016 var starfsmaður ráðuneytisins sem leysti af ráðherrabílstjóra. Seinni hluta árs 2016 varð sú breyting að afleysing var leyst með verktöku. Mikil hækkun milli árana 2016 og 2017 skýrist af forföllum vegna veikinda bílstjóra ráðherra.