Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1320  —  619. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um nýja persónuverndarreglugerð ESB og afrit af þjóðskrá, kjörskrá og íbúaskrá.


     1.      Hvaða áhrif hefur gildistaka reglugerðar ESB 2016/679, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, á þá sem fá og hafa fengið afrit af þjóðskrá, kjörskrá eða íbúaskrá?
    Lög um persónuvernd og meðferðar persónuupplýsinga, nr. 77 frá 23. maí 2000, hafa gilt um vinnslu upplýsinga í þjóðskrá, kjörskrá og íbúaskrá undanfarin ár. Þjóðskrá Íslands vinnur með persónuupplýsingar á grundvelli viðeigandi lagaheimilda hverju sinni og bera þeir aðilar sem fá þessar upplýsingar einnig skyldur samkvæmt lögum um persónuvernd. Það mun ekki breytast með innleiðingu reglugerðar ESB 2016/679 en Þjóðskrá Íslands hefur undanfarin ár undirbúið upptöku reglugerðarinnar inn í íslenskan rétt. Stofnunin hefur unnið áætlun varðandi þróun og endurgerð á þjóðskrá til næstu ára en nýtt þjóðskrárkerfi er forsenda þess að stofnunin geti uppfyllt skilyrði nýrra laga um persónuvernd. Verkefnið er hins vegar ófjármagnað. Þá er ráðuneytið með í smíðum frumvarp til laga um skráningu einstaklinga sem kæmu í stað laga um þjóðskrá og almannaskráningar, nr. 54 frá 27. apríl 1962, m.a. til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru í nýjum lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

     2.      Hversu gömul afrit af þjóðskrá, kjörskrá og íbúaskrá myndu teljast gögn sem falla undir fyrrgreinda reglugerð? Hverjir hafa fengið afrit af þjóðskrá, kjörskrá eða íbúaskrá? Hvenær fékk hver aðili síðast afrit?
    Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gera ráð fyrir að lögin og þá reglugerðin gildi um vinnslu persónuupplýsinga látinna einstaklinga í fimm ár frá andláti.
    Þjóðskrá: Grunnskrá þjóðskrár er miðlað til þeirra aðila sem þörf hafa fyrir upplýsingar úr þjóðskrá. Í grunnskrá þjóðskrár er að finna upplýsingar um nöfn, kennitölur, lögheimili, póstnúmer, póststöð og bannmerkingu einstaklinga. Um er að ræða bæði opinbera aðila og aðila í einkarekstri sem gera samning við Þjóðskrá Íslands um aðgang að skránni. Sé óskað eftir ítarlegri upplýsingum úr þjóðskrá er það metið hverju sinni hvort viðkomandi aðili hafi lögmæta hagsmuni af slíkum aðgangi. Þeir aðilar sem hafa aðgang að þjóðskrá fá uppfærða skrá samkvæmt samningi en í langflestum tilvikum er þjóðskrá uppfærð daglega.
    Kjörskrá: Kjörskrárstofnar eru afhentir sveitarstjórnum og sveitarstjórnir nota þá svo til að gera kjörskrár. Afhending kjörskrárstofna fer fram á grundvelli laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, laga til kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og laga til framboðs og kjörs forseta Íslands, nr. 36/1945. Eru kjörskrárstofnar einungis afhentir sveitarstjórnum samkvæmt framangreindum lögum. Áður tíðkaðist að kjörskrárstofnar væru afhentir stjórnmálaflokkum fyrir kosningar en Þjóðskrá Íslands hefur látið af þeirri framkvæmd þar sem stofnunin telur slíka afhendingu ekki í samræmi við lög um persónuvernd. Kjörskrárstofn var afhentur sveitarstjórnum síðast fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí sl.
    Íbúaskrá: Öll sveitarfélög fá afhenta íbúaskrá sveitarfélagsins sbr. 9.–17. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962. Einnig hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðað að einstaklingum, sem þess óska, sé heimilt að fá afhent afrit íbúaskrár fyrir tiltekin sveitarfélög en með þeim takmörkunum að kennitölur einstaklinga eru afmáðar á grundvelli upplýsingalaga, nr. 140/2012. Íbúaskrár voru sendar sveitarfélögum í janúar sl.