Ferill 637. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1324  —  637. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um áverka eftir hund.


     1.      Hversu margir hafa árlega leitað til læknis síðustu fimm ár vegna áverka eftir hund?
    Ekki eru til heildstæðar upplýsingar á landsvísu um fjölda einstaklinga sem leita til læknis árlega vegna áverka eftir hund.
    Í tengslum við þessa fyrirspurn var leitað upplýsinga hjá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum landsins sem sinna slysamóttöku. Eftirfarandi upplýsingar um fjölda einstaklinga, sem leituðu þjónustu vegna áverka eftir hund undanfarin fimm ár, fengust frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Heilbrigðisstofnun Norðurlands hafði ekki tök á að nálgast þessar upplýsingar úr sjúkraskrám innan þess tíma sem veittur var til svara.

2013 2014 2015 2016 2017 Samtals
Landspítali 10 16 11 22 12 71
Sjúkrahúsið á Akureyri 5 6 11 10 12 44
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 39 36 27 37 53 192
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 11 17 7 5 13 53
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 3–4* 3–4* 3–4* 3–4* 3–4* 15–20*
Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Heilbrigðisstofnun Austurlands 17** 25** 12** 19** 25** 98**
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 21*** 26*** 23*** 34*** 17*** 121***
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 29 34 29 28 24 144
*     Áætlaðar tölur samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra lækninga á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
**     Tíðni dýrabita sem falla undir greininguna ICD-10 T14.1 í sjúkraskrá. Ekki er unnt að greina í tölfræðigögnum af völdum hvaða dýrategundar bitin eru.
***      Tíðni dýrabita sem falla undir greininguna ICD-10 T14.1 Dýrabit og greininguna W54 Bitinn af hundi.

     2.      Hverjir eru verkferlar ef einstaklingur leitar til læknis með áverka eftir hund?
    Heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús eru ekki með sérstaka verkferla vegna áverka af völdum hunda. Almennt er verkferlum fylgt sem gilda um öll slys og viðbrögð fara eftir eðli og alvarleika áverkans. Slysum er forgangsraðað við komu eftir alvarleika og viðeigandi meðferð er veitt í samræmi við eðli áverkans hverju sinni.
    Almennt gildir um sárameðferð, og þar með talið hundabit, að hugað er að hreinsun sára, að því að fyrirbyggja sýkingu og að veita viðkomandi einstaklingi ráðgjöf um meðferð og eftirfylgni með áverkanum. Metið er hvort sýklalyfjameðferð og/eða stífkrampabólusetning er nauðsynleg og viðeigandi lyf gefin ef þörf er talin vera á því.
    Haft er samband við lögreglu ef ástæða er til, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvaða upplýsinga er aflað um atburðinn í slíkum tilvikum?
    Ekki eru samræmdir verkferlar á landsvísu um upplýsingaöflun varðandi áverka eftir hund.
    Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum landsins sem sinna slysamóttöku er aflað upplýsinga um atvikið og þær skráðar í sjúkraskrá viðkomandi ásamt upplýsingum um meðferð og ráðlagða eftirfylgni. Það á við um öll slys, þ.m.t. áverka eftir hund.
    Iðulega er spurt hvort atvikið hafi verið tilkynnt til lögreglu, og slíkt ráðlagt, ef skjólstæðingur er ekki eigandi hundsins. Ef um eiganda er að ræða er rætt um áhættu af því að halda dýr sem bítur.
    Á Landspítala er viðhöfð stöðluð slysaskráning á svokölluðu NOMESCO-eyðublaði, þar sem aflað er upplýsinga um staðsetningu og kringumstæður slysa. Einnig er skráð orsök áverka og þar er skráður áverki eftir bit af völdum hunda eða þess dýrs sem um er að ræða. Annað sem viðkemur atvikinu er skráð í sjúkraskrá á sama hátt og önnur slys, svo sem niðurstaða læknisskoðunar, hvaða meðferð er veitt í hverju tilviki og hvort og hvaða eftirlit fylgir í kjölfarið.

     4.      Eru áverkarnir flokkaðir eftir alvarleika?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og heilbrigðisstofnunum landsins er ekki viðhöfð nein sérstök flokkun á áverkum eftir hund á stofnununum, en áverkum er lýst í sjúkraskrá.
    Á bráðamóttökum hérlendis er víða notast við forgangsflokkunina Emergency Severity Index þegar sjúklingur kemur á bráðamóttöku, en það er almennt forgangsflokkunarkerfi.
    Á Landspítala fá öll slys alvarleikaskor út frá því hvaða sjúkdómsgreining er skráð við komuna. Alvarleikaskorin eru sjö: Enginn, lítill, meðal, mikill, alvarlegur, lífshættulegur, deyr. Undanfarin fimm ár voru flestir sem komu á spítalann vegna áverka eftir hund með það litla áverka að alvarleiki þeirra var talinn „enginn“ eða „lítill“. Á þessu fimm ára tímabili voru sjö af þeim einstaklingum, þar sem einhver skráning um hund kom fyrir, með áverkaflokkinn „meðalalvarleika“, en dæmi um áverka í þeim flokki eru tognun, ristarbrot og handleggsbrot.