Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1326  —  668. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um hag barna við foreldramissi.


     1.      Hvíla frumkvæðisskyldur á heilbrigðisyfirvöldum til þess að kanna hag barna sem missa foreldra sína? Gilda tilteknir verkferlar um slíka könnun?
    Heilbrigðisyfirvöld hafa engar frumkvæðisskyldur eða heimildir samkvæmt lögum til þess að kanna hag barna sem missa foreldra sína.

     2.      Hvaða málsvara hafa börn sem missa foreldra sína og hvaða réttinda og stuðnings njóta þau? Er eftirfylgni með stuðningi við þessi börn til 18 ára aldurs?
    Við dauðsfall foreldris reynir helst á barnalög, barnaverndarlög, lög um almannatryggingar, lög um ættleiðingu og erfðalög sem heyra ekki undir heilbrigðisráðherra. Hvað varðar réttindi og stuðning sem kveðið er á um í löggjöf sem heyrir undir heilbrigðisráðherra er um að ræða 13. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, en þar er kveðið á um að ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá því að það bar að höndum eru greiddar dánarbætur til barna hins látna foreldris. Enn fremur er tekið fram í 1. gr. laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, að rétt til bóta samkvæmt lögunum eigi einnig þeir sem missa framfæranda við andlát sjúklings sem verður vegna líkamlegs eða geðræns tjóns í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferðir á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt.