Ferill 670. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1328  —  670. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um faggilta vottunaraðila jafnlaunakerfa.


     1.      Hversu margir eru faggiltir vottunaraðilar jafnlaunakerfa og telur ráðherra að þeir séu nægilega margir til að sinna beiðnum um jafnlaunavottun eins og þörf er fyrir?
    Lög nr. 56/2017, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, nr. 10/2008, sem kveða á um lögfestingu jafnlaunavottunar tóku gildi 1. janúar 2018. Þá tók einnig gildi reglugerð nr. 1030/2017, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85 Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar. Vottunaraðili sem vottar jafnlaunakerfi skal skv. 4. gr. reglugerðarinnar vera faggiltur. Faggildingu fær vottunaraðili hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Til staðfestingar skal vottunaraðili geta framvísað faggildingarskírteini samkvæmt staðlinum ÍST EN ISO 17021-1:2015 Samræmismat – Kröfur til stofnana sem annast úttektir og vottun stjórnunarkerfa – Hluti 1: Kröfur. Jafnframt þurfa vottunaraðilar að hafa lokið námskeiði vegna vottunar jafnlaunakerfa sem velferðarráðuneytið skal skv. 6. gr. reglugerðarinnar halda, á þriggja ára fresti eða oftar ef þörf krefur, fyrir úttektarmenn um jafnréttis- og vinnumarkaðsmál sem þýðingu hafa fyrir vottun í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85.
    Erlendum vottunaraðilum, sem uppfylla kröfur um faggildingu frá Evrópska efnahagssvæðinu á stöðlunum 17021 og 17011, er heimilt að votta jafnlaunakerfi hafi umboðsaðilar þeirra á Íslandi farið á námskeið sem velferðarráðuneytið heldur fyrir úttektarmenn. Í þeim tilfellum skulu úttektirnar framkvæmdar af bæði faggilta aðilanum og þeim íslenska aðila sem lokið hefur námskeiði ráðuneytisins. Vottunarskírteini skulu þá gefin út af faggilta erlenda vottunaraðilanum hafi íslenski aðilinn ekki faggildingu sjálfur á þeim stöðlum sem reglugerðin kveður á um.
    Hér skal jafnframt vakin athygli á að í 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að vottunaraðilum, sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt ÍST ISO/IEC 17021, er heimilt að framkvæma úttektir og votta jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana samkvæmt ÍST 85 til 31. desember 2019. Velferðarráðuneytið skal til 31. desember 2019 hafa samráð við vottunaraðila eftir því sem þörf krefur, þar á meðal um framkvæmd úttekta og innleiðingu verkferla. Tveimur vottunarstofum, Vottun hf. og BSI á Íslandi ehf., er samkvæmt ofangreindu heimilt að taka út og votta jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85.
    Námskeið á vegum velferðarráðuneytisins um vottun jafnlaunakerfa var síðast haldið í desember 2017. Ráðgert er að halda næsta námskeið á haustmánuðum 2018 en ljóst þykir að fjölga þurfi faggiltum vottunaraðilum svo fyrirtæki og stofnanir geti öðlast jafnlaunavottun innan þess tímafrests sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 56/2017 um jafnlaunavottun.
    Á fundum ráðherranefndar um jafnréttismál hefur á vormánuðum 2018 verið fjallað ítarlega um stöðu innleiðingar jafnlaunavottunar sem og um tillögur félags- og jafnréttismálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir til að auðvelda stofnunum ríkisins innleiðingu jafnlaunastaðalsins og að tryggja almenna eftirfylgni laga um jafnlaunavottun. Verða aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem ætlað er að tryggja að lög um jafnlaunavottun nái markmiðum sínum, kynntar í september næstkomandi.

     2.      Hvaða menntunar- og hæfniskröfur þurfa faggiltir vottunaraðilar jafnlaunakerfa að uppfylla?
    Faggiltir vottunaraðilar þurfa samkvæmt reglugerð að hafa á að skipa úttektarmönnum sem lokið hafa námskeiði velferðarráðuneytisins um jafnréttis- og vinnumarkaðsmál, þ.m.t. lagaumhverfi, kjarasamninga, staðla, vottun og faggildingu, sem þýðingu hafa fyrir vottun í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins. Í samræmi við 6. gr. reglugerðarinnar skulu úttektarmenn ljúka námskeiðinu með prófi og 1. einkunn. Námskeiðin eru haldin í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands og er meginmarkmið þeirra að gera úttektarmenn færa um að geta tekið út jafnlaunakerfi ólíkra fyrirtækja og stofnana og metið hvort þau uppfylli allar kröfur jafnlaunastaðalsins, einnig varðandi starfaflokkun og launagreiningu fyrirtækja og stofnana. Lögð er áhersla á að úttektarmenn öðlist á námskeiðinu færni til að greina hvort starfaflokkunarkerfi feli í sér kynbundna skekkju og geti leyst verkefni varðandi úttekt á starfaflokkun ólíkra vinnustaða.

     3.      Hvaða kröfur eru gerðar til faggiltra vottunaraðila jafnlaunakerfa um þekkingu á kynjafræði?
    Á framangreindu námskeiði velferðarráðuneytisins, sem haldið er í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands fyrir úttektarmenn vottunarstofa, fer fram kennsla í almennum jafnréttisfræðum, vinnurétti og íslenskri jafnréttislöggjöf. Meðal helstu efnisþátta kennslunnar eru íslensk jafnréttislöggjöf og skilgreiningar dómstóla á meginreglunni um launajafnrétti kynjanna. Markmiðið er að þátttakendur þekki þau lagaákvæði sem við eiga og fái innsýn í hvernig dómstólar, ásamt Evrópudómstólum og kærunefnd jafnréttismála, hafa skilgreint meginregluna um launajafnrétti kynja og þar með ábyrgð atvinnurekenda á að vottunaraðilar geti metið við úttekt hvort henni sé réttilega beitt. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur þekki beitingu lagasetningar og sértækra aðgerða og hafi skilning á helstu hugtökum, svo sem beinni og óbeinni mismunun. Ráðgert er að bæta við kennslu á sviði kenninga kynja- og jafnréttisfræða og um stöðu og þróun jafnréttismála til að tryggja betur að úttektarmenn öðlist nauðsynlega þekkingu á mismunandi stöðu kvenna og karla í íslensku samfélagi.