Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1345  —  672. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um uppgreiðslu lána hjá Íbúðalánasjóði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hverjir eru þeir fjárfestar og lántakendur leiguíbúðalána Íbúðalánasjóðs sem nýlega gerðu upp 256 lán vegna fasteignaviðskipta á Reykjanesi?
     2.      Hversu háa upphæð greiddi hver og einn þessara aðila og hversu hárri upphæð nam heildargreiðslan?
     3.      Hversu mikið greiddu sömu aðilar til sjóðsins í uppgreiðslugjald af þessum lánum?


    Hér er um að ræða upplýsingar um viðskiptamálefni lántakenda Íbúðalánasjóðs sem þagnarskylda hvílir á um skv. 8. gr. f. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Heimilt er þó að miðla slíkum upplýsingum á grundvelli lagaheimildar. Sá sem veitir upplýsingunum viðtöku er með sama hætti bundinn þagnarskyldu.
    Í 2. mgr. 50. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, er kveðið á um að heimilt sé að leggja fyrir Alþingi upplýsingar sem annars væri óheimilt að veita samkvæmt reglum um þagnarskyldu að því tilskildu að upplýsingarnar berist ekki óviðkomandi.
    Ráðuneytið leggur sig fram um að veita þær upplýsingar sem óskað er eftir en það er mat þess að ekki sé heimilt að birta umbeðnar upplýsingar opinberlega. Í ljósi 2. mgr. 50. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, getur ráðuneytið hins vegar afhent Alþingi upplýsingarnar, sé þess óskað, að því tilskildu að þær berist ekki óviðkomandi og að þagnarskyldu verði gætt.