Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1355  —  517. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um förgun eiturefna frá Hellisheiðarvirkjun.


     1.      Hvaða eiturefni og önnur mengandi efni falla til við orkuvinnslu í Hellisheiðarvirkjun og hvert er magn þeirra hvers um sig við framleiðslu yfir heilt ár?
    Eiturefni eru efni eða efnablanda sem í litlu magni valda dauða eða bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun, inntöku eða í snertingu við húð. Það falla engin eiturefni til við orkuvinnslu í Hellisheiðarvirkjun önnur en þau sem þegar eru í jarðhitavökvanum sem nýttur er við vinnsluna. Um er að ræða tvenns konar miðla sem nýttir eru til orkuframleiðslunnar, þ.e. gufa og skiljuvatn. Einnig er að finna náttúrulega geislun (TENORM) í útfellingum í svokölluðum dropasíum í vélbúnaði Hellisheiðarvirkjunar, sem er meðhöndlaður í samræmi við leyfi frá Geislavörnum ríkisins um geymslu efna með aukinni náttúrulegri geislun og þeim úrgangi ekki fargað fyrr en hann er orðinn ógeislavirkur. Þá er honum fargað eins og öðru óvirku, ómenguðu jarðefni.
    Í gufunni er að finna koldíoxíð ( CO2) og brennisteinsvetni (H2S) auk snefilmagns af kvikasilfri og seleni. Þá eru um 26.600 tonn af CO2 og 2.900 tonn af H2S á ári hverju losuð út í andrúmsloftið frá Hellisheiðarvirkjun.
    Í skiljuvatni Hellisheiðarvirkjunar er að finna arsen (As), barín (Ba), kadmín (Cd), kóbalt (Co), króm (Cr), kopar (Cu), kvikasilfur (Hg), mangan (Mn), mólybden (Mo), nikkel (Ni), blý (Pb), selen (Se), strontín (Sr), vanadín (V) og sink (Zn). Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands er dælt upp úr jarðhitakerfinu 594 kg/ári af As, 5,8 kg/ári af Ba, 0,05 kg/ári af Cd, 0,5 kg/ári af Co, 29,3 kg/ári af Cr, 7,1 kg/ári af Cu, 0,2 kg/ári af Hg, 18,06 kg/ári af Mn, 75,3 kg/ári af Mo, 8,4 kg/ári af Ni, 0,4 kg/ári af Pb, 248 kg/ári af Se, 69,5 kg/ári af Sr, 67,8 kg/ári af V og 14,9 kg/ári af Zn.

     2.      Hversu stórum hluta þessara eiturefna er fargað með því að dæla vatni menguðu af eiturefnum og öðrum mengandi efnum í jörðu?
    Vinnsluvatn það sem dælt er niður inniheldur efni sem komu úr sama viðtaka og er því ekki förgun eiturefna í skilningi laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Um 95% af þeim efnum sem koma upp er dælt aftur niður.
    Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands er árlega um 12.000 tonnum af CO2 og 6.000 tonnum af H2S dælt niður aftur með svokölluðum CarbFix- og SulFix-aðferðum. CarbFix-verkefnið gengur út á að CO2 sem kemur upp með jarðhitavökvanum og færi annars út í andrúmsloftið er bundinn í bergi í grennd virkjunarinnar. SulFix-verkefnið gengur út á að skila brennisteinsvetni ( H2S) aftur niður í jarðhitakerfið þaðan sem það kom til að draga úr styrk þess í andrúmsloftinu. Dælt er niður 564 kg/ári af As, 5,5 kg/ári af Ba, 0,04 kg/ári af Cd, 0,5 kg/ári af Co, 28 kg/ári af Cr, 6,7 kg/ári af Cu, 0,2 kg/ári af Hg, 18 kg/ári af Mn, 72 kg/ári af Mo, 7,9 kg/ári af Ni, 0,4 kg/ári af Pb, 236 kg/ári af Se, 66 kg/ári af Sr, 64 kg/ári af V og 14 kg/ári af Zn.

     3.      Hvaða rannsóknir, þar á meðal rennslismælingar, liggja því til grundvallar að beita þessari aðferð við förgun umræddra eiturefna?
    Niðurdælingarholur þær sem taka við jarðhitavatninu með áðurnefndum efnum eru fóðraðar með stálfóðringu til að einangra þær frá grunnvatnskerfinu sem liggur fyrir ofan jarðhitakerfið á Hellisheiði. Engum efnum er því dælt niður í grynnra grunnvatnskerfið með SulFix-aðferðinni. Mælingar eru þrenns konar:
     1.      Fylgst er með efnasamsetningu þess vatns sem dælt er niður í jarðhitakerfið með reglulegum sýnatökum og rennslismælar notaðir til að meta rúmmál þess vatns sem dælt er niður í jarðhitakerfið, en þannig er massi þeirra efna sem dælt er niður reiknaður á ársgrundvelli. Einnig er fylgst reglulega með efnasamsetningu og flæði vatns í vöktunarholum sem ná niður í jarðhitageyminn og þannig er hægt að magngreina efnin sem bindast í jarðhitakerfinu.
     2.      Fylgst er með efnasamsetningu vatns í efra grunnvatnskerfinu með reglulegri sýnatöku úr vöktunarholum í kringum niðurrennslissvæðin eftir fyrir fram ákveðinni sýnatökuáætlun sem samþykkt er af Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Eftir atvikum er heilbrigðisfulltrúi viðstaddur sýnatökuna.
     3.      Gerðar eru flæðimælingar á CO2 og H2S um yfirborð til að fylgjast með hugsanlegu útstreymi gastegundanna í andrúmsloft.
    Hingað til hafa ekki greinst merki um mengun í grunnvatni af völdum jarðhitavökva. Helstu niðurstöður rannsókna, sem hafa verið gerðar frá því að Hellisheiðarvirkjun tók til starfa, eru að sú niðurdæling vinnsluvatns frá virkjuninni sem krafist er í starfs- og virkjunarleyfi Hellisheiðarvirkjunar hefur ekki áhrif á gæði grunnvatns.

     4.      Hvernig er háttað eftirliti opinberra aðila með starfseminni með tilliti til mengunarvarna?
    Heilbrigðisnefnd Suðurlands gefur út starfsleyfi og hefur eftirlit með starfseminni í samræmi við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, ákvæði reglugerðar nr. 550/2018, um losun frá atvinnustarfsemi og mengunarvarnaeftirlit. Hellisheiðarvirkjun flokkast í eftirlitsflokk 3, sbr. eldri reglugerð nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit, þar sem gert er ráð fyrir reglubundnu eftirliti einu sinni á ári. Samkvæmt ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurlands fær Hellisheiðarvirkjun reglubundið eftirlit tvisvar á ári vegna umfangs og fjölbreytileika starfseminnar. Heilbrigðiseftirlit vaktar daglega loftgæðamæla sem Orka náttúrunnar hefur sett upp í samræmi við ákvæði þar um í starfsleyfisskilyrðum. Að auki situr heilbrigðisfulltrúi mánaðarlega fundi með leyfisveitendum virkjunarinnar, fulltrúum Umhverfisstofnunar og haghöfum eftir því sem við á, þar sem farið er yfir stöðu málefna er varða umhverfismál, losunarmál og leyfismál starfseminnar. Aðrir leyfisveitendur eru Orkustofnun sem gefur út nýtingarleyfi og virkjunarleyfi, Geislavarnir ríkisins sem veita leyfi til hreinsunar og geymslu á útfellingum með aukna náttúrulega geislavirkni og Sveitarfélagið Ölfus sem veitir framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi.

     5.      Er til áhættumat um förgun eiturefna sem falla til við starfsemi virkjunarinnar og er það endurnýjað reglulega? Hverjar eru niðurstöður nýjasta mats af því tagi?
    Já. Áhættumat vegna niðurdælingar hefur verið gert og er að finna í verkefnisáætlun CarbFix og SulFix. Það hefur ekki verið endurnýjað, þar sem niðurstöður rannsókna hafa ekki bent til að þess sé þörf.

     6.      Liggur fyrir viðbragðsáætlun sem gerð er í ljósi áhættumats? Hverjar eru skyldur og ábyrgð einstakra aðila sem að málinu koma?
    Orka náttúrunnar skal samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi Hellisheiðarvirkjunar tilkynna um orðið eða yfirvofandi hættuástand til hlutaðeigandi leyfisveitanda og viðeigandi viðbragðsaðila (lögreglu, brunavarna, almannavarna) í samræmi við eðli atburðarins. Ekki er til sérstök viðbragðsáætlun vegna niðurdælingar jarðhitavökva ásamt tilgreindum efnum aftur ofan í jarðhitageyminn, enda benda rannsóknir eindregið til þess að niðurdælingin hafi ekki neikvæð áhrif á gæði grunnvatns eða umhverfis og er styrkur mengandi efna í vöktunarholum grunnvatns langt undir þeim mörkum sem gilda um gæði neysluvatns samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 536/2002, um neysluvatn.

     7.      Hefur verið könnuð hagkvæmni þess að farga eiturefnum á annan hátt en með niðurdælingu til þess að fyrirbyggja hættu á mengun vatnsbóla á vatnsverndarsvæðum höfuðborgarsvæðisins í grennd við virkjunina?
    Já. Gerður hefur verið nákvæmur samanburður á kostnaði við förgun brennisteinsvetnis með hefðbundnum iðnaðarlausnum sem notaðar eru erlendis og við förgun með niðurdælingu. Hefðbundnar iðnaðarlausnir fela í sér myndun annaðhvort brennisteinssýru eða hreins brennisteins sem þarf annaðhvort að koma í nýtingu eða farga sérstaklega með tilheyrandi kostnaði og áhættu fyrir umhverfið. CarbFix- og SulFix-verkefnin byggjast á náttúrulegum efnaferlum sem eiga sér stað í jarðhitakerfum hér á landi og sjá til þess að mengandi efni (þ.e. CO2 og H2S) bindast í jörðu sem steindir í stað þess að berast upp á yfirborð. Kostnaður við SulFix og CarbFix er aðeins brot af kostnaði við hefðbundnar iðnaðarlausnir auk þess sem um er að ræða mun umhverfisvænni lausn sem ekki hefur í för með sér myndun óæskilegra aukaafurða.

     8.      Telur ráðherra samrýmast vatnsverndarsjónarmiðum að dæla í jörð vatni frá Hellisheiðarvirkjun menguðu af eiturefnum og öðrum mengandi efnum í ljósi nálægðar við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins? Hver er rökstuðningurinn fyrir áliti ráðherra?
    Niðurdæling á sér ekki stað á vatnsverndarsvæði. Vatnatilskipun Evrópusambandsins 2000/60/EB, sem innleidd er hér á landi með lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, heimilar slíka niðurdælingu, sbr. j-lið 11. gr tilskipunar 2000/60/EB.
    Umrædd niðurdæling felur ekki í sér förgun eiturefna í skilningi laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Um er að ræða niðurdælingu vinnsluvatns sem inniheldur mengandi efni sem komu úr sama viðtaka.