Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1365  —  206. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Alex B. Stefánssyni um kostnaðarþátttöku námsmanna í heilbrigðisþjónustu og frítekjumark LÍN.


     1.      Hyggst ráðherra bregðast við íþyngjandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu fyrir iðn- og háskólanema sem eru á námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) í ljósi þess að útgjöldin hindra í raun aðgang margra námsmanna að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu?
    Námsmenn hafa sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og aðrir borgarar, þar sem tekið er tillit til fjárhagsstöðu þurfi þeir á þjónustu að halda. Þess má geta að mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa nú þegar hafið samtal og samráð um bætta þjónustu við nemendur á framhaldsskólastigi. Stefnt er að samvinnu ráðuneytanna um aukið og bætt aðgengi nemenda á framhaldsskólastigi, einkum að geðheilbrigðisþjónustu.

     2.      Hefur komið til skoðunar að hækka frítekjumark LÍN til samræmis við aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu? Hver yrði árlegur kostnaður af þeirri aðgerð fyrir LÍN?
    Úthlutunarreglur fyrir skólaárið 2018–2019 hafa þegar verið gefnar út. Næsta breyting á úthlutunarreglum LÍN verður gefin út fyrir 1. apríl 2019 og gildir þá fyrir skólaárið 2019– 2020. Gera má ráð fyrir að stjórn LÍN muni á næstunni fjalla um þörf fyrir breytingar á frítekjumarki í tillögum sínum að úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2019–2020. Áhrifamat fyrir LÍN vegna mögulegra breytinga á frítekjumarki liggur ekki fyrir en við mat á kostnaði fyrir LÍN verður stuðst við viðmið frá velferðarráðuneyti.